Bændablaðið - 16.05.2024, Blaðsíða 63
63Líf & starfBændablaðið | Fimmtudagur 16. maí 2024
Næsta námskeið hefst 6. júní
Við byggjum á áralangri reynslu á því sviði.
Björgvin Guðjónsson, búfræðingur og löggiltur
fasteignasali, s. 510-3500 eða 615-1020,
bjorgvin@eignatorg.is
E i g n a t o r g b ý ð u r s é r h æ f ð a þ j ó n u s t u
v i ð v e r ð m ö t o g s ö l u á b ú j ö r ð u m
o g ö ð r u l a n d i , m e ð e ð a á n r e k s t r a r.
Bóndinn:
Bjartsýnir geitabændur
Nú kynnast lesendur búskapnum á Gilhaga í Öxar-
firði, en við gefum Brynjari Þór Vigfússyni orðið.
Við Guðrún Lilja fluttum í Gilhaga 2018 með stelpurnar
okkar tvær og eignuðumst síðan yngsta barnið okkar,
soninn, ári síðar. Við kaupum jörðina af afa mínum sem
hafði byggt hana upp sem sauðfjár- og skógræktarjörð frá
árinu 1960, en fjölskylda mín hafði byggt nágrannajörðina
Gilsbakka frá um 1900 – og er Gilhagi nýbýli út úr þeirri
jörð. Við byrjuðum aftur með sauðfé um haustið 2018 og
tókum þá heim aftur hluta úr ættstofni sem var ættaður úr
Gilhaga og keyptum frá einum öðrum bónda hér í sveit
sem var að hætta. Höfum við síðan byggt hægt og rólega
upp stofninn ásamt geitunum eftir því sem efni standa til.
Geiturnar komu árið 2019 og Ullarvinnsluna opnuðum
við í júní 2020.
Býli, staðsetning og stærð jarðar? Býlið er Gilhagi í
Öxarfirði, Norðurþingi, en stærð jarðarinnar er aðeins yfir
100 ha auk sameiginlegs upprekstrarlands.
Ábúendur, fjölskyldustærð og gæludýr? Brynjar Þór
Vigfússon, Guðrún Lilja Dam Guðrúnardóttir, þrjú börn,
tveir hundar og köttur.
Gerð bús og fjöldi búfjár? Sauð- og geitfjárrækt, skógrækt
og ullarvinnsla. 90 kindur, 19 geitur, 8 endur og 5 hestar.
Hvers vegna veljið þið þessa búgrein? Sauð- og geitfjár-
rækt hentar okkar bújörð best. Við fengum í kaupbæti
skógræktina á bænum sem hafði verið stunduð af dugnaði
undanfarna áratugi.
Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á
bænum? Annað okkar vaknar kl. 6 og fer í fjárhúsin í
morgunverkin. Fjölskyldumorgunmatur kl. 7 og þegar
börnin fara í skóla og leikskóla fara fullorðnir í vinnu.
Ullarvinnsluna eða aðra aukavinnu. Seinnipartinn reynum
við að fara saman í fjárhúsin þó það geti reynst stundum
erfitt að peppa börnin yfir háveturinn. Enda vel á fótinn upp
í fjárhús og skaflarnir miklir fyrir litla fætur eftir langan dag.
Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Skemmti-
legasti tíminn er sauð- og kiðburður. Það eru í raun engin
leiðinleg störf, aðallega miserfið.
Hvað er það jákvæða við að vera bóndi? Nærveran við
dýr og náttúru. Að stjórna tímanum sínum sjálfur getur
verið jákvætt en líka neikvætt. Uppskera hvers konar, til
dæmis hress og kát lömb og kiðlingar á túni um vor, og í
réttinni um haust. Ull í öllum mögulegum litum um haustið.
Hverjar eru áskoranirnar? Getur verið erfitt að hafa
upp í reikningana á litlu búi þegar verið er að byggja upp
bú og í núverandi dýrtíð. Það hefði sjálfsagt verið mjög
sniðugt fyrir okkur að byrja að byggja upp búið okkar fyrir
um 30–40 árum síðan og vera núna komin með góðan og
arðbæran dýra- og tækjakost. En við hefðum þá reyndar
þurft að fæðast aðeins fyrr og leggja enn harðar að okkur.
Hvernig væri hægt gera búskapinn ykkar hagkvæmari?
Fjölga aðeins kindum og geitum og reyna að vinna meira
sjálf úr afurðunum. Ullin, fiðan, mjólkin og kjöt. Höfum
aðeins skoðað mjólkurvinnslu og langar að þróa hana
áfram.
Hvernig sjáið þið landbúnað á Íslandi þróast næstu
árin? Við erum nokkuð bjartsýn en það er ýmislegt sem
þarf að breytast. Landbúnaður dafnar ekki nema með
sameiginlegu átaki allra, bænda, stjórnvalda og almennings.
Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Í fyrsta
kiðburðinum okkar misstum við geit frá tveggja daga
gömlum kiðlingi. Hann var þá tekinn heim á bæ á
júróvisjónkvöldi í peladrykkju og krakkakúr, og alinn
upp sem hálfgerður heimalningur upp frá því, Hann fann
sér reyndar sjálfur með tíð og tíma fósturmóður, drakk þá
fullan skammt úr pela og svo eins mikið og hann gat í kapp
við fóstursystur sína, Enda er hann stór og gerðarlegur í dag.
Instagram-síða:@gilhagi_farm
Glatt á hjalla í Gilhaga. Brynjar Þór Vigfússon og Guðrún Lilja Dam Guðrúnardóttir munu deila lífinu í Öxarfirði
með lesendum á Instagram-síðu Bændablaðsins næstu dagana. Mynd / BÞV
Hattatíska anda, nú í sumar. Mynd / Aðsend
Yngsti gleðigjafi heimilisins. Mynd / Aðsend
Geitahópur á góðri stund. Mynd / smh