Bændablaðið - 16.05.2024, Blaðsíða 50
Bændablaðið | Fimmtudagur 16. maí 202450 Af vettvangi ændasamtakanna
Túmatur – tómatur
Sem barn velti ég stundum fyrir mér af hverju amma mín kallaði tómata
alltaf túmata, þá velti ég fyrir mér hvort þetta væru kannski danskir
tómatar þar sem amma sletti stundum á dönsku.
Mér varð hugsað til þessa þegar ég rakst á umræðu
á fjölmennri Facebook-síðu þar sem einstaklingur velti
fyrir sér uppruna og verðmun á hollenskum og íslenskum
tómötum. Verð er að sjálfsögðu stór þáttur þegar kemur að
vali neytenda á matvælum en gæði og framleiðsluhættir
eru það líka. Gæði íslenskra framleiðsluhátta felast
m.a. í hreinleika vatns, lágmarksnotkun varnarefna og
sýklalyfja. Framleiðslunni eru einnig sett ýmis skilyrði
er snúa að dýravelferð og vinnslu sem eiga að tryggja
gæði vörunnar. Síðast en ekki síst þarf að tryggja fólkinu
sem starfar við matvælaframleiðslu hér sambærileg kjör
og öðrum starfsstéttum. Hugmyndin um að á sama landi getum við búið
við íslensk laun og vaxtastig en hollenskt matvælaverð gengur tæpast upp.
Einhver gætu þá spurt hvort ekki sé bara einfaldara að eftirláta öðrum að
framleiða fyrir okkur matinn en heimsmynd okkar er í stöðugum breytingum.
Eins og alltaf þegar kreppir að beindist
athygli heimsins að mikilvægi
fæðuöryggis í heimsfaraldri. Nú
þegar lífið er aftur farið að ganga
sinn vanagang verðum við vís til að
gleyma þessu. Mannkyninu hefur
þó ekki enn tekist að framleiða
bóluefni við hlýnun jarðar og öðrum
umhverfislegum áskorunum svo að
gripið hefur verið til viðbragðsaðgerða
sem margar hverjar hafa áhrif á
matvælaframleiðslu heimsins.
Holland er dæmi um útflutningsþjóð
með landbúnaðarvörur sem hefur
gripið til aðgerða sem hafa áhrif á matvælaframleiðslu landsins í nafni
umhverfismála. Margar aðgerðanna snúa einfaldlega að því að draga úr
matvælaframleiðslu. Sömuleiðis höfum við séð hvernig orkukrísa, stríð og
uppskerubrestur hafa haft veruleg áhrif á matvælaframleiðslu heimsins og
verðum að átta okkur á því að það getur seint talist okkur til hagsbóta að
reiða okkur alfarið á matvælaframleiðslu annarra þjóða.
Uppruni tómata hafði ekkert að gera með orðaval ömmu heitinnar.
Reyndar voru amma og afi í góðu sambandi við íslenskan landbúnað þrátt
fyrir að vera uppaldir Reykvíkingar og studdu íslenska framleiðslu. Þau
voru af kynslóð þar sem fleiri höfðu tengingu í sveit og samfélagsleg hugsun
hafði sitt að segja þegar kom að matarinnkaupum. Þjóðin tekur stöðugum
breytingum, ekki aðeins eru færri sem hafa tengingu við sveit, heldur er
íslenska þjóðin líka orðin ríkari af fólki af öðrum uppruna en íslenskum.
Samstaða alla framleiðslukeðjuna
Þrátt fyrir breytt samfélagsmunstur eru neytendur enn áhugasamir um
uppruna og framleiðsluhætti matvæla og það hefur orðið áberandi aukning
á því að neytendur hafi samband við Bændasamtökin þar sem er kallað eftir
því að upprunamerkingar verði bættar. Þetta er auðvitað ánægjulegt því
að góð tengsl milli framleiðenda íslenskrar búvöru og neytenda eru okkur
dýrmæt. Svar við ákalli neytenda er vottaða upprunamerkið Íslenskt staðfest
sem Bændasamtökin hafa komið á laggirnar. Með merkinu á að auðvelda
neytendum að velja íslenskt og undir merkjum þess viljum við vekja áhuga
á innlendri matvöru, gera íslenskri framleiðslu hærra undir höfði og vekja
athygli á margrómuðum kostum innlendrar matvælaframleiðslu. Það er
hagur allra aðila framleiðslukeðjunnar að sameinast um að lyfta íslenskum
afurðum á þann stall sem þær eiga skilið og að innlend matvælaframleiðsla
dafni. Bændur væru illa staddir án afurðastöðva og verslana, eins væri úrvalið
fátæklegt í verslunum ef ekki væri fyrir bændur.
Öflug matvælaframleiðsla er þjóðinni dýrmæt og það er verkefni
ríkisvaldsins að búa svo um hnútana að hér geti íslensk matvælaframleiðsla
vaxið og dafnað í samkeppnishæfu starfsumhverfi. Verkfæri ríkisins til
þessa eru fjölmörg en búvöru- og tollasamningar eru þeirra sterkasta vopn.
Því leggjum við áherslu á mikilvægi þess að vinna að búvörusamningum
verði góð og ítarleg þar sem sameiginlegt markmið allra aðila verði að efla
íslenskan landbúnað okkur öllum til hagsbóta.
Herdís Magna Gunnarsdóttir,
varaformaður Bændasamtaka Íslands.
Pistill varaformanns
Það er hagur
allra aðila
framleiðslukeðjunnar
að sameinast um
að lyfta íslenskum
afurðum á þann stall
sem þær eiga skilið ...
Herdís Magna
Gunnarsdóttir.
Réttarfréttir:
Atvinnuréttindi bænda
Íslenska ríkinu hefur verið stefnt
fyrir dómi vegna ákvörðunar
matvælaráðherra um að fella
starfsemina um blóðtöku úr
fylfullum hryssum undir reglugerð
um vernd dýra sem notuð eru í
vísindaskyni.
Það er þá fjórða
regluverkið sem
atvinnugreinin
vinnur eftir á
þeim 22 árum
eftir að reglugerð
um blóðtöku
úr fylfullum
hryssum var
felld úr gildi sem
hafði gilt um
atvinnugreinina í um eitt ár. Tilgangur
setningar þeirrar reglugerðar var að
leysa úr réttaróvissunni og gera það
skýrt að starfsemin sé leyfisskyld og
háð skilyrðum og að hún falli ekki
undir ákvæði reglugerðar um vernd
dýra sem notuð eru í vísindaskyni,
sbr. skýrsla starfshóps um blóðtöku
úr fylfullum hryssum.
Reglugerð um vernd dýra sem
notuð eru í vísindaskyni gildir
hins vegar ekki um starfsvenjur
í landbúnaði sem ekki eru á
tilraunastigi. Sú starfsemi sem hér um
ræðir hefur verið stunduð í hartnær
50 ár og er rekið til rannsókna frá
5. og 6. áratug 20. aldar og verður
að teljast afgerandi niðurstaða að
atvinnugreinin falli ekki undir
gildissvið reglugerðarinnar vegna
þess. Tilgangur reglugerðarinnar er
m.a. að stuðla að takmörkun á notkun
dýra í vísinda- og menntunarskyni.
Með því að takmarka fjölda hryssa í
blóðtökustarfsemi er jafnframt verið
að takmarka atvinnufrelsi bænda,
sem starfa við atvinnugreinina, sem
eru grundvallarmannréttindi, tryggð
með stjórnarskrá. Til áréttingar
nægja reglugerðarákvæði ekki í
þessu samhengi.
Skilyrði skerðingar
Til að skerða megi atvinnufrelsið
þurfa tvö skilyrði að vera uppfyllt,
annars vegar þarf lagaákvæði að
kveða á um skerðinguna og hins
vegar verða almannahagsmunir
að liggja þeirri lagasetningu til
grundvallar.
Orðalagið kveður skýrt á um að
bæði skilyrðin þurfi að vera uppfyllt
og nægir hvorki lagasetningin ein og
sér ef almannahagsmuni skortir, né
heldur dugar að almannahagsmunir
séu til staðar ef heimild til skerðingar
skortir í lög. Þegar ágreiningur
stendur um það hvort stjórnvöld
hafi viðhlítandi lagaheimild til að
taka íþyngjandi ákvörðun ræðst
það af lögskýringu á viðkomandi
lagaákvæði, hvort það hafi að geyma
fullnægjandi valdheimild. Þeim mun
tilfinnanlegri og meira íþyngjandi
sem skerðingin er, þeim mun skýrari
þarf sú lagaheimild að vera, sem
viðkomandi stjórnvaldsfyrirmæli er
mæla fyrir um skerðinguna, byggja
á. Kröfur til skýrleika lagaheimildar
eru breytilegar allt eftir efni
stjórnvaldsákvörðunar.
Af hæstaréttardómum sem fallið
hafa er ljóst að strangar kröfur eru
gerðar til skýrleika lagaheimilda
í tilvikum þeim þar sem um
mannréttindi á borð við atvinnufrelsi
er að ræða, eins og kom fram í
dómi Hæstaréttar nr. 239/1987.
Þar segir: „Samkvæmt 69. gr.
stjórnarskrárinnar þarf lagaboð til að
leggja bönd á atvinnufrelsi manna.
Með orðinu „lagaboð“ er átt við sett
lög frá Alþingi. Reglugerðarákvæði
nægja ekki ein sér. Lagaákvæði er
takmarka mannréttindi verða að
vera ótvíræð. Sé svo ekki, ber að
túlka þau einstaklingi í hag, því
að mannréttindaákvæði eru sett
til verndar einstaklingum en ekki
stjórnvöldum.“
Menn ráða yfir
réttindum sínum
Atvinnuréttindi geta byggst á
sérstöku leyfi af hálfu hins opinbera
og teljast þannig til eignarréttinda
rétthafans og njóta þá verndar
samkvæmt eignarrétti. Menn ráða
yfir réttindum sínum, skv. opinberu
leyfi, og geta því hagnýtt sér slík
réttindi og hægt er að leita til
dómstóla til verndar réttindum sem
leyfið veitir, líkt og málið sem er
fyrir dómstólum nú snýst meðal
annars um.
Má því ætla, að með því sé
gefið í skyn, að um atvinnuréttindi
sé að ræða, sem getur notið
verndar eignarréttarákvæðis
stjórnarskrárinnar og styður það þá
skoðun, að atvinnuréttindi almennt
geti talist eign í skilningi þess
ákvæðis, sbr. einnig dóm Hæstaréttar
nr. 1996, bls. 3002 þar sem fram
kemur að samkvæmt grunnreglum
sem þá giltu um eignarrétt og
atvinnufrelsi, urðu þau réttindi ekki
síðar felld niður nema með heimild í
settum lögum og þar ekki takmörkuð
nema samkvæmt almennri reglu, þar
sem jafnræðis væri gætt. Hæstiréttur
féllst ekki á að stjórnvöld hafi
getað farið með þetta vald nema að
fenginni ótvíræðri heimild almenna
löggjafans.
Á borði dómstóla
Undirrituð telur að með reglugerð
um blóðtöku úr fylfullum hryssum
hafi stjórnvöld gefið út sérstaka
heimild til að stunda starfsemina sem
um ræðir þar sem sérstaklega er tekið
fram í reglugerðinni að gildistími
hennar sé til 6. október 2025.
Jafnframt var gefið út sérstakt leyfi
til blóðtöku úr fylfullum hryssum
sem gildir til og með 5. október 2025
í samræmi við 3. gr. reglugerðar um
blóðtöku úr fylfullum hryssum, og
á grundvelli 20. gr. laga um velferð
dýra, sem verður að teljast sem eign
í skilningi eignarréttar.
Þeir bændur sem svo reiða
sig á tekjur sem aflast vegna
atvinnustarfseminnar njóti þeirra
atvinnuréttinda sem vernduð eru
með stjórnarskrá. Matvælastofnun
gaf það út nýlega að starfsleyfið
sem um ræðir er í gildi til 5. október
2025, sem er hárrétt afgreiðsla að
mati undirritaðrar.
Þá er það komið á borð dómstóla
að úrskurða um hvort starfsemi til
blóðsöfnunar úr fylfullum hryssum
falli undir reglugerð um vernd dýra
sem notuð eru í vísindaskyni, þrátt
fyrir ákvörðun matvælaráðherra
um að fella starfsemina undir
reglugerðina sem ekki gildir um
starfsvenjur í landbúnaði sem ekki
eru á tilraunastigi.
Höfundur er lögfræðingur hjá
Bændasamtökum Íslands.
Katrín
Pétursdóttir.
„Með því að takmarka fjölda hryssa í blóðtökustarfsemi er jafnframt verið að takmarka atvinnufrelsi bænda,“ segir
Katrín Pétursdóttir m.a. í grein sinni. Mynd / ghp
Til að skerða
megi atvinnufrelsið
þurfa tvö skilyrði
að vera uppfyllt ...
OG VINNUM ÚR ÞEIM
LAUSNIR
TÖKUM AÐ OKKUR VERKEFNI
VHE • Melabraut 27 Hafnarfjörður • Hraun 5 Reyðarfirði
Sími 843 8804 • Fax 575 9701 • www.vhe.is • sala@vhe.is