Bændablaðið - 16.05.2024, Blaðsíða 30
30 Bændablaðið | Fimmtudagur 16. maí 2024Viðtal
Loðdýrarækt:
Úrgangur endurunninn sem fóður
Á Selfossi er starfrækt Fóðurstöð
Suðurlands sem framleiðir fóður
fyrir fimm af sex minkabúum
landsins. Hráefnið er að stærstum
hluta fisk- og sláturúrgangur sem
annars færi til spillis.
Bjarni Stefánsson, starfandi
stjórnarformaður, segir að skilgreina
mætti Fóðurstöð Suðurlands sem
endurvinnslufyrirtæki og hafi
hugsanlega verið eitt af þeim fyrstu
á því sviði.
„Við erum að minnka kolefnis-
spor landsins með því að vinna
lífrænan úrgang,“ segir hann og
vísar þar til skýrslu sem var gerð
á vegum verkfræðistofunnar Eflu
árið 2019.
Þegar mest var á fyrri hluta
síðasta áratugar voru framleidd
3.300 tonn af fóðri á ári. Nú sé
framleiðslan undir helmingi af því
sem hún gæti verið.
Lykillinn að góðu minkafóðri sé
ferskt hráefni og hreinlæti. „Þetta er
raunverulega eins og að elda mat,“
segir Bjarni og líkir afurðinni við
kjötfars hvað varðar útlit og áferð.
Þar sem hráefnið komi yfirleitt
allt úr matvælavinnslu væri
tæknilega hægt að nýta minkafóðrið
til manneldis þó Bjarni segist ekki
hafa lagt það sér til munns. Lítil sem
engin lykt finnst af minkafóðrinu í
vinnslusalnum.
Hráefnið innlent
Hann segir að yfir 90% af hrá
efnunum sé úrgangur úr matvæla-
vinnslu, 60–70% komi úr slátur-
húsunum og 20–30% komi úr fisk-
vinnslu.
Nálægt 10% innihaldsins sé bygg
sem sé til að binda fóðrið saman og
sé leitast við að nota innlent. Þá
sé fóðrið vítamín- og steinefnabætt
og blandað með sýru til þess að
auka geymsluþol. Hráefnið geti
því verið nær alfarið íslenskt. Um
þessar mundir sé sláturúrgangurinn
aðallega frá kjúklingarækt, en
fóðurstöðin hafi einnig nýtt innmat
úr öðru búfé.
„Þetta hefur rokkað eftir því
hvað er hentugast að vinna og
hvernig framboðið er af hverju
efni,“ segir Bjarni. Vegna
samdráttar í framleiðslunni séu
ekki notuð eins mörg hráefni og
áður sem leiði af sér einfaldari
framleiðslu.
Frá fiskvinnslunni komi aðal-
lega hryggir og hausar sem verða
eftir við flökun. Sævar Jóelsson
verkstjóri segir nýjustu viðbótina
í hráefnaflóruna vera seiði sem
misfarist hjá fiskeldinu sem hafi
verið notuð á tímabili og gáfu
góða raun. Fóðurstöðin fær greitt
úrvinnslugjald fyrir þann úrgang
sem hún tekur við og telur Sævar þá
aðila sem nýta þennan farveg vera
þakkláta fyrir að eiga fóðurstöðina
að. Bjarni bætir við að þetta sé afar
hagkvæm leið til endurvinnslu þar
sem ekki þurfi að hita hráefnið eða
gera miklar breytingar á því.
Breytilegt milli árstíða
Orkuþörf minkanna er mismunandi
eftir árstíðum. Yfir háveturinn er
framleitt orkuminnsta fóðrið, en
Bjarni segir að þá skipti ferskleikinn
höfuðmáli til þess að pörun og
meðganga dýranna heppnist sem
best. Minkalæðurnar gjóta á vorin
og eftir því sem hvolparnir færa
sig meira frá mjólk þurfi að auka
orkuna í fóðrinu, sem trappast svo
upp og er það sterkast síðsumars
og á haustin.
Yfir háveturinn er keyrt með
fóður á bæina einu sinni í viku þar
sem það geymist betur í kuldanum
og þörfin er minni. Á vorin og
fram í júní er keyrt tvisvar í viku
og eftir það er keyrt þrisvar í viku
fram í desember. Fóðrið er geymt
í einangruðum sílóum á búunum.
Sex tonn í einu
Hráefnið kemur á Fóðurstöðina í
körum og er sett inn á kæli. Síðan
er það hakkað til að fara beint í
fóðurgerð eða fryst í blokkir sem
fara í geymslu.
Þegar fóðrið er framleitt úr
frosnum blokkum eru þær fyrst
mölvaðar með sérstökum brjót áður
en hráefnið fer í hakkarann. Þegar
unnið er með ferskt fóður fer það
beint í hakkavélina þaðan sem það
fer í blandara. Eftir það fer fóðrið
í síló, þaðan sem hægt er að dæla
því beint á tankbíl.
Sævar segist blanda sex tonnum
í einu og tekur ferlið einn og hálfan
tíma. Fóðurbíllinn tekur mest fjórtán
tonn, en þar sem flest minkabúin
eru nálægt Selfossi er hægt að
keyra út á milli þess sem útbúin er
næsta blanda.
Þegar búið er að vinna fóðrið
og koma því á búin greiða bændur
nálægt fjörutíu krónum fyrir kílóið,
sem Bjarni segir aðallega skýrast
af miklum fastakostnaði sem
hafi aukist hlutfallslega eftir að
framleiðslan minnkaði.
Sævar Jóelsson verkstjóri er eini
starfsmaður fóðurstöðvarinnar í
fullu starfi á meðan einn bílstjóri
sinnir útkeyrslu í verktöku þegar
þess þarf. Fyrirtækið er í sameign
loðdýrabænda. /ál
Sævar Jóelsson og Bjarni Stefánsson hjá Fóðurstöð Suðurlands. Þeir eru báðir minkabændur á Suðurlandi.
Minkafóðrinu er hægt að líkja við kjötfars hvað varðar útlit og áferð.
Fóðurstöð Suðurlands er í iðnaðarhúsi á Selfossi. Myndir / ál
Bjarni Stefánsson er starfandi stjórnarformaður Fóðurstöðvar Suðurlands sem er sameign loðdýrabænda.