Bændablaðið - 16.05.2024, Blaðsíða 66
66 Líf & starf Bændablaðið | Miðvikudagur 16. maí 2024
Gallaefni fer aldrei úr tísku og
hefur verið notað við hin ýmsu
tækifæri frá því seint á nítjándu
öld þegar straumhvörf urðu í
heimi tískunnar.
Í hringiðu iðnbyltinga áður fyrr
breyttust ýmsar þarfir manna, en
meðal þess sem almenning virtist
vanhaga um voru endingargóð
vinnuföt. Fyrsta hönnun þeirra bauð
upp á klæðnað úr strigaefni sem þótti
afar slitsterkur. Upphaf gallaefnisins
sem slíks hófst þó eftir kvartanir um
að striginn væri harður og óvæginn
viðkomu, en í Suður-Frakklandi
fékkst bæði sterkt, þolgott og mjúkt
bómullarefni sem var í framhaldinu
notað í vinnufatnaðinn. Með tímanum
dressuðu kúrekar villta vestursins sig
í klæðnað úr þessu gallaefni frá toppi
til táar auk þess sem námuverkamenn
og gullgrafarar heimsins voru meðal
þeirra er jusu efninu lofi og prís.
Menningarlegt tákn hersins
varð að sýn á betri tíð
Í kringum 1940 ferðuðust bandarískir
hermenn víðs vegar um heiminn með
sinn ástkæra gallafatnað sem í senn
þótti stílhreinn og smart. Þrátt fyrir
að framleiðsla á slíkum vinnufatnaði
hafi minnkað í stríðinu vegna skorts
á hráefni, markaði lok stríðsins
breytingu á því að gallafatnaður
tengdist síður vinnu og frekar sett í
flokk tómstundafatnaðar stælgæja.
Þóttu gallabuxnaklæddir hermenn
merki um afslappaða sýn á lífið og
þá helst í Evrópu og Japan þar sem
ekki var litið á þá sem ógn heldur
óþvingaða viðbót við menninguna.
Hið klassíska tákn ameríska
vestursins varð brátt fastur liður í
fataskápum og hefur notið aukinna
vinsælda allt frá stríðsárunum. Hetjur
hvíta tjaldsins á borð við Marlon
Brando og James Dean í myndunum
„The Wild One“(1953) og „Rebel
without a Cause“(1955) íklæddust
gallafatnaði og hristu þannig upp í
almúganum enda átrúnaðargoð sem
helst allir vildu líkjast. Til viðbótar
við þá tvímenningana tók eitt helsta
kyntákn allra tíma, Marilyn Monroe,
upp á því að klæðast gallabuxum,
sem þótti afar djarft en þokkafullt á
sama tíma og má dæmi um það sjá
í myndinni „The Misfits“ sem gerð
var árið 1954. Má nærri geta að sá
gjörningur hafi sett tóninn fyrir aðrar
kynbombur sem á eftir komu.
Kanadíski smókingurinn kemst
á kortið árið 1951
Kúrekar, eins og áður sagði,
klæddust gallaefni af miklum
móð, svo og vinnandi almúgi um
víða veröld, enda bæði hentugt og
snyrtilegt. Með það í huga lagði
bandaríski söngvarinn, Bing Crosby
leið sína á hótel í Vancouver um
miðja síðustu öld með félaga sínum,
en var meinaður aðgangur.
Segir sagan að söngvarinn hafi verið
mjög hrifinn af Levi's gallabuxum
og bar með sóma uppáhaldsbuxurnar
sínar þegar hann var í veiðiferð
ásamt félaga sínum í Kanada.
Reyndu mennirnir að skrá sig inn á
hótel í Vancouver, en var neitað um
herbergi vegna þess að strigaklæddir
gestir voru ekki taldir í þeim háklassa
sem sæmdi hótelinu. Vegna þess að
mennirnir voru gallabuxnaklæddir,
leit starfsmaður þjónustuborðsins
varla upp og tók alls ekki eftir því
að hann væri að vísa frá einum
ástsælasta söngvara Bandaríkjanna.
Sem betur fer áttaði lyftudrengurinn
sig snarlega á mistökunum og fengu
félagarnir því þak yfir höfuðið.
Forsvarsmenn fyrirtækis Levi Strauss
& Co. fréttu af uppákomunni og
hönnuðu í kjölfarið smókingjakka
úr gallaefni fyrir söngvarann sem
honum var afhentur á hátíð í Nevada
sem haldin var honum til heiðurs. Varð
þarna til kanadískur smóking, eða á
frummálinu „Canadian tuxedo“, sem
útleggst sem alklæðnaður úr gallaefni,
smókingjakki og buxur. Hefur þessi
smekklega heilgalla-samsetning nú
þekkst í áraraðir og notið afar mikilla
vinsælda enda bæði slitsterk, hentug
og alltaf jafn móðins.
Þegar tekin eru dæmi um vinsældir
kanadíska smókingsins er ekki hægt
að líta fram hjá Jimmy nokkrum
Carter, settum forseta Bandaríkjanna
árið 1977.
Hann var mikill aðdáandi
alklæðnaðar gallaefnis almennt og
var þekktur í forsetatíð sinni fyrir að
spranga um í slíkum heilgalla ásamt
frú sinni sem var gjarnan í stíl. Í
kjölfarið mátti sjá hina ýmsu forseta
íklædda fatnaði úr gallaefni, t.a.m.
Ronald Regan, Bill Clinton og Barak
Obama.
Stjörnur
Tískugúrúar hvarvetna hafa auðvitað
tekið þessa frjálslegu samsetningu
upp á arma sína og hannað hin
ýmsu galladress í gegnum tíðina. Er
mörgum minnisstætt parið Britney
Spears og Justin Timberlake sem
áttu einmitt stórleik á hátíð amerísku
tónlistarverðlaunanna árið 2001,
íklætt samsvarandi gallaklæðnaði
og ýttu þar með af stað tískubylgju
sem vart má segja að hafi enn lokið.
(ps. Rétt er að taka fram að einnig
þekkja margir svokallaðan „Texas
tuxedo“ en þá er samkvæmisjakki
borinn að ofanverðu við gallabuxur,
kúrekahatt og kúrekastígvél.)
/sp
Flórgoði er lítill sundfugl og er eina tegund goða sem verpur á Íslandi. Hann er að mestu farfugl en eitthvað af fuglum dvelja á sjó við landið á veturna. Þeir verpa við
vötn eða tjarnir þar sem fisk er að finna. Flórgoðar eru miklir sundfuglar og eru fæturnir frekar aftarlega á búknum. Þetta gerir þá frekar þunga til gangs en aftur á móti
alveg afbragðs kafara. Varpsvæðin þeirra eru við vötn og tjarnir þar sem fisk er að finna. Ólíkt öðrum fuglum gera flórgoðar sér fljótandi hreiður eða hreiður í lítilli laut
alveg við vatnsbakkann. Hreiðrið er gert úr stráum eða visnuðum gróðri sem þeir safna saman og búa til lítinn pall. Þeir helga sér óðal, verja það af krafti fyrir öðrum
flórgoðum og stundum jafnvel fuglum sem eru mun stærri en þeir sjálfir. Stofninn er ekki stór, eða um 700–1000 varppör, en sem betur fer þá hefur stofninn farið
vaxandi og varpstöðvum fjölgað. Mynd og texti / Óskar Andri Víðisson
Stjörnuspá
Vatnsberinn hefur í mörgu að snúast
þessa dagana en er þó frekar skýr í
kollinum og veit hvert hann vill stefna.
Nú er góður tími til að búa í haginn fyrir
framtíðina enda vatnsberanum allir vegir
færir. Hann skal ekki hika við að stefna hátt
og nýta þau sambönd sem hann hefur.
Happatölur 6, 31, 18.
Fiskurinn hefur tekið eftir því að einn
þáttur í lífi hans virðist aldrei ganga upp
heldur vera fastur í einni hringavitleysu.
Þarna þarf hann að staldra við og velta fyrir
sér hver þáttur hans sjálfs sé í þessum efnum
og hverju hann getur breytt. Ekki ana að
neinu heldur íhuga. Happatölur 32, 8, 54.
Hrúturinn hefur notið frelsis að einhverju
leyti undanfarið og endurnærst meira
en það þorði að vona. Nú er tíminn til að
ganga í verkin sem hafa legið á hakanum
enda einungis til heilla. Einhver rómans
svífur í loftinu sem mun ýta undir talsvert
tilfinningaflæði. Happatölur 12, 66, 9.
Nautið bíður óþreyjufullt eftir að vori bæði í
hug og hjarta. Einnig á það bágt með að taka
skref í átt til eigin betrunar en ætti að muna
að hlutirnir gerast víst ekki af sjálfu sér. Bið
verður enn á flestum vígstöðvum nautsins
en í lok mánaðar fara hlutirnir að gerast.
Happatölur 3, 12, 32.
Tvíburinn sér fyrir sér að nota sumarið til
heilsubótar og virkilega taka sig á, á ýmsum
sviðum. Hann þarf að lægja öldur sem hann
er valdur að og vera heiðarlegur við sjálfan
sig. Vera óhræddur við að taka á sig sökina
þegar þannig ber undir. Happatölur 5, 41, 63.
Krabbinn finnur aukinn kraft með aukinni
sólu. Hann þarf að gæta þess þó að fara ekki
offari, nú loksins þegar hann skríður úr skel
sinni, en virkja fremur innri frið. Eitthvað
hleypur hann á sig en er snar að snúa við
blaðinu þegar hann áttar sig á mistökunum.
Hafa skal í huga að það er fyrir bestu.
Happatölur 2, 53, 67.
Ljónið hefur ákveðið að taka aðeins til
hendinni í tengslum við gamla löngun sem
hefur kviknað aftur innra með honum. Hann
er óhræddur og bjartsýnn enda hefur hann
nú skýrari sín á allt hlutaðeigandi en áður.
Stjörnurnar eru honum hliðhollar og því
engu að tapa. Happatölur 85, 5, 7.
Meyjan þyrfti að halda trú sinni á sjálfa sig
og vera óhrædd við að telja líf sitt á góðri leið.
Hver dagur verður henni auðveldari þegar
sjálfstraustið er hátt og hún skal muna að
þar er hún á réttum stað. Vantrú og leiði
ættu ekki að vera sterkari tilfinningarnar.
Happatölur 56, 9, 87.
Vogin er að venju létt í lund og smitar
það verulega út frá sér í nýjum félagsskap.
Hún ætti ekki að láta neinn bilbug á sér
finna þegar kemur að því að feta ótroðnar
slóðir enda happadrjúg skrefin sem nú eru
tekin – en það mun sýna sig síðar á árinu.
Happatölur 10, 38, 21.
Sporðdrekinn er auðmjúkur þessa dagana.
Honum gerist æ frekar ljóst að hann þarf,
eins og aðrir, að brjóta odd af oflæti sínu,
jafnvel þó hann telji sig vita best.
Happavænleg skref verða tekin með þetta
viðhorf í farteskinu og leiðin einungis upp
á við. Happatölur 19, 55, 11.
Bogmaðurinn veltir ýmsu fyrir sér á nýju
ári og þá helst hverju mætti breyta frá því í
fyrra. Hann er nokkuð drjúgur með sjálfan
sig – og má vel vera það – enda tókst
honum afar vel upp síðastliðið ár. Eitthvað
er þó að angra hann sem þarf að leysa sem
fyrst, og helst fyrir fyrstu vikuna í júní.
Happatölur 2, 45, 52.
Steingeitin fagnar rísandi sól og gleðst
yfir nýju lífi náttúrunnar. Gott væri að leyfa
þeirri hamingjutilfinningu að ríkja í huga
hennar sem lengst og deila á sem flesta.
Vera óhrædd við að hafa samband við ástvini
og njóta lífsins með þeim til hins ýtrasta.
Happatölur 3, 34, 76.
Tíska:
Kanadísk samkvæmisföt
Frá vinstri að ofan; Marilyn Monroe, Jimmy Carter, Bing Crosby og Debbie Harry. Frá vinstri að neðan má sjá
verkamenn frá árinu 1930 íklædda gallabuxum og svo kúreka hversdagsins frá aldamótunum síðustu.