Bændablaðið - 16.05.2024, Blaðsíða 32
32 Bændablaðið | Fimmtudagur 16. maí 2024
Póstþjónusta landsmanna hefur
verið hitamál svo lengi sem menn
muna og ekki síst nú í ár.
Skellt hefur verið í lás á
tugum pósthúsa víða um land á
undanförnum árum en í yfirlýsingu
Póstsins nýverið kom fram að tekin
hefði verið ákvörðun um að loka alls
tíu pósthúsum til viðbótar nú í júní.
Um ræðir lokun pósthúsa á
Fáskrúðsfirði, Eskifirði, Breiðdals-
vík og í Neskaupstað innan Austur-
lands, á Dalvík, Ólafsfirði, Siglufirði
og Hvammstanga á Norðurlandi og
svo í Grundarfirði og Búðardal á
Vesturlandi.
Við eftirgrennslan kom í ljós að
íbúar þessara byggðarlaga virðast
sammælast um að eftirsjá sé að
persónulegri þjónustu og þó nokkuð
er um að þeir vilji flytja viðskipti sín
yfir til annarra flutningafyrirtækja.
Þar bar helst á góma nöfn á borð við
Vörumiðlun og Dropp sem að sögn
reynast ódýrari kostur en Pósturinn.
Um áramótin tók Íslandspóstur
ákvörðun um að hætta dreifingu
á fjölpósti á borð við auglýsinga-
bæklinga og fjölmiðla í dreifbýli. Er
ein uppgefinna ástæðna fyrirtækisins,
að í takt við umhverfisstefnu þess
leiti það stöðugt leiða til að draga úr
sóun, sem m.a. er hægt að sporna við
með þessum hætti. Vegna þessa var
t.a.m. Bændablaðinu gert að nafn-
merkja og plasta tölublöð sín sem
rata eiga til bænda.
Niðurgreiðslu ríkissjóðs hætt
Forsvarsmenn Íslandspósts vilja
meina að ástæða minnkandi þjónustu
heilt yfir sé að dregið hafi verulega
úr eftirspurn afgreiðsluþjónustu
innan pósthúsanna en á vefsíðu
Póstsins kemur fram að frá árinu
2010 hafi fjöldi bréfasendinga
dregist saman um 74% á sama tíma
og pakkasendingar hafi margfaldast.
Samkvæmt vefsíðu póstsins
standa þá eftir alls 27 pósthús á
landsvísu.
Póstboxin á móti eru nú nær
hundrað talsins og áætlað er að
fjöldinn verði 120 í árslok. Til þess
að nýta sér sendingarþjónustu með
póstboxum þarf að virkja sjálfvirkar
greiðslur á Mínum síðum eða í
svokölluðu Póst-appi. Fækkun
pósthúsa og stöðugilda í vinnu er
allt liður í hagræðingaraðgerðum
Íslandspósts og sem þróun
fyrirtækisins úr bréfafyrirtæki í
pakkafyrirtæki.
Til viðbótar hefur verðskrá breyst
allnokkuð síðastliðin ár, m.a. í kjölfar
lagabreytinga um póstþjónustu árið
2021. Þá var ekki lengur kveðið
á um niðurgreiðslu ríkissjóðs af
hluta þess kostnaðar sem til féll
við póstþjónustu dreifðra byggða. Í
kjölfarið var Íslandspósti einungis
heimilt að viðhafa sömu verðskrá um
allt land á bréfum undir 51 grammi.
Breytingarnar óvinsælar
Ljóst er að mikil hækkun kostnaðar
vegna póstsendinga þeirra sem búa
utan þéttbýlis hafi verulega neikvæð
áhrif á íbúana, sem og notkun snjall-
tækja og tölvu sem ekki allir hafa
tækifæri til að tileinka sér. Þetta eru
þó þeir þegnar landsins sem eiga
hvað síst greiðan aðgang að póst-
þjónustu, sem og annarri.
Guðjón Bjarnason, bóndi í
Hænuvík í sunnanverðum Patreks-
firði, segist horfa á heiminn þróast
yfir í algera yfirtöku ýmiss konar
snjalltækja.
„Með því að leggja niður póst-
húsin nú í sumar, lítur út fyrir að
heilsársvegur verði frá okkar svæði
að Ísafirði, enda væntanlega ekki
langt þar til pósthúsið á Patreksfirði
verði lagt niður eins og annars
staðar. Það verður einhver bíll á
ferðinni hérna sem sinnir þessu líkt
og landpósturinn forðum gerði, sem
mun þjónusta okkur vitleysingana
sem kjósa að búa afskekkt.
Auðvitað bjuggu fleiri í dreifbýli
þá en nú, en í dag skiptir byggð eins
og á Vestfjörðum þjóðfélagið engu
máli. Landbúnaður er að verða búinn
á Vestfjörðum, þau eru að tínast út,
búin,“ segir Guðjón sem sér fyrir sér
að innan nokkurra ára verði þjónusta
póstbílsins runnin sitt skeið.
Honum þykir miður að fólki,
búsettu utan byggðar, sé mismunað
og fái ekki þá þjónustu sem áður
hefur verið.
„Við verðum bara að kyngja þessu
og skapa okkur eigin tilveru með
þeim verkfærum sem við höfum – án
þess að vonast til eða ætlast til þess
að samfélagið sé að þjóna okkur,“
segir hann, sem ásamt fjölskyldu
sinni nýtir landgæði jarðar sinnar
til sjálfsþurftarbúskapar.
Guðjón bendir á að því miður séu
Vestfirðirnir ekki eina dæmið, t.a.m.
sjái kunningjar hans í Borgarfirði
eystra þessa sömu þróun hverfandi
þjónustu. Sveitamenningin farin,
kirkjur, skólar og samfélagið sem
heild ekki til.
Fólk á landsvísu er uggandi
Einhverjir eiga bágt með að aðlaga
sig nýjustu tækni, öðrum þykir
fækkun starfa í sínu nærumhverfi
miður og enn aðrir telja póst-
þjónustuna sem slíka sér runna úr
greipum og upplifa
sig lítið geta spornað
við þeirri framvindu.
Sem dæmi má
nefna ályktun frá
Verkalýðsfélagi
Suðurlands árið
2022 þar sem stjórn
s té t tarfélagsins
mótmælti fyrir-
hugaðri lokun póst-
afgreiðslustöðva á
Hellu og Hvols-
velli. Stóð í
ályktun- inni að
fyrir lægi að með
þessari ákvörðun
hyrfu störf af
svæðinu og við
það væri ekki unað. Fór þó
svo að lokunin gekk eftir og þjónustar
pósthús Selfoss nú byggðarlög
Suðurlands að mestu auk póst-
hússins í Vík.
Þótt gagnrýnin augu landsmanna
beinist ef til vill helst að byggð og
strjálbýli utan höfuðborgarsvæðisins
eru íbúar borgarinnar ekki undan-
skildir. Til að mynda fengu íbúar
Vesturbæjar og nágrennis úthlutuðu
þjónustupósthúsi í Síðumúla, nú
einu tveggja starfandi pósthúsa á
Reykjavíkursvæðinu.
Þarna er töluverður spotti úr
Vesturbænum fyrir þá sem ekki eiga
auðvelt með að komast frá einum
stað til annars, né heldur að tileinka
sér tilheyrandi tækni.
Taka skal fram að greinargóðar
upplýsingar er að finna á vefsíðum
Íslandspósts hvað varðar bréf og
bögglasendingar auk almennrar
þjónustu þó ekki séu allir sáttir við
þjónustuleiðirnar.
Óhamingjusamir Fossvogsbúar
Í menningar- og samfélagslegu
tilliti þykir oft mörgum fækkun
pósthúsa sorgleg og ópersónuleg
framþróun. Urðu margir slegnir
þegar Pósthúsið í Pósthússtræti,
sem staðið hefur með reisn síðan
árið1915, var gert að mathöll. Það
má þó segja að enn ríki þar menning
- en hins vegar er sjarmi mannlegra
samskipta pósthúsa á undanhaldi
og enn fremur þegar kemur að því
að standa veðurbarinn í röð við
póstbox.
Í sögu póstþjónustunnar
hérlendis hefur ánægjustuðull
landsmanna eðlilega sveiflast upp
og niður enda póstþjónusta sem slík
ein grunnstoða samfélagsins.
Árið 1902 má finna grein í
tímaritinu Arnfirðingi sem hefst á
þessum orðum:
„Það eru eingar öfgar, að nú er
svo komið póstgaungum um landið,
að bæði póststjórn og landslýður
finna það jafn átakanlega, að á
þeim þarf gagngerðrar breytingar,
og hafa fundið þetta leingi.“
Um það bil hálfri öld síðar, árið
1949, í Morgunblaðinu má finna
kvörtun úr Fossvogi þar sem segir:
„Við sem erum svo óhamingju-
söm að búa í Fossvogi verðum að
sætta okkur við að fara á mis við
flest hlunnindi þeirra sem búa innan
Hringbrautar. Enginn sími, enginn
póstburður, enginn blaðaútburður,
engin sorphreinsun, strætisvagnar
á klukkutíma fresti og hálfrar
stundar ferð í næstu verslun!“
Sögur fara af bréfberum sem
stöldruðu gjarnan við og fengu
kaffisopa í völdum húsum, en
virðist sá siður hafa tíðkast alllengi.
Í bókinni Fortíð Reykjavíkur frá
árinu 1950 segir frá nýju embætti
póstmeistara skipuðu
árið 1872. Þar er
Árni „gáta“ bréfberi
bæjarins og honum
lýst þannig:
„Hafði hann ekki
hraðann á, þegar
hann var að bera út
bréfin því að oft beið
hann eftir kaffi og
öðrum hressingum ef
honum var boðið.“
Starfsánægja og
samfélagsleg ábyrgð
Samkvæmt skoðana-
könnunum þykir
annars starfsánægja
hjá Póstinum með hærra
móti og samskipti alla jafna
góð, auk þess sem bréfberar
dagsins í dag fá jákvæðari svörun
samfélagsins en oft áður.
Að auki var Pósturinn á Akureyri
eitt fimmtán fyrirtækja sem hlutu
tilnefningu frá VIRK nú í ár, en um
ræðir viðurkenningu til fyrirtækja
sem sinnt hafa samstarfi við VIRK
sérlega vel og sýnt samfélagslega
ábyrgð.
Sigrún Pétursdóttir
sigrunpeturs@bondi.is
Póstþjónusta:
Samdráttur samfélags Í menningar- og
samfélagslegu tilliti
þykir oft mörgum
fækkun pósthúsa
sorgleg og ópersónu-
leg framþróun ...“
Guðjón Bjarnason.
Íbúar í dreifðari byggðum landsins upplifa skerta þjónustu samfélagsins sem
mismunun á lífsgæðum. Hér glyttir í Hænuvík, ysta bæinn í sunnanverðum
Patreksfirði. Myndir / ál
Úrklippa úr Morgunblaðinu 23. apríl
1949 þar sem óánægður lesandi
kvartar yfir takmarkaðri þjónustu.
Mynd / Tímarit.is