Sjómannadagsblað Snæfellsbæjar - 01.06.1995, Blaðsíða 4

Sjómannadagsblað Snæfellsbæjar - 01.06.1995, Blaðsíða 4
2 Sjómannadagsblað Snæfellsbæjar 1995 Sr. Friðrik J. Hjartar: Maðurinn í Guðs mynd - ráðsmaður sköpunarverksins! Þegar litið er til baka og farið í huganum yfir liðna tíð finnst sumum að dagarnir séu hversdagslegir og gráir, hverjir öðrum líkir og lítið spennandi að lifa þeim, því að á morgun kemur nýr dagur, líkur deginum í dag og þar á eftir annar dagur, líltur morgundeginum. Margt getur spilað inn í þessar hugsanir og þeir eru ófáir sem sveiflast til eftir veðrinu, verða ósköp niðurdregnir þegar vont er veður eða þá að þeir láta blessaða rigninguna, sem er svo nauðsynleg til að vökva jörðina, hafa áhrif á geðslag sitt og hafa allt á hornum sér þegar rignir. Þegar þessi hugsun um gráan hversdagsleikann kemur upp, þá má bóka að við höfum ekki tekið allt inn í myndina eða þá að við höfum gert okkur væntingar um að einhver annar, einhver ótilgreindur æðri máttur, kæmi og skapaði tilbreytingu, líf og fjör og gæddi lífið einhverri fjölbreyttri og fjörugri gleði sem gerði það innihaldsríkt. - En hvað er það þá sem gefur lífinu gildi? Það er spurning sem vert er að velta upp því þá þurfum við einnig að svara mörgum öðrum spurningum, svo sem eins og þeirri hver það er sem hefur gefið okkur lífið? - Hvort það sé sjálfsagt mál að við séum flest öll rétt sköpuð og njótum góðrar heilsu? - Og hvort við eigum það skilið að eiga alla hluti sem við þörfnumst og ríflega það, höfum gott viðurværi til lífs og sálar á meðan meðbræður okkar erlendis svelta eða berjast við margvíslega óáran, s.s. stríð, hungursneyð og hörmungar? Þegar Biblían talar um manninn frá sjónarhóli Guðs þá segir hún að maðurinn sé skapaður í Guðs mynd og talar um hann sem ráðsmann yfir Guðs góðu sköpun - jörðinni. Guð elskar þessa eftirmynd sína: Manninn. Honum þykir svo vænt um hana að hann leggur allt í sölurnar, - gefur okkur son sinn, Jesú Krist. Sonurinn kemur til jarðarinnar og kallar okkur til samfélags og samfylgdar við sig, því að hann sér hvað við erum umkomúlaus. Honum þykir við mennirnir sérstaklega umkomulausir og aumkunarverðir þegar við hleypum þeirri hugsun að, að lífið sé hversdagslegt, því það er alrangt. Lífið er stórkostlegt - líka þegar mótdrægt er. Það er gaman að fylgjast með mönnunum, hvernig þeir bregðast við þegar vandi steðjar að. Ef við tökum sjómennina og útgerðar- mennina sérstaklega, þá virðast þeir sem betur fer flestir finna lausnir, sumar ótrúlegar á sínum málum. Merkilegir hlutir eiga sér stað þegar menn ýmist afla sér viðbótarkvóta, til að geta lifað af, eða verða sér úti um krókaleyfi, til að vera ekki háðir kvótanum. Og löngum virðast opnast nýjar smugur. Ekki kunna leikmannsaugu mín skil á öllum þessum hlutum en þegar fylgst er með þessu öllu úr fjarlægð er langt frá því að lífið sé hversdagslegt í verstöðinni Islandi. Eg bið góðan Guð, sem sendi okkur son sinn, Jesú Krist, - það besta sem hann átti, - að blessa líf og starf sjómannanna okkar um ókomin ár, vaka yfir fjölskyldum þeirra og vinum og forða frá slysum til sjós og lands. Megi sjómannadagurinn 1995 vera okkur áminning þess að lífið er langt frá því að vera hversdagslegt ef við kunnum að gleðjast yfir öllu því góða sem við eigum og Guð hefur gefið okkur. Þegar hann er “yfir og allt um kring” er meiri von til að við getum leyst ráðsmannshlutverkið vel af hendi. FriðrikJ. Hjartar

x

Sjómannadagsblað Snæfellsbæjar

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Sjómannadagsblað Snæfellsbæjar
https://timarit.is/publication/1990

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.