Helgarpósturinn - 04.12.1986, Blaðsíða 44

Helgarpósturinn - 04.12.1986, Blaðsíða 44
ERLEND YFIRSYN 's, ' '• v Hashemi Rafsanjani þingforseti vard fyrstur til að hrósa nýjum sigri yfir „Miklasatan". Vopnin frá Reagan aflgjafi fyrir klerkastjórn Irans Síðan uppvíst varð um viðleitni Ronalds Reagans til að kaupa áhrif á framvindu valdabaráttu klerka í Iran og frelsi banda- rískra gísla í Líbanon með vopnum, hefur at- hygli einkum beinst að áhrifum þessa ráðs- lags á stöðu Bandaríkjaforseta heimafyrir. Ekki þarf þó að vega minna, einkum þegar til lengdar lætur, það sem gerist á vettvangi, í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Er því ástæða til að gefa gaum, hvað þar hlýst af leynimakki erkiklerkanna í Teheran, viðvan- inganna í Hvíta húsinu og samstjórnar stóru flokkanna í Jerúsalem. Fyrir rúmum tveim árum, í október 1984, hélt Khomeini erkiklerkur stefnuræðu um utanríkismál^fir embættismönnum utanrík- isráðuneytis Irans og sendiherrum landsins í Evrópu og Ameríku. Þar afsagði leiðtoginn einangrunarstefnu sumra stuðningsmanna sinna, sem leitast höfðu við að hindra sam- skipti við önnur ríki og átalið þá sem þeim sinntu fyrir undirlægjuhátt við óvini is- lömsku byltingarinnar. Khomeini vitnaði til þess að spámaðurinn sjálfur hefði sent erind- reka til framandi þjóða, og gerði því meira að segja skóna að tengsl gætu komist á við Bandaríkin, tæki Bandaríkjastjórn sinna- skiptum gagnvart íran. Ekki leið á löngu frá því þessi ræða var flutt, að milligöngumenn, aðallega ísraelskir, komu því á framfæri við ráðgjafa Reagans forseta, að Iranir væru til viðtals um ýmis mál. Forsetinn og menn hans reyndust mót- tækilegri fyrir þennan boðskap. Áframhald- ið er alkunna, sendiferðir Roberts McFarlane og Olivers Norths til Teheran og ákvörðun Bandaríkjaforseta að heimila vopnasending- ar til Irans með milligöngu ísraels. Markmið írönsku klerkastjórnarinnar með leynimakkinu við Bandaríkin eru auðsæ, annars vegar að losa sig úr pólitískri einangr- un, hins vegar að styrkja stöðu sína í stríðinu við írak. Hvort tveggja hefur henni tekist, og Bandaríkjastjórn ber höfuðábyrgð á afleið- ingunum. Árabaríkin, að Sýrlandi undanskildu, stóðu frá öndverðu þétt að baki írak í stríð- inu við Iran. Jórdan sá um að koma vopnum til Iraka eftir að hafnir þeirra sjálfra lokuðust, og liðsauki úr Jórdansher var sendur á víg- stöðvarnar. Saudi-Arabía og furstadæmin við Persaflóa stóðu undir vænum skerfi af her- kostnaði Iraks. Þessi arabaríki telja Irak út- vörð sinn gegn persneskri útþenslustefnu í mynd islamskrar ofstækisbyltingar. Öll hafa þessi stuðningsríki íraks náið sam- starf við Bandaríkin og eru þeim að ýmsu leyti háð. Sambúðin gengur þó skrykkjótt, vegna áhrifa ísraels og síonistasamtaka í Bandaríkjunum á bandaríska stjórnarstefnu. Til að mynda var vopnasala Bandaríkjanna til Saudi-Arabíu ekki alls fyrir löngu bundin ströngum skilyrðum af tilliti við Israel. í ár var Jórdan synjað um bandarísk vopn fyrir 1.9 milljarða dollara, af því áhrifamenn á Bandaríkjaþingi guggnuðu fyrir þeirri mót- báru talsmanna ísraelskra sjónarmiða, að einhver loftvarnaflauganna sem um var að ræða gæti komist í hendur hermdarverka- manna. Nú kemur á daginn, að Bandaríkjastjórn leggur íran til ógrynni vopna skilmálalaust. Reagan skeytir því engu, að landið er á lista sem hann hefur sjálfur samið um ríki sem styðja hermdarverkamenn og beita hermd- arverkum. Ekki er að furða að Hussein Jórdanskon- ungur komst svo að orði, að Bandaríkjafor- seti hafi með athæfi sínu framið svívirðu gagnvart öllum arabaþjóðum. Mubarak Egyptalandsforseti kvaðst hafa bent Reagan á, að hann yrði að bregðast skjótt við, ef varðveita ætti einhvern trúverðugleika Bandaríkjanna gagnvart ríkjum araba. Mestu skiptir þó, að konungsættin í Saudi- Arabíu varð skjótt vör við, hvaðan vindurinn blés og hagræddi seglum samkvæmt því. Án þess að láta af liðsinni við írak, leitast Fadh konungur við að baktryggja sig gagnvart íran. Þetta gerðist jafnskjótt og stjórn kon- ungs barst vitneskja um makk Bandaríkja- forseta við Iransstjórn. I einu vetfangi náðu Saudi-Arabía og Iran saman í Samtökum olíuútflutningsríkja um ráðstafanir til að hækka olíuverð á heimsmarkaði, og Fadh konungur horfði ekki í að víkja brott Jamani, þrautreyndum olíumálaráðherra sínum, til að marka stefnubreytinguna. Komið er á daginn, að bandarísk olíusölufyrirtæki hafa selt farma af unnum olíuvörum frá Saudi- Arabíu þvert yfir Persaflóa til hafna í fran, til að bæta þar úr skorti sem stafar af hörðum loftárásum írakska flughersins á olíuhreins- unarstöðvar írana. Yfirburðir í lofti eru mesti styrkur íraks i stríðinu við íran. Úr þeim dregur um leið og Bandaríkjaforseti sendir írönum varahluti í herflugvélar þeirra af gerðunum F-4 og F-14 ásamt Hawk loftvarnaskeytum og radar- tækjum, sem gera loftvarnakerfi við olíu- hreinsunarstöðvar og útflutningshafnir virk á ný. Ekki skiptir minna máli, að þúsundir eftir Magnús Torfa Ólafsson skriðdrekaflauga af gerðinni TOW frá Bandaríkjamönnum efla mjög getu írans- hers á vígstöðvunum til að rjúfa varnarlínu Iraka. Erkiklerkarnir hafa lengi boðað lokasókn gegn írak, en skort vopn til að hrinda henni af stað. Slík hernaðaraðgerð gæti hafist á út- mánuðum í vetur, eftir að rigningatímanum lýkur á þessum slóðum. Þar geta úrslit ráðist af lausnargjaldinu sem Ronald Reagan reiddi af hendi fyrir gíslana sína þrjá. Hugmynd viðvaninganna sem Bandaríkja- forseti safnaði umhverfis sig í Hvíta húsinu, um að hafa áhrif á valdahlutföll innan klerkastjórnarinnar í íran, voru nefnilega fá- sinna, og það er nú komið rækilega á daginn. Erkiklerkarnir hælast um, hver um annan þveran, og útmála fyrir landslýðnum, hversu þeir hafi auðmýkt og hlunnfarið Bandaríkin. Áður en skiptin á bandarískum gíslum og vopnum urðu opinber, gætti verulega valda- baráttu í forystuhópnum í Teheran. Nánir samstarfs- og venslamenn Montaseri erki- klerks, sem tilnefndur hefur verið til að taka við af Khomeini, voru handteknir og bornir þungum sökum. Jafnframt kom Hashemi Rafsanjani, forseti þingsins og keppinautur Montaseri, fram opinberlega og lýsti háðu- legri meðferð á sendimönnum Bandaríkja- forseta. Að undirlagi Khomeini voru liðs- menn Montaseri látnir lausir og allir sneru bökum saman og hlökkuðu yfir nýjum óför- um Bandaríkjastjórnar. Leiðtoginn þaggaði niður í nokkrum þingmönnum, sem spurð- ust fyrir um hverjir hefðu rætt við sendi- menn Bandaríkjaforseta og um hver efni. Refjasmiðum í Teheran og Jerúsalem hef- ur tekist að notfæra sér það sambland af hroka og vanþekkingu sem ráðið hefur af- skiptum Bandaríkjanna af málum írans allt frá því CIA var beitt til að steypa af stóli þing- ræðisstjórn Mossadegh fyrir þrem áratug- um. Harðstjórn keisarans var afkvæmi þeirr- ar bandarísku íhlutunar, og hún gat af sér ógnarstjórn erkiklerkanna. Nú bætist það við í nornaketilinn, að valdahafar í ísrael vilja flest til vinna að stríð Irans og Iraks standi sem lengst og verði sem skæðast. Kú- rekar ættu að halda sig sem fjærst þessum vettvangi. «> >> Samningavidrœdur ASI/VSI ÁGREININGUR UM HÆKKUN LÆGSTU LAUNA Dagsbrún hafnar launastefnu ASI — staða Ásmundar og Björns veikist Þegar samninganefndir ASÍ og VSl' tóku aö skiptast á skoðunum um lœgstu laun — lágmarkslaun — einkum í sambandi við fiskvinnslu- fólk hlupu samningaviðrœður í strand. Fulltrúar beggja samninga- aðila hafa undirstrikað, að „bilið vœri breitt". Heimildarmenn HP í röðum samningarnefndarmanna segja, að VSI hafi boðið 24 þásund rúmar í lágmarkslaun fyrir fisk- vinnslufólk, en ASÍ hafi haldið á lofti tölunni 30 þúsund krónur. Á þessu strandaði og nú reikna menn uppá nýtt. Er það mat manna í samninganefndum, að efekki gangi saman aðfararnótt fimmtudags, eða á allra nœstu dögum, þá megi búast við því að samningar geti dregist fram yfir áramót og allt fram í mars, en þá verður kosningabar- átta í algleymingi. Mörg verkalýðsfélög, sem hafa innan sinna vébanda illa launað verksmiðjufólk þrýsta á um tafar- lausa samninga vegna hættunnar á frestun samninga þar til í mars. Telja nokkrir talsmenn þeirra, að óverj- andi sé að haga samningum þannig, að þeir sem einskis launaskriðs hafi notið á þessu ári fái ekki rétt hlut sinn. En niðurstaða febrúarsamn- inganna var eins og menn muna litl- ar taxtahækkanir — og mikið launa- skrið svo sem kjararannsóknir benda eindregið til. Því hefur verið haldið fram, að forval Alþýðubandalagsins hafi haft áhrif á gang samningaviðræðna í Garðastræti. í því sambandi hefur verið bent á, að það kæmi forseta ASÍ illa að semja um 27—28 þúsund króna lágmarkslaun eftir að hafa samið hluta kjaramálaályktunar Al- þýðubandalags, þar sem gert er ráð fyrir 35—40 þúsund króna lág- markslaunum, enda þótt þar sé átt við heildarlaun. Forsetinn setti enda á svið mikið sjónarspil í kjölfar frétta DV um eitthvað „leynisamkomu- lag“ sem átti að vera til á milli ASÍ og VSÍ. Má með sanni segja að blaðamannafundurinn hjá VSÍ hafi verið liður í prófkjörsbaráttu Ás- mundar, burtséð frá sannleiksgildi fréttar DV. En Ásmundur Stefánsson og Þröstur Ólafsson, framkvæmda- stjóri Dagsbrúnar, stefndu báðir á annað sætí á framboðslista hjá Al- þýðubandalaginu í Reykjavík. Hvor- ugur náði því takmarki og höfnuðu báðir neðar á lista. Og í kjölfar for- valsúrslita dró Dagsbrún sig út úr ASÍ-samflotinu. Dagsbrún hafði reyndar boðað brotthvarf sitt áður en forvalið var haldið og studdi sig við stjórnarsam- þykktir og samþykktir félagsfundar. Tímasetningu útgöngu Dagsbrúnar má e.t.v. rekja að einhverju leyti til forvalsins, en fyrst og fremst er um að ræða hagsmunaárekstra á milli Dagsbrúnar pg ASÍ. Dagsbrún hafn- ar stefnu ASÍ í launamálum. Dagsbrún hefur, eins og reyndar mörg önnur verkalýðsfélög, innan sinna raða starfshópa, sem náð hafa góðum sérsamningum við einstaka atvinnurekendur og sem auk þess hafa notið launaskriðs á vinnu- markaði. Hafa sérsamningarnir og launaskrið jafnan vegið þyngra í samningsgerð þessara hópa, en lág- ar almennar taxtahækkanir. Eru sem dæmi um slíka hópa nefndir hafnarverkamenn á félagssvæði Dagsbrúnar, og reyndar anriarra fé- laga líka. Sérsamninga hafa þessir hópar gert — stundum tvívegis á samn- ingstíma — og fengið í sinn hlut launaleiðréttingar umfram aðra, án þess að slíkir samningar hafi orðið sérstakt fréttaefni. Hefur arkitekt þessara ávinninga verið Þröstur Ólafsson og launabarátta Dagsbrún- ar snúist að verulegu leyti um þetta. Eru þessir hópar stundum nefndir „lordarnir í Dagsbrún". Þeir eru sterkustu stuðningsmenn Dags- brúnarforystunnar. Baklandið sem þeir Guðmundur J. og Þröstur geta stólað á. Sú samningalína sem valin hefur verið í Garðastrætinu gengur þvert á hagsmuni þessara hópa. Því hefur Dagsbrún sagt sig úr samflot- inu við ASÍ. Samningsgerðin í Garðastrætinu er í farvegi sem gerir ráð fyrir eftir- farandi: Að lægstu launin hækki mest, að efri hluti launastiga verði kældur og að launaskrið verði stöðvað, að ríkisvaldið tryggi eins stafs verðbólgu og að hækkun á gjaldskrá opinberra fyrirtækja verði haldið í skefjum. Þetta eru menn sammála um að séu forsendur fyrir því að hækkun lægstu launa haldi gagnvart þeim sem hærri fá launin. Hins vegar mun uppstokkun skatta- kerfis hafa verið ýtt útaf borðinu m.a. með tilvísun til misheppnaðs húsnæðislánakerfis. Vandamálið varðandi lægstu launin eru fiskvinnslan. VSÍ hefur reiknað út, að hámark lægstu launa megi liggja á bilinu 24—25 þúsund. Rökstyðja þeir mál sitt með því, að fiskvinnslan geti ekki, ef tekjur hennar minnka, velt launahækkun- um útí verðlagið vegna þess að tekj- ur ákvarðist af verðlagi á fiskmark- aði erlendis og gengisþróun, sem menn vilja að verði föst stærð. Þeir atvinnurekendur, sem hins vegar telja sig geta velt launahækkunum útí verðlagið eru aftur á móti tilbún- ir til eitthvað meiri hækkunar á lægstu launum. Ágreiningur ASÍ og VSI er ekki, eins og áður sagði, um þessar grundvallarforsendur, held- ur hve lág lægstu laun mega vera. Ágreiningurinn, sem upp er kom- inn í verkalýðshreyfingunni um launastefnu er vissulega alvarlegt áhyggjuefni fyrir ASÍ forystuna. Það hlýtur að valda áhyggjum, að Guð- mundur J. Guðmundsson, formaður Verkamannasambandsins skuli ekki sitja samningafundi. Á sama hátt hlýtur það að vera undrunar- efni, í Verkamannasambandinu, að Guðmundur J. skuli ekki treysta sér til að taka þátt í samningum sem snerta félagsmenn Verkamanna- sambandsins umfram aðra. Með útgöngu Dagsbrúnar og þeirrar staðreyndar, að Samband byggingamanna skuli ekki vera með, veikist staða Ásmundar Stef- ánssonar, forseta ASÍ. Sömuleiðis hefur það veikt mjög stöðu Björns Þórhallssonar, varaforseta ASÍ, að verslunarmannafélög á landsbyggð- inni hafa tekið sig saman og stofnað nýtt samband, framhjá Birni sem hefur sótt sinn stuðning til þessara sambanda. Ætla verslunarmenn af landsbyggðinni að standa saman í samningum. Velta menn því nú fyrir sér til hverra forsetarnir sækja styrk sinn. Samningarnir nú hafa leitt það í ljós, að verkalýðshreyfingin er sundruð. Hún getur,ekki komið sér saman um launastefnu. 44 HELGARPÓSTURINN eftir Helga Má Arthúrssonp

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.