Morgunblaðið - 21.08.1985, Side 25
24
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 21. ÁGÚST 1985
25
Útgefandi hf. Árvakur, Reykjavík.
Framkvæmdastjóri Haraldur Sveinsson.
Ritstjórar Matthías Johannessen, Styrmir Gunnarsson.
Aöstoöarritstjóri Björn Bjarnason.
Fulltrúar ritstjóra Þorbjörn Guömundsson, Björn Jóhannsson, Ámi Jörgensen.
Fréttastjórar Freysteinn Jóhannsson, Magnús Finnsson, Sigtryggur Sigtryggsson, Ágúst Ingi Jónsson.
Auglýsingastjóri Baldvin Jónsson.
Ritstjórn og skrifstofur: Aöalstræti 6, sími 10100. Auglýsingar: Aö-
alstræti 6, sími 22480. Afgreiösla: Kringlan 1, sími 83033. Áskrift-
argjald 400 kr. á mánuöi innanlands. í lausasölu 35 kr. eintakiö.
Átak í sölu íslenzks
kindakjöts
Framleiðsla kindakjöts,
langt umfram innlenda
eftirspurn, hefur lengi við-
gengizt. Umframframleiðsla
hefur verið flutt á erlenda
markaði, mikið niðurgreidd.
Þeir, sem réttlættu útflutn-
ingsbætur, líktu þeim við
„atvinnuleysisbætur" til
bænda. Þeir hinir sömu bentu
á kosti þess að þjóðin væri
sjálfri sér nóg um matvæli —
og að sauðfjárbúskapurinn
legði til mikilvægt hráefni til
kjöt- ullar- og skinnaiðnaðar.
Á tímum viðreisnarstjórnar-
innar, 1959—1971, vóru út-
flutningsbætur með kindakjöti
viðráðanlegar, vegna þess að
verðbólga, þ.e. tilkostnaður
framleiðslunnar, óx ekki mikið
hraðar hér á landi en söluverð
hennar erlendis.
Óðaverðbólgan, sem festi
rætur í íslenzku efnahags- og
atvinnulífi snemma á áttunda
áratugnum, margfaldaði til-
kostnað hverskonar fram-
leiðslu í landinu, langt umfram
verðþróun á erlendum mörkuð-
um. Hún harðlokaði kinda-
kjötsmörkuðum okkar erlend-
is, nema með himinháum út-
flutningsbótum, sem urðu
skattþegum ofviða.
Innlend verðbólga og verð-
stríð búvöru á erlendum mörk-
uðum skekktu rekstrargrund-
vöii sauðfjárbúskaparins.
Samtímis breyttust neyzlu-
venjur íslendinga, kindakjöti í
óhag.
Bændur brugðuzt við með
eftirtektarverðum hætti. í
fyrsta lagi fækkuðu þeir
sauðfé verulega. Frumkvæði
þeirra og framtak, sem
starfsstéttar, í þessu efni er
fágætt og lofsvert. í annan
stað hafa þeir í vaxandi mæli
horfið að nýjum búgreinum,
loðdýrarækt, ylrækt, fiskeldi
o.s.frv. í þriðja lagi styrkja
þeir samtakamátt sinn og
stöðu sauðfjárbúskapar með
stofnfundi landssamtaka sauð-
fjárbænda, sem haldinn var að
Hvanneyri um sl. helgi.
Samband íslenzkra sam-
vinnufélaga, sem haft hefur í
hendu meginþræði kindakjöts-
sölunnar á erlendum mörkuðu,
hefur sætt vaxandi gagnrýni.
Sambandið hefur ekki náð
þeim áföngum, hvorki í land-
námi nýrra markaða né verði
vörunnar, sem vonir bænda
stóðu tií. Gagnrýnin hefur
einnig beinst að milliliða-
kostnaði SÍS innanlands, en í
því efni hafa framleiðendur og
neytendur kindakjöts átt sam-
leið.
Dr. Sigurgeir Þorgeirsson
segir í skýrslu um markaðsmál
kindakjöts:
„Okkur sýnist að ef við eig-
um einhverja möguleika til út-
flutnings sem geti skilað fullu
verði að nokkrum árum liðn-
um, þá séu þeir í Bandaríkjun-
um. Til þess liggja ýmsar
ástæður, en fyrst og fremst sú,
að þar vestra er sívaxandi and-
úð almennings á „ónáttúru-
legum" framleiðsluháttum,
ótti við lyfjanotkun í landbún-
aði o.s.frv."
Ljóst er hinsvegar að nýr
markaður fyrir kindakjöt sem
„villibráð eða lúxusvöru á háu
verði" vinnst ekki á auga-
bragði né átakalaust. Vöru-
vöndun, aðlögun að mark-
aðskröfum og síðast en ekki
sízt umfangsmikið kynn-
ingarstarf hljóta að verða und-
anfari árangurs á þessum
vettvangi.
Undirbúningsstjórn Lands-
samtaka sauðfjárbænda sendi
tvo menn til Bandaríkjanna,
dr. Sigurgeir Þorgeirsson bú-
fjárfræðing og Gunnar Pál
Ingólfsson forstjóra, til að
kanna sölumál þar. Báðir telja
þeir að „að í Bandaríkjunum
væru möguleikar til hagkvæm-
ari kjötsölu en nú býðst í Evr-
ópulöndum“. Þeir haga þó orð-
um sínum varlega, tala um
„vonarglætu" — og torfærur,
sem þó séu ekki óyfirstíganleg-
ar. Gunnar Páll vitnaði til
bréfs ívars Guðmundssonar
fyrrverandi aðairæðismanns
íslands í New York, sem fjall-
ar um mistök í fyrri tilraunum
til að vinna íslenzku kindakjöti
markað í Bandaríkjunum. Bet-
ur þurfi að gera, ef vel eigi til
að takast.
Ingi Tryggvason formaður
Stéttasambands bænda og
Magnús Friðgeirsson fram-
kvæmdastjóri búvörudeiidar
SÍS, sem einnig sátu stofnfund
Landssambands sauðfjár-
bænda, töldu talsmenn nýs
söluátaks í Bandaríkjunum
bjartsýna um of. Þannig sagði
talsmaður búvörudeildar SIS:
„En mér finnst það óskhyggja,
sem ég efast um að geti staðizt,
að við náum margfalt hærra
verði en aðrar þjóðir."
Ný markaðssókn í Banda-
ríkjunum verður ekki auðveld.
Hún er engu að síður tilraun-
arinnar virði. Breytt almenn-
ingsviðhorf til fæðunnar, m.a.
ótti við lyfjanotkun og ónátt-
úruleg efni í matvælafram-
leiðslu, kann að opna íslenzku
kindakjöti nýja möguleika,
jafnvel sem „lúxusvöru á háu
verði“. En ekkert fæst án
fyrirhafnar. Það gera bændur
sér ljóst. Stofnun Landssam-
bands sauðfjárbænda ber þess
glöggan vottinn.
Einkenni úrkynjunar
— eftir Björn
Dagbjartsson
Til eru augijós dæmi úr mann-
kynssögunni um voldugar menn-
ingarþjóðir sem glatað hafa áhrif-
um og forystu og jafnvel liðið und-
ir !ok vegna hóglífis og úrkynjun-
ar leiðtoganna og jafnframt þjóð-
anna í heild. Ekki munu allir telja
ástæðu til að huga að því hvort
einkenni úrkynjunar sjáist með
ýmsum þjóðum sem verið hafa í
forystu meðal þjóða heims undan-
farna hálfa öld a.m.k., sumar
miklu lengur. Enn síður munu
menn tilbúnir að hyggja að hnign-
unarsvipmóti vestrænna smá-
þjóða sem runnið hafa í slóð stóru
bræðra, forystusauðanna á al-
þjóðavettvangi undanfarinna ára-
tuga.
Fyrir u.þ.b. áratug olli bókin
„Endamörk vaxtarins" miklu um-
tali og síðan hafa margir heims-
endaspámenn risið upp og verið
kveðnir í kútinn. Þessir postular
hafa gjarnan reiknað endalok al-
heimsins út frá auðlindasóun og
úrgangsefnamengun í Evrópu og
Ameríku, en lítið gert úr innri
meinum, sem forystuþjóðirnar
hrjá.
Yfirstéttir
Æ fleiri leita sér menntunar og
starfa við þjónustu, viðskipti og
ýmiss konar stjórnunarstörf.
Skrifstofustörfum í borgum fjölg-
ar, þrengsiin og samkeppnin
skapa ýmis vandamál, sem ekki
leysast alltaf friðsamlega. Fram-
leiðsia á neysluvörum og útflutn-
ingsafurðum byggist æ meir á inn-
fluttu vinnuafli. „Herraþjóðirnar"
vilja heldur ganga atvinnulausar
en yrkja jörð, veiða fisk eða vinna
í námum. Stjórnsýslu- og þjón-
ustustörfum fjölgar án afláts þar
til framleiðsía landanna getur
ekki lengur framfleytt stjórnend-
unum.
Yfirbygging þjóðfélaganna vex,
undirstöðurnar rýrna. Óánægja
hinna svokölluðu opinberu
starfsmanna vex en samt heldur
þeim áfram að fjölga þrátt fyrir
Íéleg kjör. Imyndað öryggi og
áhrif, lítið aðhald og kröfur um
afköst og ábyrgð leiða menn til
opinberra stjórnsýslustarfa. Sú
tálsýn að menntun veiti sjálfvirk-
an aðgang að yfirstéttum, auð og
völdum veldur æ fleirum von-
brigðum.
Audlindaþurrð
Flestum löndum Austur- og
Vestur-Evrópu og Norður-Amer-
íku er það sammerkt að náttúru-
auðlindir þeirra eru þverrandi.
Þjóðirnar sem byggja þessi lönd
eru þó engan veginn á því að draga
saman seglin í útgjöldum og
eyðslu þó að tekjurnar minnki. Af-
leiðingin er söfnun skulda og
viðskiptahalli. Uppsprettur láns-
fjármagns eru ekki lengur í þess-
um hluta heims. Tap vegna rangra
fjárfestinga í hinum svokaliaða
3ja heimi fyrr á árum er mikið.
Ekkert sérstakt bendir til þess að
ástandið í efnahagsmálum þessa
heimshluta muni batna í heild
sinni. V-Evrópuþjóðirnar geta
haldið áfram að lána Pólverjum
og Bandaríkjamenn haldið áfram
að selja Rússum korn fyrir gull, en
við það breytist ekkert til batnað-
ar.
„Menningar-
sjúkdómar“
Farsóttir fyrri alda hafa nú
flestar verið sigraðar eða a.m.k.
heftar það mikið í fjötra lyfja og
læknismeðferða að ekki er hægt
að tala um plágur lengur. Hins
vegar eru „nýir“ sjúkdómar nú
mannskæðari en allt annað sem
herjar á íbúa menningarþjóðanna
í Evrópu og N-Ameríku. Krabba-
mein, hjartasjúkdómar, ónæmis-
tæring, sálsýki o.fl. mein eiga það
flest smeiginlegt að vera tengd
ofáti, óheilbrigðu líferni og
„ónáttúrulegri" hegðun manna.
Sérstaklega er hætt við því að ým-
iss konar vitfirring og hugsanlega
hinn nýfundni sjúkdómur, ónæm-
istæring, reynist erfið á næstu ár-
um. Ekkert bendir heldur til þess
að hjartasjúkdómar eða krabba-
mein séu á undanhaldi þó að dýrar
læknisaðgerðir geti dregið úr
dauðsföllum. Allt veikir þetta sér-
hvern þjóðarlíkama.
Fíkniefni
Það er alkunnugt að mannkynið
hefur þekkt og notað vímugjafa
svo lengi sem sögur herma. Eink-
um hefur áfengið verið haft um
hönd frá alda öðli. Guðinn Bakkus
varð ekki til án tilefnis. Frægar
eru frásagnir af drykkjuveislum
Rómverja skömmu fyrir hrun
Rómaveldis; af frönskum aðals-
mönnum fyrir stórnarbyltinguna
og yfirstéttinni í Rússlandi um
aldamótin síðustu. Áfengi er víða
gróflega misnotað enn á vorum
dögum, en það er íbúum Norður-
álfu og Ámeríku ekki nóg. Stöðugt
vaxandi straumur sterkra fíkni-
efna liggur nú í norður til þessara
forystulanda tækni og menningar.
Fólk undir áhrifum vímugjafa er á
flótta undan raunveruleikanum.
Það er ekki til stórræðanna. Þvert
á móti veldur það vandræðum og
veikir þjóðfélögin. Ríkisstjórnir
standa ráðþrota gagnvart vaxandi
fíkniefnaneyslu. það á jafnt við
um drykkjuskap í Sovétríkjunum
og kókaínneyslu vestan hafs.
Listir og menning
Það er í fljótu bragði ekki hægt
fyrir viðvaning að sýna fram á
samhengi milli þróunar menning-
ar og lista og hnignunarskeiða
forysturíkja heimssögunnar. Þó er
eins og að skáld og listamenn sem
voru valdhöfum þóknanlegir á
frægum hnignunartímabilum hafi
sjaldnar en ekki skilið eftir sig
djúp spor. Andstæðingar úrkynj-
aðra valdhafa hafa aftur á móti
oft með framlagi sínu til lista og
menningar átt sinn þátt í því að
flýta fyrir hruni heimsvelda.
Nú er mjög þekkt andstaða
listamanna gegn stjórnskipulagi
austan tjalds. Reyndar er upp-
reisnarlund skálda á Vesturlönd-
um mæta vel kunn líka. Það gerir
listamönnum lýðfrjálsra ríkja erf-
iðara um vik með árásir á samfé-
lagið að þeir eru víðast launaðir af
opinberu fé. Við það verða þeir
latari og daufari. Svo eru menn
hættir að þurfa að lifa af list sinni
eingöngu, þ.e. smekkur almenn-
ings skiptir ekki Iengur öllu máli.
Lærðir eða sjálfskipaðir gagnrýn-
endur „hafa vit“ á listum fyrir al-
menning. Sóðalegar og jafnvel af-
brigðilegar hvatir sem birtast í
skáldskap og ýmsum afþreyingar-
listum (kvikmyndum, sjón-
leikjum) bera vott um hugmynda-
fátækt, leiða og neytendafyrir-
litningu. Listamenn hafa minni
áhrif á almenningsálitið núorðið
en áður var.
„Náttúruduld“
Því er ekki að neita að iðnað-
arstórveldin og fylgiríki þeirra
hafa fórnað nokkru af náttúrufeg-
urð og lífríki landa sinna á altari
tækniþróunar og velmegunar. I
líkingu við Rousseau og aðdáendur
hans við frönsku hirðina hafa nú
ýmsir ofaldir, vel fjáðir Vestur-
MORGUNBLAÐIÐ, MIDVIKUDAGUR 21. ÁGUST 1985
Björn Ilagbjartsson
„Engan ætti þó að
skaða að gera sér grein
fyrir veikieikum þess
samfélags sem hann lif-
ir í. Þá fyrst er von til
þess að snúið verði af
braut úrkynjunar, að
menn sjái hvert stefnir.
Hinar sjálfumglöðu
þróuðu þjóðir skyldu
hætta aö stæra sig af
þróunaraðstoð við aðrar
sem litið er niður á
vegna vanþróunar og
líta sjálfum sér nær í
staðinn.“
landabúar, sem lítið hafa fyrir
stafni og fá áhugamál, tekið að sér
að krefja þjóðfélög og atvinnu-
starfsemi um endurreisn náttúru
ríkis og landslags í einhverja af-
bakaða, upphaflega mynd.
Þessi „náttúruduld" (orðið duld
er hér notað fyrir erlenda orðið
„komplex") er því magnaðri því
minna sem menn þekkja til lífs-
baráttu í sambýli við náttúruöfl.
Þetta fólk þingar um það á kaffi-
húsum stórborganna hvernig aðr-
ir eigi að haga sér, hvernig aðrir
eigi að lifa af gæðum landanna og
sjá þeim sjálfum fyrir lífsviður-
væri. Skefjalausum áróðri og of-
beldi er beitt, stundum með
stimpli lærðra atvinnumanna í
náttúrufræði sem oft fara með
rakalausan þvætting. Lög og eign-
arréttur eru fótum troðin, stéttir
og heilir þjóðflokkar svipt lífs-
viðurværi í nafni afskræmdra
náttúrulífsmynda úrkynjaðra
malbiksbúa.
Kynþáttaárekstrar
Allir þekkja hinar blóðugu deil-
ur kynþáttanna í löndum 3ja
heimsins. Algengir hafa líka verið
árekstrar hvítra og svartra í Am-
eríku og kúgun ýmissa kynþátta
og þjóðarbrota í A-Evrópu. Nýrri
eru blóðugar götuskærur milli
mismunandi kynþátta í Bretlandi,
Hollandi, Þýskalandi og Skand-
inavíu. Frjálslyndi og yfirborðs-
umburðarlyndi þessara þjóða í
garð fólks af ólíkum uppruna sýn-
ast hafa rist grunnt. Spakmælið
„Lík börn léika best“ er að sannast
enn einu sinni.
Hins vegar er það staðreynd að
þó nokkuð stórir minnihlutahópar
ólíkra kynþátta hafa myndast í
áðurnefndum löndum og fest þar
rætur. Deilur og átök um tilveru-
rétt þeirra geta haft geigvænleg
áhrif innan landanna, jafnvel
klofið þjóðir í stríðandi fylkingar.
Angi af meiði kynþáttaárekstra
er hin svokallaða kvenfrelsis-
hreyfing. Þótt sú kenning að karl-
menn séu almennt séð óvinveittir
konum sé auðvitaö fáránleg og
hljóti að verða hafnað þegar til
alvörunnar kemur veikja deilur og
tortryggni milli kynjanna þjóðirn-
ar út á við.
Framtíðaróttinn
Margt ungt fólk ber í brjósti
ugg vegna hins ókomna. Þannig
hefur það sjálfsagt alltaf verið.
Óttinn, skelfingin, sem núna held-
ur vöku fyrir mörgum æskumanni
Evrópu og Ameríku, er þó af nýj-
um toga. Menntun og uppfræðsía
fólks í þessum heimshluta gera
ógnir hugsanlegrar kjarnorku-
styrjaldar óhugnanlega ljóslif-
andi. Ekki er sparað að ala á þess-
um ótta meðal unga fólksins.
Óprúttnir frétta-sölumenn og
stjórnmálamenn nota hann út í
ystu æsar. Friðargöngur, friðar-
ráðstefnur, friðarundirskriftir eru
sprottin upp úr þessum jarðvegi,
með göfugu yfirbragði, en vita
gagnslaus til að koma í veg fyrir
kjarnorkustyrjöld. Það er ekki
vafi á því að margir vilja fórna
frelsi sínu og aleigunni til að koma
í veg fyrir kjarnorkustríð. „Betra
rauður en dauður." Mannkynssag-
an á þó að kenna að slíkar fórnir
duga skammt. Óróleiki svokallaðr-
ar friðaræsku á Vesturlöndum,
sem þó er síður en svo sérstaklega
friðsöm, getur haft mikil áhrif til
að veikja þessi þjóðfélög.
„Minn frið gef ég yður,“ segir í
hinni helgu bók. Sama bjóða stór-
veldin í dag, sýnilega án þess að
allir íbúar landa eins og Afganist-
an eða E1 Salvador vilji þiggja.
Bláþræðir
Það hefur oft komið í ljós á hin-
um síöari árum að líf stórþjóða,
menningar og tækni hangir á
veikum bláþráöum. Örfáir öfga-
menn geta iamað heil þjóðfélög
með brjálæðislegum hryðjuverk-
um. Þjóðarleiðtogar, trúarleiðtog-
ar, almennir borgarar standa
furöulega berskjaldaðir gagnvart
árásum, mitt í hringiðju og ös
tækniþjóðfélagsins. Lömun New
York-borgar vegna rafmagnsleys-
is, sprengjuárás á ríkisstjórn
Bretlands, skothríð á Bandaríkja-
forseta og páfann í Róm, eitrun á
vatnsbólum og algengum matvæl-
um eru allt nýleg dæmi um varn-
arleysi og vanmátt nútíma tækni.
Háþróuð vopnaleit og öryggis-
varzla virðast ekki geta komið í
veg fyrir flugrán, margefld lög-
gæzla og hernaðarmáttur hindra
ekki sjálfsmorðsárásir. Sprengju-
árás í hjarta Kaupmannahafnar
er barnaleikur fyrir hvern sem
vill. Hver springur næst er ugg-
vænleg spurning án svars.
Aldrei of seint að iðrast
Það er oftast auðvelt að finna
fleiri veikleikamerki með forystu-
þjóðum Vesturlanda og austan
tjalds. Ýmsir fyllast svartsýni við
vangaveltur af þessu tagi. Aðrir
telja þetta ótímabært svarta-
gallsraus. Engan ætti þó að skaða
að gera sér grein fyrir veikleikum
þess samfélags sem hann lifir í. Þá
fyrst er von til þess að snúið verði
af braut úrkynjunar, að menn sjái
hvert stefnir. Hinar sjálfumglöðu
þróuðu þjóðir skyldu hætta að
stæra sig af þróunaraðstoð við
aðrar sem litið er niður á vegna ,
vanþróunar og líta sjálfum sér
nær í staðinn.
Árið 1985 er helgað æskunni.
Það hlýtur að vera von okkar allra
að æskufólk nútímans stöðvi þá
hnignun sem lýst hefur verlð og
skapi eðlilegri og styrkari samfé-
lög en okkur, næstu kynslóð á und-
an, hefur tekist. Hugvekjur og
prédikanir sem þessi hér duga
skammt. Það er líka vonlítið að
miðaldra fólk eða enn eldra breyti
um stefnu eða lífsstíl. „Það lafir
meðan ég lifi,“ er haft eftir síðasta
Frakkakóngi fyrir stjórnarbylt-
inguna miklu. Æskufólki þess
tíma varð að blæða fyrir þann
hugsunarhátt. Það er ákall til
ungs fólks nútímans að það varist
að feta blindandi í fótspor for-
eldra sinna. Afturhvarf til frum-
stæðs náttúrulífs, ofsafengið frið-
arstagl með ofbeldisívafi eða list-
sköpun, sem höfðar til afbrigði- -
legra hvata, eru ekki lausnir á
vandamálum framtíðarinnar
fremur en neysla vímugjafa. Að
finna sér starf við hæfi og vinna
þjóð sinni gagn eru markmið sem
eru óskandi hverjum æskumanni.
Verkefnin eru ennþá næg á ís-
landi. Það er ekki þröngt um okk-
ur og atvinnuleysi er nær óþekkt
fyrirbæri. Dugnaður, atorka og
greind eru eiginleikar sem ungt
fólk skyldi nota til að búa sig únd-
ir framtíðina en ekki láta sér leið- ^
ast aðgerðarleysi og villast þannig
inn á veginn til úrkynjunar.
Höíundur er alþingismaður Sjílí-
sUeóisílokks fyrir Norðurlands-
kjördæmi eystra.
Steintröllin í þingflokki
Sjál fstæðis f lokksins
— eftir Arna
Gunnarsson
Á allra síðustu árum hafa
nokkrir menn reynt að fá heimild
til að hefja álaeldi hér á landi. Það
byggist á því, að til landsins verði
fluttir glerálar og þeir aldir í
heitu vatni uns þeir ná söluhæfri
stærð. Eftir nákvæmar athuganir,
sem beinast að arðsemi, mark-
aðsmálum og allri hagkvæmni f
eldi hér á landi, hefur komið skýrt
í ljós, að hér er á ferðinni eitt-
hvert arðbærasta fiskeldi, sem ís-
lendingar geta stundað.
Eftir hið sígilda streð við emb-
ættismannavaldið veitti landbún-
aðarráðuneytið leyfi til innflutn-
ings á gleráli með þeim fyrirvara
að Alþingi samþykkti breytingu á
76. grein lax- og silungs-
veiðilaganna, sem bannar inn-
flutning á lifandi ferskvatnsfiski.
Þingflokkur Framsóknarflokksins
samþykkti þessa breytingu án taf-
ar, en þingflokkur Sjálfstæðis-
flokksins stöðvaði málið á óskilj-
anlegum forsendum, og kom þann-
ig í veg fyrir, að hægt væri að
hefja störf í nýrri og arðvænlegri
atvinnugrein.
Þessi afstaða þingflokks Sjálf-
stæðisflokksins er fáránleg og
sýnir betur en margt annað að það
er heldur grunnt á slagorðunum
um framtak einstaklingsins, efl-
ingu nýrra atvinnuvega og stuðn-
ing við nýjungar í atvinnulfi.
Þingflokkurinn hefur gert sig sek-
an um ótrúlegan stirðbusahátt,
þröngsýni og svik við þann mál-
stað, sem hann prédikar á hátíð-
legum stundum.
Á sama tíma og þingflokkurinn
sat á lagabretyingu frá landbún-
aðarráðuneytinu heimilaði það
sama ráðuneyti innflutning á lif-
andi vatnarækju, sem er talin
mun hættulegri lífkerfinu hér á
landi en állinn. ísáll hf. hefur eng-
an fjárhagsstuðning fengið frá op-
inberum aðilum. Ráðamenn hafa
látið möguleika þessarar nýju at-
vinnugreinar sem vind um eyrun
þjóta. Fjármagn til fiskræktar fer
nú nær eingöngu til laxaræktar,
sem er mun vafasamara eldi en
t.d. eldi á áli og regnbogasilungi.
En þetta er ekki í fyrsta skipti
að nýjungar í fiskeldismálum hér
á landi verða fyrir barðinu á
steintröllum kerfisins; embætt-
ismanna og stjórnmálamanna.
Tregða þeirra hefur tafið fram-
þróun á þessu sviði um a.m.k. ára-
tug, en á meðan hafa nágrannar
okkar skotið okkur ref fyrir rass,
og gera áfram á meðan skipulag
og stjórnun þessa atvinnuvegar
verða ekki stokkuð upp, gjörbreytt
og færð í hendur mönnum með
þekkingu, framsýni og víðsýni.
Öll afstaða þingflokks Sjálf-
stæðisflokksins gagnvart laga-
breytingum er opni möguleika til
innflutnings á gleráli veldur mikl-
um vonbrigðum og setur hann í
hóp steintrölla, þótt aðeins örfáir
menn hafi staðið gegn málinu. Ég
vil að menn muni þessa afstöðu
þingflokksins næst þegar forystu-
menn Sjálfstæðisflokksins ræða
upphafnir um eflingu nýrra at-
vinnugreina svo stækka megi
þjóðarkökuna, öllum til hagsbóta.
— Ekkert íhald er verra en íhald
meðalmennskunnar!
Ég læt fylgja hér bréf, sem ég
skrifaði formanni þingflokks
Sjálfstæðisflokksins, ólafi G. Ein-
arssyni, sem allur var af vilja
gerður til að koma breytingunni í
gegnum þingflokkinn, en fékk ekki
ráðið við steintröllin:
Reykjavík, 5.6.1985.
Hr. ólafur G. Einarsson,
formaður,
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins,
Alþingi.
Fyrir hönd ísáls hf. langar mig
að gera úrslitatilraun til að fá
þingflokk Sjálfstæðisflokkinn til
að afgreiða frv. til 1. um br. á 1. um
lax- og silungsveiðar, og vænti
þess jafnframt, að málið fái af-
greiðslu áður en þingi lýkur. Fyrst
nokkur orð um aðdraganda þessa
máls og skýringar frá okkur.
ísáll hf. var stofnað fyrir tæp-
um þremur árum. f stjórn þess eru
nú undirritaður, sem er formaður,
Jón Ingvarsson (SH), Ragnar
Halldórsson (íslenska álfélaginu),
Ólafur Stephensen (Auglýsinga-
þjónusta ÓS) og Rolf Johansen,
stórkaupmaður.
Frá upphafi hefur félagið leitast
við að safna upplýsingum og fróð-
leik um álarækt, haft samband við
færustu sérfræðinga og vísinda-
menn, kannað markaðsmál, látið
gera arðsemisútreikninga og
vandað eftir föngum til undirbún-
ings. Síðustu sex mánuði hefur fé-
lagið haft starfsmann á fullum
launum, sem hefur ferðast víða
um Evrópu, skoðað eldisstöðvar,
rætt við sérfræðinga og tryggt að-
stoð þeirra, endurnýjað arðsemis-
útreikninga, tryggt markað og
fengið betur staðfest en fyrr hag-
kvæmni álaræktar hér á landi. Fé-
lagið býr nú yfir meiri fróðleik og
þekkingu á þessu sviði en nokkur
annar aðili hér á landi.
Þegar í byrjun varð ljóst að ála-
rækt yrði ekki hafin hér á landi
nema með innflutningi á gleráli.
Félagið lét þegar kanna göngur
gleráls hér við land, og komst
fljótlega að raun um, að þær væru
mjög stopular og ekki nokkur leið
að byggja atvinnugrein á þeim. Þá
var leitað eftir leyfi frá landbún-
aðarráðuneytinu um innflutning á
Árni Gunnarsson
„Þessi afstaða þing-
fíokks Sjálfstæöis-
flokksins er fáránleg og
sýnir betur en margt
annað að það er heldur
grunnt á slagorðunum
um framtak einstakl-
ingsins, eflingu nýrra
atvinnuvega og stuðning
við nýjungar í atvinnu-
lífí. Þingflokkurinn hef-
ur gert sig sekan um
ótrúlegan stirðbusahátt,
þröngsýni og svik við
þann málstað, sem hann
prédikar á hátíðlegum
stundum.“
glerálum. í 76. grein lax- og sil-
ungsveiðilaganna er ákvæði um að
ekki sé heimilt að flytja hingað til
lands lifandi fiska úr fersku vatni.
Þetta ákvæði er í lögunum til að
koma í veg fyrir innflutning á lif-
andi laxi og silungi. Ef grannt er
skoðað nær þetta ákvæði vart til
álsins, því glerállinn er veiddur í
sjó. Engu að síður var það túlkun
ráðuneytisins, að þetta ákvæði
gilti um glerál.
Eftir talsverðar umræður barst
undirrituðum bréf frá landbúnað-
arráðuneytinu hinn 8. febrúar
1984, þar sem umsókn félagsins er
vel tekið og skýrt frá því, að Sig-
urði Helgasyni, fisksjúkdóma-
fræðingi, hafi verið falið fyrir
hönd Fisksjúkdómanefndar að
kann þá hættu „sem kann að
fylgja innflutningi á glerál".
Um svipað leyti bárust félaginu
spurnir af því að Samband sveit-
arfélaga á Suðurlandi væri byrjað
að athuga möguleika á álarækt, og
mun það hafa fengið einhvern
styrk úr Byggðasjóði til þeirrar
könnunar. Niðurstöður sambands-
ins, sem greint var frá fyrir
skömmu, koma heim og saman við
niðurstöður ísáls hf.; álarækt er
mjög arðbær og markaður góður.
Hinn 7. maí 1984 barst undirrit-
uðum svo annað bréf frá landbún-
aðarráðuneytinu, þar sem segir
orðrétt: „Að fengnum tillögum
Fisksjúkdómanefndar, sem hér
fylgja í ljósriti, hefur ráðuneytið
ákveðið að veita leyfi til álaeldis,
þar sem notaðir eru innfluttir
glerálar, að þvi tilskildu, að lög
heimili og uppfyllt séu skilyrði,
sem fram koma í bréfi Fisksjúk-
dómanefndar."
Félagið lýsti sig þegar reiðubúið
að ganga að skilyrðum Fisksjúk-
dómanefndar, og hófst fljótlega
leit að stað, sem nefndin gæti sætt
sig við. Það skal þó tekið fram, að
félagið er ekki sammála þeirri
svörtu mynd, sem Fisksjúkdóma-
nefnd dregur upp í skýrslu sinni
um smithættu af völdum innflutn-
ings á glerál. Samkvæmt henni er
áll nánast eiturspúandi skepna,
sem ógnar lífríki Islands. Skýrsla
Fisksjúkdómanefndar hefur verið
borin undir erlenda sérfræðinga,
sem hafa mikla þekkingu og
reynslu í fiskeldi. Þeir telja allt of
langt gengið í útlistun á þeim
sjúkdómum, sem áll kynni að bera
til landsins. í öllum þeim aragrúa
af skýrslum og niðurstöðum rann-
sókna varðandi álaeldi, sem félag-
ið hefur undir höndum, er hvergi
tekið djúpt í árinni þegar rætt er
um sjúkdóma og smit. Þess ber
einnig að geta, að áll, sem fluttur
yrði til landsins úr Bristol-flóa,
kemur úr sama stofni og gengur í
ár og vötn hér á landi.
Undirritaður getur ekki varist
þeirri óþægilegu tilfinningu, að
hér séu á ferðinni svipuð vinnu-
brögð og Skúli Pálsson á Laxalóni
mátti þola um langt árabil, en þá
var Fisksjúkdómanefnd í farar-
broddi þeirra afla, sem töldu regn-
bogasilung mestan meinvætta ís-
lensks lífríkis. Hann var kallaður
„sporðminkur" til að leggja
áherslu á þann usla, sem hann
gæti valdið. Allir vita, að nú er
regnbogasilungur veiddur í ís-
lenskum ám og íslendingar geta
státað af eina heilbrigða stofni
regnbogasilungs í heiminum.
Á sama tíma og mál þetta
stöðvast í þingflokki Sjálfstæðis-
flokksins gerir landbúnaðarráðu-
neytið sér lítið fyrir og heimilar
innflutning á lifandi vatnarækju
til tilraunaeldis á Reykjanesi.
Fyrir tveimur árum taldi Fisk-
sjúkdómanefnd þennan innflutn-
ing fráleitan, enda allra mat að
rækjunni geti fylgt meiri smit-
hætta en þeim langa fiski, sem ís-
áll hf. vill hefja ræktun á. Þá ber
þess og að geta, að innflutningur á
laxahrognum þykir orka tvímælis
í hugum fiskifræðinga.
Eftir að fsáll hf. hafði fengið
leyfi landbúnaðarráðuneytisins og
mikil vinna verið lögð í undirbún- f
ing var ákveðið að hefjast handa.
Loforð var fengið fyrir landi í
Þorlákshöfn, svo og heitu vatni og
heimild til borunar eftir köldu.
Áður en bygging stöðvar hæfist
var ákveðið að vera með tilrauna-
eldi í eitt ár í skemmu í Þorláks-
höfn. Pöntun var gerð á gleráli og
allt tilbúið til að hefja eldi í maí
sl. Þetta var gert þar eð félagið
taldi málið í höfn; afgreiðsla Al-
þingis formsatriði, þar eð Fisk-
sjúkdómanefnd og landbúnaðar-
ráðuneytið höfðu gefið grænt
ljós“. En þá stöðvast málið í þing-
flokki Sjálfstæðisflokkins eftir að
þingflokkur Framsóknar hafði af-
greitt það. Þetta kom félaginu
gjörsamlega í opna skjöldu, og '
varð það að taka þá sársaukafullu
ákvörðun, að hætta við reynslueldi
á þessu ári. Tíminn varð of knapp-
ur til kaupa á gleráli. Þar glatað-
ist dýrmætur tími. Verði málið
ekki afgreitt á þessu þingi mun
félagið ekki taka þá áhættu að
hefja framkvæmdir í haust, þar eð
engin trygging er fyrir því, að
málið verði afgreitt í haust frem-
ur en nú.
Hér eru miklir fjármunir í húfi
fyrir nokkra einstaklinga, ný at-
vinnugrein, sem tvímælalaust á
eftir að gefa mikinn arð í þjóðar-
búið, og finnst mér óneitanlega
það koma úr vitlausri átt ef Sjálf-
stæðisflokkurinn stöðvar þetta
framfaramál.
Með góðum kveðjum,
Árni Gunnarsson.
Höfundur er stjórnarformaður ís-
áls hf.