Morgunblaðið - 27.11.1985, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 27.11.1985, Blaðsíða 16
16 MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 27. NÓVEMBER1985 Á fyrirlestri: Húsöndin og Mývatn Húsönd - eftir Sverri Þórðarson Eitt af því sem gert hefur sjón- varpiö vinsælt eru þættir sem fjalla um dýralíf, náttúrufræði eða hvort tveggja. Þessir þættir hafa þó haft í för með sér að ýmis félög áhugafólks um þessi efni eiga erf- itt með að ná eins til almennings, td. með fræðslufundum sínum. Eitt þessara félaga er Fugla- verndarfélag íslands. En félagið hefur þó ekki lagt árar í bát, því það reynir að vera í góðu sambandi við þá menn, sem fást t.d. við athuganir og rannsóknir á náttúru og lífríkinu hér á landi, tengist þær á einn eða annan hátt fuglalífinu. Hefur Fuglaverndarfélagið efnt til almennra fræðslufunda á veturna og segja þessir rannsóknarmenn þar frá störfum sínum. Slíkur fundur var haldinn í síð- ustu viku í Norræna húsinu. Ungur líffræðingur, Árni Einarsson, flutti þá fyrirlestur. Viðfangsefni hans var: Húsöndin og Mývatn. í stuttu máli sagt var þessi fyrirlest- ur Árna í tölu þeirra betri á vegum Fuglaverndarfélagsins, er þó af allmiklu að taka. Er fyrirlestrin- um lauk voru fundarmenn vissu- lega orðnir ótrúlega vel að sér um þennan fallega, íslenska fugl, lifn- aðarhætti hans „að segja frá vöggu til grafar". — Kom þar margt skemmtilegt fram. Margt kom þar áheyrendum á óvart. Þori ég að fullyrða að hinn ungi líffræðingur hefur tekið verkefnið í senn vís- indalegum og alvarlegum tökum. Og lagt mikla alúð við verkefnið. Til frekari glöggvunar fyrir fund- armenn sýndi hann í myndvörpu kortlagningu á hinum ýmsu þátt- um rannsóknarstarfanna. Athug- anir hans á húsöndinni virtust þó einkum bundnar mikilvægu svæði fyrir fuglinn við upptök Laxár; mjög takmörkuðu svæði þar og sagði fyrirlesarinn að það væri aðeins nokkrir ferkm. að stærð. Þetta svæði stendur undir vexti og viðgangi húsandarstofnsins hér á landi og þar er hið mikilvægasta fæðuöflunarsvæði. Þar heldur bit- mýið sig einkum, en það eru ein- mitt lirfur bitmýsins, sem eru uppistaðan í fæðu ungviðisins. Hér sagði fyrirlesarinn það vera skoð- un sína, að ef virkjunaráætlanir Laxárvirkjunar hefðu náð fram að ganga, með þeim hætti sem uppr- unalega var fyrirhugað, sé vafa- samt, jafnvel trúlegra, að það hefði haft í för með sér endalok húsand- arstofnsins. Þegar Árni Einarsson líffræðingur, vék máli sínu að ýmsu því er snertir stofnstærð húsandarinnar gat hann þess að árið 1978 hefði árað mjög illa fyrir bitmýið við Laxá. Sveifla þessi hefði þegar í stað haft mikil áhrif á stofnstærð húsandarinnar, því hvorki meira né minna en um það bil fjórðungur stofnsins hefði þá horfið. Þetta fyrirbrigði í nátt- úrunni hefði svo jafnað sig. Á sama hátt hefði húsandarstofninn gert það. Teldi hann stofnstærðina nú í góðu lagi og giskaði á að stofninn teldi kringum 2.000 fugla. Eru steggir í meirihluta, líklega kringum 1.200 af 2.000 fugla stofni. Samkeppnin milli steggjanna um hylli andanna væri mikil og hörð. Sagði fyrirlesarinn mjög skemmti- lega frá þessu öllu og nefndi þá margt athyglisvert í lífsmynstri þessara fallegu fugla. Sagi hann frá því og útskýrði reyndar með skemmtilegri teikni- myndaröð hvernig það gerðist á slóðum húsandarinnar á Mývatni og þar gætu menn séð húsendur með alveg ótrúlegan fjölda unga í kringum sig. — Já, allt upp í yfir 100 unga hefði hann sjálfur talið eina einustu önd vera með! Þá mun það trúlega hafa komið fleirum á óvart en mér að svo virðist sem hægt sé að gera hús- öndina að hálfgildings alifugli. Sýndi fyrirlesarinn myndir af hús- öndum, sem verpa í varpkössum bænda heima við býli þeirra í Mývatnssveit — og geta heimilin nýtt sér varp andanna með góðum árangri. Fundarmenn þökkuðu Árna Einarssyni líffræðingi hinn grein- argóða og skemmtilega fyrirlestur með lófataki. Fundurinn var bæri- lega vel sóttur. Sv.Þ. Höfundur er hlaðamaAur hjá Morg- unblaðinu. Eru verkakonur á íslandi vanþroska? Svar við grein Lilju Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra - eftir Sigríði Skarphéðinsdóttur í Morgunblaðinu 2. nóvember sl. birtist grein eftir Lilju Ólafsdótt- ur, framkvæmdastjóra, sem hún kallar „Viljum við enn vera vatns- berar heimsins". í greininni fjallar hún um það uppátæki verkakvenna í Kvennasmiðjunni að láta þá karla, sem ráðskast með samn- ingamál þessar kvenna, spreyta sig á því að vinna störfin, sem þeir meta til lægstu launa, og það með því að láta Albert Guðmundsson og Guðmund J. Guðmundsson búa um rúm. Hefðu konur verið að gera lítið úr eigin störfum. Og með því að hafa gaman af tilþrifum karla líkti hún verkakonum á Is- landi við konur í þróunarlöndum, sem hún kveður ólæsar og illa upplýstar og finnst tilhugsunin um að karlar vinni þeirra störf hlægi- leg. Lilja spyr hvort hugsanlegt sé, að íslenskar konur séu ekki komnar lengra á undan kynsystr- um sínum í þriðja heiminum en að þeim finnist líka hlægilegt að sjá karla í kvennastörfum. í greininni kemur fram að Lilja var ekki stödd í Kvennasmiðjunni þennan dag og fylgdist því ekki með því sem þar gerðist, heldur „Ég vona að einhverjum sem þarna voru á þess- um degi hafi orðið það Ijóst að það þarf bæði fagmannleg vinnubrögð og starfsreyslu til þess að vinna þau störf sem við vinnum. sá hún umrætt atvik í sjónvarps- fréttum um kvöldið. Þetta kanna að skýra það hvers vegna Lilja misskilur svo hrapallega það sem uppákoman átti að sýna. Svo kann að vera um fleiri þótt ekki hafi ég orðið þess vör, en meðal annars þess vegna set ég þessar línur á blað. í Kvennasmiðjunni var hverri starfsgrein helgaður einn dagur. I sýningarbás hinna ófaglærðu verkakvenna voru eftirtalin félög Starfsmannafélagið Sókn, Verka- kvennafélagið Framsókn, Verka- kvennaféiagið Framtíðin í Hafnar- firði og Iðja, félag verksmiðjufólks í Reykjavík. Á degi verkakonunnar voru fengnir karlar úr forystusveitum verkalýðshreyfingarinnar og vinnuveitenda til þess að reyna að vinna þau störf kvenna, sem þeir svo oft hafa karpað um í samning- um án þess að gera sér nokkra grein fyrir því í hverju þau eru fólgin, eða hvað þarf til þess að leysa þau vel af hendi. Allir virðast þó sammála um að hafa launin fyrir þau í lægstu töxtum. Fyrst voru þeir Albert Guð- mundsson og Guðmundur J. fengn- ir til þess að búa um rúm. Örstutt atriði frá því var sýnt í sjónvarps- féttunum. Næst voru Víglundur Þorsteinsson, formaður Félags ís- lenskra iðnrekenda, og Bjarni Jakobsson, formaður Iðju, fengnir til þess að sauma í bónus. Síðast reyndu þeir með sér Magnús Gunnarsson, framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins, og Ásmundur Stefánsson, forseti Alþýðusambands íslands, í því að snyrta og pakka fiski. Allt voru þetta störf sem þessir einstakling- ar höfðu aldrei komið nálægt, utan Magnús i fiskinum (þess sá þó engan stað í handbragðinu). Víst voru tilþrifin viðvangingsleg og spaugileg og margir hlógu. Eg sá ekki betur en Víglundur skemmti sér konunglega, þegar hann horfði á Magnús snyrta og skera til þorskflakið og skar hann stórt stykki úr þykka fiskinum rneð þunnildinu. En ætlunin var ekki að hafa gaman af þessu vegna þess að þar voru karlar að vinna við kvenna- stöf. Ég get fullvissað Lilju um að engri af þeim konum, sem stóðu fyrir þessum uppákomum, hefði nokkurn tíma getað dottið slíkt í hug þó að við séum ekki hámennt- aðar eða mikilsmetnar í þjóðfélag- inu. Og ef ég á að vera alveg hrein- skilin þá finnst mér ummæli Lilju í okkar garð, í umræddri grein frekleg móðgun. Ef við hefðum bara ætlað að hlæja að þessum körlum í kvenna- störfum þá hefðum við ekki fengið einmitt þessa karla til þess að taka þátt í sýningunni. Þetta var tákn- ræn sýning til þess að reyna að fá þessa karla, sem taka þátt í að semja fyrir okkur, og alla aðra, sem ekki gera sér grein fyrir því, að það er ekkert ómerkilegt að vera verkakona, að öðru leyti en því að taka við þeim launum sem starfinu fylgja. Ég vil svo þakka þeim körlum sem sýndu okkur þann sóma að vilja koma og taka þátt í þessu með okkur. Ég ber þó nokkuð meiri virðingu fyrir ykkur fyrir bragðið. Þið gátuð látið það vera, en ég vona að þið skiljið okkur betur en áður og semjið betur fyrir okkur framvegis. Ég vona að einhverjum sem þarna voru á þessum degi hafi orðið það Ijóst að það þarf bæði fagmannleg vinnubrögð og starfsreynslu til þess að vinna þau störf sem við vinnum. Ég get verið sammála Lilju um að margt hefir breyst á kvennaára- tug. Atvinnuþátttaka kvenna hefir stóraukist, menntun kvenna batn- að og löggjöf í réttindamálum kvenna hefir þokast áleiðis. Eftir situr að konur vinna láglauna- störfin í þjóðfélaginu og lægst launuðu störfin eru unnin af kon- um, verkakonum. Launamisrétti hefir lítið sem ekkert breyst á þessum áratug. Lilja lætur að því liggja í lok greinar sinnar að launamisrétti gæti að hluta til verið að því að rótgróinn hugsun- arháttur leynist enn í hugskoti kvenna, að störf þeirra séu lítil- mótleg og einföld. Ég er sannfærð um að það myndi litlu breyta í launamálum þótt verkakonur reyndu af alefli að auka virðinguna fyrir þeim störf- um sem þær vinna. Þær bera nú þegar virðingu fyrir störfum sín- um og þeim finnst þau hvorki einföld né lítilmótleg. En það eru aðrir sem litla virðingu bera fyrir þessum störfum og þeim finnst þau lítils metandi. Annað mál er svo hvernig við eigum að ná launajafn- rétti. Sumar konur telja að því verði helst náð með því að konur fari í auknum mæli inn á hin hefðbundnu karlastörf. Ég vil ekki gera þetta á þann veg. Auðvitað eiga stúlkur að fara í hvert það nám og starf sem hugur þeirra stendur til, hvort sem um er að ræða hefðbundið karla- eða kvennastarf. En stúlka á ekki að þurfa að velja hefðbundið karla- starf bara af því að það er betur launað en hefðbundið kvennastarf, sem hún myndi heldur vilja vinna. Þegar þeir sem ráða í þjóðfélag- inu (sem eru auðvitað karlar) hætta að líta á konur sem annars eða þriðja flokks vinnuafl, og meta störf okkar og okkur sjálfar sem einstaklinga til jafns við karla, þá verðum við búnar að vinna sigur. En vinnum þennan sigur sem konur en reynum ekki að gera konur að einhverri karlmanns- ímynd. Höfundur er verkakona. Bæjarpósturinn - nýtt vikublað á Dalvík Dalvík, 21. nóvember. 1 DAG kom út í fyrsta sinn nýtt vikubiað á Dalvík og nefnist það Bæjarpósturinn. Útgefandi er Fjölriti s/f á Dalvfk en ritstjóri og ábyrgðar- maður er Kristján Þór Júlíusson. Eins og nafnið bendir til mun Bæjarpósturinn flytja fréttir frá Dalvík og nágrenni. Fyrsta tölu- blað er 8 síður í brotinu A-4. Blaðið er prýtt ljósmyndum og er því dreift í öll hús á Dalvík og í Svarf- aðardal og er ætlunin að auglýs- ingar standi undir útgáfukostnaði fyrst um sinn. Fyrsta tölublaðið er hið fallegasta ásýndum, vel uppsett og gefur Dalvíkingum góð fyrirheit um lífleg skrif um það sem efst á baugi er hverju sinni í bæjarfélaginu og nágrannabyggð- um. Eitt annað blað er gefið út á Dalvík, heitir það Norðurslóð og kemur út mánaðarlega. Er það von útgefenda að þessi tvö blöð geti miðlað helstu fréttum af atburðum frá þessu byggðarlagi og varðveitt þannig helstu atburði liðandi stundar. Auk Kristjáns Þórs Júlíussonar ritstjóra eru blaðamenn við Bæj- arpóstinn sr. Jón Helgi Þórarins- son, Kristján R. Kristjánsson og Hjalti Haraldsson og ljósmyndari er Jón Baldvinsson. Fréttaritarar póscurinn Tilboð Twki A k/BO (U MW >'»»■/< U. Fvlgt úrblaði AUGLV'SIMGA JA-Atiivn Silfurrefabúið á Hofi: Refirnir lausir við eyrnamaurinn VONAST er til að hægt verði að aflétta sóttkvínni af silfurrefabúinu á Hofi í Vatnsdal á næstunni, að sögn Gísla Pálssonar bónda á Hofi. 56 silfurrefalæður voru fluttar inn frá Noregi 1983, 11 högnar og 2 platínuhögnar. Refirnir eru í eigu 17 manna og voru þeir settir í tímabundna sóttkví á Hofi. Síðar kom í Ijós að eyrnamaur hafði borist með refunum og hafa þeir síðan verið bundnir í sóttkvínni. í sumar voru gerðar ráðstafanir til að útrýma maurnum og að sögn Gísla á Hofi bendir allt til þess að það hafi heppnast því nú liggur fyrir jákvæð niðurstaða úr rann- sóknum á síðustu sýnunum. Gísli sagðist vonast til að eig- endur refanna gætu náð í þá um mánaðamótin. Væri það góður tími og óheppilegt vegna dýranna að það dragist mikið lengur. Auk þess væri plássleysi farið að segja til sín í refahúsinu. Sagðist Gísli vonast eftir svörum yfirdýralækn- is um þetta næstu daga.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.