Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1927, Page 27
29
yfir1) frá Þverá. Hann hafði blót á Hofsstöðum«. Þetta er vafalaust
rjett. En bær Kollsveins hefur eyðst afarsnemma, því að hans er
hvergi getið í fornum eða nýjum heimildum. Samt geyma munnmæl-
in menjar hans og setja honum stað, uppundan Framnesi. Eru þar
tóftarbrot allmikil, og túnmál í kring, er kallast Kollsveinsstaðir. Virð-
ist rjett að geta þessa, frásögninni til stuðnings, þvi að ýms atvik
geta valdið því, að rústimar eyðist með öllu.
IX.
Landnámabók, ásamt öðrum íslendingasögum, er svo merkur og
einstæður fornritaflokkur í heimi, að furðu gegnir. Frægir vísinda-
menn ýmsra þjóða hafa unnið kappsamlega að því, að gefa þær út
á máli þjóða sinna, og ekkert sparað til þeirra verka, hvorki tíma
eða peninga, fegurð eða fróðleik. Heimskringla Snorra, ásamt öllum
íslendingasögum, Eddunum og Sturiungu, ættu fyrir löngu að vera
komnar út í glæsilegri útgáfu á íslenzku, því að þessar bækur hafa fyrst
og fremst skapað íslenzku þjóðinni þá bókmentafrægð meðal annara
þjóða, sem orðið hefur henni drýgst til álits og aðdáunar, kúgunar-
varnar og vinsældafylgis út á við, síðari hluta 19. aldar og til þessa.
Þetta segi jeg að nýbókmentum íslendinga alveg ólöstuðum, sem
enn þá eru á gelgjuskeiði, þótt þroskasvipur þeirra sje auðsær.2)
En þótt ekki hafi tekist, að fá áðurgreindar bækur til þessa, í
ljómandi vandaðri útgáfu, hafa ýmsir sýnt lofsverðan dugnað í því,
aö rannsaka leshætti handritanna, sem slík útgáfa yrði að byggjast
á, og þar hafa verið svo margir að verki, að ekki þýðir að þylja nöfn
þeirra hjer. Skýringar á fornvísum eru einnig komnar það á leið, að
tæplega verður búist við víðtækari uppgötvunum á vafastöðum úr
þessu.
Nú er mjer það gleðiefni, að nokkrir áhugasamir mentamenn
hafa bundist samtökum um að stofna til nýrrar, vandaðrar útgáfu
íslendingasagna og annara gullaldarrita vorra. Vil jeg í lok þessar-
ar ritgerðar beina því til þeirra, að með skýringum þeim, sem nauð-
synlegt er að fylgi yfir bundið mál og torskilin orð, verði getið um
allar leiðrjettingar, sem gerðar hafa verið um ýmsar sveita- og
örnefnalýsingar sagnanna. Það er að vísu mikið verk, að tína það
saman, sem er á strjálingi í ritum, en sú hlið útgáfunnar fær þá fast
gildi og getur meira að segja í sumum atriðum náð hinum frumlega
1) »Upp frá Þverá« hafa Hauksbók og Melabók, er það fullt svo rjett, því
að Þverá stendur (sunnar og) allmiklu neðar.
2) Georg Brandes ljet svo mælt um fornbókmentir íslands, að þær væm
»aðalsbrjef þjóðarinnar*.