Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1943, Page 11
11
Á Þórarinsstöðum eru þessi hús sambyggð: /. Skáli. II. Stofa. III.
Búr. IV. Fjós. V. Hlaða. VI. Kofi. Eftir tölunum þekkjast þau á upp-
drættinum (7. mynd), en hér á eftir verða þau kölluð nöfnum sínum,
en ekki einkennisstöfum. Auk þeirra eru svo nokkur útihús, A, B og
C. En áður en þessum húsum verður lýst hverju fyrir sig, þykir rétt
að lýsa að nokkru, hvernig umhorfs var á Þórarinsstöðum, þegar
rannsóknin var gerð, og öskulagaathugunum þeim, sem við gerðum,
meðan tóftagröfturinn stóð yfir.
Frá bænum á Þórarinsstöðum er mikil og víð fjallasýn. Næst er
Bláfell í hánorðri, og hægra megin við það bryddir á tindum Kerlingar-
fjalla. I vestri, andspænis framhlið bæjarins, sjást Tröllhettur og
Langjökull með Geitlandsjökli og Þórisjökli, og enn lengra til vinstri
Hlöðufell og fleiri há fjöll, en lengst í suðri blánar fyrir Hestfjalli og
Vörðufelli á Skeiðum. Að austan, á bak húsum, er ávalur háls,
Hnausheiði, sem tekur fyrir fjallasýn í þá átt.')
í Þórarinsstaðalandi hefur uppblástur verið aðsópsmikill (4.
mynd). Norðan, austan og vestan við bæinn er jarðvegur allur burtu
rifinn, allt ofan í mel, en suður af honum er þykk, óblásin torfa, sem
nær frá suðurenda bæjarins (stofunnar) niður að ánni. Skammt
fyrir austan og vestan bæinn eru stórar, óblásnar torfur. I brún
þeirrar vestari eru stóru fjárhúsin bæði, þannig að enn var ekki blásið
ofan af vesturhluta annars þeirra. Ef litið er lengra frá bænum, skipt-
ast á óblásnar torfur og örfoka melar í allar áttir. 1 únið, sem einu
sinni var, verðskuldar því varla það nafn lengur. Það hefur legið vel,
í aflíðandi brekku móti vestri. Túngarðsleifar sjást ekki nema ef til vill
lítið eitt hér og þar á gilbarminum við Stangará. Það er auðvitað, að
þar hefur nokkur hluti garðsins verið, því að þar er auðvelt að gera
öruggan garð, án þess að hann þurfi að vera mjög hár. Vatnsból
bæjarins hefur verið í Stangará (5. mynd).
Bæjarrústirnar sjálfar hafa aldrei náð að blása upp. Þegar þær
voru skoðaðar á árunum 1895—97, náði torfa sú, sem nú nemur við
suðurenda þeirra, allt norður fyrir miðjan skála. Samt mótaði þá
þegar greinilega fyrir veggjum fjóss og kofa, millivegg fjóss og skála
og nyrzta hluta skálans. Nú sást brydda á skálaveggjunum lengra
suður eftir og búrveggjunum mjög greinilega, en ekkert sást til stof-
unnar, fyrr en farið var að grafa. I fjósinu stóðu báshellur upp úr,
!) Um örnefni á þessum slóöum sjá Guðjón Jónsson í Árbók 1933 3(i, lils.
105. Um legu Þórarinsstaða segir hann: „Þórarinsstaðir eru á Krók norð-
vestan við Stangará, neðan við Harða-vallar-klif.“