Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1943, Page 44
ÖRLÖG BYGGÐARINNAR
Á HRUNAMANNAAFRÉTTI
í LJÓSI ÖSKULAGARANNSÓKNA
Eftir Sigurð Þórarinsson.
Inngangsorð.
I framhaldi af þeim rannsóknum á öskulögum í íslenzkum jarðvegi,
sem við Hákon Bjarnason, skógræktarstjóri, hófum sumarið 1934,
tók ég sumarið 1939 þátt í rannsóknum norrænna fornleifafræðinga
á eyðibæjum í Þjórsárdal. Þáttur minn í þeim rannsóknum var sá
að athuga afstöðu öskulaga til bæjarústanna, fá úr því skorið, hvaða
öskulög hefðu lagzt yfir dalinn, áður en hann byggðist, og hver hefðu
til komið, eftir að hann lagðist í eyði. Niðurstaðan af þessum rann-
sóknum mínum var í stuttu máli sú, að innri hluti Þjórsárdals hefði
farið í eyði árið 1300 vegna goss úr Heklu eða nágrenni hennar, en
við Hákon höfðum áður sett fram þá skoðun, að öskulag það, sem
myndaðist í þessu gosi, væri það ljósa lag, sem finna má ofarlega í
jarðvegssniðum víða um Norðurland.1)
Þótt ég teldi þessa niðurstöðu sæmilega rökstudda, var mér ljóst,
að þær öskulagarannsóknir, sem tími hafði unnizt til að gera, áður en
heimsstyrjöldin skall á, voru aðeins bráðabirgðarannsóknir, sem:
æskilegt væri að bæta um við fyrsta tækifæri. Sumarið 1945 tók ég
því til, þar sem frá var horfið 1939, og hef síðan haldið öskulaga-
rannsóknunum áfram, hvenær sem mér hefur gefizt tækifæri til þess.
Sú öskulagarannsókn, sem mér lék hugur á að koma fyrst í fram-
kvæmd eftir heimkomu mína veturinn 1945, var rannsókn á afstöðu
öskulaga, og þá einkum ,,1300-lagsins“, til eyðibæjanna á Hruna-
mannaafrétti. Af korti því yfir útbreiðslu ,,1300-lagsins“, sem við
Hákon Bjarnason höfðum gert, var auðsætt, að þetta öskulag hlyti
J) H. Bjarnason och S. Thorarinsson: Datering av vulkaniska asklager i
islandsk jordmán. Geogr. Tidsskr. 1940. -— S. Thorarinsson: Þjórsárdalur
och dess förödelse, Forntida gárdar 1943. -— S. Thorarinsson: Tefrokrono-
logiska studier pá Island. 1944,