Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1943, Page 81
FORNAR SLÓÐIR
MILLI KRÍSUVÍKUR OG HAFNARFJARÐAR.
Eftir Ólaf Þorvaldsson.
„Gömlum vinum og gömlum götum
á enginn að gleyma“.
Þetta segja frændur okkar Færeyingar, og væri gott, að fleiri
minntust.
Með þennan málshátt í huga rifja ég hér upp minningar um nokkr-
ar gamlar götur hér í nágrenni, sem voru fram á síðustu áratugi
nokkuð fjölfarnar, en eru nú að mestu og flestar að öllu lagðar af, —
hætt að fara þær. Ýmist hafa þessar götur lagzt af vegna þess,
að girðingar hafa verið settar um þær þverar eða sökum þess, að
nýir vegir hafa verið lagðir og þeir að sjálfsögðu farnir nú, þar sem
flest farartæki, sem nú eru mest notuð, eru þannig, að krókóttir götu-
slóðar, sem aðeins voru ætlaðir manna- og hestafótum, koma þeim
ekki að notum.
Þessar gömlu götur og vegir, því að nokkuð af þeim kallaðist veg-
ir, annað götur eða stígar, búa í þögn sinni og yfirgróningu yfir margra
alda óskráðum minningum um alla þá menn, sem þar hafa um ferð-
azt; um alla þá erfiðleika, sem þeir áttu við að etja, á jafntorfærum
leiðum og margar þeirra voru, — en voru þrátt fyrir allt leið manna
um landið frá landnámstíð fram á vora daga. Þær búa líka yfir mörg-
um ánægjustundum vegfarenda, sem svo oft síðar var vitnað til, að
þetta eða hitt hefði borið við á þessum leiðum. Efast ég um, að
fólk, sem ferðast nú um landið eftir dýrum vegum, á dýrum farar-
tækjum nútímans, eigi ánægjulegri og bjartari minningar að ferðalok-
um en þessar fornu og nú yfirgefnu slóðir veittu oft og einatt þeim,
sem um þær fóru á sínum tíma.
Flestar hafa þessar götur orðið til smám saman af umferð manna
og hesta, og hafa margar þeirra verið mjög fjölfarnar, t. d. sést víða,
þar sem leiðir liggja yfir hraunhellur, að hesthófurinn með sínum
pottuðu skeifum og oft líka pottuðu hestskónöglum, hefur sorfið göt-
ur oft 10—20 sm djúpar. Til þess að djúpar götur myndist í hart
hraunið eða grágrýtisklappir, hefur umferðin hlotið að vera bæði
mikil og það um langan tíma.
6