Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1943, Síða 102
102
Úr vatninu rennur ós til sjávar, Vogsósaós. í Hlíðarvatni er all-
mikil silungsveiði, og eru það Hlíð og Stakkavík, sem eiga beztu
lagnirnar. Af brúninni sjáum við ekki til Herdísarvíkur, þar eð Stakka-
víkurfjall byrgir útsýn þangað. Ef við ætlum okkur heim á annan
hvorn víkurbæinn, förum við að feta okkur niður stíginn, sem liggur
í mörgum krókum og sveigum niður fjallið og heitir Selstígur. Frá
fjallinu er aðeins steinsnar heim að Stakkavík. Vestur að Herdísar-
vík er um þriggja stundarfjórðunga gangur frá Stakkavík. Hefur nú
verið lýst leið hinna svonefndu útbæja í Selvogi, og hverfum við nú
aftur norður undir ,,Skarð“, að vörðunum tveim, og förum þaðan
austustu leiðina, sem liggur til Vogsósa og Selvogshverfis.
Vegurinn til Selvogs liggur frá vörðunum austur milli hrauns og
hlíða. Er lág heiði með giljum og skorningum á vinstri hönd, en
hraunið á hægri, og nær það alveg upp að þessum heiðadrögum, og
er þessi kafli vegarins nefndur Grafningur. Þegar austur úr honum
kemur, er komið í Stóra-Leirdal, það er allstór sléttur grasdalur. I
Stóra-Leirdal var ófrávíkjanleg regla að æja, taka ofan af hestum,
ef undir áburði voru, hvort heldur var verið á austur- eða vesturleið.
Þarna tóku menn til nestis síns, bæði matar og drykkjar, ef eitthvað
var fljótandi í ferðinni, og var þá ekki ósjaldan, ef verið var að koma
úr kaupstað, stundum í misjöfnu veðri, þegar menn voru búnir að
hressa sig á mat, hver við sinn farangur, að menn færðu sig þá sam-
an, og einhver þá ef til vill með ábæti, aðallega af farangri farar^
stjórans, því að venjulega hafði einhver einn forystu í ferðinni. En
oftast var þetta þegjandi samkomulag, og sungu menn nokkur lög,
áður farið var að hafa saman hesta til áframhalds ferðinni. Söngur-
inn, ásamt yljandi hressingu, færði fjör og hita í menn, sem þeir svo
bjuggu að næsta áfanga.
Þegar lagt er upp úr Stóra-Leirdal, er strax farið upp allbrattan
háls, með nokkrum aðdraganda austur af. Er þetta Hvalskarð.
Suðvestur af Hvalskarði er Hvalhnjúkur, mjór og allhár, en frekar
þunnur. Ekki þætti mér ólíklegt, að nafnið sé dregið af lögun hnjúks-
ins, svo mjög minnir hann á bak stórhvelis að allri lögun. Annars
segir þjóðsagan, að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í
Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem
hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð
henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er
nefnt Hvalskarð og hnjúkurinn þar suður af Hvalhnjúkur, sem fyrr
er getið.
Þegar austur úr Hvalskarði er komið, taka við Hvalskarðsbrekkur