Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1970, Page 107
SUMARDAGURINN FYRSTl
111
jafnvel af eigin raun. Þessi munur sést oft í Eyjafirði og á Fljóts-
dalshéraði. Norður-Þingeyjarsýsla er eina samfellda svæðið, þar sem
menn kannast því nær ekki við þessa venju; eina jákvæða svarið
þaðan er á þá leið, að börn hafi stundum gert sér þetta að leik. Sker
Norður-Þingeyjarsýsla sig því nokkuð úr um þetta atriði sem sum
önnur. .
Önnur aðferð, sem sagnir eru um, að reynd væri, var sú, að menn
gengju berfættir umhverfis bæinn til að finna, hvort frost væri í
rót. Þessari sögu afneita í rauninni allir; enginn þekkir þetta af
eigin reynd og fæstir hafa heyrt þess getið. Þó telja tveir menn úr
Skagafirði sig hafa spurnir af þessu; jafnvel að menn veltu sér berir
í dögginni. Tvær heimildir enn, önnur úr Mýrdal, hin af Skeiðum,
láta svo sem húsfreyjur hafi átt að ganga þetta berfættar, en þekkja
engin dæmi þess. Loks kannast einn heimildarmaður undan Eyja-
fjöllum við það, að menn hafi gengið þrisvar réttsælis og þrisvar
rangsælis umhverfis bæinn til að vita, hverju þeir mættu. Væri það
velviljuð persóna eða hundur, vissi það á gott á sumrinu, en illt, væri
það hrösulmenni eða köttur. En ekki þurftu menn þá endilega að
ganga berfættir.
Hafi það einhverntíma verið tíðkanlegt, að menn gengju kring-
um bæinn, er óvíst að vita, hvort það var upphaflega í veðurfræði-
legum tilgangi eða einhvers konar töfrabragð. Hið síðara er öllu lík-
legra, þar sem óljósar sagnir eru um slíkt hringsól um bæinn fyrsta
dag annarra mánaða, þorra og góu, auk þess sem þetta minni er
algengt í þjóðsögum fornum og nýjum. En athugun á því væri efni
í aðra ritsmíð.
HVERJUM VAR DAGURINN HELGAÐUR?
1 almanaki Þjóðvinafélagsins og öðrum eftir því hefur fyrsti dag-
ur þorra lengi verið auknefndur bóndadagur og fyrsti dagur góu
konudagur. Það er þó ekki fyrr en 1927 sem þessi nöfn komast inn
í almanakið, og mun ástæðan vera munnmæli þau, sem getið er um
í þjóðsögum Jóns Árnasonar (II 551) og viðar, að húsbóndinn hafi
átt að fagna þorra með sérstökum hætti, en húsfreyjan góu. I sam-
ræmi við þetta hefur svo verið nokkuð ríkjandi skoðun, að yngis-
piltar ættu að heilsa einmánuði á svipaðan hátt og ungar stúlkur
hörpu, þ. e. á sumardaginn fyrsta. Það hefur hinsvegar komið í ljós
við eftirgrennslan, að þessi skoðun er engan veginn einhlít. Á vest-