Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1975, Page 54
58
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
öllu gengið, þá held ég, að þetta hafi varla verið verra en sumt
annað, sem umkomulitlu fólki var boðið í þá daga, en nægilega
vont til þess, að fólk reyndi af fremsta megni að halda sér vakandi,
sem komizt hafði einusinni eða oftar í kynni við þá. Trúi varla öðru
en eitthvað heyrist fleira um vökustaura frá gömlu fólki, því
þessi rejmsla mín var bara í gamni gerð og til að brosa að, en
sýnir jafnframt trú þeirra eldri á heimilinu og kannski reynslu
þeirra, t. d. ömmu, á því, hvernig þeir voru og til hvers. (ÞÞ
2789)
Sá skilningur, að vökustaur sé sama og augnklemma, er einnig
kunnur austan Möðrudalsöræfa og Þjórsár, þótt þar sé hann mun
blendnari. Þannig segir Helgi Gíslason úr Vopnafirði, f. 1897:
Ég man eftir þessu tilhaldi í mat, sem kallað var „vökustaur",
þegar ég var unglingur á fyrsta áratug aldarinnar, en mun eftir
það fljótlega lagt niður. Þetta tilhald var á fyrsta miðvikudag
í jólaföstu og alltaf á kvöldvökunni, þegar allir voru komnir inn
frá gegningunum. Þetta var í því fólgið, að kvöldmaturinn var
í meira lagi og eitthvað betra en hversdagslega líkt og á sprengi-
kvöldi daginn fyrir öskudag. Munnmæli þau, sem ég heyrði um
þennan „vökustaur", voru að þetta hefði verið gleðskapur eða
nokkurskonar verðlaun handa fólkinu, sem hafði keppzt við tó-
skapinn frá því um veturnætur og komið upp fyrsta vef vetrarins,
sem oftast var nærfatavefur. Hann þurfti að vefa á jólaföstunni,
þæfa og sauma „jólaflíkurnar", svo enginn færi í „jólaköttinn".
Og það virðist hafa verið talið svo mikilvægt, að enginn færi í
„jólaköttinn“, að notaðir voru „vökustaurar“ á augu manna til
þess að halda þeim vakandi við ullarvinnuna. Það ber öllum
sögnum saman um það, en óljóst er nú, hvernig þessum svefn-
spillum var komið fyrir í augum manna. Sumir kölluðu þetta
„augnstaura“, aðrir „augnlokaspelkur"......Eins og ég gat um
áður, hef ég engar heimildir um, hvernig þessum augnstaurum
eða vökustaurum var háttað um gerð og lögun eða úr hvaða efni
þeir voru. Þeir hlutu að vera þannig gerðir, að þeir gætu sem
minnst skaðað augað, þó þeir yllu óþægindum, sem héldu mönnum
vakandi. Ég gizka á, að ef til vill hafi þetta verið tréstaurar
íbognir, hæfilega langir með sýlingu á báðum endum fyrir augn-
lokið og neðrihvarminn, og þannig hafi augnlokinu verið ýtt upp
undir augabrúnina kinnarmegin við sjáaldrið. Augað er viðkvæmt
og beygja hlaut að vera á staurnum, svo hann kæmi ekki við augað.