Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1975, Síða 99
BLÁSTURSJÁRN FRÁ MYNESI
Þórarinn Þórarinsson fyrrverandi skólastjóri á Eiðum hefur
skrifað merkilega og mjög fróðlega grein um járngerð íslendinga
fyrr á tímum og áhrif hennar á skógana í landinu. „Þjóðin lifði en
skógurinn dó“, heitir greinin og birtist í Ársriti Skógræktarfélags
Islands 1974. Hún vekur til umhugsunar um hina fornu iðju sem
eitt sinn var eins sjálfsögð á hverjum bæ og hver önnur störf bóndans
á ársins hring, þótt einhverjum kunni að koma slíkt ókunnuglega
fyrir sjónir, svo fjarlægt sem það er orðið nútímamönnum. Þór-
arinn segir að Einar bóndi Jónsson í Kollsvík á Rauðasandi hafi
unnið járn úr mýrarrauða á fyrri hluta 19. aldar. Vel má það vera,
en hitt er þó augljóst að rauðablástur hefur lagst af miklu fyrr hjá
öllum þorra manna og líkast til á 15. og 16. öld. Einn og einn maður
hefur þraukað eitthvað við þessa fornu iðju, kannski fram á 17.
öld, en sannleikurinn er sá að haldgóðar heimildir brestur um alla
nákvæmni í þessu efni. Hitt er aftur á móti víst að fornmenn og
miðaldamenn hafa verið ódeigir við rauðablásturinn, og um það
eru fornleifafundir ólygið vitni. Heita má nokkuð óbrigðult að hvar
sem jörð er særð, þar sem menn hafa búið, komi í ljós einhverjar
minjar um rauðablástur, gjall, rauði, jafnvel blástursjárn. Slíkum
fundum er nú haldið til haga í Þjóðminjasafninu eins og sjálf-
sagt er.
Einar Björnsson bóndi í Mýnesi í Eiðahreppi í Suðurmúlasýslu
færði mér í Þjóðminjasafnið merkilegan grip hinn 29. apríl 1965.
Aftur kom hann til mín í maí 1974 og sagði mér nánar frá fundar-
atvikum. Gripurinn er íslenskt blástursjárn, eins og það kom úr
rauðablæstrinum, eitt af fáum slíkum stykkjum sem fundist hafa
hér á landi.
Einari segist svo frá að hús hafi verið byggt í Mýnesi 1906, og
var það áður en fjölskylda hans fluttist að Mýnesi en það var ekki
fyrr en 1921. Húsið var byggt um 5 m vestur frá gamla bænum.