Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1975, Blaðsíða 140
144
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
frá söguöld, veggjahlutar með öskulaginu sem fallið hefur snemma
á landnámsöld, „landnámslaginu" svonefnda. Ekki hafa enn fundist
minjar svipaðar þeim sem komu í ljós 1944 er grafið var fyrir húsinu
Tjarnargötu 3, sem er hér rétt hjá, en þá komu fram skýrar bygginga-
leifar með eldstæði, svo og öskuhaugur með miklum dýra- og fugla-
beinum og ýmsum forngripum.
Gísli Gestsson safnvörður hélt áfram rannsóknum í Álftaveri og
var rannsakaður meginhluti bæjarins, hús aftan við bæjargöngin
og skemma í bæjarröðinni. Bærinn hefur verið gríðarstór og vand-
aður að gerð, hleðslur eru vel varðveittar og stétt með framhlið afar
vönduð. Greinilegt er að þessi bær hefur verið reistur á rústum
annars eldri, en ógerlegt er að grafa dýpra niður og kanna eldri
byggingarstig vegna jarðvatns sem er mjög ofarlega nú á þessum
stað. — Þessi bær er greinilega frá miðöldum en ekki hefur tekist
að tímasetja hann með neinni nákvæmni enn.
1 Kópavogi hélt Guðrún Sveinbjarnardóttir fornfræðinemi áfram
rannsókn gamla þingstaðarins. Þar kom tótt þinghússins, sem staðið
hefur þar á síðasta tíma þinghaldsins, allvel í ljós, svo og aðrar
byggingaleifar sem þó er erfitt að henda reiður á.
Um haustið var unnið að vegagerð hjá Hegranesþingstað í Skaga-
firði, en verið er að leggja nýjan þjóðveg yfir Hegranes og kemur
hann upp á nesið rétt norðan við þingstaðinn. Þarna er erfitt um
vegarstæði, en reynt var með góðri samvinnu við vegagerðina að
halda veginum eins fjarri þingstaðnum og unnt var. Þó fór svo,
að ýtt var við mannvirki skammt norðan aðalrústanna, sem reyndist
við rannsókn Guðmundar Ólafssonar fornfræðinema vera búðarrúst.
Guðmundur gat ekki lokið rannsókninni vegna óveðurs, en í leiðinni
fór hann einnig norður í Vaglaskóg og kannaði beinafund, sem fram
kom við vegagerð í skóginum. Nokkur mannabein fundust í vegar-
ruðningi, en sjálft kumlstæðið fannst ekki þrátt fyrir ítarlega leit
og er að líkindum undir veginum sjálfum. Engir hlutir aðrir en beinin
fundust þarna.
Ferðir safnmanna.
Ferðir vegna rannsókna eða eftirlits voru með svipuðu sniði og
áður, en um hinar styttri ferðir, sem farnar eru reglulega á sömu
staði, er ekki ástæða til að fjölyrða sérstaklega.
1 ferð sinni til Kaupmannahafnar, þar sem þjóðminjavörður sótti
fund um framhaldsnámskeið fyrir konservatora, fór hann með altaris-