Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1978, Page 54
vegar. Fundirnir hafa verið haldnir til skiptis hjá aðildar-
samböndunum. I sambandi við fundina hafa farið fram
kvöldvökur, sem heimakonur hafa boðið til. Hefir þar oft
verið fjölmenni, enda hafa þessar samkomur verið með mikl-
um menningarbrag og margt verið þar til fróðleiks og
skemmtunar. Þá hefur oft komið fyrir að ýmsir heimaaðilar
hafa boðið fundarkonum til veislu, og hafa það verið hin
ánægjulegustu samkvæmi.
Hér hefur verið stiklað á stóru um starfsemi Sambands norð-
lenskra kvenna, en þó er ótalinn sá þáttur hennar, sem ég tel
ekki síst mikilsverðan. Þá er átt við þá kynningu, sem starf-
semin hefur skapað með konum á Norðurlandi. Á fundunum
hittast formenn og fulltrúar frá öllum héraðasamböndunum
og auk þess alltaf hópur af heimakonum af fundarstaðnum
eða úr nágrenni hans. Þá ber oft margt á góma, og eru rædd
ýmis vandamál Norðlendinga. Konurnar segja hver annarri
frá mörgu sem þær hafa á prjónunum hver heima í sínu
héraði og læra hver af reynslu annarrar, auk þess að þær fá
tækifæri til að vinna sameiginlega að ýmsum málum til heilla
og hamingju lands og lýðs.
Stjórn Sambands norðlenskra kvenna er nú þannig skipuð:
Elín Aradóttir Brún formaður, Guðbjörg Bjarnadóttir Akur-
eyri gjaldkeri og Sigríður Hafstað Tjörn ritari.
56