Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1978, Blaðsíða 76
SIGURÐUR JÓSEFSSON:
ÞAR LÁGU SMALADRENGSINS
LÉTTU SPOR
(Ovísindalegt skrif um lítið efni)
Fjallgarðurinn milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar — frá
Siglunesi og allt þar til hann sameinast aðalhálendinu — er
tvímælalaust stórbrotnastur þeirra fjallgarða, sem teygja sig
frá miðhálendinu og setja ramma um einstök byggðalög. Gera
þau um leið sjálfstæðari einingar innan þjóðfélagsins og hafa
ásamt stórfljótum takmarkað ferðir milli svæða, þannig að
ýmis mannleg einkenni hafa víða staðbundist og vara enn, þó
að nútímasamgöngur muni smátt og smátt afmá slik ein-
kenni.
Þrír eru þeir meginþættir sem helst vekja forvitni manna,
þegar ákveðið landsvæði er á dagskrá: Landið, náttúran sjálf —
með sínum töfrum og sérkennum — og sagan, ef steinarnir
mættu tala. Síðast má nefna nytsemina.
Það sem hér verður tekið til meðferðar, er afmarkað svæði í
nefndum fjallgarði.
Sennilega má slá því föstu, að dalir þeir, sem skerast frá
austri og vestri inn í þennan mikla fjallgarð eða fjallaklasa,
séu óteljandi, líkt og sagt er um vötnin á Arnarvatnsheiði o.fl.
Þó mun að sjálfsögðu vera hægt að telja þetta eins og hver
önnur sýnileg og áþreifanleg fyrirbæri, en það er stundum
erfiðara að meta, hvað er dalur og hvað er t.d. drag, gil eða
fjallaskarð. Þungt á metunum er vatnsmagn það, sem dældin
skilar. Þó mun oft hafa ráðið úrslitum, hvað þeim þóknaðist,
78