Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1985, Page 7
þessi heilbrigðisskoðun eftir að hafa fengið tilsögn hjá Sigurði.
Þar gekk þó á ýmsu því héraðslæknar voru oft bundnir við
önnur störf.
Eins og áður er getið fór orð af Sigurði fyrir dugnað, kapp
og ósérhlifni við störf og löng ferðalög sem oft reyndu á þol-
rifin. Sem dæmi um þol hans og einbeitni er sögð eftirfarandi
saga: Skagfirðingar komu eitt sinn til Sigurðar og óskuðu eftir
að hann kæmi vestur í Skagafjörð í geldingarferð, þeir myndu
smala óvönuðum folum saman tiltekinn dag. Samið var um
verð, kr. 5,00 á hvern fola. Sigurður reið svo vestur og var
kominn þangað á tilteknum tíma. Höfðu Skagfirðingar þá
smalað saman mun fleiri folum en ráð var fyrir gert og vildu
nú fá afslátt á umsömdu verði, þar sem folarnir voru fleiri en
áætlað var. Eftir nokkuð þjark gaf Sigurður kost á því að vana
folana fyrir kr. 3,50 hvern að því tilskyldu að Skagfirðingar
tækju að sér að handsama folana, binda þá og svæfa, svo að
aldrei stæði á; en Sigurður framkvæmdi sjálfa aðgerðina. Var
nú tekið til starfa og hvergi dregið af sér. Gengu hvatningar-
og frýjunarorð á víxl og var unnið í einni lotu uns lokið var
aðgerð á öllum folunum eða í nærri þrjú dægur. Þá höfðu 243
folar verið vanaðir, og mun slík þolraun einsdæmi við það
verk.
Sigurður var ritfær í besta lagi og eftir hann liggja margar
greinar um búfjársjúkdóma og ýmis önnur efni. Árið 1915 gaf
hann út bók er nefnist „Helstu alidýrasjúkdómar á Islandi“
og árið 1937 bókina „Sauðfé og sauðfjársjúkdómar á íslandi“.
Að baki þessara bóka liggur mikil vinna þar sem um frum-
smíð á þessu sviði var að ræða og þó að sumt sé þar nú úrelt
orðið, vegna nýrrar þekkingar, geyma þær þýðingarmiklar
heimildir, frásögnin er skipuleg og lýsingar allar mjög skýrar
og myndrænar.
En Sigurður var ekki við eina fjölina felldur að því er
ritstörf varðaði. Hann hóf að gefa út „Dagblaðið“ á Akureyri
1914, einkum til að bera bæjarbúum áreiðanlegar fréttir, en
þá geisaði fyrri heimstyrjöldin og fréttir bárust seint og
stundum úr lagi færðar og ollu oft ótta og kvíða. Dagblaðið
átti sér þó ekki langa lífdaga. En árið 1915 hóf Sigurður
9