Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1985, Blaðsíða 9
mörg þeirra náð miklum og góðum þroska. Má þar t.d. nefna
Leikfélag Akureyrar, Hestamannafélagið Léttir, Taflfélag
Akureyrar, Stúdentafélag Akureyrar o.fl. Hvar sem Sigurður
tók til hendi í félagsmálum fylgdi honum hressilegur blær,
kraftur og glaðværð og honum veittist alltaf létt að laða fólk
til samstarfs og átaka.
Sigurður var þingmaður Akureyringa f 937-49 og sat á 17
þingum alls, en gaf ekki kost á sér til frekari þingsetu árið 1949
enda heilsan ekki söm og áður, og hann fluttur frá Akureyri. A
löngum stjórnmálaferli fylgdi Sigurður Sjálfstæðisflokknum,
en þótti stundum fara eigin götur á þeim vettvangi.
Sigurði var annt um félagsmál dýralækna, gekkst fyrir
stofnun Dýralæknafélags Islands og varð formaður þess í
byrjun.
Árið 1943 var Sigurður skipaður yfirdýralæknir og flutti þá
frá Akureyri til Reykjavíkur. Gegndi hann því embætti til
sjötugs, en hélt þó áfram störfum uns hann lagðist á spítala og
átti þá skammt eftir ólifað. Má því segja að hann hafi staðið
og starfað meðan stætt var.
Sigurður var kvæntur Guðrúnu Louise Guðbrandsdóttur,
Teitssonar fyrsta dýralæknis á Islandi. Hún var listhneigð
kona og spaugsöm, viðmótsþýð og gestrisin og hafði fágætt
lag á því að koma þeim í gott skap, sem voru í návist hennar.
Á gullbrúðkaupsdegi þeirra hjóna ræddu þau við blaðamann
og komust svo að orði um 50 ára sambúð sína að „allt hefði
verið ein samhangandi sæla“. Betur að fleiri hefðu sömu sögu
að segja. Þeim hjónum varð fimm barna auðið, tveir synir
þeirra eru enn á lífi, Guðbrandur dýralæknir búsettur í Sví-
þjóð og Jóhann prestur búsettur á Spáni. Látin eru Brynja,
Gunnar og Skjöldur.
Sigurður andaðist 18. desember 1962 eftir stutta sjúk-
dómslegu. Sigurður var lengst af heilsuhraustur, ósérhlífinn
og starfsfús, og áhuginn jafnan brennandi á þeim verkefnum,
sem hann tók að sér. Það tel ég fyrst og fremst skýringuna á
því hve miklu hann kom í verk á svo mörgum ólíkum sviðum.
Samt virtist hann aldrei eiga sérstaklega annríkt, tók oft í spil
og tafl þegar svo bar undir, var ötull sportveiðimaður, hafði
11