Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1985, Blaðsíða 98
HELGI HALLGRÍMSSON:
UM SORTU OG SORTULITUN
INNGANGUR
A æskuheimili mínu, Arnheiðarstöðum i Fljótsdal, er einn
staður, sem mér fannst dálítið dularfullur og beggja blands.
Það er kvos nokkur eða botn í hliðinni utan og ofan við bæinn,
sem Sortudalur kallast.
Líklega hefur það verið nafnið sem olli þessu viðhorfi mínu,
því þetta er vinalegur botn, með rennisléttri votlendisgrund,
Sortudalsgrund, sem stundum var slegin með sláttuvél. Grundin
er mynduð af smálækjum er falla ofan í botninn, þeir eru
rauðlitaðir af járnefnum, enda heitir einn þeirra Rauðilœkur og
kemur úr Rauðabotm, ofar í fjallinu.
Þarna er að vísu nokkuð skuggsælt seinni part dags, því að
botninn vísar til suðausturs, en varla gat það verið ástæðan
fyrir nafni hans, og þessvegna fannst mér það dularfullt.
Það var svo ekki fyrr en ég fór að skoða örnefni í Eyjafirði,
og víðar á Norður- og Austurlandi, að ég rakst aftur á sortu-
örnefni, og gerði mér grein fyrir samhengi þeirra við sortulyng
og sortulit.
Sorta er semsagt svört leðja, sem tekin var í mýrum eða
fenjum, (mýrapyttum) og notuð til litunar, ásamt sortulyngi.
Vanalega var litað fyrst úr lynginu, sem gaf dökkbrúnan lit,
en síðan úr sortunni og gátu ullarefni þá fengið ekta svartan
lit, ef vel tókst til.