Árbók Landsbókasafns Íslands - 01.01.1972, Blaðsíða 151
CLARENDON PRESS OG KENNETH SISAM
151
stofnunarinnar væru í hans höndum, en Chapman sá um þau mál, er beinlínis vörð-
uöu háskólann í heild. Aðalforstjóri (Secretary) varð hann formlega 1942, er dr.
Chapman lét af starfi, en baðst lausnar 1948, er hann varð sextugur, og tók ekki í mál
að sitja lengur í embættinu. Flutti hann þá til Scilly-eyja, þar sem hann hafði reist
sér lítið, en hagkvæmt hús, og þar vann hann að fræðimennsku til æviloka. Hann
missti konu sína tíu árum síðar, og upp frá því mun dóttir þeirra, Celia, hafa verið
meginstoð hans, enda þótt hún sé kennari við St. Hilda’s College í Oxford. Við emb-
ætti hans hjá Clarendon Press tók Sir Arthur Norrington, en sleppti því sex árum
síðar til þess að gerast rektor (Master) Trinity College í Oxford. Eftirmaður hans í
embættinu er Colin H. Roberts, stórlærður maður. En nú er það orðið svo umsvifa-
mikið, að ærið starf er þrem mönnum að anna því. Þeir eru: Secretary, Deputy Secre-
tary (D. M. Davin, sem mjög hefir stutt að samningu þessarar greinar) og Assistant
Secretary (Peter Spicer).
Örskömmu áður en Kenneth Sisam lézt, kom út sýnisbók, er nefnist The Oxford
Book of Medieval English Verse. Höfðu þau sameiginlega tekið hana saman feðginin,
hann og Celia dóttir hans. Sú bók hefur hlotið einróma og óskorað hrós ritdómara.
Æðsti lærdómstitill, sem Sisam hafði, var D. Litt. Hann var maður, sem sóttist
ekki eftir vegtyllum eða virðingarmerkjum, og mundi hitt nær sanni, að af slíku tagi
tæki hann við því einu, er liann varð að taka við til þess að særa ekki. Og þegar hann
var orðinn framkvæmdastjóri Clarendon Press, gilti það einu, hve mikið höfundur
einhverrar forlagsbókar átti honum að þakka tilorðningu bókarinnar, beint eða
óbeint: aldrei mátti nokkurt þakkarorð til hans sjást í formála hennar. En þessi stór-
vaxni og stórbrotni maður var tilfinninganæmari en ókunna mundi hafa grunað, því
að hann varðveitti ævilangt barnshjartað í brjósti sér. Minnisstæður hlaut hann að
verða hverjum þeim, er eitthvað kynntist honum; svo var persónuleikinn mikill og
svo var mál hans ávallt innihaldsríkt. En þeim sem þetta ritar verður hann hugstæð-
astur fyrir vinfestina og hjartahlýjuna. Þeir hljóta að vera fleiri, sem segja mundu
hið sama.
Ekki var það fyrir árvekni íslenzkra lærdómsmanna, að Kenneth Sisam var sæmdur
Fálkaorðunni árið 1927. Það var verk Ásgeirs Sigurðssonar. Og Ásgeir mælti þá
eitthvað á þessa leið: „Það er ekki aðeins, að hann sjálfur hafi verðleikana, heldur
erum við líka með þessu að minnast þeirrar þakkarskuldar, er við höfum svo lengi
staðið í við Clarendon Press. Og við eigum ávallt að ástunda að halda vináttu Clar-
endon Press.“ Þarna talaði maður, sem vissi hvað hann var að segja og hafði líka
með nokkrum hætti snemma ævinnar haft óbein kynni af Clarendon Press, því að
hann kynntist Guðbrandi Vigfússyni á uppvaxtarárum sínum hjá Jóni A. Hjaltalín.
Kom Guðbrandur í reglubundnar heimsóknir til Jóns í Edinborg og dvaldi þá hjá
honum ekki skemur en vikutíma í senn.
I ljósi þess, er þegar var sagt af Kenneth Sisam, mætti það virðast kynlegt, en er
þó staðreynd, að honum þótti vænt um þenna viðurkenningarvott af hálfu Islands;
um það ber þeim mönnum saman, er nánust kynni höfðu af honum. Og enn í dag,