Morgunblaðið - 17.06.2001, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 17.06.2001, Blaðsíða 24
24 SUNNUDAGUR 17. JÚNÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ EINS og aðrir námsmenn í Kaup-mannahöfn var Jón Sigurðssonskyldaður til að stunda heræfingará sumrin og marsera um göturborgarinnar klæddur herbúningi, vopnaður byssu og sverði. Að námi loknu gekk hann hins vegar um götur búinn bestu klæð- um sem fengust svo að mark yrði á honum tekið. Og það tókst svo sannarlega, Jón var þekktur og virtur fræðimaður í Danmörku,“ segir Guðjón Friðriksson sagnfræðingur. Hann hefur dvalið í Kaupmannahöfn í rúmt hálft ár þar sem hann undirbýr ritun ævisögu sjálfstæðishetjunnar Jóns Sigurðssonar, sem bjó lengst ævinnar í borginni við sundið. Guðjón segist stefna að því að draga upp mynd af manninum Jóni, rita persónusögu fremur en stjórnmálasögu. Hann hófst handa á Íslandi sl. haust en frá 1. desember hefur hann dvalið í Kaupmannahöfn, setið löngum stundum á ríkisskjalasafninu og konunglega bókasafninu, auk þess sem hann kveðst vera eins og grár köttur á fornbókasölum. „Hér í Kaupmannahöfn reyni ég fyrst og fremst að setja mig inn í samtíma Jóns, það umhverfi sem hann lifði og hrærðist í, auk þess sem ég kortlegg neysluumhverfi hans,“ segir Guðjón og brosir. Honum er þó full alvara, Jón var mikill hirðumaður á kvittanir og reikninga og er hægt að gera sér í hugarlund hverju hann klæddist og hvað hann las út frá þeim. „Þessar nákvæmu heimildir um innkaup Jóns gefa til- efni til að sviðsetja eitt og annað sem er óneit- anlega áhugavert. Við ritun sögu sem þess- arar er ekki annað hægt, það eru ekki til heimildir um allt og haldi ævisöguritarinn sig aðeins við það sem er skjalfest og víki aldrei frá, lifnar sagan ekki. Ég gæti þess hins vegar að brjóta aldrei í bága við heimildirnar.“ Samband sveipað hulu Guðjón segir ákveðna þætti lífs Jóns sveip- aða hulu, einkum samband hans og eiginkon- unnar Ingibjargar. Þrátt fyrir hirðusemi Jóns varðandi skjöl eru ekki til nein bréf sem þeim fóru á milli þau tólf ár, sem hún sat í festum á Íslandi. Segir Guðjón líklegast að Jón sjálfur, eða honum nákomnir, hafi ákveðið að eyða bréfunum. „Samband þeirra hjóna vekur auðvitað um- hugsun, þau voru náskyld, bræðrabörn, og hún var sjö árum eldri en hann. Jón var 22ja ára er hann hélt utan og þegar hún loksins fluttist til hans til Danmerkur var hún um fer- tugt. Þau sáust aldrei þann tíma sem hún sat í festum. Jón vildi ekki að Ingibjörg kæmi út þar sem hann hafði ekki fasta stöðu. Þrátt fyr- ir að tekjur hans væru að jafnaði ágætar, voru þær ótryggar og hann vildi ekki flana að neinu ef þær brygðust. Hann hafði þó að jafnaði fé á milli handanna, af kvittunum að dæma keypti hann óhemju magn bóka, auk þess sem hann var boðinn og búinn að kaupa bækur og fatnað fyrir fólk á Íslandi og senda. Það er í raun ill- skiljanlegt hvernig honum tókst að láta enda ná saman. En vegna hin fjárhagslega óöryggis dróst það að Ingibjörg flytti til hans og af bréfaskriftum annarra má ráða að hún var orðin örvingluð er langt var liðið á dvöl Jóns, ekki síst eftir að hann veiktist alvarlega.“ „Hinn fagri Sívertsen“ Ekki er vitað með vissu hvað amaði að Jóni, en af tveimur bréfum sem hann skrifaði vinum sínum segir Guðjón ljóslega mega ráða, að hann hafi verið með sýfilis eins og áður hefur verið sett fram. Hann eigi þó eftir að fá lækna til að kynna sér lýs- ingar Jóns á veikindunum og meðferðinni, en kvikasilfur var á meðal þess sem notað var við sjúkdómnum og nefnir Jón það. „Rétt er að taka það fram að hafi Jón verið með sýfilis þarf það ekki að vera til marks um laus- læti, sjúkdómurinn var mjög út- breiddur á þessum tíma, og smit- aðist m.a. á útikömrum og jafnvel með sængurfatnaði þegar fólk deildi rúmi. Þrengslin í Kaup- mannahöfn á þessum tíma voru yfirgengileg, hreinlæti af skorn- um skammti og þetta var áður en menn uppgötvuðu heim bakterí- unnar, smit og annað þess hátt- ar.“ Guðjón segir þó ljóst að Jón hafi notið kvenhylli. Páll Melsted, herbergisfélagi Jóns, segir hann hafa verið kallaðan „Den smukke Sivertsen“ (hinn fagri Sívertsen). Páll og Jón deildu herbergi í Klausturstræti, herbergi sem þeir leigðu af ekkju sem átti fimm dætur, allar á milli tvítugs og þrí- tugs þegar Íslendingarnir bjuggu þar. Segir Guðjón ljóst að þeir hafi verið í miklum kvennafans og ef til vill hafi Páll verið að vísa til þessa er hann talaði um kvenhylli Jóns. Haft var eftir Páli að Jón hafi verið afar samviskusamur og kæmi það fyrir að þeir Jón færu í kvöldheimsókn til Finns Jónssonar leyndarráðs, sem bjó handan götunnar, hélt Jón áfram að vinna þegar heim var komið til að vinna upp þann tíma sem hafði glatast. „Jónskan“ Guðjón segir mikið til af lýsingum af Jóni í bréfaskriftum, bæði fylgismanna og andstæð- inga hans. Einn þeirra síðarnefndu var Gísli Brynjólfsson, dósent, sem var náinn vinur Jóns, en pólitískar deilur þeirra ollu vinslitum. Stóð Gísli í bréfaskriftum við pólitíska and- stæðinga Jóns, þar sem m.a. var mikið kvartað undan svokallaðri „Jónsku“; aðdáun á Jóni Sigurðssyni. Jón hafi nánast verið dýrkaður á Íslandi eft- ir að útgáfa Nýrra félagsrita hófst. Þau hafi verið lesin upp til agna í sveitum og orðið til að vekja fjölda fólks til umhugsunar, auk þess sem þau lögðu grunninn að hinu mikla per- sónufylgi Jóns. Þá var mikið til af ljósmyndum af Jóni, ekki síst ef haft er í huga að þær voru teknar á fyrstu árum ljósmyndunar. Guðjón segir Jón greinilega hafa gert sér grein fyrir áhrifa- mætti myndanna og sé afar föðurlegur á þeim. Myndir af Jóni fóru víða og voru í mörgum til- fellum fyrstu ljósmyndirnar sem fólk eignað- ist. Skrif hans og myndirnar urðu til að auka hylli hans og hann var þekktur um allt land, þótt hann ferðaðist ekki mikið um Ísland og kæmi aldrei til sumra landshluta. „Sumir kvörtuðu undan þessu, til dæmis nafni hans, Jón Sigurðsson frá Gautlöndum, sem sagðist ekki geta hreyft andmælum við nafna sinn þar kjósendur hans dáðust svo mjög að honum.“ Einþykkur en heillandi Helstu kosti Jóns telur Guðjón vera gáfur hans, persónutöfra og skilning á því hvernig virkja ætti fólk í sjálfstæðisbaráttunni. Hann opnaði heimili sitt vikulega fyrir íslenskum námsmönnum og hafði gríðarleg áhrif á þá. Af lýsingum að dæma var hann hrókur alls fagn- aðar og manna skemmtilegastur á samkomum Íslendinga. Veikustu hlið Jóns segir Guðjón vera ráðríki hans. Hann hafi átt afar bágt með að þola að einhver mótmælti honum og verið einþykkur. „Til marks um það má nefna, að Jón vildi að fram færu skuldaskil Íslands og Danmerkur og var hann búinn að reikna út skuldir Dana við Íslendinga langt aftur í aldir. Margir reyndu að leggja þessa kröfu til hliðar og vildu þess í stað einbeita sér að því að ná því fram raunhæfari kröfum. Jón mátti hins vegar ekki heyra á það minnst. Þótt honum sé fyrst og fremst að þakka að hreyfing komst á sjálf- stæðisbaráttu Íslendinga, virðist einþykkni hans hafa dregið baráttuna á langinn.“ Óvenjulegur uppreisnarmaður Í Kaupmannahöfn hefur Guðjón ekki síst kynnt sér samtíma Jóns og þá miklu gerjun, sem átti sér stað í dönskum stjórnmálum þessa tíma. Hún hafi haft gríðarleg áhrif á Jón á námsárum hans. „Jón var engu að síður óvenjuleg uppreisnarhetja. Hann lenti aldrei í fangelsi, var ekki sektaður eða settur í ritbann eins og margir danskir samtíðarmenn hans. Hann naut virðingar í Kaupmannahöfn, var eftirsóttur til handrita- og sögurannsókna og ljóst er að velunnarar hans við Kaupmanna- hafnarháskóla héldu verndarhendi yfir hon- um, þegar reynt var að svipta hann styrkjum eftir Þjóðfundinn.“ Kaupmannahöfn á þessum tíma var um 150.000 manna borg á ótrúlega litlu svæði. Fram til 1850 var hún innan borgarmúra sem brautarstöðvarnar Österport, Vesterport og Nörreport mörkuðu. Þrengslin voru því gíf- urleg og ljóst að á svo litlu svæði vöktu menn á borð við Jón athygli. Guðjón segir Jón hafa lagt mikið upp úr klæðaburði, keypt allt það dýrasta sem völ var á og borðað á dýrustu veitingastöðum. Hann hafi vakið athygli og notið virðingar, sem kom- ið hafi skýrast í ljós við andlát hans, en því var slegið upp á forsíðum blaða. Hetjan í nýju ljósi Guðjón segist ekki enn hafa rekist á neinar þær heimildir, sem hafi gjörbylt hugmyndum hans um Jón. „Mér fannst einfaldlega kominn tími til að skrifað yrði um persónuna Jón. Hann hefur hingað til verið settur á stall, en mér finnst nauðsynlegt að dregin verði upp raunsannari mynd af Jóni til að endurvekja áhuga fólks á honum. Þetta virðist vera raunin hvað varðar mestu hetjur hvers lands, hvort sem þær heita George Washington eða Jó- hanna af Örk. Hver kynslóð verður að fá að draga upp nýja mynd af hetjum sínum, skilja þær út frá eigin forsendum.“ Guðjón segir of snemmt að segja til um um- fang verksins um Jón Sigurðsson. Sl. tíu ár hafa farið meira og minna í ævisagnaritun, fyrst sögu Jónasar frá Hriflu og svo Einars Benediktssonar. „Þegar verkinu um Jón lýkur held ég að nóg sé komið í bili, mig er farið að langa til að snúa mér að öðrum skrifum.“ Morgunblaðið/UG Jón Sigurðsson leigði í tvö ár í Klausturstræti, sem liggur út frá göngugötunni Strikinu. Ævi- sagnaritari Jóns, Guðjón Friðriksson, hefur m.a. rölt um strætið þar sem hús númer 22, áður 91, stendur enn. Eftirkomendur ekkjunnar og dætranna fimm, sem þar voru þegar Jón leigði í húsinu, eru hins vegar á bak og burt. Raunsönn mynd af sjálfstæðishetjunni Guðjón Friðriksson sagnfræð- ingur ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Sl. hálft ár hefur hann dvalið í Kaup- mannahöfn þar sem hann vinnur að ævisögu sjálfstæð- ishetju Íslendinga, Jóns Sig- urðssonar. Guðjón sagði Urði Gunnarsdóttur frá mann- inum Jóni. Styttan af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.