Morgunblaðið - 08.07.2001, Blaðsíða 25
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 8. JÚLÍ 2001 25
„Ófrjósemi lands vors“ „vér hér
dæmdir til að búa við eymd“
Aðalskilyrðið fyrir, að þetta geti
tekizt, er að duglegir og reglusamir
menn gætu fengizt í félag þetta.
Vér erum engu síður en aðrar þjóð-
ir, búnir þeim kostum, er þurfa til
að ná velmegun, en ófrjósemi lands
vors hefir gjört það að verkum að
vér hér erum dæmdir til að búa við
þá eymd, sem vér allt til þessa höf-
um ekki getað hafið oss upp úr.
Þeir af oss, sem hingað til hafa far-
ið til annara landa, hafa sýnt, að
þeir í engu hafa staðið þeim á baki
sem þeir hafa haft kynni af.
Þá, sem vilja ganga í þetta félag,
biðjum við að láta annanhvorn af
okkur undirskrifuðum vita það fyr-
ir miðjan ágúst næstkomandi.
Eyrarbakka, 19. apríl 1869
Eggert Sigfússon. Jón Gísla-
son.
Ef Fjallkonan hefði átt sér lög-
lærðan málsvara hefði sá hinn sami
fengið þá félaga dæmda fyrir róg
og illmælgi og aukið við fésektum
fyrir það áform að ætla að svipta
ættjörð sína sem flestum verkfær-
um mönnum.
Brigslyrðin um að lærðir búfræð-
ingar hafi látið plóga sína ryðga og
kært sig kollótta um afrakstur bú-
anna eru í hæsta máta ósanngjörn
að því er varðar ýmsa þá brautryðj-
endur sem unnu stórvirki í jarð-
rækt á eigin jörðum og með
kennslu. Má þar nefna Jón Kjær-
nested, Þorstein Þorsteinsson í Út-
hlíð, Jón Espólín Hákonarson, Guð-
mund Ólafsson o.fl. Það var
áhugaleysi landsmanna margra
sem ekki sinntu framréttri hönd
konunglega danska landbúnaðar-
félagsins, sem bauð margvíslega
aðstoð. Þegar hugað er að þeim
sem studdu við bakið á þeim sem
skoruðu á landsmenn að yfirgefa
ættjörðina kemur í ljós að í þeim
hópi eru ýmsir sem teljast til mátt-
arstólpa þjóðfélagsins.
Sem dæmi um gróðurmátt ís-
lenskrar moldar ef frá eru talin
harðindaár má nefna að þjóðkunnar
systur úr Landakoti í Reykjavík,
dætur Margrétar Andreu Knudsen
og Lars Mikales faktors, Kirstín
kona Þórðar Sveinbjörnssonar
dómstjóra og Guðrún, kona Péturs
Guðjohnsens fengu báðar heiðurs-
verðlaun og gjafir fyrir frærækt og
garðávexti.
Sem dæmi um ættlægan garð-
ræktaráhuga Kundsenssystra og
afkomenda þeirra má nefna að Eu-
femía Waage, dóttir Indriða Ein-
arssonar lætur þess getið að Lárus
Sveinbjörnsson, bæjarfógeti í
Reykjavík, sem sjálfur var áhuga-
maður um garðrækt hafi jafnan
spurt Guðrúnu frænku sína:
„Hvernig er sprottið hjá þér, tanta
mín?“
Lárus Sveinbjörnsson verður
tengdasonur Guðmundar Thor-
grimsens, faktors á Eyrarbakka,
skömmu áður en ávarp Eyrbekk-
inganna um ókosti Íslands er ritað.
Sjálfur hafði Lárus Edvarð reikað
um í kartöflugarði móður sinnar og
kjörföður ásamt hálfbróður sínum
Sveinbirni, síðar höfundi þjóð-
söngsins og hjálpað til við val á út-
sæðiskartöflum er sendar voru til
Jónasar Collins etasráðs með
skonnortunni „Reykjavík“ á dögum
kartöflusýkinnar. Ísland var þá
vegna einangrunar sinnar og fjar-
lægðar kjörið land til útsæðisrækt-
unar.
Í þriggja binda stórvirki Þor-
steins Þ. Þorsteinssonar „Sögu Ís-
lendinga í Vesturheimi“ er mikinn
fróðleik að finna. Þar segir m.a. frá
„hvernig Íslendingum eru að opn-
ast leiðirnar að gjafjörðum, gulli og
grænum skógum Vesturheims“. Í
kafla Þorsteins sem nefnist „Upp-
haf aðal vesturfara“ segir frá Willi-
am Wickmann sem verið hafði
verslunarþjónn á Eyrarbakka. Þar
var hann í þjónustu Lefolis, en
hafði áður starfað í Reykjavík og
Hafnarfirði. Um haustið 1865 fór
hann af Íslandi og hélt til ættingja
sinna í Milwaukeeborg í Wiscons-
inríki. Í bréfum er hann skrifaði
Guðmundi Thorgrimsen fyrrum
húsbónda sínum lét hann vel af
stöðu sinni í hinum nýja heimi.
Hrósaði mjög landkostum og áleit
meðal annars að fiskurinn í Michig-
anvatninu væri stór og óþrjótandi
gullkista og að Íslendingar mundu
hafa sama rétt og aðrir, að seilast
ofaní kistuna og fá sinn hlut. Vera
kann nú að Wickmann hafi séð
björtu hliðina á sínu nýja heim-
kynni, og ekki gáð að skuggahlið-
inni eins og ungum mönnum oft er
hætt við og þessvegna lofað landið
ef til vill um of...
Guðjón Arngrímsson segir í bók
sinni „Nýja Ísland“:
„Ekki er vitað nákvæmlega
hvernig íslenskur almenningur
fékk fyrst fréttir af því að mögulegt
væri að fara til Vesturheims og að
þar væri tækifæri fyrir venjulegt
fátækt alþýðufólk að hefja nýtt líf,
fá atvinnu eða frjósama landspildu
að yrkja. Upphafið hefir þó verið
rakið til dansks verslunarmanns,
William Wickmanns, sem eftir tíu
ára dvöl á Íslandi fór til Bandaríkj-
anna 1865 og settist að í Wiscons-
in.“
Bréf Wickmanns og frásagnir um
gullin tækifæri í Vesturheimi höfðu
mögnuð áhrif á Eyrarbakka og í
nærsveitum.
Jón Gíslason, sem undirritaði
ávarp og áskorun til landa sinna
ásamt Eggert Sigfússyni, var sonur
Gísla Ísleifssonar, prests í Kálfholti
í Holtum. Ísleifur Einarsson háyfir-
dómari og etazráð að Brekku á
Álftanesi var afi hans. Það var Ís-
leifur sá er átti klukkuna frægu
sem Halldór Laxness sagði oft frá í
frásögnum sínum um ættir og ætt-
argripi og kom á heimili Halldórs
með Magnúsi í Melkoti.
Um Jón Gíslason var sagt að
honum hafi verið útþrá í blóð borin
og langað til að fara utan strax í
barnæsku.
Bjarni Eggertsson búfræðingur
frá Vaðnesi í Grímsnesi var syst-
ursonur séra Eggerts Sigfússonar.
Bjarni var í forystusveit verka-
manna á Eyrarbakka. Hann bjó á
Tjörn á Eyrarbakka. Bjarni var
skáldmæltur. Hann var málsnjall
og gamansamur. Þegar Eyrar-
bakkahreppur eignaðist landflæmi
við kaup á jörð var því fagnað, af
tómthúsmönnum er fengu smá-
skákir til ræktunar. Hóf þá margur
búhokur með eina kú og fáeinar
kindur auk þess að rækta kartöflur
og gulrófur. Bjarni var einn í hópi
þeirra er gengu fagnandi til rækt-
unar og heyskapar.
Á gamalsaldri lýsti hann för sinni
til búverka með vísu er hann kvað:
Glaður drekk ég guðaveig
þá gengur sól að viði,
einn þó gangi eg á teig,
en aðrir fylki liði.
Segja má að Bjarni og félagar
hans hafi með áhuga og atorku
hrakið staðhæfingar ávarpsmanna
um ókosti Ísafoldar.
Öldruðum Eyrbekkingi hleypur
kapp í kinn við lestur ávarps þeirra
félaga, Eggerts og Jóns. Rifjast þá
upp orðræður Bjarna Eggertsson-
ar búfræðings er hann heimsótti
okkur, en Bjarni var systursonur
séra Eggerts, eins og fram kom, og
móður minnar, Elísabetar Jóns-
dóttur, en hún var eiginkona Pét-
urs Guðmundssonar, kennara og
skólastjóra á Eyrarbakka. Mér er
enn í minni hugsjónahiti og von-
gleði sem ljómaði af samtali þeirra
er þau ræddu samþykkt hrepps-
nefndar Eyrarbakkahrepps í oddvi-
tatíð föður míns, en þá var sam-
þykkt að kaupa jarðnæði, sem var í
eigu Páls Grímssonar bónda, sem
kenndur var við Nes, en bjó um
skeið á Flóagafli. Páll hafði misst
konu sína og tregaði hana mjög.
Var óyndi hans slíkt að hann undi
ekki við búskap um skeið.
Eyrarbakkahreppur eignaðist
jarðir í nágrenni þorpsins og fengu
Eyrbekkingar þannig afnot af eng-
jaskákum og hey til þess að fóðra
Búkollu eða Blómakinn og fáeina
gemlinga. Bjarni, systursonur séra
Eggerts ljómaði af ræktunarþrá og
óteljandi hestöfl ólguðu í brjósti
hans og það gægðust grastoppar og
puntstrá af skálmum hans og skó-
fatnaði. Augun voru blá eins og
heiðarvötn eða tjarnir.
Það vekur athygli að Bjarni Egg-
ertsson, sem var skáldmæltur ein-
yrki skuli nefna guðaveig í vísu
sinni. Mér er í minni frá æskuárum
er Bjarni gisti á heimili móður
minnar og okkar systkina þegar
hann sat Fiskiþing eða þing Al-
þýðusambands Íslands, sem fulltrúi
Bárunnar, þá brást það ekki að
hann kæmi við í apótekinu og
keypti sér skammt af brennslu-
spritti, sem öðru nafni var nefnt
„koges“. Svo upptendraður var
Bjarni af skáldlegu hugarfari að
jafnvel hinn rammasti koges varð
„guðaveig“ og lyfti hagyrðingunum
í upphæðir er hinn rammi safi rann
um æðir og móbandsbikkjan, sem
lötraði fetið undir heykaplinum á
engjaskák hans var orðinn sjálfur
skáldfákurinn Pegasus eða kannske
Sleipnir hinn áttfæti, sem tróð
tunglakrapa og teygði sig af meg-
inþrótt. Einar Benediktsson hefir
lýst í ljóði sínu „Hillingar“ hvernig
traðgrindur kotanna í Landeyjum
breyttust í borghlið virkkastala og
svifu í lausu lofti. Hér kemur fram
skapgerð þess sem vill ekki láta
„baslið smækka sig“, viðhorf Jóns á
Bægisá, sem kveður um reiðskjóta
sinn og kallar hann „vakra Skjóna“
hvað sem staðreyndum líður.
Bjarni bar höfuðið hátt. Hann
sagði ég er „morgunmaðurinn“.
Hann unni grösum og gróðri, geld-
ingahnappur og gullkollur gægðust
úr skóvarpi hans og jaðrakaninn
sveimaði yfir höfði hans er hann
gekk um teiginn en keldusvínið
lúðraði laumulega í stargresinu
með hjartað fullt af kvíða fyrir
vafasamri framtíð.
Séra Eggert í Vogsósum taldi
tímann með kringlum er hann át
eina, hvern dag. Á hlaupári festi
hann 29 kringlur á band. Þegar
hann bleytti seinustu kringluna í
bandi sínu þá vissi hann að mars-
mánuður var að ganga í garð með
sín messuföll og fannfergi.
Nú í sumar eru 100 ár liðin síðan
tómthúsmenn á Eyrarbakka röltu
með amboð sín og áhöld og fetuðu
fjárgötur eða söðluðu klára sína að
skoða landareign er hreppurinn
hafði eignast og ætlað Eyrbekking-
um til ræktunar. Fram að þeim
tíma höfðu íbúar þorpsins sætt af-
arkostum jarðeigenda ef þeir hugð-
ust fá afnot af slægjum, eða njóta
aðgangs að grasnyt. Með kaupum
sínum á Flóagaflstorfunni og smá-
býlum er fylgdu tryggðu Eyrbekk-
ingar sér afnot af allmiklu land-
flæmi til ræktunar. Mjólkurdreitill
og kjötsúpuskál voru nú innan seil-
ingar í þurrabúðum og stuðluðu að
því að hægt var að þreyja þorrann
og góuna.
Eyrbekkingar fögnuðu Jóns-
messu með skemmtiatriðum og há-
tíðahöldum. Fengu Guðna Ágústs-
son landbúnaðarráðherra sem
ræðumann. Hann hefði átt að minn-
ast þessara tímamóta í sögu Eyr-
arbakka.
Guðni Jónsson hreppsnefndarmaður.
Hann undirritaði kaupsamning ásamt
Pétri oddvita þegar jarðirnar voru
keyptar af Páli Grímssyni árið 1901.
Páll Grímsson bóndi á Flóagafli. Hann
varð verslunarmaður á Eyrarbakka,
en síðar bóndi og hreppstjóri í Nesi í
Selvogi, og jafnan kenndur við Nes.
Bjarni Eggertsson búfræðingur og
verkalýðsforingi. „Ég er morgunmað-
urinn,“ sagði Bjarni sem var syst-
ursonur séra Eggerts Vogsósaklerks.