Morgunblaðið - 11.07.2001, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 11.07.2001, Blaðsíða 20
ERLENT 20 MIÐVIKUDAGUR 11. JÚLÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ JACQUES Chirac Frakklandsfor- seti gæti á næstunni þurft að mæta fyrir rétti, eftir að saksóknari í París komst að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að lagalega væri ekkert því til fyrirstöðu að kalla forsetann fyrir sem „aðstoðað vitni“ í dómsrann- sókn á pólitísku fjármálaspillingar- máli. Er búizt við því að saksókn- arinn, Jean-Pierre Dintilhac, taki ákvörðun um það í þessari viku hvort forsetanum verði send stefna, en í gær kom í ljós að æðstu menn franska dómskerfisins eru ekki sam- mála um hvort hægt sé að stefna for- setanum eða ekki. Jean-Louis Nadal, saksóknari við áfrýjunardómstólinn í París, lét í gær í ljós það álit sitt að það væri „umdeilanlegt“, en Nadal var að bregðast við beiðni Dintilhacs um álitsgjöf í málinu. Álit Nadals er ekki bindandi, ákvörðunin um vitnastefnu forsetans er á valdi Dintilhacs. Að frönskum lögum er „aðstoðað vitni“ millistig milli venjulegs vitnis, sem ekki á sjálft á hættu að vera málsótt, og þess að sæta sakarannsókn sem undanfara málsóknar. Til að hægt sé að kalla aðstoðað vitni – sem á rétt á að hafa lögmann með sér – fyrir rétt í Frakklandi, þurfa að liggja fyrir „vísbendingar um að ástæða sé til að ætla að vitnið hafi átt aðild að, sem gerandi eða meðsekur, þeim afbrot- um sem málið fjallar um,“ eftir því sem AFP greinir frá. Varpar skugga á endur- kjörsmöguleika Chiracs Chirac, sem lengi hefur verið bendlaður við hneykslismál varðandi meinta ólöglega fjármögnun stjórn- málaflokka á Parísarborgarstjóra- árum hans en hefur getað komizt hjá að tjá sig opinberlega um þau í krafti lögvarinnar friðhelgi hans sem þjóð- höfðingja, gæti þurft að svara óþægilegum spurningum um upp- runa um 2,4 milljóna franka, and- virði um 31 milljónar króna, sem hann greiddi í beinhörðum pening- um fyrir ferðalög sín og sinna nán- ustu á síðustu árum borgarstjóra- tíðar hans. Hann var borgarstjóri í París í 18 ár unz hann var kjörinn forseti árið 1995. Framganga Dintilhacs saksókn- ara kann hugsanlega að verða til þess að forsetinn geti ekki lengur skýlt sér með friðhelgisákvæðunum, en hin væntanlega stefna og þær uppljóstranir sem liggja henni til grundvallar varpa skugga á mögu- leika Chiracs til að ná endurkjöri í forsetakosningum sem fram fara á næsta ári. Forsetinn hefur reyndar ekki enn formlega gefið til kynna hvort hann hyggst gefa kost á sér á ný, en fastlega hefur verið reiknað með að hann etji kappi við Lionel Jospin, núverandi forsætisráðherra og leiðtoga franska Sósíalistaflokks- ins. Einn bandamanna Chiracs, Pat- rick Devedjian – sem er stjórnmála- ráðgjafi Gaullistaflokksins RPR – segir aðgerðir Dintilhacs lið í „kerf- isbundinni og öflugri herferð til að brjóta stjórnmálamanninn Jacques Chirac niður.“ AFP hefur eftir Dev- edjian að hér sé um að ræða „herferð til að spilla fyrir honum í forseta- kosningaslagnum, svo að hann verði ekki það sem hann er; hætta fyrir vinstriöflin.“ Í frönsku stjórnarskránni er kveð- ið á um að ekki sé hægt að draga for- setann fyrir dóm nema hann sé ákærður fyrir meint landráð og þá aðeins fyrir sérstakan dómstól skip- aðan þingmönnum (svokallaðan yf- irdóm – Haute Cour de Justice). Samkvæmt úrskurði franska stjórn- lagadómstólsins frá því í janúar 1999 nýtur sitjandi forseti friðhelgi frá öllum öðrum refsiréttarlegum ákærum. En í nánari skýringum við úrskurðinn í fyrrahaust sögðu stjórnlagadómararnir að eina leiðin til að láta forsetann svara fyrir brot á almennum hegningarlögum væri ef yfirdómurinn kysi að taka til með- ferðar mál sem vörðuðu athafnir sem ekki snertu embættisfærslur hans, framkvæmdar á meðan eða áð- ur en hann tók við forsetaembætt- inu. Rannsóknin beinist nú aðallega að uppruna peninga sem Chirac notaði til að greiða – í reiðufé – fyrir flug- miða, hótelreikninga og fleiri ferða- kostnaðarliði í orlofsferðum m.a. til Máritíus, New York og á vetraror- lofsstað í Ölpunum á tímabilinu 1992-1995, en í þessum ferðum voru eiginkona Chiracs, Bernadette, dótt- irin Claude og fjölskylduvinir með í för. Fyrri fjármálahneykslismál hafa snert fjármögnun Gaullistaflokks Chiracs og reyndar fleiri franskra stjórnmálaflokka. Í þetta sinn snú- ast ásakanirnar um að forsetinn og borgarstjórinn fyrrverandi hafi not- að fé af óljósum uppruna til að standa straum af einkaútgjöldum og slíkt kann að reynast honum skeinu- hættara, nú er aðeins tíu mánuðir eru til forsetakosninga. Reyndar hefur Dintilhac saksókn- ari sagt að eins og komið er í rann- sókninni sé það ekki úrslitaatriði hvort Chirac beri sjálfur vitni, þar sem bæði eigi eftir að kalla fyrir aðra sem nutu góðs af ferðafénu og frið- helgisákvæðin ná örugglega ekki yf- ir – svo sem forsetafrúna og dóttur þeirra hjóna – auk þess sem rann- saka þurfi betur hvaðan ferðafé borgarstjórans fyrrverandi sé raun- verulega upprunnið. Mútur eða löglegur „ráð- herrabónus“? Í greinargerð þriggja rannsóknar- dómara til Dinthilacs saksóknara eru sagðar sterkar líkur á því að Chirac hafi á síðari borgarstjóraár- um sínum þegið mútur í stórum stíl, einkum frá byggingarfyrirtækjum sem fengu í sinn hlut ábatasama samninga við borgaryfirvöld. Heim- ildamenn rannsóknardómaranna fullyrða að þessi „framlög“ hafi iðu- lega verið afhent í reiðufé. Þessum ásökunum hafa talsmenn forsetans svarað með því að vísa til þess að forsetinn hafi greitt fyrir ferðir sínar meðal annars með „bón- usgreiðslum“ sem hann hafi þegið sem ráðherra. Þykja slíkar útskýr- ingar alllangsóttar, þar sem for- sætisráðherratíð Chiracs lauk árið 1988. Án þess að hætta sem borg- arstjóri Parísar var hann forsætis- ráðherra 1986-1988. Um þetta segir þýzka vikuritið Der Spiegel: „Svona nokkuð dettur aðeins þeim í hug sem sjá sig í mikilli neyðarstöðu. Ráðherra var Chirac síðast 1974 og forsætisráðherra 1988 – það virðist því ekki ýkja trúlegt að hann hafi árum saman geymt millj- ónaupphæðir niðri í skúffu.“ En að mati Spiegel hefur skýring- in, hversu ótrúverðug sem hún kann að virðast, einn ómetanlegan kost: Hún sveipi fjármál forsetans, fyrr- verandi forsætisráðherrans og borg- arstjórans, dulúð ríkisleyndarmáls- ins. „Því þessar „ráðherrabónus- greiðslur“, sem vísað er til, hljóta að eiga uppruna sinn í sérsjóði sem Frakkland hefur séð hverjum ein- asta ríkisstjórnarleiðtoga fyrir frá því lög þar að lútandi voru samþykkt hinn 27. apríl 1946,“ skrifar Spiegel. Í ár er upphæðin sem hér um ræðir 394 milljónir franka (yfir 5,1 millj- aður króna) en þennan sérsjóð er að finna á opinberum fjárlögum sem þingið samþykkir jafnan undir liðn- um 37.91 án frekari athugasemda. „Án þess að þingmenn eða ríkisend- urskoðun spyrji nokkurra spurninga geta ríkisstjórnarleiðtogarnir ráð- stafað þessu svarta fé að vild eins og einveldiskonungar. „Konungsgull- kista“ sem þessi á sér enga hlið- stæðu í öðrum vestrænum lýðræð- isríkjum; hún er, eins og franska blaðið Le Point benti á, „franskur vanskapnaður“, skrifar Spiegel. „Leynilega og eftirlitslaust ganga um 200 milljónir franka (um 2,6 milljarðar króna) í 500 franka seðl- um milli skrifstofu forsætisráð- herrans, forsetaembættisins og hinna ýmsu ráðuneyta,“ sagði franski Evrópuþingmaðurinn Thierry Jean-Pierre um þetta í síð- ustu viku. „Þetta eru aðferðir sem sæma bananalýðveldi.“ Hefð mun vera fyrir því að um helmingur fjárins úr þessum eftir- litslausa sérsjóði fari í að standa straum af sérverkefnum frönsku leyniþjónustunnar og rannsóknar- lögreglunnar. Hin umdeilda aðgerð, er franskir leyniþjónustumenn sökktu Grænfriðungaskipinu Rain- bow Warrior í höfn á Nýja-Sjálandi árið 1985, var til dæmis fjármögnuð úr þessum sjóði. Afgangnum deilir forsætisráðherrann á ráðuneytin, til forsetaembættisins og til nánustu samstarfsmanna sinna. Fram hjá allri skattheimtu, að sjálfsögðu. Er utanríkisráðherrann fyrrver- andi, Roland Dumas, svaraði til saka fyrir skemmstu fyrir fjármálaspill- ingu í embætti hikaði hann ekki við að halda því fram, í málsvarnar- skyni, að hann hefði í ráðherratíð sinni 1991-1996 safnað á bankareikn- ing sinn um 3,3 milljónum franka, um 43 milljónum króna, af „ráð- herrabónusgreiðslum“ úr sérsjóðn- um. Úttekt gerð fyrir áramót Í franska þjóðþinginu á mánudag báru fulltrúar hægriflokkanna, sem eru í stjórnarandstöðu, fram tillögu um að Jospin forsætisráðherra frysti öll útgjöld úr þessum vafasama sjóði það sem eftir væri þessa árs. Talsmenn Sósíalistaflokks Jospins sögðu hins vegar að með þessu væru hægrimenn einungis að reyna að búa til „reyktjöld“ í því skyni að beina at- hyglinni frá meintum misgjörðum Chiracs. Í síðustu viku fór Jospin þess á leit við frönsku ríkisendur- skoðunina (Cour des Comptes) að stofnunin gerði úttekt á notkun sér- sjóðsins og skilaði fyrir áramót um það skýrslu með ráðleggingum um hvernig hafa mætti betra eftirlit með því hvernig fénu er varið. Hét Jospin því að þinginu yrði afhent skýrslan. Á síðustu vikum hefur ýmislegt verið að gerast á franska þinginu sem tengist meintri fjármálaspill- ingu í borgarstjóratíð Chiracs og öðru sem áhrif gæti haft á tilvonandi forsetakosningabaráttu. Mikla at- hygli hefur vakið barátta sósíalista- þingmannsins Arnauds Montebourg fyrir því að safna stuðningi meðal þingmanna að baki þingsályktunar- tillögu, þar sem þess er krafizt að Chirac verði ákærður fyrir spillingu, en tillöguna lagði þingmaðurinn fram í maímánuði. Til að hægt sé að hefja formleg málaferli gegn forsetanum fyrir áð- urnefndum yfirdómi verða minnst 58 þingmenn að undirrita ályktun þess efnis og þarf ályktunin að hljóta samþykki í báðum deildum þingsins. Engar líkur þykja þó vera á því að tillaga Montebourgs hljóti sam- þykki, enda hafa forystumenn sósíal- ista svarið af sér að hafa komið ná- lægt þessu frumkvæði þingmanns- ins, og í efri deildinni eru fulltrúar borgaralegu flokkanna í meirihluta. Þó hafði 31 þingmaður undirritað til- löguna um miðjan júní. Til að svara þrýstingi úr röðum eigin flokksmanna um að gera eitt- hvað í málinu lagði Jospin fram stjórnartillögu um breytingu á stjórnarskránni, sem gengur út á að lögsaga í afbrotamálum sem ekki tengjast embættisfærslum forsetans færist til almennra dómstóla, frá hinum þingmannaskipaða yfirdómi. Hinn 19. júní sl. var þessi tillaga samþykkt við fyrstu umræðu í neðri deild þingsins, með meirihlutaat- kvæðum vinstriflokkanna. Þykja lík- ur á að þetta frumvarp verði að lög- um ekki meiri en að þingsályktun Montebourgs ná fram að ganga; það sé fyrst og fremst innlegg í þá póli- tísku umræðu sem nú á sér stað um refsiréttarlega ábyrgð forsetans og hinn eftirlitslausa „ráðherrabónus- sjóð“. auar@mbl.is Chirac fyrir rétt? Rannsókn pólitískra fjármálaspillingarmála í Frakklandi virðist nú vera að vinda æ meira upp á sig, segir í grein Auðuns Arnórssonar, og þykir ekki lengur útilokað að Jacques Chirac forseta verði gert að bera vitni fyrir rannsóknar- dómurum, en friðhelgisákvæði hafa hingað til hlíft honum við slíku. ReutersBernadette og Jacques Chirac á ferðalagi. Á tali við þau er Louis Gallois, forstjóri frönsku járnbrautanna. YFIRMAÐUR stofnunarinnar sem gætir skjalasafns austur-þýsku leynilögreglunnar (Stasi), Mar- ianne Birthler, segist hafa heimild til að birta skýrsluna um Helmut Kohl, fyrrverandi kanslara Þýska- lands, þrátt fyrir að þýskur dóm- stóll hafi fyrir skemmstu komist að þeirri niðurstöðu að það mætti ekki nema með samþykki Kohls sjálfs. Birthler sagði í viðtali við þýska dagblaðið Frankfurter Allgemeine Zeitung um helgina að hún liti svo á að henni væri ekki stætt á að birta ekki skýrsluna. „Engin lög kveða á um að hætta eigi birtingu Stasi-skýrslna“ sagði Birthler. Innanríkisráðherra Þýskalands, jafnaðarmaðurinn Otto Schily, hef- ur skrifað Birthler og krafist þess að hún sendi honum skriflegt heiti þess efnis að hún muni ekki birta skýrsluna. Segist Schily vera tilbú- inn til að fara með málið fyrir hæstarétt Þýskalands ef með þarf. Birthler segir Schily hins vegar ekki geta sagt sér fyrir verkum. Saksóknarar sem rannsaka leynisjóði Kristilega demókrata- flokksins, sem Kohl fór fyrir í 25 ár, vilja fá aðgang að skýrslunum og vonast þeir til að þar sé að finna upplýsingar um það hverjir gáfu fé í sjóðina. Kohl hefur hing- að til neitað að gefa það upp. Vitað er að Stasi hleraði síma Kohls frá því að hann tók við embætti 1982 og þar til kommúnistastjórnin féll árið 1989 og mun skýrslan um Kohl vera upp á að minnsta kosti níu þúsund blaðsíður. Otto Schily og Marianne Birthler. Deilan um Stasi-skýrslur Helmuts Kohls í hnút Segir birtingu mögu- lega þrátt fyrir lögbann Berlín. AFP.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.