Morgunblaðið - 16.09.2001, Side 56
FÓLK Í FRÉTTUM
56 SUNNUDAGUR 16. SEPTEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
GÓÐ og öflug tölva, frambærilegur
skanni, brennari, hugvit og fimmtíu
skrifanlegir diskar. Og sjá! Fyrsta
platan þín er á leið í rekkana. Og ekki
umboðsmenn, útgefendur né aðstoð-
armenn í augsýn. Síðan verð á geisla-
diskaskrifurum, sem jafnan eru kall-
aðir brennarar, fór að lækka niður í
verð „fólksins“ hefur ýmislegt sem
snýr að sölu og framleiðslu á geisla-
diskum tekið gagngerum stakka-
skiptum. Menn víla ekki fyrir sér að
afrita haug af plötum hjá vinum sín-
um og með tilkomu MP3-síðna er
hægt að hlaða niður kynstrunum öll-
um af tónlist; heilu plötunum ef því er
að skipta, margar þeirra ekki enn
komnar út (hvað ætli margir hafi
komið höndum yfir nýju Bjarkar
plötuna fyrir útgáfudag t.d.?).
Skrifararnir hafa einnig ýtt undir
nýja gerð af plötuútgáfu; fólk getur
nú fullunnið plötu inni í svefnherbergi
hjá sér og skilað afurðunum í næstu
búð með hjálp tölvutækninnar. Þessi
liður „skrifarabyltingarinnar“ er til
umræðu hér en til spjalls komu þeir
Snorri Petersen og Guðmundur Stef-
án Þorvaldsson úr rokksveitinni Bris;
Steinþór Ólafsson, raftónlistarmað-
ur, sem starfar undir listamannsnafn-
inu Salomon Kubl og Sigvaldi Jóns-
son; rekstrarstjóri tónlistarsíðunnar
Dordinguls (www.dordingull.com) og
Harðkjarnaútgáfunnar. Allir þessir
aðilar hafa ástundað „brennslu“ á
einn eða annan hátt.
Bris
Hljómsveitin Bris spilar framsæk-
ið sveimrokk í anda Radiohead og
áþekkra sveita og hefur gefið út
hljómdisk. Heimatökin voru hæg þar
sem Guðmundur vann í Verði ljós á
þeim tíma sem diskurinn var gerður
en það fyrirtæki sér m.a. um að fjöl-
falda geisladiska.
„Við vorum farnir að finna fyrir
þrýstingi að koma einhverju á plast
svo að við fórum í lítið stúdío í Kefla-
vík sem heitir Stúdío 60b,“ segir
Snorri. „Framleiðsla diskanna fór svo
fram í Verði ljós. Við sáum svo um
hönnun á bæklingi og því sem prent-
ast skyldi á diskinn, en Verði ljós sá
einnig um að prenta á diskana.“
Snorri álítur að landslag útgáfu-
mála hafi breyst.
„Margir vilja eflaust halda því
fram að það að gefa út brennda diska
sé frekar lélegt í samanburði við
þrykkta, en okkar skoðun er sú að á
meðan þetta gefur tónlistarmönnum
tækifæri til að gefa út tónlist án þess
að vera undir einhverja risaútgáfu
komnir, þá er þetta bara hið besta
mál. Eigin útgáfa tónlistar hefur mik-
ið breyst hvað varðar verð, aðgengi
og tækni.“
Brismenn líta á þennan heima-
gerða disk fyrst og fremst sem góða
og gegna kynningu á sveitinni.
„Það er alltaf ákveðið takmark fyr-
ir hljómsveitir að komast á plast og
þannig er einnig hægt að kynna sig
almennilegafyrir stóru útgáfunum.
Það eina sem kemur í veg fyrir að við
stöndum jafnfætis stóru útgáfunum
eru dreifingarleiðir og markaðssetn-
ingin, þar sem þessir tveir þættir eru
alveg gífurlega kostnaðarsamir.“
Salomon Kubl
Hinn ungi Steinþór Ólafsson er
ábyggilega skýrasta dæmið um það
sem „brennslubyltingin“ hefur haft í
för með sér. Hann hleður tónlist sinni
yfir á diska sem hann kaupir úti í búð,
merkir þá með límmiðum og skrifar
inn á þá með trélitum. Umslagið er
litljósritað og tónlistin þessi líka fína
raftónlist, beint úr svefnherbergistól-
um Salomons.
„Ferlið hjá mér hefur hingað til
verið þannig að ég smala gömlu efni
inn á nýja tónlistarforritið mitt, þ.e.
efni sem ég tók upp á kassettur en þá
notaðist ég við trommuheila og
hljómborð,“ segir Steinþór.
„Trommuheilinn var tengdur í „ef-
fect“ (hljóðbjögun). Ég bæti svo bara
við því sem mér þykir henta með að-
stoð tölvunnar. Svo er bara að
brenna!“
Harðkjarnaútgáfan
Valli og félagar í Harðkjarnaútgáf-
unni hafa verið iðnir við að aðstoða ís-
lenskar harðkjarnasveitir við að
koma út efni.
„Útgáfuferill Harðkjarna útgáf-
unnar er mjög einfaldur,“ útskýrir
Valli. „Hljómsveitirnar koma yfirleitt
til mín og biðja mig um aðstoð og ég
hjálpa þeim eins og ég mögulega get.
Bæði þá með því að brenna diska,
hanna umslög og alla slíka vinnslu.
Þegar varan sjálf er tilbúin, þá á bara
eftir að dreifa efninu en það gerum
við aðallega á tónleikum og á netinu.
Einnig hafa Japis búðirnar verið okk-
ur afar góðar og séð um að selja
diskana fyrir okkur.“
Um breytta sýn í útgáfumálum
hafði hann þetta að segja.
„Það verður alltaf meira um
„brennda“ diska eins og það kallast,
þar sem bæði tæki og tól tengd
brennslunni eru bæði betri og ódýr-
ari en var áður. Þetta var auðvitað
bylting á sínum tíma og hjálpaði ung-
um listamönnum að koma sér á fram-
færi á mun auðveldari og skýrari
hátt. Kassettur hafa nú aldrei verið
þekktar fyrir mikil gæði.“
Valli er hugsjónamaður í gegn
hvað þessa hluti varðar.
„Það er eftirspurn eftir svona tón-
list bæði hér á landi og út um allan
heim og ef ég get hjálpað böndum að
koma sér á framfæri þá er það ekkert
nema gott. Tónlist á ekki að snúast
um peninga, þetta á að snúast um
listina og allt sem kemur nálægt
henni. Hjá mér snýst þetta eingöngu
um þetta atriði þar sem ég trúi því að
þessar hljómsveitir sem eru á mála
hjá Harðkjarna séu virkilega góðar.
Ég er að gera þetta út af því að ég hef
gaman af því, ég elska þessa tónlist.“
Brennslumenningin í brennidepli
Að gera hlutina sjálfur
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Heimabaksturinn bragðast best: Snorri, Guðmundur, Steinþór og Valli
íhuga hér næstu útgáfu.
Ný og notendavæn tækni hefur gert
það að verkum að fólk er sjálft farið að gefa
út eigin tónlist í æ ríkari mæli. Arnar
Eggert Thoroddsen ræddi við fjóra slíka
einherja um breytingarnar sem orðið
hafa í heimi tónlistarútgáfu.
arnart@mbl.is
TIl hringborðsumræðna voru mætt-
ir þeir Örlygur Þór Örlyggson,
fulltrúi frá Undirtónum sem er út-
gefandinn; Jóhann Jóhannsson, tón-
listarmaður sem á efni á einum disk-
inum undir nafninu Staff of NTOV
og Egill Vignisson, framkvæmda-
stjóri Verði ljós sem sér um að fjöl-
falda diskana ásamt því að hljóm-
jafna sjálfa tónlistina. Ætlunin var
að ræða útgáfuna sem slíka og hvaða
gildi hún hefði fyrir íslenska dæg-
urtónlistarmenningu. Einnig var
staða útgáfumála í tónlist almennt
tekin til skoðunar og vöngum velt yf-
ir þeim breytingum sem hafa átt sér
stað í þeim geiranum – með tilkomu
tölva og nýrrar tækni – síðastliðin
ár.
Brennsla
Sagt hefur verið að brennslu-
menningin, sem fór fyrst að verða
áberandi fyrir u.þ.b. þrem til fjórum
árum hafi tekið við af snældunum í
vissum skilningi. Fyrir um tíu árum
var nefnilega algengt að samnings-
lausar bílskúrssveitir gæfu sjálfar út
snældur sem báru með sér tilheyr-
andi, og oft mjög sjarmerandi,
áhugamannastimpil. Svipað er að
gerast með brennda diska í dag.
Ungir og upprennandi tónlistar-
menn nýta sér handhæga tækni og
ódýra til að koma sjálfir verkum sín-
um á framfæri. En að sjálfri útgáf-
unni.
Örlygur: „Þetta er samstarfs-
verkefni Undirtóna og Verði ljós þar
sem framleiddir eru diskar fyrir tón-
listarmenn á eins ódýran hátt og
mögulegt er. Það þarf ekkert lengur
að skrifa undir samninga hjá fyrir-
tækjum til að koma efni á framfæri
og því eiga tónlistarmennirnir á
Stefnumótadiskunum efnið sjálfir.“
Diskaröðin ber með sér einfalda
og smekklega hönnun, sem tekur
mið af þessum sparnaðarleiðum.
Umslögin eru látlaus og hvít og eru
nöfn flytjenda og verkheiti stimpluð
á þau. Um er að ræða tvískipta diska
þar sem hver listamaður á sex lög.
Diskarnir eru sem hér segir: Skur-
ken/Prince Valium (001). Skurken/
Heckle&Jive (002), Prince Valium/
Plastik (003), Plastik/Staff of NTOV
(004) og Sigurður og Arnar Guðjóns-
synir sem eru saman með eitt verk,
Leðurstræti (005). Fyrir hvern disk
greiðast kr. 750.
Egill: „Með þessu getur fólk kom-
ið sér á framfæri. Það er fullt af fólki
að gera tilraunir með tónlist heima
hjá sér, og hún á auðvitað jafn mik-
inn rétt á sér og hver önnur. Ég sé
þetta sem fyrsta skref listamann-
anna í átt að einhverju meira. Það er
þó ekkert gefið og fer í raun eftir því
hverju þeir sjálfir eru að sækjast eft-
ir. En ef markaðurinn vill meira þá
er þetta komið út fyrir ramma okkar
fyrirtækis t.d.“
Jóhann, sem hefur komið víða við í
tónlist og á fjölmargar útgáfur að
baki, er inntur eftir því hvaða ástæð-
ur liggi að baki hans þátttöku.
Jóhann: „Mér finnst þetta vera
framtak sem er þess virði að styðja.
Ég held að þetta sé gott fyrir ís-
lenska tónlist. Til að hér sé öflugt og
frjótt tónlistarlíf þarf að vera til
staðar lifandi og aðgengilegur vett-
vangur til að koma hugverkum frá
sér. Einhver verður að fjalla um
þetta, einhver þarf á mæta á tónleika
og einhver þarf að gefa tónlistina út.
Þetta er bara liður í því ferli. Svona
lagað getur verið mjög mikilvægt til
að halda lífi í neðanjarðartónlist.“
En eru útgáfur sem þessar þyrnir
í augum stærri útgáfufyrirtækja?
J: „Ég er nú útgefandi sjálfur (Til-
raunaeldhúsið) og okkar fyrstu út-
gáfur voru gerðar á sama hátt og
Stefnumótadiskarnir. Það þróaðist
svo út í það að nú erum við í sam-
bandi við stærri aðila. Svona hlutir
hafa náttúrulega ákveðið þak. Það er
ekkert fjármagn til að senda fólk í
hljóðver og slíkt. Þetta miðast í raun
við það að tónlistarmennirnir séu
sjálfbjarga.“
Nógu ódýrt
Netið, MP3, skrifanlegir diskar;
Allt er þetta að breyta útgáfulands-
laginu. Diskasala almennt hefur líka
dregist saman.
Ö: „Þess vegna er bara sniðugt að
gera þetta svona. Hafa diskana nógu
ódýra.“
J: „Það er ekkert sem segir að
þetta gamla reiknilíkan: plötuútgáfa,
plötudreifandi, plötubúð; að það sé
eitthvað eilíft. Það þarf ekkert að
vera leiðin í dreifingu á tónlist eftir
nokkur ár.“
Áhugasömum er bent á að koma
tónlist sinni til Undirtóna en þar fara
innanbúðarmenn yfir efnið og meta
hvað sé fýsilegt til útgáfu.
Ný sýn á
útgáfumál
Fyrstu Stefnumótadiskarnir eru komnir út. Arnar
Eggert Thoroddsen ræddi við aðstandendur um
útgáfuna og stöðu útgáfumála hérlendis almennt. Morgunblaðið/ÁsdísEgill, Jóhann og Örlygur tóku sér málhvíld þegar ljósmyndarinn mætti.
arnart@mbl.is