Morgunblaðið - 12.10.2001, Blaðsíða 45
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 12. OKTÓBER 2001 45
✝ Knut Aagestadvélstjóri fæddist í
Gerstad í Suður-Nor-
egi 12. september
1916. Hann lést á
heimili sínu í Risör í
Suður-Noregi 30.
september síðastlið-
inn. Knut var einn tíu
systkina og býr
yngsti bróðirinn
Gudmund á Selfossi.
Knut kvæntist 23.
júní 1945 Guðrúnu
Einarsdóttur, f. á
Skúfslæk í Flóa 29.
apríl 1921, dóttur
Sesselju Loftsdóttur og Einars
Sveinssonar sem bjuggu síðast í
Lækjarbrekku í Gnúpverjahreppi.
Börn Knuts og Guðrúnar eru
Svanhild, sérkennari
í Hamar, f. 14. febr-
úar 1946, gift dr.
Jan-Kåre Hummel-
vold hjúkrunarfræð-
ingi og eiga þau tvo
syni. Einar, rafvirki
og slökkviliðsmaður
í Risör, f. 25. nóvem-
ber 1947, kvæntur
Anne Berit húsmóð-
ur og eiga þau þrjú
börn. Sævar, tölvun-
arfræðingur í Skien,
f. 29. apríl 1950,
kvæntur Evelyn
hjúkrunarfræðingi
og eiga þau þrjú börn.
Útför Knuts Aagestad fór fram
frá Frydendalkirkju í Risör 5.
október.
Látinn er í Risör í Noregi góður
vinur minn Knut Aagestad.
Ekki er mér mjög kunnugt um
uppvöxt Knuts annað en að hann
óx upp í stórum systkinahópi.
Hann fór snemma til sjós í sigl-
ingar eins og var algengt meðal
ungra manna í Noregi á þeim ár-
um. Hann lærði svo vélstjórn og
var í siglingum fram í heimsstyrj-
öldina. Hann var einn margra
Norðmanna sem lögðu líf og limi í
hættu í siglingum milli Evrópu og
Ameríku. Þá stóð mönnum ekki
mest ógn af veðri og brotsjóum.
Ógnin var af stríðstólum og það fór
svo að ráðist var á skipalestina sem
Knut var í og þýskur kafbátur
skaut skip hans niður norðvestur
af Íslandi á útmánuðum 1941. Knut
var fálátur um þessa skelfilegu at-
burði, en hann komst naumlega lífs
af og lenti á sjúkrahúsi á Patreks-
firði og var seinna fluttur til
Reykjavíkur. Líkamlegir áverkar
voru svo miklir að hann fann alla
tíð eftir þetta fyrir þeim.
Þegar Knut komst til heilsu aft-
ur fór hann að vinna í Vélsmiðjunni
Hamri. Þá var hann kostgangari í
veitingastofunni Anker á Vestur-
götu 10. Þar borðuðu margir út-
lendingar og þó að válegir atburðir
væru að gerast í föðurlöndum
þeirra hefur eflaust oft verið glatt
á hjalla. Þar gekk þá um beina ung
kona ættuð úr uppsveitum Árnes-
sýslu, dökk á brún og brá og rösk
og hefur ugglaust svarað fyrir sig
þó að tungumálakunnáttan væri
ekki mikil. Ég sé fyrir mér hvernig
Knut hefur ekki staðist mátið að
stríða henni aðeins til að láta hana
snúa upp á sig með þjósti. Hún
heitir Guðrún Einarsdóttir og
henni var ekki eins leitt og hún lét.
Svo fór að hún féll fyrir þessum
unga myndarlega norska stríðnis-
púka og þau felldu hugi saman.
Knut var skráður í norska sjó-
herinn og fékk verkefni sem for-
ingi á „Marinekontoret“ og var
einnig sendur til dvalar á Hjalt-
landi. Hann tók þátt í níu ferðum
þaðan til Noregs á tundurskeyta-
bátum.
Það var sjálfsagt ekki auðvelt að
eiga útlendan kærasta og hvað þá
hermann á þessum árum, en Knut
ávann sér hylli foreldra, systkina
og vina Gunnu og vissulega var æv-
intýraljómi yfir unga manninum,
sem hafði aðgang að ýmsum lysti-
semdum sem ekki voru á borðum
venjulegra Íslendinga. Hann hafði
líka aðgang að bíl og gat skroppið
austur í Hrepp að Skarði og Ásum.
Eftir stríðið giftu þau sig og
Knut var sendur til Norður-Nor-
egs en unga eiginkonan varð eftir á
Íslandi í nokkra mánuði. Hún fór
svo á eftir honum til Noregs undir
vetur 1945 og bar þá fyrsta barn
þeirra undir belti. Það hlýtur að
hafa verið kvíði í þessum ungu kon-
um sem voru að fara í fyrsta sinn á
sjó sumar með ung börn og aðrar
ófrískar. Ég efast um að þær hafi
gert sér grein fyrir hvað stríðið
hafði farið illa með lönd Evrópu og
hvað allsleysið var mikið. Þær
vissu ekki einu sinni hvort ungi
eiginmaðurinn gæti tekið á móti
þeim. Knut tók á móti Gunnu og
henni var tekið eins og kærkomn-
um ættingja hjá fólkinu hans í
Gerstad.
Þau komu til Íslands með börnin
sín þrjú 1951 og Knut vann um
tíma í Vélsmiðjunni Héðni. Eflaust
voru þau að athuga hvort þau ættu
að stofna heimili á Íslandi, en úr
því varð ekki. Þau settust að í Ris-
ör í Suður-Noregi á yndislega fal-
legum stað og bjuggu sér, dótt-
urinni Svanhild og sonunum Einari
og Sævari fallegt heimili í húsi sem
byggt var fyrir aldamótin 1900.
Þar var gestrisnin bæði norsk og
íslensk.
Á 7. áratugnum voru margir Ís-
lendingar sem nutu gestrisni
þeirra því þá var mörgum íslensk-
um fiskiskipum breytt í skipa-
smíðastöðinni þar sem Knut vann í
Risör. Og frændur mínir í Noregi
lærðu að blóta á íslensku.
Þegar ég fór til náms í Osló 1967
fann ég strax að ég átti mér at-
hvarf og heimili í Risör. Ég var
alltaf velkominn til Gunnu og Knut
og ég átti því láni að fagna að
kynnast Knut og frændfólkinu í
Noregi og varð sem einn úr fjöl-
skyldunni.
Knut var vandvirkur fagmaður á
sínu sviði og heimili hans bar
merki natni hans og snyrti-
mennsku. Hann var fastur fyrir og
hafði ákveðnar skoðanir og lét mig
óspart heyra hvernig Íslendingar
hefðu átt að halda á málum eftir
stríðið. Hann talaði ekki mikið um
sjálfan sig, en hann hafði siglt víða
á sínum yngri árum, en vænst þótti
honum um Gerstad og Risör. Hann
átti líka góðar minningar frá Ís-
landi. Hann naut sín best ef hann
gat sýnt af sér smástríðni, en
stríðnin hans var aldrei rætin og
hún meiddi engan. Börn löðuðust
að honum. Hann var ákveðinn upp-
alandi en um leið félagi barnanna
sinna og ástsæll og skemmtilegur
afi.
Knut og Gunna ræktuðu sam-
band sitt við vini og ættingja á Ís-
landi og hann tók höfðinglega á
móti öllum sem bar að garði og var
alltaf tilbúinn að fara með íslenska
vini í hvort sem var stuttar eða
langar ökuferðir og sýna þeim
Noreg.
Knut fékk stríðseftirlaun um
1968 og hætti fljótt að vinna enda
náði hann sér aldrei eftir volkið út
af Vestfjörðum, en meðan heilsan
entist ræktaði hann vináttuna við
fjölda fólks í nágrenninu og fór nið-
ur í Risör til að spjalla við fólk eða
keyra einhverja sem ekki áttu bíl.
Ég hitti hann síðast í fyrrasumar
þegar ég fylgdi móður minni og
móðursystur í heimsókn til systur
sinnar.
Hann var sjálfum sér líkur, en
hann gat ekki lengur keyrt bíl og
hann var ekki viss um hvort ég var
fluttur frá Osló, en hann gat strítt
mér og mágkonum sínum og hann
mundi vel eftir veru sinni á Íslandi
og gat rifjað upp atburði og fólk
þar.
Ég þakka fyrir að hafa eignast
Knut Aagestad fyrir vin.
Þorsteinn Ólafsson.
KNUT
AAGESTAD
✝ Sigrún Sigur-pálsdóttir fædd-
ist í Ytra-Dalsgerði
í Eyjafirði 25. ágúst
1918. Hún lést á
Landspítalanum í
Fossvogi 6. október
síðastliðinn. For-
eldrar hennar voru
Sigurpáll Friðriks-
son, bóndi í Nesi í
Eyjafirði, f. 30.12.
1890, d. 19.12. 1938,
og Indiana Einars-
dóttir húsmóðir, f.
20.12. 1891, d. 20.1.
1978. Sigrún var
næst elst fjögurra systkina.
Auður, f. 1916, látin, Kristjana,
f. 1921, og Sigurgeir, f. 1929.
Sigrún giftist 24.
nóvember 1945
Björgvini Þ. Árna-
syni, f. á Akureyri
17.7. 1916, d. 6.9.
1985. Eftirlifandi
börn þeirra eru
Páll Viðar, f. 11.11.
1944, Ingibjörg, f.
8.3. 1951, og tvíbur-
ar, Hallgrímur Óli
og Magnús Karl, f.
23.4. 1959.
Sigrún var mest-
an hluta ævi sinnar
heimavinnandi hús-
móðir.
Útför Sigrúnar fer fram frá
Grafarvogskirkju í dag og hefst
athöfnin klukkan 13.30.
Elsku amma mín.
Takk fyrir allar þessar yndislegu
og góðu stundir sem við höfum átt.
Ég sakna þín rosalega mikið, þú
varst líka eina amman sem ég átti.
Ég vildi að þú værir hér hjá mér, en
ég veit að þér líður vel núna hjá afa.
Það var alltaf gott að koma heim til
þín, þú varst svo hlýleg og notaleg,
mér þótti alltaf svo gott að kúra hjá
þér. Þú varst alveg einstaklega góð og
sérstök amma. Ég á eftir að sakna
þess að þú verðir ekki hér á jólunum
hjá okkur eins og þú varst vön að
vera. Það er mjög tómlegt þegar þú
ert farin, og það er mjög erfitt að
sætta sig við það, en svona er lífið.
Elsku amma ég geymi allar minn-
ingar okkar í hjarta mínu. Guð geymi
þig og varðveiti þig, hvíl í friði.
Þín
Hanna Sigrún.
Sigga mín, „mamman“ eins og ég
kallaði hana, er dáin. Fyrir mörgum
árum gerðum við með okkur sam-
komulag, ég vissi því þegar hringt var
í mig að hún beið eftir að fá að kveðja
mig og þennan heim. Við áttum sam-
an dýrmæta stund sem ég varðveiti
vel.
Siggu minni kynntist ég fyrir meira
en tuttugu árum og við fyrstu kynni
okkar mynduðust tengsl sem voru
einstök og óútskýranleg, ég varð eins
og yngsta barnið hennar. Ekki alls
fyrir löngu sagði hún við mig að hún
færi ábyggilega að deyja, hún sagði
stundum svona við mig þegar hún var
búin að vera með þrautir og var
þreytt. Ég svaraði henni í það skiptið
að hún skyldi muna samkomulagið
okkar, hún færi ekki án þess að við
mundum kveðjast, hún stóð við það.
Ekki er hægt að undirbúa sig fyrir
missi manneskju sem átti stóran stað
í hjarta mínu og elskaði mig eins og ég
er, án skilyrða. Þegar ég settist til að
skrifa nokkur orð áttaði ég mig á því
að okkar samskipti voru mjög mikið
fyrir okkur tvær, við áttum mörg
leyndarmál sem við geymum hvor á
sínum stað. Orðin verða fátækleg og
erfitt fyrir mig að lýsa tilfinningum
mínum en þeir sem til þekkja vita
hvað ég á við þegar Sigga mín var
annars vegar.
Ég trúi því að nú líði henni vel.
Elsku Sigga mín hvíl þú í friði.
Kæru Palli, Didda, Halli, Maggi,
fjölskyldur og aðstandendur innilegar
samúðarkveðjur. Guð veri með ykk-
ur.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt.
Þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti,
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfin úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð.
Þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sig.)
Valdís Albertsdóttir.
Elsku Sigga mín, nú ert þú horfin
frá mér um stund en við eigum örugg-
lega eftir að hittast þótt síðar verði og
þá munum við setjast niður og rifja
upp þau yndislegu ár sem ég átti með
þér frá því ég var rúmlega þriggja ára
gömul, en þá kynntist ég þér og fjöl-
skyldu þinni sem ég leit á jafnt á við
mína. Mamma og pabbi sögðu alltaf
að ég hefði hvergi viljað vera nema
hjá þér og Diddu sem er enn þá mín
allra besta vinkona. Manstu, Sigga
mín, hvað við hlógum við eldhúsborð-
ið þitt á Hjaltabakka, það runnu tárin
úr augunum á þér þegar þú rifjaðir
upp allt sem ég gerði í eldhúsi þínu á
Ránargötu, braut leirtauið þitt þegar
ég stóð uppi á stól og vaskaði upp en
aldrei sagðir þú orð en leyfðir mér
bara að halda áfram. Ég gæti skrifað
heila bók um samskipti mín við þig og
þína en við verðum að bíða betri tíma
með það. Didda og ég eigum eftir að
tala um æskuár okkar áfram og þú
getur nú rétt ímyndað þér hvort þú
verðir ekki einhvers staðar nálæg og
takir þátt í því með okkur á þinn hátt
þar sem þú ert nú. Jæja, elsku besta
Sigga mín, kannski hefur þú vitað
þegar ég kom, kyssti þig og kvaddi
rúmum tveim tímum áður en þú
hvarfst héðan úr þessu lífi, en ég veit
að þér líður vel og kysstu elsku Begga
þinn frá Hjöddu litlu, eins og þú kall-
aðir mig alltaf.
Hvíl þú í friði, Sigga mín.
Elsku Didda, Palli, Halli, Maggi og
fjölskyldur, guð veri með ykkur um
ókomna tíð
Hjördís.
SIGRÚN
SIGURPÁLSDÓTTIR
✝ Ragnar Jakobs-son fæddist að
Sogni í Kjós 27. júlí
1922. Hann lést á
Landspítalanum í
Fossvogi 3. október
síðastliðinn. Foreldr-
ar hans voru hjónin
Jakob Guðlaugsson
bóndi í Sogni, f. 7.
júní 1885, d. 27. maí
1959, og kona hans
Þorbjörg Jónsdóttir,
frá Vindási á Rang-
árvöllum, f. 25. ágúst
1884, d. 27. febrúar
1981. Ragnar ólst
upp hjá foreldrum sínum í Sogni
ásamt þrem alsystkinum og einum
hálfbróður, syni Þorbjargar af
fyrra hjónabandi. Systkini Ragn-
ars voru: Sigurjón, f. 27. júlí 1914,
d. 9. mars 1988; Guðlaugur, f. 24.
september 1916, d. 20. júní 1994,
og Kristín, f. 17. febrúar 1918, d.
4. febrúar 1997. Hálfbróðir Ragn-
ars var Guðmundur Árni Jónsson,
f. 30. september 1907, d. 19. mars
1989.
Hinn 8. október 1949 kvæntist
Ragnar Guðbjörgu Kristínu
Hannesdóttur, f. 22. október 1929.
Guðbjörg er dóttir Hannesar
Hanssonar skipstjóra í Vest-
mannaeyjum og konu hans Magn-
úsínu Friðriksdóttur. Ragnar og
Guðbjörg eignuðust átta börn.
Þau eru: 1) Kristín
Ólafía, f. 24. júlí
1949, gift Friðgeiri
Guðnasyni og eiga
þau tvö börn og fjög-
ur barnabörn. 2)
Hannes, f. 7. október
1952. 3) Magnea, f.
13. júlí 1956, gift
Þóri Lárussyni og
eiga þau tvö börn. 4)
Jakob, f. 25. júní
1958, kvæntur Mar-
gréti Halldórsdóttur
og eiga þau einn son,
Jakob á tvær dætur
af fyrra hjónabandi
og tvö barnabörn. 5) Þorbjörg, f.
20. apríl 1960, á hún fjögur börn.
6) Sigurjón, f. 26. september 1962,
kvæntur Hrönn Ásgeirsdóttur og
eiga þau þrjú börn. 7) Ingibjörg, f.
29. ágúst 1964, gift Valgarði Guð-
mundssyni og eiga þau tvö börn.
8) Sigrún, f. 9. janúar 1969, í sam-
búð með Árna Frey Jónssyni og
eiga þau tvö börn.
Ragnar lauk sveinsprófi í raf-
virkjun árið 1951 eftir nám hjá
Baldri Sveinssyni rafvirkjameist-
ara í Reykjavík. Að því loknu hóf
hann störf hjá Rafmagnsveitu
Reykjavíkur, þar sem hann vann
til ársins 1993.
Útför Ragnars fer fram frá Bú-
staðakirkju í dag og hefst athöfn-
in klukkan 13.30.
Elsku afi. Það er skrítið til þess að
hugsa að fyrir aðeins fáeinum vikum
varstu hress og við góða heilsu en nú
ertu farinn. Við vitum að þér líður
betur núna. Takk fyrir allar góðu
stundirnar. Eins og danstímana á
stofugólfinu í Grundó þar sem við
fengum að standa á tánum á þér dans-
andi. Bílferðirnar í gamla rúgbrauð-
inu, hjólaviðgerðirnar, standsetningin
á sumarbústaðnum og að ógleymdum
ótal stundum við viðgerðir á bílnum
okkar. Eitt það besta við þær var
hvernig þú kenndir okkur í leiðinni að
gera við hann sjálf. Afi, þakka þér fyr-
ir að finnast allt sem við krakkarnir
gerðum æðislegt og öll hvatningar-
orðin sem við fengum að heyra. Bless,
afi, takk fyrir minningarnar.
Hrefna og Davíð.
Nú er Raggi dáinn, var það fyrsta
sem ég heyrði þegar ég kom í vinnuna
á miðvikudag. Þó dauðinn sé óaðskilj-
anlegur hluti lífsins, lokapunkturinn,
verður maður alltaf jafn hissa og dap-
ur, þegar góður vinur og félagi deyr.
Ragnar Jakobsson var vinnufélagi
minn frá 1973, eða frá því að ég hóf
störf hjá Rafmagnsveitu Reykjavík-
ur. Þegar ungur maður hefur störf
hjá stóru fyrirtæki mótast viðhorf
manna til einstaklinga oft við fyrstu
kynni. Ég fann strax að Raggi var
maður, sem hægt var að treysta og
leita til.
Seinna þegar Ragnar gerðist verk-
stjóri götuljósadeildar sannreyndi ég
að þessi upplifun var rétt. Ragnar var
traustur vinur og góður fagmaður, úr-
ræðagóður og ósérhlífinn. Ef til vill of
ósérhlífinn, eins og svo margir af hans
kynslóð. Lífið var vinna og baráttan
fyrir afkomu fjölskyldunnar. Fjöl-
skyldan og vinnan voru númer eitt,
tómstundir og skemmtun þar á eftir.
Samviskusemi og ósérhlífni voru að-
alsmerki Ragnars.
Þessar fátæklegu línur eru ekki
fram settar til þess rekja lífsbaráttu
Ragnars Jakobssonar, heldur öllu
fremur til að votta aðstandendum
hans samúð mína og fyrir sjálfan mig
að gera eitthvað – eitthvað til þess að
minnast Ragnars.
Vinnufélagar mínir í götuljósadeild
vilja einnig votta aðstandendum
Ragnars samúð sína.
Rúnar Sveinbjörnsson.
RAGNAR
JAKOBSSON