Morgunblaðið - 07.03.2002, Blaðsíða 28
LISTIR
28 FIMMTUDAGUR 7. MARS 2002 MORGUNBLAÐIÐ
JAPANSKAR bókmenntir hafa
ekki verið mikið til umræðu hér á
landi. Japanir hampa þó jafnmörg-
um nóbelsverðlaunahöfum og við
Íslendingar en Kenzaburo Oe
hlaut verðlaunin árið 1994. Jap-
anski rithöfundurinn Haruki
Murakami hefur verið að hasla sér
völl á undanförnum árum og nú
geisar mikið Murakami-æði um
alla heimsbyggðina. Murakami
skrifar á japönsku en hefur hingað
til notið góðra þýðenda á ensku
sem hafa stuðlað að ört rísandi
frægðarsól og útbreiðslu verka
hans í hinum vestræna heimi.
Bækur hans hafa verið vinsælar og
verðlaunaðar og sumir vilja m.a.s.
orða hann við næsta nóbel. Verk-
um Murakami, skáldsögum og
smásögum, má gróflega skipta í
tvo flokka. Annars vegar skrifar
hann djúpar vísindaskáldsögur,
hinsvegar ofurhversdagslegar (ást-
ar)sögur af venjulegu
fólki í einhverskonar
(tilvistar)kreppu. Oftast
eru í verkum hans mikil
togstreita milli ólíkra
heima; s.s. raunveru-
leika og ímyndunar eða
blekkingar; og yfirleitt
stendur yfir einhvers
konar örvæntingarfull
leit um leið og einsemd
og firring eru allsráð-
andi. Ástin er flókin,
kynlífið fjarrænt,
tengslin rofin. Verk
hans takast á við flókna
lífshætti samtímans á
bæði skáldlegan og
frumlegan hátt.
Nú er komin út á íslensku ein
skáldsagna Murakami, Sunnan við
mærin, vestur af
sól. Söguhetjan,
Hajime, er af jap-
anskri 68-kynslóð,
vel efnaður og
vinnusamur, ham-
ingjusamlega giftur
tveggja barna faðir
í glæsihverfi
Aoyama. Hann er
einbirni og upplifði
systkinaskortinn
mjög sterklega í
æsku. Þá kynntist
hann stúlku, Shima-
moto, sem einnig er
einbirni og um hríð
voru þau mjög nán-
ir vinir. Þegar leiðir
skildu upplifði Hajime „glundroða
og þjáningar gelgjuskeiðsins“ (18)
í eigin smáveröld, í mikilli ein-
semd. Honum hefur gengið illa að
tengjast öðru fólki en hjónabandið
færir honum loksins frið sem er
snarlega rofinn þegar Shimamoto
birtist allt í einu, ægifögur og dul-
arfull. Veröld Hajime, ramm-
byggð, örugg og ástrík, er við að
hrynja og yfir hann hellist gam-
alkunnug tilfinning ófullnægju og
einmanaleika. Án Shimamoto er
lífið með öllum sínum dásemdum
einskis virði og Hajime eins og
„strandaglópur í loftleysinu á yf-
irborði mánans“ (144).
Undir lygnu yfirborði sögunnar
kraumar seiður magnaður af und-
arlegum stílgaldri, fínlegum teng-
ingum og vísunum. Samtölin og
lýsingar á t.d. útliti, klæðnaði og
hversdagslegustu athöfnum eins
og að keyra í vinnuna eru skrifuð
af raunsæi og nostursemi og minn-
ir á tölvuleik með vandaðri grafík.
Stíll Murakami (á ensku) er stillt-
ur vel og afar fágaður; einhvern
veginn „japanskur“ – (eru ekki all-
ir Japanir svipbrigðalaus hörkutól
sem bregða sér hvorki við sár né
bana...?). Þýðing Ugga Jónssonar
úr ensku rennur oftast ágætlega
en er á stundum fullsérviskuleg til
að ná skáldlegum einfaldleika og
„kyrrleiksástríðu“ Murakami alveg
nógu vel. Orð eins og t.d. „máni“
og „náir“ um tungl og lík (hræ)
eru fullhátíðleg.
Kreppa Hajime, hins miðaldra
karlmanns, eiginmanns og föður
við aldarlok sem orðin er algengt
þema nútímaskáldsagna, knýr sög-
una miskunnarlaust áfram. Í sál
hans er ekki aðeins tekist á um
sektarkennd, fórnir, ást og skyldu-
rækni. Kynslóð hans þarf líka að
glíma við þjóðfélagslegt vandamál,
sem Murakami gerir meiri skil í
annarri skáldsögu, The Wind-Up
Bird Cronicle (1994–5): meðfætt
rótleysi sem stafar af innrás vest-
rænna áhrifa og peningaflæðis á
japanskt þjóðlíf og menningu; og
uppgjör við stríðsglæpi Japana í
Víetnam og Kína þar sem blóðug
fortíðin liggur í samsærislegu dái
gleymskunnar. Í sögunni skarast
heimar, renna saman og rekast á:
veröld sem var og veröld verð-
bréfabrasks, háhýsa og jazz-bara;
heimar austurs og vesturs; ókunn-
ur heimur Shimamoto; brothætt
veröld fyrstu kærustu Hajime sem
hann lagði í rúst af grimmd og
sjálfselsku; heimur bernsku og
sakleysis, minninga, einsemdar og
eftirsjár. Hajime er í vernduðum
einkaheimi þar sem hann skeytir
ekki um aðra en sjálfan sig og lifir
lífinu með hangandi hendi (183) en
ef hann freistar útgöngu missir
hann tökin því kona hans og dætur
eru eina kjölfestan. Tómið í lífi
hans verður ekki fyllt og eftir
samvistir við Shimamoto getur
hann ekki snúið aftur til fyrri til-
veru (166).
Sunnan við mærin er eitthvað
stórkostlegt sem allir þrá, er það
Paradís og hvernig kemst maður
þangað? Vestur af sól er annar
áfangastaður en varla betri kostur
því Síberíugangan þangað kostar
menn lífið. Og hvað á maður þá að
gera? Skáldsaga Murakami er fín-
gerð og blátt áfram og vekur upp
krefjandi spurningar um flókið nú-
tímalíf sem hver verður að svara
fyrir sig.
Paradísarvist eða
Síberíuganga?
BÆKUR
Skáldsaga
(á ensku: South of the Border, West of
the Sun) eftir japanska rithöfundinn Har-
uki Murakami, 197 bls. Uggi Jónsson
þýddi, sennilega úr ensku en það er ekki
tekið fram. Bjartur, 2001.
SUNNAN VIÐ MÆRIN, VESTUR AF SÓL
Haruki
Murakami
Steinunn Inga Óttarsdóttir