Morgunblaðið - 18.04.2002, Blaðsíða 52
MINNINGAR
52 FIMMTUDAGUR 18. APRÍL 2002 MORGUNBLAÐIÐ
Elsku Sóley okkar. Það er ekki
hægt að lýsa því í orðum hvað sorgin
og söknuðurinn er mikill í hjörtum
okkar. Þegar við horfum til baka
hugsum við hversu heppin við erum
að hafa fengið þig til okkar sem dótt-
ur.
Elsku ljósið okkar, þú ert búin að
gefa svo margt af þér og þú kenndir
mörgum margt. Þó svo að það hafi
verið erfiðir tímar hefur þér alltaf
tekist að brosa til okkar eins og ekk-
ert hrjáði þig, þó svo að þessi erfiði
sjúkdómur hafi verið þér þung byrði,
elsku hjartað okkar. Þú ert litla
stelpan okkar sem varst alltaf svo
hress og kát og þá minningu geymum
við í hjörtum okkar. Núna er það
verk Guðs að vernda þig, gefa þér
góðar stundir á himnum. Takk fyrir
allt sem þú hefur gefið okkur, núna
er þjáningum þínum lokið. Við elsk-
um þig, litli sólargeislinn okkar.
Við viljum þakka Jóni, Guðmundi,
Ólafi Gísla, Sigrúnu, starfsfólki
barnadeildar og gjörgæslu fyrir alla
þá umönnun og góðu vináttu sem þau
veittu Sóleyju og okkur á þessum erf-
iðu tímum.
Nú ertu leidd, mín ljúfa,
lystigarð Drottins í,
þar áttu hvíld að hafa
hörmunga og rauna frí,
við Guð þú mátt nú mæla,
miklu fegri en sól
unan og eilíf sæla
er þín hjá lambsins stól.
Dóttir, í dýrðar hendi
Drottins, mín, sofðu vært,
hann sem þér huggun sendi,
hann elskar þig svo kært.
Þú lifðir góðum Guði,
í Guði sofnaðir þú,
í eilífum andarfriði
ætíð sæl lifðu nú.
(Hallgr. Pét.)
Kveðja.
Mamma og pabbi.
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
SÓLEY
INGVARSDÓTTIR
✝ Sóley Ingv-arsdóttir fæddist
á Landspítalanum
við Hringbraut hinn
1. nóvember árið
2000. Hún lést á
barnadeild Landspít-
alans hinn 10. apríl
síðastliðinn. Móðir
Sóleyjar er Sæunn
Magnúsdóttir, for-
eldrar hennar eru
Þórey Sumarliða-
dóttir og Magnús
Ingi Ásgeirsson.
Faðir Sóleyjar er
Ingvar Örn Birgis-
son, foreldrar hans eru Hólmfríð-
ur Hrönn Ingvarsdóttir og Birgir
Eiríksson.
Útför Sóleyjar fer fram frá Bú-
staðakirkju í dag og hefst athöfn-
in klukkan 13.30.
Æ, virzt mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi
rótt.
(Þýð. S. Egilsson.)
Elsku Sóley, engill-
inn okkar. Þá er komið
að kveðjustund. Það er
ólýsanlegt hversu
mikla hamingju þú
færðir okkur þegar þú
komst í þennan heim til
okkar allra.
Og allan þann kær-
leik og hlýju, sem geisl-
aði frá þér, elsku vina
mín. Ég vil þakka þá stund sem ég
átti með þér og ég vil þakka foreldr-
um þínum fyrir að leyfa mér að taka
þátt í lífi þínu í gegnum alla erfiðleika
þína. Allan þann tíma sem ég átti
með þér geymi ég í hjarta mínu um
alla ævi.
Þú varst og ert sólargeisli okkar
allra og mesta hetja. Engillinn minn,
en ég á líka tvær hetjur sem ég dáist
að, það eru foreldrar þínir. Þau sem
gáfu þér allan kærleika sinn og stóðu
sem hetjur við hlið þér allan tímann.
Bið ég Guð almáttugan og Jesú
Krist að varðveita þau og gefa þeim
styrk í sorg sinni.
Ég vil senda þakklæti til allra á
Barnaspítala Hringsins sem önnuð-
ust Sóleyju okkar og gáfu henni ást
og vináttu í veikindum hennar.
Þakka ég þeim einnig fyrir þá vináttu
sem þau gáfu Sæunni og Ingvari, það
er ómetanlegt.
Frændfólkið þitt sendir þér hjart-
ans þakkir fyrir stundirnar sem það
átti með þér.
Nú ertu í faðmi Guðs og hann mun
gæta þín, elsku litli engillinn minn.
Vertu nú yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni.
Sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. J. frá Presthólum.)
Kær kveðja.
Þórey amma og fjölskylda.
Huggi þig Drottinn á harmanna stund,
hann leiði og styðji þig ástríkri mund.
Hann lítur þitt hugarstríð, læknar þitt sár,
líknandi þerrar af hvarminum tár.
Hann sendi þér ljósgeisla, lifandi trú,
lausnarinn sjálfur er náðargjöf sú,
er gefur þér hryggum þann fögnuð og frið,
hjá föðurnum bíður þín ástvina lið.
(Þ.A.E.)
Elsku litli sólargeislinn okkar.
Það er ólýsanlegt hve sorgin og
söknuðurinn nístir hjörtu okkar og
tómarúmið er mikið.
Það var mikil gleði í móður- og föð-
urætt þinni þegar þú fæddist. Þú
varst fyrsta og eina barnabarnið.
En í febrúar 2001 breyttist gleði í
sorg, þú greindist með hvítblæði að-
eins þriggja mánaða gömul. Síðan
hefur tíminn verið erfiður fyrir alla,
þú gekkst undir harða meðferð og
varst oft mikið veik en það komu líka
góðar stundir.
Elsku Sóley, þú varst svo dugleg.
Þú varst mjög glaðlynd og brostir til
okkar í gegnum tárin þegar þú varst
veik. Þú varst ákveðin og mjög tón-
elsk. Um leið og þú heyrðir lag fórstu
að smella fingrum og dilla þér. Ekki
má gleyma stríðninni. Þú hafðir svo
gaman af því að stríða þeim ömmu og
afa. Glaðlyndi þitt og ákveðni hjálp-
aði þér oft upp úr veikindum. Þú
varst okkur svo mikill gleðigjafi, litla
vina, og við erum innilega þakklát
fyrir tímann sem við fengum með
þér. Eins og allir vita sem til þekkja
þá áttir þú alveg ótrúlega foreldra
sem bæði bjuggu hjá þér á spítalan-
um mánuðum saman og allur þeirra
kraftur fór í umönnun og velferð
þína. Elsku stelpan okkar, þú varst
svo mikil hetja.
Elsku Ingvar og Sæunn, sorg ykk-
ar og söknuður er mikill. Þið eruð
ótrúlega dugleg. Þið eigið svo marga
góða að sem styðja ykkur á þessari
erfiðu stundu. Minningar um alveg
sérstakt barn munu fylgja ykkur.
Guð gefi ykkur og öðrum aðstand-
endum styrk. Sóley, engillinn okkar,
takk fyrir allt sem þú hefur gefið
okkur. Minningin um þig og allar
góðu stundirnar gefa okkur styrk og
geymast í hjörtum okkar. Hvíl þú í
friði, elsku litla vina.
Amma og afi í Engjaseli.
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virzt mig að þér taka
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(S. Egilsson.)
Elsku Sóley mín. Það er svo sárt
að missa þig, engillinn minn. Það er
ótrúlegt hvað hægt er að leggja á
svona lítið og saklaust barn. En þú
barðist eins og hetja og gerðir hvert
kraftaverkið á fætur öðru. Það var
ótrúlegt að sjá hvernig þú brostir
alltaf í gegnum tárin. Lífsvilji þinn
var ótrúlegur. Ég get ekki lýst því
stolti sem ég fylltist þegar ég var
beðin að vera guðmóðir þín, mér
fannst það tengja okkur svo mikið.
Vegna veikinda þinna og einangrun-
arinnar sem þú þurftir svo oft að vera
í fékk ég ekki að kynnast þér eins vel
og ég vildi. En stundirnar sem við
áttum saman geymi ég í hjarta mínu,
um fallega stelpu, glaðlynda og ótrú-
lega hetju sem hefur kennt mér svo
margt. Minningar um þig munu
fylgja mér um ókomna tíð.
Elsku Ingvar og Sæunn, þið eruð
alls ekki síður stórkostlegar hetjur
sem sýnduð Sóleyju þvílíka ást og
umhyggju og eydduð allri ykkar orku
og tíma í að veita henni styrk í þess-
um erfiðu veikindum. Guð veri með
ykkur í þessari miklu sorg. Elsku
Sóley mín. Guð geymi þig engillinn
minn.
Þín frænka,
Ingibjörg Edda.
Elsku Sóley mín. Nú eru komin
upp til himna og sendir okkur þitt
stóra bros með sólinni. Þótt að þú
hafir bara verið með okkur í stuttan
tíma mun minningin um þig endast
að eilífu. Ég veit í hjarta mínu að þér
líður vel núna og þú munt alltaf verða
stærsta hetjan mín.
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virzt mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engill, svo ég sofi rótt.
(Þýð. S. Egilsson)
Katrín frænka og öll dýrin.
Þerraðu tár af þreyttum hvörmum
þeirra sem búa hér í heim.
Berðu nú sál á blíðum örmum
bjartastan inn í sólargeim.
(Þ.A.E.)
Elsku Ingvar, Sæunn og fjölskyld-
ur. Nú er þessari löngu og ströngu
baráttu lokið og Sóley hefur fengið
friðinn, laus við kvöl og pínu.
Sorgin er sár, en í hugum okkar
standið þið eftir sem sannar hetjur.
Litli engillinn ykkar valdi svo sann-
arlega réttu fjölskylduna til að styðja
sig á lífsgöngunni. Þið gerðuð allt
sem í ykkar valdi stóð, til að Sóley
byggi við öryggi og gleði þrátt fyrir
erfiðar sjúkralegur.
Og góðar stundir áttuð þið líka
saman. Litli bassaleikarinn með
stóra brosið mun alltaf eiga sinn sess
í hjörtum ykkar.
Megi ljós minninganna lýsa ykkur
fram á veginn.
Ólöf, Kristján, Knútur og
Margrét.
Elsku litli engill. Ég veit ekki hvað
ég get sagt. Nú hefur þú verið leyst
frá öllum þínum þrautum. Þú barðist
eins og hetja og með bros á vör. Ég
vil bara þakka þér þetta síðasta kvöld
sem ég átti með þér og mömmu þinni.
Þú varst svo glöð og hress, vildir bara
ekki fara að sofa, bara syngja, dansa
og sprella. En það er nú bara lýsingin
á þér, litla elska. Minningu þína mun
ég ávallt varðveita í hjarta mínu.
Þú ert hetja, Sóley, sofðu rótt.
Guð varðveiti þig og gefi mömmu
og pabba styrk.
Við sjáumst síðar.
Ég syng af gleði, syng af hjarta
sönginn dýrsta, er ég kann,
því ekkert hljómar yndislegra en hann,
óðurinn um kærleikann.
Ég syngja mun þann söng um eilífð
samræmt stef með englum hans.
Í sölum himins hljómar óður skær,
helgur söngur kærleikans.
(Þýð. Björk.)
Hún er ljóshærð og lagleg
hún er ljúf eins og vor.
Stráir ástríku yndi
við hvert einasta spor.
Hún er elskuð af öllum,
og í athöfnum dygg.
Hún var sólskinsbarn síglatt.
Hún er saklaus og trygg.
(Einar Kristj.)
Arna Sif.
Heillandi ljós,
hlæjandi rós,
hughreyst á ást og snuði.
Dimman köld,
dagsins kvöld.
Í dag er bjart hjá guði.
Elsku Sóley, nú ertu farin, ákvaðst
að kveðja. Eftir sitjum við með ólýs-
anlega sorg í hjarta og finnum
hversu vanmáttug við í raun erum.
Við vorum nýflutt til landsins aftur
þegar þú varðst eins árs, það var svo
gaman að hitta þig svona fríska og
káta. Því var það mikið áfall þegar við
heyrðum nokkrum dögum seinna að
þessi miskunnarlausi sjúkdómur
hefði aftur tekið völdin og þú varst
orðin mjög veik.
Við tók erfiður tími á sjúkrahús-
inu, og mörg kvöldin sátum við með
pabba þínum og mömmu og reyndum
að láta tímann líða á meðan þú, þessi
litli kroppur barðist eins og hetja.
Þessi tími var mjög erfiður en hann
færði okkur öll nær hvert öðru, og öll
vorum við hjá þér og héldum stíft í þá
litlu von sem var.
En þín var vænst annars staðar og
þegar þú kvaddir þennan heim sáum
við kyrrðina sem kom yfir þig, þú
varðst svo friðsæl og falleg og við
skildum að baráttan var búin og þér
leið loks vel.
Það koma upp svo margar tilfinn-
ingar en eitt stendur þó upp úr og
það er þakklæti fyrir að fá að hafa
tekið þátt í þinni stuttu ævi.
Við trúum að allir hafi eitthvert
áætlunarverk hér á jörðu en maður
spyr sjálfan sig: „Hvert var þitt?“ Þú
sem stoppaðir allt of stutt hér, en ef
maður hugsar sig um þá er það
kannski augljóst, þú kenndir okkur
öllum svo margt og ert yngsti kenn-
ari sem að við höfum haft og trúlega
höfum við lært af þér hvað er mik-
ilvægast í þessum heimi: Að vera
þakklát fyrir það sem að við höfum,
að virða þá hluti sem maður áður
taldi sjálfsagða eins og að vera frísk-
ur og eiga frískt barn. Þú kenndir
okkur líka að njóta dagsins í dag og
njóta allra stunda með þeim sem
maður elskar.
Elsku Ingvar og Sæunn, það er
svo fátt sem að hægt er að segja til að
hughreysta ykkur á þessari stundu,
lífið verður stundum svo óskiljanlegt
og það er svo margt sem okkur er
ekki ætlað að skilja hér í þessu lífi, en
litla snúllan mun ætíð fylgja ykkur og
vera stolt af því að eiga ykkur sem
foreldra.
Við biðjum guð að veita ykkur,
fjölskyldum ykkar og aðstandendum
styrk á þessari erfiðu stundu.
Elsku Sóley, hún Elísabet kyssir
myndina af þér á hverjum degi og við
munum segja henni frá hvers konar
vinkonu hún missti þegar hún missti
þig.
Yfir borginni hefur ljómað full-
kominn regnbogi síðan þú lést, og
okkur finnst við sjá í honum miðjum
lítinn engil labbandi með tuskukött-
inn sinn, brosandi, þakka fyrir sig og
veifa.
Góða ferð.
Árný og Kristján (Adda
og Kiddi).
Legg ég nú bæði líf og önd,
ljúfi Jesú, í þína hönd,
síðast þegar ég sofna fer
sitji Guðs englar yfir mér.
(Hallgr. Pét.)
Myrkur vetrardagur varð bjartur
og fagur þegar Sæunn kom með þá
frétt að hún ætti von á barni. Upp
hófust þá miklar vangaveltur hvað
mömmur okkar ætluðu að gera, við
vorum nefnilega flestar bumbubúar,
nema Sóley Björk sem var nýfædd.
Við áttum að verða bestu vinkonur og
hittast og leika okkur saman. Minna
varð úr en ákveðið var, því miður.
Við náðum þó að hittast, en ekki
nógu oft. Þú varst svo lasin en samt
varst þú mesta hetja sem hægt var að
hugsa sér. Mömmur okkar eiga eftir
að segja okkur sögurnar af þér. Við
komum til með að þekkja þig þó að
við eigum ekki eftir að hitta þig aftur
hér.
Elsku Sóley, hetjan okkar, hvíl þú í
friði.
Sofðu rótt, sofðu rótt,
nú er svartasta nótt.
Sjáðu sóleyjarvönd,
geymdúhann sofandi í hönd.
Þú munt vakna með sól,
guð mun vitjáum þitt ból.
Góða nótt, góða nótt,
vertu gott barn og hljótt.
Meðan yfir er húm
situr engill við rúm.
Sofðu vært, sofðu rótt,
eigðu sælustu nótt.
(Jón Sig. frá Kaldaðarnesi)
Við og fjölskyldur okkar sendum
ykkur, Sæunn og Ingvar, okkar inni-
legustu samúðarkveðjur.
Sóley Björk, Hildur Anna,
Sara Dröfn, Sandra Rakel.
Elsku Sæunn og Ingvar. Við vor-
um harmi slegnar þegar við fengum
fréttirnar um að litli engillinn ykkar
væri farinn frá ykkur. Sóley var alltaf
hetja í okkar augum og höfum við
ætíð dáðst að því hve sterk og ákveð-
in hún hefur verið í gegnum veikindi
sín. Við sjáum það alltaf betur og bet-
ur að guðirnir taka fyrst þá sem þeir
elska mest.
Gegnum tárin geisli skín
gleði og huggun vekur.
Göfug andans áhrif þín
enginn frá mér tekur.
(Erla.)
Nú legg ég augun aftur,
ó, guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virzt mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Þýð. S. Egilsson.)
Elsku Sæunn, Ingvar og aðstand-
endur. Við vottum ykkur alla okkar
samúð og styrk.
Ósk, Sigríður, Katrín Ösp,
Linda Ósk og Bára.
Elsku litla, sterka og fallega Sóley.
Núna er barátta þín búin og þú á leið-
inni á betri stað.
Ég man þegar ég sá þig fyrst, eins
dags gamla eða svo, að fara heim af
spítalanum með mömmu þinni og
pabba. Þau gátu varla andað, þau
voru svo stolt af litlu fullkomnu stelp-
unni sinni. Þennan dag hélduð þið
bjartsýn út í lífið og þessi bjartsýni
hefur verið einkennandi fyrir ykkur
síðan.
MORGUNBLAÐIÐ tekur afmælis- og minningargreinar til birtingar
endurgjaldslaust. Greinunum er veitt viðtaka á ritstjórn blaðsins í
Kringlunni 1, Reykjavík, og á skrifstofu blaðsins í Kaupvangsstræti 1,
Akureyri. Þá er enn fremur unnt að senda greinarnar í símbréfi (569
1115) og í tölvupósti (minning@mbl.is). Nauðsynlegt er, að símanúmer
höfundar/sendanda fylgi.
Um hvern látinn einstakling birtist formáli, ein uppistöðugrein af
hæfilegri lengd, en aðrar greinar um sama einstakling takmarkast við
eina örk, A-4, miðað við meðallínubil og hæfilega línulengd, - eða 2.200
slög (um 25 dálksentimetra í blaðinu). Tilvitnanir í sálma eða ljóð tak-
markast við eitt til þrjú erindi. Greinarhöfundar eru beðnir að hafa
skírnarnöfn sín en ekki stuttnefni undir greinunum.
Mikil áhersla er lögð á, að handrit séu vel frá gengin, vélrituð eða
tölvusett. Sé handrit tölvusett er æskilegt, að disklingur fylgi útprent-
uninni. Það eykur öryggi í textameðferð og kemur í veg fyrir tvíverknað.
Auðveldust er móttaka svokallaðra ASCII-skráa sem í daglegu tali eru
nefndar DOS-textaskrár. Þá eru ritvinnslukerfin Word og Wordperfect
einnig auðveld í úrvinnslu.
Birting afmælis- og
minningargreina