Morgunblaðið - 25.08.2002, Blaðsíða 29
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 25. ÁGÚST 2002 29
hittast á fundi gaf til kynna að viðfangsefnið væri
mikilvægt og aðkallandi. Þó ekki sé annað þjónar
stór alþjóðleg ráðstefna af þessu tagi því hlut-
verki að beina athygli stjórnvalda, hagsmuna-
samtaka, fjölmiðla og almennings um allan heim
að umræðuefninu og þá er til nokkurs unnið. Orð
eru nú einu sinni til alls fyrst.
Tengsl efna-
hagsþróunar og
umhverfismála
Í Jóhannesarborg
virðist enn frekar en í
Ríó eiga að beina
sjónum að tengslum
efnahagsþróunar og
umhverfismála. Flest-
ir geta verið sammála um að æskilegt sé að
minnka bilið milli ríkra og fátækra í heiminum
og auðvelda þróunarríkjunum að verða bjarg-
álna. En það hefur líka verið bent á að ef með-
alfjölskylda í Kína gengi jafnfreklega á auðlindir
jarðar, notaði jafnmikla orku og losaði jafnmikið
af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið
og bandaríska vísitölufjölskyldan yrði Jörðin
fljótlega óbyggilegur staður. Efnahagsþróun í
fátækustu ríkjum heims má ekki kosta umhverf-
ið jafnmikið og þróunin í ríku löndunum hefur
kostað. Þróunarríkin skortir hins vegar tækni-
þekkingu til að byggja upp efnahagslíf sitt með
umhverfisvænum hætti. Ein mikilvægasta
spurningin, sem menn standa frammi fyrir á ráð-
stefnunni í Jóhannesarborg, er hvernig ríku
löndin geti með árangursríkum hætti miðlað til
þróunarríkjanna þekkingu sinni á t.d. endurnýj-
anlegum orkugjöfum, útblástursfríum vélum og
sjálfbærum nytjum náttúruauðlinda.
Ýmis ríki, ekki sízt Bandaríkin, vilja gera þá
kröfu til þróunarríkjanna að á móti aðstoð geri
þau hreint fyrir sínum dyrum, uppræti spillingu
og bæti stjórnkerfið þannig að aðstoðin komi að
raunverulegum notum. Jafnframt hafa Banda-
ríkin lagt áherzlu á að þróunarríkin undirgangist
skuldbindingar um t.d. samdrátt í útblæstri
gróðurhúsalofttegunda, ekki síður en iðnríkin.
Þetta tvennt fer saman; þróunarríkin geta varla
fallizt á slíkt nema þau eigi á móti víst að fá að-
gang að tækni, sem gerir þeim kleift að framþróa
efnahagslífið án þess að margfalda t.d. brennslu
jarðefnaeldsneytis. Og um leið hljóta þróunar-
ríkin að segja sem svo: Ef við eigum að takast á
hendur skuldbindingar um að halda útblæstri
gróðurhúsalofttegunda í skefjum verða ríku iðn-
ríkin líka að sýna að þau séu tilbúin að breyta
lífsháttum sínum í þágu umhverfisins.
Það er önnur hlið á málinu, sú að hin sára fá-
tækt í þróunarríkjunum gerir það að verkum að
fólk getur ekki leyft sér að hugsa um það hvort
lifnaðarhættir þess séu „sjálfbærir“. Bóndi í Afr-
íku eða Suður-Ameríku, sem heggur og brennir
niður skóginn til að brjóta nýjan akur, er ekkert
að velta fyrir sér ástandi skóganna á heimsvísu,
heldur hvernig fjölskylda hans geti dregið fram
lífið. Þannig er efnahagsleg framþróun og út-
rýming fátæktar í raun forsenda þess að fólk í
þróunarlöndunum geti tamið sér lífshætti í anda
sjálfbærrar þróunar. Menn greinir hins vegar á
um hvernig fjármagna skuli aðstoð við þróun-
arlöndin, hvort það eigi að gerast með beinum
fjárframlögum úr opinberum sjóðum eða með
því að hvetja til fjárfestinga einkafyrirtækja og
draga úr viðskiptahindrunum.
Sú breyting hefur orðið í umræðum um hvern-
ig koma megi þróunarríkjunum til aðstoðar að æ
fleiri líta nú á aukna fríverzlun sem lykilþátt í að
bjarga þriðja heiminum úr fátæktargildru sinni.
Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóð-
anna, hefur t.d. í bréfi til leiðtoga aðildarríkjanna
hvatt þá til að nýta tækifærið í Jóhannesarborg
og innsigla enn frekar þann árangur, sem náðist
á fundi Heimsviðskiptastofnunarinnar í Doha í
Katar, þar sem ákveðið var að hefja nýja lotu
samninga um alþjóðlega fríverzlun. En rétt eins
og menn hljóta að spyrja hvort Vesturlandabúar
séu þegar á reynir tilbúnir að kaupa sér um-
hverfisvænni bíla í stað stóru jeppanna sinna
með benzínvélunum verða iðnríkin að horfast í
augu við að til þess að veita þróunarríkjunum
þann aðgang að mörkuðum sínum sem þau þurfa
lífsnauðsynlega á að halda verður að ganga gegn
hagsmunum háværra þrýstihópa, ekki sízt í
landbúnaði en einnig í iðnaði.
Framlag Íslands
Ríkisstjórn Íslands
hefur sýnt fundinum í
Jóhannesarborg verð-
skuldaðan áhuga. Davíð Oddsson forsætisráð-
herra mun sækja leiðtogafundinn, sem er há-
punktur ráðstefnunnar, og Siv Friðleifsdóttir
umhverfisráðherra sækir ráðstefnuna einnig.
Auk þeirra fer nokkur hópur embættismanna og
fulltrúa hagsmuna- og félagasamtaka til Jóhann-
esarborgar. Í undirbúningi sínum fyrir fundinn
hafa íslenzk stjórnvöld einkum lagt áherzlu á tvö
mál, annars vegar varnir gegn mengun hafsins
og hins vegar á orkumál. Í þessum málum telja
Íslendingar sig búa yfir reynslu, sem hægt sé að
miðla öðrum. Annað málið snýst um mikilvæga
þjóðarhagsmuni Íslands, þ.e. að varnir gegn
mengun hafsins verði efldar. Tillaga Íslands um
að Sameinuðu þjóðirnar safni saman á einn stað
upplýsingum um ástand hafsins og áhrif þess á
félagslega og efnahagslega þróun er komin inn í
drög að yfirlýsingu Jóhannesarborgarfundarins
um sjálfbæra þróun og góðar líkur taldar á að
hún verði samþykkt. Hitt málið snýr að því hvað
við Íslendingar getum gert til þess að aðstoða
þróunarríkin við að byggja upp vistvænt efna-
hagskerfi. Ef við getum miðlað fátækum ríkjum
af reynslu okkar í nýtingu endurnýjanlegra
orkulinda, þ.e. jarðhita og vatnsafls, væri það
mikilvægt framlag til sjálfbærrar þróunar. Ís-
land leggur nú þegar sitt af mörkum í þessu efni
með rekstri Jarðhitaskóla SÞ en sjá má fyrir sér
að við gerum meira af að veita þróunarríkjum
beina aðstoð á þessu sviði.
Fulltrúar Íslands munu þó ekki bara koma
færandi hendi til Jóhannesarborgar heldur
munu þeir standa frammi fyrir erfiðum pólitísk-
um spurningum. Hverju munum við t.d. svara
þegar spurt verður af hverju Ísland, þar sem
þjóðartekjur á mann eru hvað hæstar í heim-
inum, leggi aðeins 0,12% af þjóðarframleiðslu til
þróunaraðstoðar? Sennilega verðum við minnt á
að íslenzk stjórnvöld hafi lýst því yfir 1993 að ár-
ið 2000 yrði þetta hlutfall 0,4% og að í Ríó árið
1992 hafi iðnríkin samþykkt að um aldamótin
myndu þau leggja 0,7% þjóðarframleiðslu af
mörkum. Og ef við svörum því til að það sé nær
að styðja þróunarríkin með fríverzlun og fjár-
festingum en með beinni þróunaraðstoð, munum
við þá geta svarað þeirri spurningu játandi hvort
við séum tilbúin að lækka verulega tolla á inn-
fluttar landbúnaðarafurðir frá fátækum löndum?
Rétt eins og hin ríku löndin verðum við að vera
reiðubúin að færa einhverjar fórnir í þágu um-
hverfisins og til þess að minnka bilið milli ríkra
og fátækra í heiminum. Þær fórnir eru þó létt-
vægar í samanburði við þá miklu heildarhags-
muni mannkynsins, sem eru í húfi.
Morgunblaðið/RAX
Frá íshellunum í Hrafntinnuskeri.
„Og um leið hljóta
þróunarríkin að
segja sem svo: Ef við
eigum að takast á
hendur skuldbind-
ingar um að halda
útblæstri gróður-
húsalofttegunda í
skefjum verða ríku
iðnríkin líka að sýna
að þau séu tilbúin að
breyta lífsháttum
sínum í þágu um-
hverfisins.“
Laugardagur 24. ágúst