Morgunblaðið - 25.08.2002, Page 30

Morgunblaðið - 25.08.2002, Page 30
SKOÐUN 30 SUNNUDAGUR 25. ÁGÚST 2002 MORGUNBLAÐIÐ DEILUR um miðlunarlón og virkjun í Þjórsárverum hafa nú staðið í meir en 30 ár. Þar togast á óumdeilt og alþjóðlega viðurkennt líffræðilegt mikilvægi Þjórsárvera annars vegar og fýsilegir virkjunarmöguleikar hins vegar. Í úrskurði Skipulagsstofnunar virðast virkjunarhagsmunir hafa haft betur, eða getur farið saman verndun veranna og nýting svæðisins til orku- öflunar? Þjórsárver eru einstæð hálendis- vin. Nánast hvar sem mælistika er rekin niður í líffræðilegum saman- burði lenda Þjórsárver efst. Þar eru fleiri tegundir blómplantna, mosa, sveppa og fugla en annars staðar á hálendinu, þar er stærsta og fjöl- breyttasta votlendi miðhálendisins og langmestu freðmýrar á landinu. Þótt Þjórsárver séu þekktust fyrir frjó- samt og fjölskrúðugt votlendi, eru þar einnig víðáttumiklar lyng- og víðiheiðar. Í Þjórsárverum gætir áhrifa búfjárbeitar lítið og þar eru áberandi blómfagrar og blaðstórar jurtir sem beit hefur útrýmt annars staðar. Þar finnast tegundir blóm- plantna, mosa og smádýra sem eru sjaldgæfar á hálendi og nokkrar fléttutegundir, sem eru fágætar á landsvísu og jafnvel heimsvísu. Síðast en ekki síst eru Þjórsárver mesta og langmikilvægasta varpland heiða- gæsar í heiminum. Er veitan tiltölulega lítil framkvæmd? Því hefur verið haldið fram að Norðlingaölduveita nái tæplega inn í sjálf Þjórsárver og með því að lækka lónhæð í 575 m hafi verið dregið að mestu úr neikvæðum áhrifum. Þann- ig segir í umsögn iðnaðar- og við- skiptaráðuneytisins til Skipulags- stofnunar að „miðlunarlón í hæðinni 575 m y.s. hafi ekki nein teljandi áhrif á náttúruverndargildi Þjórsárver- anna og friðlandsins“ (tilvitnun í úr- skurði Skipulagsstofnunar, bls. 98), og í bréfi Agnars Ólsens verkfræð- ings hjá Landsvirkjun f.h. minnihluta Þjórsárveranefndar segir að skerð- ing á náttúruverðmætum sé „óveru- leg“ (bls. 100 í úrskurði). Náttúru- vernd ríkisins og öll helstu umhverfissamtök landsins leggjast hins vegar gegn framkvæmdinni. Umræðan um áhrif Norðlingaöldu- veitu hefur litast af deilum um það hvar mörk Þjórsárvera liggja. Ástæð- an er að friðlandið nær ekki yfir öll Þjórsárver. Friðlýsingamörkin réð- ust á sínum tíma m.a. af brúklegum viðmiðunarpunktum í landi þar sem fátt er um nothæf kennileiti á kortum og utan línunnar lentu gróðurlendi að norðan, sunnan og aust- an. Lón Norðlingaöldu- veitu yrði að stórum hluta innan marka Þjórsárvera í landfræði- legum og vistfræðileg- um skilningi, og myndi m.a. fara yfir 7 km² af grónu landi, mikilvæg varpsvæði heiðagæsar og stór rústasvæði. Lón- ið næði um 5 km inn í friðlandið sjálft – sem er svipuð vegalengd og frá Tjörninni í Reykjavík og inn að Elliðaám. Það yrði um 12 km langt eft- ir farvegi Þjórsár og tæpir 33 km² að flatar- máli, álíka stórt og Mývatn (37 km²) og svipað að flatarmáli og allt byggt land innan borgarmarka Reykjavíkur (34 km², útivistarsvæði og óbyggt land frádregið). Hversu mikil áhrif hefði Norðlingaölduveita? Austurjaðri Þjórsárvera hefur þegar verið raskað með skurðum og lónum Kvíslaveitu en meginhluti ver- anna, þar með talið allt land vestan Þjórsár, er enn að heita má ósnortinn og án sýnilegra mannvirkja. Hér er ekki pláss til að rekja áhrif fram- kvæmdarinnar en í töflunni að neðan sést að Skipulagsstofnun metur áhrif veitunnar bæði veruleg og óaftur- kræf fyrir alla helstu þætti náttúru- fars. En það hangir meira á spýtunni en virðist við fyrstu sýn. Því fer nefni- lega fjarri að umhverfisáhrif veitunn- ar séu að fullu komin fram eftir að stíflan hefur verið byggð og vatni hleypt í lónið. Norðlingaölduveita sker sig frá flestum öðrum virkjunar- framkvæmdum sem hingað til hefur verið ráðist í hér á landi vegna þess að hún kallar á slóða mótvægisaðgerða sem stigmagna umhverfisáhrifin. Mótvægisaðgerðir við lón að 575 m Lón að 575 m y.s. næði upp fyrir Sóleyjarhöfða. Þar þrengir að ánni en ofan höfðans dreifir hún úr sér á allt að 2 km breiðum eyrum. Aursöfnun efst í lóninu yrði hröð og miðlunar- geta þess orðin verulega skert eftir 100 ár. Mikill aur mun einnig falla út á hinum breiðu eyrum ofan lónsins og skv. viðbótargögnum Landsvirkjunar er gert ráð fyrir að eftir 60 ár myndi land ofan lónsins hafa hækkað um 2–3 m og landhækkunar gæta að Biskupsþúfu, um 5 km upp frá lóninu. Þegar svo er komið, gæti Þjórsá tekið að renna yfir neðsta hluta Odd- kelsvers og síðar inn í Þúfuver. Í viðbótar- gögnum Landsvirkjun- ar eru kynntar tvenns konar mótvægisað- gerðir til að koma í veg fyrir þetta. Einn kostur er að reisa varnargarða upp með ánni báðum megin og hækka þá eft- ir því sem þörf krefur. Annar er að gera lón efst í Þjórsár- verum og láta hluta setsins falla út þar. Varnargarðar upp með Þjórsá hefðu gífurleg landslagsáhrif í því mikla víðsýni sem er í Þjórsárverum. Hvergi er minnst á landslagsáhrif varnargarða í matsskýrslu. Þar segir aftur á móti að engin mannvirki verði innan friðlandsins (en garðarnir ná um 10 km inn í það). Engar beinar rannsóknir virðast hafa verið gerðar á afleiðingum landhækkunar, s.s. áfoki yfir gróður eða áhrifum hækk- aðrar grunnvatnsstöðu. Hinn kosturinn er að veita Litlu- Arnarfellskvísl og þeirri meginkvísl Þjórsár sem enn rennur inn í verin (hinni hefur þegar verið veitt til Kvíslaveitu) í svokallað setlón austan Arnarfells hins mikla. Lónið yrði grunnt og eftir 20 ár þyrfti að dæla aurnum upp úr því og koma honum fyrir í nágrenninu. Ef úr þessum haugum fýkur í norðaustanátt, en úr þeirri átt blása helst hvassir og þurrir vindar í Þjórsárverum, munu áfoks- efni berast yfir Arnarfellsver og síðan Múlaver og Illaver. Í viðbótargögn- um Landsvirkjunar er gert lítið úr þessari fokhættu en það er ekki stutt rannsóknum eða gögnum. Hvor kosturinn yrði valinn? Fram kemur að hagkvæmast væri að láta mótvægisaðgerðir spila saman – þ.e. ráðast í þær allar. Það þýddi að eftir hálfa öld yrði búið að raska norður, austur og suðurhluta Þjórsárvera. Þegar er búið að klippa af verunum austast með skurðum, stíflum og lón- um. Til viðbótar kæmi 2,8 km löng stífla, tæplega 3 km² lón, veituskurð- ur og sethaugar efst (nyrst) í verun- um. Ofan lónsins í suðurhlutanum kæmu langir, 2–3 m háir varnargarð- ar báðum megin Þjórsár. Úrskurður Skipulagsstofnunar Úrskurður Skipulagsstofnunar kemur á óvart. Í fyrsta lagi vegna þess að Norðlingaölduveita skerðir náttúru Þjórsárvera „verulega og óafturkræft“, í öðru lagi vegna þess að hún dregur á eftir sér slóða mót- vægisaðgerða með stigvaxandi um- hverfisáhrifum, og í þriðja lagi vegna þess að samantekt stofnunarinnar á umhverfisáhrifum í niðurstöðukafla býr lesandann sannarlega ekki undir annað en að framkvæmdinni verði snarlega hafnað (sjá töflu). Í fjórða lagi fellst Skipulagsstofnun á stærra lón en Landsvirkjun leggur til, 578 m í stað 575 m. Það fer ekkert á milli mála að í matsskýrslu sinni er Landsvirkjun að kynna áform um Norðlingaölduveitu með lónhæð að 575 m. Þannig stend- ur t.d. í fyrstu málsgrein skýrslunnar að framkvæmdin feli í sér að stíflað sé austan við Norðlingaöldu og myndað „Norðlingaöldulón, með vatnsborði í 575 m y.s.“. Það er því undarlegt að Skipulagsstofnun skuli – óumbeðin – bjóða fram samþykki sitt fyrir stærri veitu. Lón að 578 m var ekki lagt fram sem kostur til mats og almenningur hefur ekki getað kynnt sér þá fram- kvæmd og komið með athugasemdir, eins og skylt er skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum (nr 106/2000, sjá 1. mgr.). Hverju munar á lóni að 575 m og 578 m? Í matsskýrslu Landsvirkjunar seg- ir að lón að 575 m sé 29 km², – hið rétta er að lónið er tæpir 33 km² en Landsvirkjun kýs að draga frá flat- armál eyja sem stæðu upp úr miðju lóninu. Lón að 578 m er u.þ.b. 50% stærra (43 km²), nær lengra inn í frið- landið og kaffærir tvöfalt meira sam- fellt gróið land en lón að 575 m. Ekki verður annað séð en Landsvirkjun telji sjálf lón að 578 m óálitlegan kost, en í matsskýrslunni segir: „Því er dregið í efa að markmið nýtingar og verndunar geti farið saman við lón í 578 og 581 m y.s.“ (bls. 145). Hærra lónið er stærra og dýpra og fyllist seinna en lón að 575 m. Hvern- ig má vera að Skipulagsstofnun leggi umhverfisáhrif þessara lónhæða að jöfnu? Af úrskurðinum má helst skilja að munurinn liggi í mótvægis- aðgerðunum: nauðsynlegar aðgerðir við 575 m lón hafi svo óæskilegar af- leiðingar að skárri kostur sé að hafa lónið hærra þannig að hægt sé að seinka mótvægisaðgerðum. Það virð- ist þó aðeins vera gálgafrestur. Að virkja eða virkja ekki? Landsvirkjun sækir fast að ráðast í Norðlingaölduveitu og ástæðan kem- ur skýrt fram í matsskýrslunni: „Norðlingaölduveita er hagkvæmasti kostur til orkuöflunar sem Lands- virkjun getur byggt með skömmum fyrirvara.“ (bls. i). Séu menn tilbúnir að bíða í nokkur ár, eru á hinn bóginn ýmsir aðrir hagkvæmir kostir fyrir hendi sem líklegt er að meiri sátt verði um. Þjórsárver eru dýrmætasta há- lendisvin landsins, þau eru vel af- mörkuð landslagsleg og vistfræðileg heild með árþúsunda samfellda sögu lífríkis. Norðlingaölduveita endist stutt, hún er framkvæmd sem kallar á keðjuverkandi slóða aðgerða með óæskilegum umhverfisáhrifum, og hún er framkvæmd sem hefði veruleg og óafturkræf áhrif á alla helstu þætti náttúrufars í Þjórsárverum. Er rétt- lætanlegt að ráðast í hana þegar að- eins hafa verið nýtt um 20% af nýt- anlegri vatnsorku í landinu? Mat Landsvirkjunar og Skipulags- stofnunar á áhrifum Norðlingaöldu- lóns að 575 m á helstu þætti í nátt- úrufari Þjórsárvera. Fylgt var sundurliðun á náttúrufarsþáttum í úrskurði Skipulagsstofnunar. Mat Skipulagsstofnunar er tekið úr nið- urstöðukafla fyrir hvern þátt (sjá 5. kafla úrskurðar). Mat Landsvirkjun- ar er í flestum tilfellum tekið úr sam- anburðartöflum en annars úr texta í matsskýrslu. Tilvísanir eru orðréttar. Þóra Ellen Þórhallsdóttir Höfundur er prófessor í grasafræði við Háskóla Íslands og hefur unnið að vistfræðirannsóknum í Þjórsár- verum um 20 ára skeið. Þjórsárver, segir Þóra Ellen Þórhalls- dóttir, eru dýrmætasta hálendisvin landsins. náttúrufarsþættir mat Landsvirkjunar mat Skipulagsstofnunar landslag nokkur áhrif veruleg, óafturkræf breyting á landslagi Þjórsárvera mótvægisaðgerðir við lón að 575 m (umhverfisáhrif ekki metin) mjög áberandi í landi, verulegt og óafturkræft rask rof lítil umhverfisáhrif hætta á öldurofi og sandfoki yfir gróin svæðimeðfram stórum hluta af strandlínu lónsins gróður nokkur áhrif veruleg og óafturkræf skerðing á gróðurlendiÞjórsárvera bakvatnsáhrif á gróður nokkur til umtalsverð í Tjarnaveri, annars lítil veruleg freðmýrarústir talsverð áhrif bein skerðing verður verulegog óafturkræf bakvatnsáhrif á rústir óviss óviss en myndu bætast við beina skerðingu smádýralíf lítil til nokkur áhrif umfang beinnar skerðingar búsvæða verulegt ogóafturkræft vatnafar lítil til nokkur áhrif veruleg og óafturkræf skerðing á lindám Þjórs-árvera heiðagæs og aðrir fuglar nokkur áhrif veruleg og óafturkræf svæðisbundin áhrif jarðvegur nokkur áhrif bein skerðing er verulegog óafturkræf AÐ VIRKJA EÐA VIRKJA EKKI

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.