Morgunblaðið - 07.09.2002, Blaðsíða 12
FRÉTTIR
12 LAUGARDAGUR 7. SEPTEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
FRÁVEITUNEFND vinnur nú að
því að gera úttekt á fráveitumálum í
sveitarfélögum landsins en stefnt er
að því að þeirri vinnu verði lokið í
byrjun næsta árs.
Að sögn Ingimars Sigurðssonar,
skrifstofustjóra í umhverfisráðu-
neytinu og formanns nefndarinnar,
er tilgangur úttektarinnar að meta
hvað sveitarfélög eigi langt í land
með að koma fráveitumálum sínum í
viðunandi horf fyrir árið 2005.
„Fráveitunefndin stefnir síðan að
því í samráði við umhverfisráðuneyt-
ið og Samband íslenskra sveitarfé-
laga að halda ráðstefnu um fráveit-
umál í byrjun næsta árs. Þar verður
úttektin lögð fram og kynnt og í
framhaldi af því lögð til grundvallar
aðgerðum á komandi árum,“ útskýr-
ir Ingimar.
Fráveitunefnd starfar samkvæmt
lögum nr. 53 frá árinu 1995, þ.e. lög-
um um stuðning við framkvæmdir
sveitarfélaga í fráveitumálum,
en markmið laganna er að stuðla
að framkvæmdum við fráveitur
sveitarfélaga með styrkveitingum.
Með fráveitu er í lögunum átt við
leiðslukerfi og búnað til að með-
höndla skólp sem fullnægir kröfum
laga og reglugerða um hreinsun þess
áður en því er veitt viðtaka.
Komin í viðunandi
horf fyrir 2005
Sigurbjörg Sæmundsdóttir,
deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu
og starfsmaður fráveitunefndar,
segir að reglugerðir um fráveitur og
skólp séu m.a. byggðar á lögunum
um hollustuhætti og mengunarvarn-
ir en þau lög voru endurskoðuð árið
1998. Einnig eru reglugerðir um frá-
veitur og skólp byggðar á tilskipun
Evrópusambandsins um fráveitumál
frá árinu 1994. Samkvæmt Evrópu-
tilskipuninni eiga fráveitumál innan
Evrópska efnahagssvæðisins að vera
komin í viðunandi horf fyrir árslok
2005. Fyrrnefnd lög nr. 53 frá árinu
1995 eru m.a. sett til að ná því mark-
miði.
Reglugerð um fráveitur og skólp
frá árinu 1999 er byggð á lögum um
hollustuhætti og mengunarvarnir.
Markmið reglugerðarinnar er að
vernda almenning og umhverfið,
einkum vatn og umhverfi þess, gegn
mengun af völdum skólps. Í reglu-
gerðinni segir m.a. að skólpi skuli
farga á þann hátt að heilsu manna
stafi ekki hætta af og með þeim
hætti að lífríki og umhverfi raskist
sem minnst. Þá segir að velja skuli
losunarstaði skólps með það í huga
að viðtaki spillist sem minnst. Í
reglugerðinni segir einnig að á öllum
þéttbýlisstöðum, þéttbýlisvæðum,
og eftir atvikum þyrpingu frístunda-
húsa, skóla og ferðaþjónustumið-
stöðva, skuli vera fráveita.
Ingimar Sigurðsson segir að um
60 til 70% landsmanna búi í dag við
viðunandi ástand í fráveitumálum ef
litið er til íbúafjölda sem þó segi ekki
alla söguna. „Það liggur aftur á móti
ljóst fyrir að það á eftir að gera stór-
átak í þessum málum á ýmsum stöð-
um á landinu, t.d. þar sem fram fer
viðkvæm matvælaframleiðsla, jafnt
til sjávar og sveita,“ segir hann.
Unnið að úttekt á
fráveitumálum
TALIÐ er að árlega deyi yfir 200 Ís-
lendingar af völdum hjartastopps og
er það algengasta ástæða skyndi-
dauða. Árin 1991 til 1996 náðu 17%
þeirra sem lentu í hjartastoppi utan
sjúkrahúsa að útskrifast sem þakkað
er skjótum viðbrögðum. Davíð O.
Arnar, læknir og formaður endur-
lífgunarráðs, telur að hækka megi
þetta hlutfall með enn markvissari
vinnubrögðum og er nú hafin herferð
á vegum ráðsins meðal almennings
til að kynna einfölduð viðbrögð við
hjartstoppi utan sjúkrahúsa.
Herferðin var kynnt á fimmtudag
en auk endurlífgunarráðs taka land-
læknisembættið og Rauði kross Ís-
lands þátt í henni með styrk frá
Landssímanum og Kaupþingi.
Sigurður Guðmundsson landlækn-
ir sagði við þetta tækifæri að nauð-
synlegt væri að almenningur kynni
skil á viðbrögðum við hjartastoppi,
slík almenn þekking væri jafnnauð-
synleg og að kunna að kaupa og selja
verðbréf. Sagði hann brýnt að auka
þátttöku vitna að hjartastoppi og
ætlunin væri einnig að koma upp
hjartarafstuðtækjum víðar er nú er.
Hjartastopp oft vegna
takttruflana í neðri hólfum
Davíð O. Arnar fór nokkrum orð-
um um skyndidauða og sagði hann
skilgreindan sem óvænt dauðsfall
sem yrði innan við klukkustund frá
upphafi einkenna. Fullorðinn maður
sem hnígur niður, er meðvitundar-
laus og svarar ekki áreiti er mjög lík-
lega í hjartastoppi, sagði hann og
kvað hann það oftast stafa af taktt-
ruflunum frá neðri hjartahólfum,
sem nefnd eru sleglar. Væru þessar
truflanir m.a. nefndar sleglahrað-
taktur og sleglatif og síðasta stigið
væri rafleysa, þ.e. þegar engin slög
mældust í hjartanu. Það væri loka-
stigið og lítið unnt að gera við sjúk-
ling þegar þannig væri komið.
Erlendar rannsóknir hafa að sögn
Davíðs sýnt að tregða sé til að taka
þátt í endurlífgun ókunnugra utan
sjúkrahúsa, m.a. vegna þess að menn
óttuðust HIV-smit þegar notuð væri
munn við munn aðferðin en hann
sagði ekki hafa verið sýnt fram á
slíkt smit. Hann sagði niðurstöður í
úrtaki Íslendinga ekki benda til
slíkrar tregðu, hvorki með blásturs-
aðferð né hjartahnoði en fram hefði
þó komið í könnun að fæstir hefðu
reynslu af endurlífgun. Hún hefði
verið reynd hérlendis af vitnum í um
40% tilvika.
Davíð sagði mikilvægt að hefja
grunnendurlífgun ef menn yrðu vitni
að hjartastoppi. Eins og fyrr segir ná
um 17% þeirra sem lenda í hjarta-
stoppi utan sjúkrahúsa að útskrifast
af spítala og kvaðst Davíð viss um að
hægt væri að gera betur í þessum
efnum. Rétt væri að stefna að því að
hækka þetta hlutfall í um 30% sem
ætti að vera hægt með því að bæta
vitund almennings og auka þátttöku
vitna í grunnendurlífgun með því að
gera hana einfaldari og markvissari.
Einnig myndi aukið aðgengi að
hjartarafstuðtækjum hafa sitt að
segja svo og bætt upphafsmeðferð á
sjúkrahúsi.
Þáttur öndunaraðstoðar þykir
flókinn að sögn Davíðs og það ásamt
tregðu til að taka þátt í munn við
munn aðferð hefði leitt til endurskoð-
unar á mikilvægi öndunaraðstoðar á
fyrstu mínútum hjartastopps. Ár-
angur endurlífgunar væri lakari ef
engin grunnendurlífgun væri reynd
og væri hann ekki síðri ef eingöngu
er beitt hjartahnoði á fyrstu mínút-
unum. Hann sagði hjartahnoð mik-
ilvægt vegna þess að það viðhéldi um
fjórðungi af blóðflæði til hjarta og
heila, gæti seinkað rafleysu og yki
líkur á því að rafstuðmeðferð bæri
árangur. Sýndi hann m.a. tölur um
að væri grunnendurlífgun hafin um
tveimur mínútum eftir hjartastopp
og rafstuðmeðferð um sjö mínútum
síðar næðist að endurlífga um 20%.
Árangurinn yrði um 30% ef rafstuð-
meðferð gæti hafist um fjórum mín-
útum eftir hjartastopp að undan-
gengnu hjartahnoðinu.
Áhersla á hjartahnoð
Endurlífgunarráð hefur fjallað um
breytingar á framkvæmd við grunn-
endurlífgun og segir Davíð nú lagt til
að þeir sem verði vitni að hjarta-
stoppi og hafi ekki hlotið þjálfun í
grunnendurlífgun hefji hjartahnoð
strax eftir að þeir hafa hringt í neyð-
arlínuna 112. Sagði hann það fram-
kvæmt með því að ýta með báðum
höndum á mitt bringubein um 80 til
100 sinnum á mínútu. „Við viljum þó
ekki banna þeim sem kunna rétt
handtök að beita blástursaðferð en
leggjum áherslu á að hún seinki ekki
eða trufli hjartahnoðið,“ sagði Davíð
ennfremur. Ráðleggingar endurlífg-
unarráðs sagði hann því vera að
hringja og hnoða og kvaðst hann sjá
fram á að fleiri yrðu þá reiðubúnir að
taka þátt í endurlífgun við hjarta-
stopp utan sjúkrahúsa. Davíð lagði
einnig áherslu á að ætti hjartastopp
sér stað utan þéttbýlis þar sem við-
bragðstími sjúkrabíls væri lengri en
5–6 mínútur væri ekki rétt að sleppa
öndunaraðstoðinni.
Herferð til að kynna einfaldari viðbrögð við endurlífgun
Skjót viðbrögð geta
skipt sköpum
Merki herferðarinnar um
breyttar áherslur í endurlífgun
utan sjúkrahúsa.
NORRÆNA lögfræðingaþingið var
haldið nýverið í 36. sinn í Helsinki.
Norræn lögfræðingaþing hafa verið
haldin á þriggja ára fresti frá 1872,
þó með hléum í fyrri og síðari heims-
styrjöld. Þátttakendur voru tæplega
1.100, þar af 34 frá Íslandi.
Fjölbreytileg dagskrá var í boði
og fyrirlesarar meðal þekktustu lög-
fræðinga á Norðurlöndunum. For-
seti Finnlands, Tarja Halonen, flutti
ræðu við þingsetninguna og fjallaði
um tengsl Norðurlanda við Evrópu-
sambandið.
Af Íslands hálfu fluttu fyrirlestra
þau Brynhildur Flovenz lögmaður,
Hjörtur Torfason, fyrrv. hæstarétt-
ardómari, Lára Júlíusdóttir lögmað-
ur, Ragnar Tómas Árnason lögmað-
ur, Robert Spano lektor, Valborg
Snævarr lögmaður og Viðar Már
Matthíasson prófessor. Jón Thors,
fyrrv. skrifstofustjóri, og Skúli
Magnússon lektor voru fundarstjór-
ar.
Guðrún Erlendsdóttir
endurkjörin formaður
Meðal fjölmargra umræðuefna
voru tjáningarfrelsi á Netinu, spurn-
ing um þörf á breytingum í sifja-,
erfða- og skiptarétti vegna breytts
fjölskyldumynsturs, skaðabótarétt-
ur, vinnuréttur, refisréttur og neyt-
endaréttur, réttarfar, kvennaréttur,
hagsmunir barna í réttarkerfinu,
umhverfisréttur og framlag Norður-
landa til réttarbóta í öðrum löndum.
Rannsóknastofnunin Institutet
för rättvitenskaplig forskning, sem
stofnuð var af Knud og Alice Wallen-
bergs Stiftelse, veitti nú í 7. sinn
verðlaun sjóðsins, 250 þúsund
sænskar krónur, auk heiðursskjals,
til lögfræðings sem skarað hefur
fram úr með framlagi til norrænnar
lögfræði.
Verðlaunin hafa verið veitt frá
1981 í tengslum við norræna lög-
fræðingaþingið en að þessu sinni
hlaut verðlaunin Jon Bing, prófessor
við Óslóarháskóla. Einn Íslendingur
hefur hlotið þessi verðlaun, Ármann
Snævarr, fyrrverandi prófessor og
hæstaréttardómari.
Á þinginu í Helsinki var kjörin ný
stjórn Íslandsdeildar norrænu lög-
fræðingaþinganna. Guðrún Erlends-
dóttir hæstaréttardómari var endur-
kjörin formaður, aðrir í stjórn eru
Ármann Snævarr, Brynhildur Flov-
enz, Erla Jónsdóttir, Garðar Gísla-
son, Hjörtur Torfason, Jón Thors,
Ragnar Tómas Árnason, Skúli
Magnússon og Viðar Már Matthías-
son.
Næsta þing norrænna lögfræð-
inga verður haldið í Reykjavík í
ágúst 2005.
Norræna lögfræðiþingið haldið í 36. sinn í Helsinki
Meðal umræðuefna var
tjáningarfrelsi á Netinu
Formenn landsdeilda norrænu þinganna. Frá vinstri: Johan Hirsch-
feldt, Svíþjóð, Else Bugge Fougner, Noregi, Guðrún Erlendsdóttir, Ís-
landi, Anja Tulinheimo-Takki, Finnlandi, og Allan Philip, Danmörku.
NÆSTKOMANDI sunnudag hefst
sunnudagaskólastarf í mörgum
kirkjum landsins með svokallaðri
sköpunarmessu. Kennsluefnið sem
notað verður í skólanum í vetur ber
yfirskriftina Réttum hjálparhönd
og er unnið í samstarfi Hjálp-
arstarfs kirkjunnar, Skálholts-
útgáfu og fræðslusviðs Bisk-
upsstofu.
Með aðstoð kennsluefnis eru
börnin hvött til að leggja sitt af
mörkum til þess að önnur börn geti
notið sömu gæða og þau sjálf, geng-
ið í skóla og búið við mannsæmandi
aðstæður. Verkefnið nær til
tveggja ára og hefur hlotið styrk
frá Menningarmálastofnun Samein-
uðu þjóðanna, UNESCO.
Að sögn Önnu Ólafsdóttur, upp-
lýsingafulltrúa Hjálparstarfs kirkj-
unnar, er hluti af verkefninu fólg-
inn í allsherjarlandssöfnun
sunnudagaskólabarna fyrir verk-
efnum Hjálparstarfs kirkjunnar og
lýkur söfnuninni í vor með uppske-
ruhátíð. Sérstakir baukar verða
látnir standa í kirkjum landsins þar
sem hægt er að láta fé af hendi
rakna.
„Við leggjum mikla áherslu á að
það er hægt að hjálpa á svo ótal
marga vegu. Það verður á hverjum
sunnudegi minnt á þessa söfnun en
það er líka farið í þá kristnu kenn-
ingu að gefa af auði sínum, eða gefa
af skorti sínum. Það er ekki sjálf
upphæðin sem skiptir máli heldur
hver hugurinn er á bak við,“ segir
Anna.
10–12 ára börn taki að
sér fóstursystkini
Þá er fyrirhugað að ungmenni á
aldrinum 18–30 ára heimsæki Ís-
land næsta haust og segi frá að-
stæðum sínum og hvernig er að
alast upp í fátækt í fátækari lönd-
um heimsins.
Einnig mun 10–12 ára börnum í
kirkjustarfinu gefast kostur á að
taka að sér fóstursystkin og standa
undir kostnaði vegna skólagöngu
þess og heimavist.
Morgunblaðið/Kristinn
Frá vinstri: Anna Ólafsdóttir, upplýsingafulltrúi Hjálparstarfs kirkj-
unnar, Edda Möller, framkvæmdastjóri Skálholtsútgáfu og Kirkjuhúss-
ins, og Halldór Reynisson, verkefnisstjóri fræðslu- og upplýsingasviðs
Biskupsstofu, með eintak af söfnunarbauknum.
Sunnudagaskólastarf að hefjast
Söfnunarbaukar
settir upp í kirkjum