Morgunblaðið - 20.09.2002, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 20.09.2002, Blaðsíða 22
LISTIR 22 FÖSTUDAGUR 20. SEPTEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ „FÍGARÓ er merkilegur fyrir margra hluta sakir. Hann er völundur bæjarins, eins og leik- stjórinn okkar kallar það. Rakarar þessa tíma eiga sér merkilega sögu og vinna þeirra var merkileg. Raksturinn og hárgreiðslustörfin voru það sem líklega skipti minnstu máli. Því betri sem rakarinn var, – því minna gerði hann af því að raka og klippa. Rakarar þessa tíma höfðu aðgang að hverju einasta heimili, – fóru líklegast víðar inn en læknar. Rakarinn var til dæmis blóðtökumaður, en blóðtaka var sóðaiðja sem læknar sinntu ekki. Síðast en ekki síst, og það skiptir höfuðmáli fyrir rakarann okkar, Fígaró, var hann hjónabandsmiðlari og alt- muligmann í mannlegum samskiptum. Rak- arinn gat greitt götu þína, yfirleitt gegn vægu gjaldi, og hann hefur til dæmis getað komið á kynnum fólks, verið sendiboði, til dæmis með ástarbréf og alls konar leynimakk. Hann er „PR-maður“ og tilfinningafulltrúi bæjarins og hefur jafnan aðgang að ríkum jafnt sem fátæk- um; – hann er stéttlaus, og það er eitt af því sem gerir hann svo mikilvægan.“ Það er Ólafur Kjartan Sigurðarson barí- tónsöngvari sem hér lýsir störfum hlaðna rak- aranum Fígaró, en Ólafur Kjartan er einmitt í hlutverki rakarans ráðsnjalla í óperunni Rak- aranum í Sevilla eftir Rossini, sem frumsýnd verður í Íslensku óperunni í kvöld. Klúrt og djarft verk sem féll almenningi vel í geð Það var franska leikskáldið Beaumarchais sem samdi leikritin tvö um Rakarann í Sevilla og Brúðkaup Fígarós á áttunda áratug átjándu aldar. Verkin þóttu bæði djörf og klúr og voru umdeild á sínum tíma. En almenningi féllu vel í geð ævintýrin um Fígaró rakara, og mörg tón- skáld sáu sér leik á borði og sömdu óperur eftir leikritunum. Sumar þessara ópera höfðu náð miklum vinsældum, áður en okkar manni, Gioacchino Rossini, datt í hug að semja óperu byggða á sama efnivið, þar á meðal Brúðkaup Fígarós, sem Mozart samdi 1786. Vinsælasta óperan byggð á sögu Beaumarchais var þó eftir Giovanni Paisiello (1782), en bæði Mozart og Rossini gjörþekktu verk hans þegar þeir létu sjálfir til skarar skríða við ævintýri Fígarós. Sagan segir að það hafi ekki tekið Rossini nema þrettán daga að semja óperuna, hann hafi lokað sig inni í herbergi og setið þar órakaður, í nátt- fötunum, við skriftir. Frumsýning óperunnar í febrúar 1816 þótti mikið hneyksli. Það fór ým- islegt úrskeiðis á frumsýningunni, og meðal áheyrenda voru aðdáendur Paisiellos sem gerðu hvað þeir gátu til að trufla sýninguna á verki Rossinis með framíköllum. Það tók Rak- arann í Sevilla nokkurn tíma að ná fótfestu, en þótt verkið ætti fyrst um sinn erfitt uppdráttar á Ítalíu barst hróður þess víða og óperan var sýnd í London, París, Berlín og St. Pétursborg strax fyrstu árin. Rakarinn í Sevilla var líka fyrsta óperan sem sungin var á ítölsku í New York-borg, í nóvember 1825. Í dag þykir Rakarinn í Sevilla eitt mesta djásn gamanóperanna, opera buffa, og hefur lengi verið einn mesti stríðsfákur óperuhúsa um allan heim. Sagan er ekki flókin. Hún segir frá greif- anum Almaviva sem er ástfanginn af blómarós- inni Rosinu. Rosina býr undir þaki fjárhalds- manns síns, dr. Bartolós, gamals skröggs og læknis bæjarins, en hann hefur einmitt ætlað sjálfum sér að hreppa hnossið Rosinu. Þá kem- ur að tilfinningafulltrúanum, rakaranum í Se- villa, honum Fígaró, sem greiðir allra vanda, – að vísu gegn gjaldi, en Almaviva á ekki í nokkr- um vandræðum með að punga út nokkrum silf- urpeningum fyrir þjónustu slíks snillings. Þeir reyna ýmsar leiðir til að koma Almaviva í færi við Rosinu, en dr. Bartoló er ekki á því að láta hafa sig að fífli og fær tónlistarkennara Rosinu, Don Basilio, í lið með sér til að koma í veg fyrir það sem þó virðist óumflýjanlegt. Leynimakk og leynifundir, dulargervi, misskilningur, ást- arbréf og allt það sem prýðir góðan gamanleik er að finna í óperu Rossinis og niðurstaða í þessi flóknu ástamál fæst ekki fyrr en á síðustu stundu. Meðal flytjenda í uppfærslu Íslensku óp- erunnar eru ungir söngvarar úr fyrsta hópnum sem fastráðinn hefur verið við húsið, auk full- trúa útlagasveitar íslenskra óperusöngvara sem gert hefur garðinn frægan við erlend óp- eruhús, ásamt hinu ómissandi alþjóðlega ívafi. Hljómsveitarstjórinn, Helge Dorsch, er frá Þýskalandi og hefur stjórnað við óperuhús víða um heim. Leikstjórinn Ingólfur Níels Árnason, sem nam óperuleikstjórn á Ítalíu, þreytir nú frumraun sína á sviði Íslensku óperunnar. Daði Guðbjörnsson listmálari hannar leikmynd og aðstoðarleikmyndarhönnuður er Geir Óttarr Geirsson. Um búningahönnun sér Anna Björg Björnsdóttir og hönnuður lýsingar er Jóhann Bjarni Pálmason. Í hlutverkum verða söngvararnir Gunnar Guðbjörnsson og Þorbjörn Rúnarsson, sem skipta með sér hlutverki Almaviva greifa, og Sesselja Kristjánsdóttir er Rosina. Gera lítið annað en að vera ástfangin Ólafur Kjartan Sigurðarson er sem fyrr segir rakarinn Fígaró, Davíð Ólafsson er Bartolo læknir, Viðar Gunnarsson, Kristinn Sigmunds- son, Jóhann Sigurðarson og Stanislav Shvets skipta með sér hlutverki Don Basilios, Hrólfur Sæmundsson er Fiorello og Signý Sæmunds- dóttir fer með hlutverk þjónustustúlkunnar Bertu. „Almaviva greifi og Rosina gera lítið annað en að vera ástfangin,“ segir Ólafur Kjartan að- spurður hvort þær turtildúfur séu meiri aðal- persónur en rakarinn sem óperan dregur nafn sitt af. Hann segir að þau séu þó auðvitað þungamiðja verksins, sem allt snýst um. „En það mæðir kannski meira á Fígaró og dr. Bart- oló. Þeir tveir bera hitann og þungann af því að hleypa atburðarásinni áfram. Það er meira staldrað við í kringum tilfinningar greifans og Rosinu í þeirra fallegu ástarsöngvum og aríum. En Fígaró og dr. Bartoló eru þeir sem hreyfa við sögunni og halda atburðarásinni, spennunni og kómedíunni gangandi um leið. En auðvitað finnst öllum barítónum Fígaró vera aðalmaður sögunnar, og ég er engin undantekning frá því. En það sannast þó í þessari óperu eins og óperu Mozarts, Brúðkaupi Fígarós, að það eru engar litlar rullur til; það er til fullt af litlum söngv- urum, en engar litlar rullur. Í Brúðkaupinu hef- ur það komið fyrir að framúrskarandi söngvari í litlu hlutverki garðyrkjumannsins Antonios hefur hreinlega stolið kvöldinu!“ Ólafur Kjartan hóf sitt söngnám hjá Guðmundi Jónssyni, en Guðmundur söng einmitt hlutverk Fígarós í Þjóðleikhúsinu á sínum tíma. Á geisladiskum sem gefnir voru út með söng Guðmundar er at- riði þar sem hann syngur einn frægasta söng óperunnar, Largo al factotum, við eigin íslenska texta, en þar lýsir Fígaró annríki sínu. „Ég er hinn reyndasti rakari hér í bæ, og daglega á stofuna í dögun ég fer hæ, hæ,“ syngur Ólafur Kjartan fyrir blaðamann þegar þetta atriði Guðmundar ber á góma. „Ég var algjör kett- lingur þegar ég var hjá Guðmundi og réð ekki við þessa Fígaróaríu þá. En nú nýt ég þess hóf- lega kæruleysis sem Guðmundur var að reyna að kenna manni; – maður á ekki að vera með neinn æsing með svona hlutverk, þetta kemur allt með tímanum og reynslunni. En ég nefni Guðmund hiklaust sem minn uppáhalds Fígaró. Söngur hans í þessi hlutverki var stórkostlegur og raddlega var hann magnaður, alveg burtséð frá aðstæðum hér upp úr 1950 þegar verkið var sýnt í Þjóðleikhúsinu. Það skiptir engu máli. Söngur Guðmundar er fyllilega sambærilegur við allar þær hljóðritanir sem ég á af óperunni, og á ég þó talsvert margar.“ Ólafur Kjartan segir það hafa verið ómet- anlegt að fá höfðingjana Gunnar Guðbjörnsson, Kristin Sigmundsson og Viðar Gunnarsson með í þessa uppsetningu. „Gunnar hefur til dæmis reynst mér ómetanlegur við að aðstoða mig raddlega við hlutverk Fígarós. Að fá að vinna í návígi við þessa náunga er miklu meira virði en mörg ár á skólabekk,“ segir Ólafur Kjartan. Aðrir söngvarar sem blaðamaður spjallar við taka undir þetta, og segja það mikils virði fyrir unga söngvarahópinn í Óperunni að fá að njóta reynslunnar sem höfðingjarnir, eins og Ólafur Kjartan kallaði þá, hafa sankað að sér á löngum ferli erlendis. En það er líka mikil ánægja með hljómsveitarstjórann, Helge Dorsch, sem er mikill og flinkur fagmaður að sögn Gunnars Guðbjörnssonar. En hvernig líst hljómsveit- arstjóranum, sem unnið hefur með stór- stjörnum í öllum helstu óperuhúsum heims, á unga óperu í gömlu bíói uppi á litla Íslandi? „Ég er nú búinn að koma átján sinnum til Íslands áður, en þetta er í fyrsta sinn sem ég stjórna hér,“ segir Helge Dorsch, „ég elska landið og ég held að í hjarta mínu sé ég Íslendingur. Konan mín er sama sinnis. Við viljum ekki fara til Spánar og Ítalíu í fríum, – bara til Íslands, – átján sinnum og nú til að sinna starfi mínu sem hljómsveitarstjóri. Æfingar hafa gengið mjög vel og ég vona að frumsýningin verði góð,“ bæt- ir Helge Dorsch við og slettir fagmannlega með því að segja orðið frumsýning á íslensku. „Þetta verkefni hér á Íslandi er ögrandi fyrir mig. Ég er vanur að vinna með stórum stjörnum, en ég hef líka mikinn áhuga á að vinna með ungu fólki sem er að byggja upp óperuheiminn í dag. Ég verð nú þó að segja það að það er oftar en ekki mun skemmtilegra að vinna með unga fólkinu eins og því sem hér er. Ungir söngvarar taka leiðsögn vel, – þeir mæta vel á æfingar, gera það sem um er beðið og eru skapandi og sveigj- anlegir. Stjörnurnar telja sig oft ekki þurfa að mæta á æfingar fyrr en tveim dögum fyrir frumsýningu, syngja þá hlutverk sitt eins og þeir hafa alltaf gert það, og þá er erfitt fyrir hljómsveitarstjórann að koma með tillögur um að eitthvað sé gert á annan hátt. Það fer engin uppbyggileg vinna fram á æfingum, og þeir líta á hljómsveitina sem undirspil við sinn fagra söng. Unga fólkið er ótvírætt mun áhugasam- ara og andrúmsloftið í vinnunni verður þess vegna líka bæði skemmtilegra og betra.“ Leikstjórinn, Ingólfur Níels Árnason, á von á barni í dag, frumsýningardaginn, þannig að spennan hjá honum er margföld. Hann er að stýra sínu fyrsta óperuverkefni hér á landi, en hefur reynslu frá ítölskum óperuhúsum, því þar í landi lagði hann stund á leikstjórnarnám, þar sem hann sérhæfði sig í óperuleikstjórn, fyrstur Íslendinga að því er við best vitum. En hvaðan kemur óperuáhuginn? „Ætli það hafi ekki byrjað þegar maður var einn vakandi heima á nýársdag, sat í stofunni og horfði á óperur í sjónvarpinu. Ég fann alltaf að óperan hafði undarleg áhrif á mig. Eftir að ég var kominn út, og farinn að kunna ítölskuna betur, fór ég að hlusta meira og heillaðist al- gjörlega af óperuheiminum. Ég fékk svo starf við óperuna í Mílanó, þar sem Peter Brook leik- stýrði og Claudio Abbado stjórnaði, og þá fékk ég trú á því að ef maður gæti unnið vel með það sem maður hefur í höndunum, þá væri óperan eitt stórkostlegasta listform sem til er.“ Ing- ólfur starfaði síðar sem aðstoðarmaður leik- stjóra við óperurnar í Róm og í Palermo, en hér á landi setti hann upp leikritið Stræti eftir J. Cartwright með Nemendaleikhúsinu. Á Ítalíu setti hann upp eigin þýðingu á Karíusi og Bakt- usi, en síðustu misserin hefur hann unnið með leikhópi þroskaheftra bæði í Hinu húsinu og smíðaverkstæðinu Ásgarði við Kópavogshælið og sett upp með honum sjálfan Hamlet. „Ég var alveg orðlaus þegar ég var beðinn að taka þetta verkefni í Óperunni að mér. Ég hef alltaf verið stoltur yfir því að Íslendingar skuli hafa átt óp- eruhús þó þetta lengi, miðað við það hvað við er- um smá og ung. Ég hef verið mjög montinn af söngvurunum okkar og reynt að fylgjast með þeim sem syngja erlendis eins og ég hef getað. En ég hef líka alltaf verið mikill leikhúsmaður, alveg frá barnsaldri. Það er leikhúsið í tónlist- inni sem ég hrífst mest af. Tónlistin er svo öfl- ugur frásagnarmáti, og þegar tónlist og leikhús taka sig saman í óperu, þá er gaman.“ Lyftir andanum að hafa reynda menn með En aftur að söngvurunum. Gunnar Guð- björnsson er einn af höfðingjunum, og syngur hlutverk Almaviva á móti Þorbirni Rúnarssyni. „Almaviva greifi er karl í krapinu, og á eftir að koma víða við á lífsleiðinni,“ segir Gunnar og er þá að vísa til þeirra ævintýra sem hann lendir í í óperu Mozarts, Brúðkaupi Fígarós. „En hér er hann enn ungur, og trúir á óspjallaða og hreina ást. Með hana að vopni eltir hann þessa unga stúlku og virðist nú ekki ganga neitt sér- lega vel, þar til hann fær Fígaró sér til hjálpar. Hann er ennþá góði gæinn, sem ætlar sér allt gott í lífinu, en er svolítið ungæðislegur. En þótt hann þurfi hjálp Fígarós er hann alls ekkert huglaus sjálfur. Hann er blóðheitur Spánverji og dettur ýmislegt í hug sér til bjargar, þótt Fígaró sé til staðar.“ Gunnar segir það hafa verið óskaplega gaman að syngja með unga fólkinu í Íslensku óperunni. „Þau standa sig öll ákaflega vel, og það hefur líka verið ómetanlegt að fá Ingólf leikstjóra inn í þetta, en hann hefur svo gott auga fyrir þessu og gerir margt svo skemmtilegt. Ég hef tröllatrú á honum og vona að hann eigi eftir að fá mörg tækifæri og hef enga trú á öðru en að þetta verði skemmtileg sýning.“ Sesselja Kristjánsdóttir er einn nýráðinna söngvara við Óperuna. Hún syngur hlutverk Rosinu á öllum sýningum. „Þessi ópera er mikil kómedía, og þar af leið- andi leggur maður Rosinu upp sem kómískan karakter. Hún er mikil dramadrottning og dug- leg að setja á svið alls konar tilfinningar til að fá vilja sínum framgengt. Hún virkar kannski grunn við fyrstu sýn, þar sem hún er heldri dama og gerir fátt annað en að sitja bein í baki við sauma. En það er ýmislegt undir yfirborð- inu og hún er mjög klók þegar á reynir.“ Hlut- verk Rosinu er fyrsta verkefni Sesselju við Óp- eruna og segist hún mjög ánægð með starfsandann með nýju söngvurunum, þótt reynslan sé ekki lengri en þetta. „Það á mjög vel við mig að „tilheyra“ einhvers staðar, og vera ekki ein að harka. Ég ímynda mér að finna enn betur fyrir þessu í næstu uppfærslu, þegar hópurinn hefur kynnst enn betur. En það hefur líka lyft andanum að hafa reynda menn með, og það öryggi sem fylgir mönnum sem hafa sungið sömu hlutverk oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hjálpar okkur hinum sem erum að glíma við þessi hlutverk í fyrsta sinn.“ Þeim sem vilja kynna sér betur uppfærslu Ís- lensku óperunnar á Rakaranum í Sevilla, sýn- ingartíma og hlutverkaskipan er bent á glænýj- an vef Óperunnar: www.opera.is. Ungur íslenskur óperuleikstjóri stýrir Rakaranum í Sevilla sem frumsýndur verður í kvöld „Ég er hinn reyndasti rakari hér í bæ“ Morgunblaðið/Árni Sæberg Karl í krapinu. Gunnar Guðbjörnsson í hlutverki Almaviva greifa. Morgunblaðið/Kristinn Greifinn og rakarinn. Þorbjörn Rúnarsson og Ólafur Kjartan Sigurðarson. Morgunblaðið/Kristinn Klókari en virðist við fyrstu sýn. Sesselja Kristjánsdóttir sem Rosina. Morgunblaðið/Kristinn Rosina og fjárhaldsmaðurinn. Sesselja Kristjánsdóttir og Davíð Ólafsson. Morgunblaðið/Kristinn Don Basilio og dr. Bartoló leggja á ráðin. Stanislav Shvets og Davíð Ólafsson.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.