Morgunblaðið - 05.03.2003, Blaðsíða 24
LISTIR
24 MIÐVIKUDAGUR 5. MARS 2003 MORGUNBLAÐIÐ
M
ENNINGARHÚS á lands-
byggðinni eru endurtekið til
umræðu, sem áður fyrir
kosningar. Síðast voru húsin
fjögur og skyldu rísa upp í
hverjum landsfjórðungi fyrir sig, en að
þessu sinni eru loforðin hálfu hófsamari og
einungis bundin við Norður- og Suðurland,
jafnframt fylgir fyrirheit um myndarlega
fjárveitingu. En þrátt fyrir allt tekur marg-
ur tíðindunum með nokkrum fyrirvara og
þykist kenna jafnvægislistar milli þeirra
sem eru fylgjandi slíkum framkvæmdum og
hinna sem eru á móti.
Þörfin fyrir mjúku gildin í mannlífsflór-
unni borðleggjandi í öllum landsfjórðung-
unum, fleira er matur en feitt ket eins og
máltækið segir. Líf og fegurð tendrast af
fleiru en góðri veiði, áþreifanlegri hagsæld
og úttroðnum maga.
Á skjánum sáu landsmenn nýlega hvernig
poppgoð nokkurt sóaði fjármunum sínum í
hégóma og einskisvert skran og margir,
jafnt á götu úti
og í fjölmiðlum,
áttu ekki nóg
sterk orð til að
lýsa vandlæt-
ingu sinni. Þó
ekki örgrannt
um að þjóðin megi líta í eigin barm, þannig
má velta fyrir sér hvað verðmætasta hráefni
sem úr sjó kemur í heimi hér hefur skilað
henni í varanlegum auði frá stofnun lýðveld-
isins? Ekki með öllu út í loftið að hér séu
menn að kasta grjóti úr glerhúsi, því hvern-
ig hefur þessi mikli auður skilað sér til
landsfjórðunganna sem lönduðu honum til
að gera líf fólksins innihaldsríkara, atvinnu-
líf stöðugra og fjölþættara?
Síst á dagskrá að vera með prédikanir, en
minna má á eitt Þjóðleikhús að hruni komið
að heita má, tónlistarhús sem rétt sést hilla
undir en ekki má minnast á án þess að taka
á dagskrá hjástarfsemi í anda hörðu gild-
anna. Þá er hvergi í hús að venda fyrir gest
og gangandi vilji hann kynna sér þróun ís-
lenzkrar myndlistar upp á eigin spýtur. Á
sama tíma eru byggðar íþróttahallir og
gervigrasvellir í hverju krummaskuði og má
rekja slíka stjórnvisku langt langt aftur í
sögu mannkynsins sem lið til að halda
múgnum niðri, en menn gleymdu lengstum
ekki andanum né háleitum hugsjónum, um
það er öll sagan sömuleiðis til vitnis.
Eftir afturkipp í kjölfar iðnbyltingarinnar
sem gerði margar stórborgir að ómann-
eskjulegum skrímslum stundum þó að borg-
armiðjunni undanskilinni, arfi eldri tíma-
skeiða, hafa víða orðið mikil umskipti. Hver
og einn með opin augu hefur haft tækifæri
til að fylgjast með þessari þróun sem hefur
stigmagnast með hverjum áratug og aldrei
sýnilegri en þann síðasta. Menn hafa ein-
faldlega uppgötvað að í kjölfar mjúkra gilda
fylgir auður og hagsæld, en þar sem þau
mæta afgangi eða er ýtt út af borðinu er
flest á niðurleið og menn grípa til ör-
þrifaráða til að halda í horfinu. Nenni síður
að koma með ítarleg dæmi hér en þau eru
augljós, jafnt í heilu heimsálfunum sem
litlum löndum, lítum einungis til Brasilíu
svo og Argentínu, sem af mörgum er álitið
auðugasta land veraldar hvað náttúrugæði
snertir. Spyrjum svo, fyrir hvað eru þessi
lönd nafnkenndust og hvar getur afreka
þeirra í listum? Og ef óupplýstur múgurinn
fengi að ráða í þessum löndum hvort myndi
hann mæla með fleiri grasvöllum úti um all-
ar trissur eða andlegum gildum?
Þetta og fleira kom upp í hugann vegna
þess að enn eina ferðina rís mótmælaalda út
af fyrirhugaðri menningarhúsabyggingu þótt
farið sé millileiðina, hálfu hófsamara fyr-
irheit hrist fram úr erminni. Úrtöluradd-
irnar á fullu sem vísa til að fjármagn skorti
til nærtækari og harðari gilda. Hvað heil-
brigðiskerfið áhrærir má spyrja á móti,
hvort skyldi til að mynda frekar koma í veg
fyrir sjúkdóma, lyf eða heilbrigt líferni? Hef-
ur ekki verið sannað að flestir sjúkdómar
eigi upphaf sitt í sálinni og þekkja menn ekki
máltækið um barnið og brunninn? Hafi menn
svo ekki uppgötvað þýðingu fyrirbyggjandi
atriða eiga þeir margt eftir ólært og mjúk
andleg gildi vega þungt, gleðinni er ekki gef-
ið þunglyndislyf og góður skammtur af jarð-
tengdri bjartsýni framkallar ekki löngun til
að leggja höld á sig.
A
lveg rétt að listir og andlegar at-
hafnir seðja ekki líkamlegt
hungur, á móti kemur að sé and-
lega hungrinu ekki sinnt, ekkert
líf. Andinn er upphaf og elds-
neyti sköpunarverksins og skiptir mestu
hvar sem hann tekur sér bólstað og verk
hans greinileg í öllu áþreifanlegu hér á jörð,
jafnvel dauðum hlutum.
Díalektísk efnishyggja hefur beðið skip-
brot eins og liðin öld er gleggsta dæmið um,
ekki mögulegt að skipuleggja á þann hátt líf
heilu þjóðanna, búa til hinn klónaða ein-
stakling þar sem allir hugsa að dagskipan
valdsins, jafnframt verður draumurinn um
alheimsþorpið einnig fjarlægari eftir því sem
voldugum fylgismönnum þess vex ásmegin. Í
báðum tilvikum er orsökin sú sama, sem er
að engir tveir einstaklingar eru eins, því
verður ekki breytt með miðstýringu, reglu-
strikufræði né neinu formi skipulags að ut-
an, ljón verður ekki að apa hvorki fyrir
hentisemi sósíalisma né frjálshyggju …
Frá stríðslokum 1945 hafa orðið mikil um-
skipti í landsbyggðinni, aðallega á efnahags-
lega sviðinu. Á sama tíma rataði hins vegar
það sem síst skyldi hingað á útnárann, sem
var undanrenna Bauhaus stílsins, móðgun
við hugsjónir upphafsmannsins Henry van
de Velde í Weimar. Kom helst fram í nokk-
urs konar skókassastíl, iðulega með gluggum
í yfirstærðum, en í algjörri andstæðu við stíl-
brigðin sem fyrir voru og landslagið um leið.
Húsin teiknuð á rassinum í höfuðborginni og
uppdrættirnir seldir á útsöluverði um land
allt, ef ekki gefnir í formi miðstýrðrar
byggðastefnu, um leið voru öll þjóðlegheit
úthrópuð. Með stund og tíma grotnuðu
margar fegurstu byggingar landsins niður
jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem í dreifbýl-
inu. Guðjón Samúelsson, helstur talsmaður
þjóðlegrar hefðar lítilsvirtur, allt þar til
nafnkenndir útlendir arkitektar bentu af
virðingu og aðdáun á gildi hans. Hér kom
fram gríðarlegur skortur á jarðtengdum
metnaði og heildarstefnu í listum, meðal
annars í litlum skilningi á þýðingu þess að
færa menntun arkitekta inn í landið og
stofna listiðnaðarskóla til fremdar skapandi
handverki. Að búa til verðmæti úr því sem
menn höfðu og hafa enn á milli handanna,
allt viðurkenndar staðreyndir í dag og mikil
hugarfarsbreyting orðið víða um land eins og
ég hef vikið að í pistlum mínum. Þó mik-
ilvægt að árétta það enn einu sinni vegna
þess að þessi lífræna gerjun hefur einmitt
átt þátt í að opna augu manna fyrir þörfinni
á húsum yfir menningu á landsbyggðinni.
Jafnvel stórhuga einstaklingur byggði eitt
slíkt hús yfir myndlist í Hveragerði og fórn-
aði til þess aleigunni, en hér voru menn ekki
nógu snöggir um samstöðu og bakland.
Einnig kom þar vel fram sem hefur þýðingu
til úrslita að meginveigurinn liggur ekki í því
að koma slíkum húsum upp og í gagnið, held-
ur í sjálfum rekstri þeirra og þá dugir ekki
annað en að leggja línur til langs tíma. Ís-
lendingar hafa verið sérfræðingar í að
byggja hús en vanmeta vægi rekstursins og
má nefna mörg dæmi til sögunnar, þannig
hafa verið byggð félagsheimili um allt land
án þess að menn gerðu sér grein fyrir al-
mennri nýtingu þeirra enda standa þau að
mestu auð eins og fram kom í fréttum ný-
lega.
Það á þannig ekki að byggja hús yfir til-
búnar þarfir, sjálf þörfin á að vera aflvakinn
að baki, eitt gleggsta dæmi hér um eru hinar
mörgu sundlaugar á landinu. Ekkert mik-
ilvægara fyrir þjóð sem byggir afkomu sína
á hafinu sem forðabúri, í landi með fljót og
vötn á alla vegu, en að fólkið kunni að bjarga
sér úr háska. Þetta skildu menn í upphafi
síðustu aldar, uppgötvuðu um leið þá miklu
endurnæringu sem felst í sundiðkun og vatn-
inu sjálfu. Einneigin að ávinningurinn af að
nálgast vatn væri ekki einungis að þvo af
sér óhreindindi, heldur skapaði það andlega
vellíðan og hugarró, fyrir utan alla holl-
ustuna sem því er samfara.
Samlíkingin er sláandi vegna þess að sam-
skiptum við listir má líkja við andlegan
þvott sem endurnærir og auðgar um leið.
Þetta virðast tugmilljónir manna hafa upp-
götvað á undangengnum áratugum ef marka
má sívaxandi aðsókn á listasöfn um allan
heim sem og aðskiljanlegustu viðburði
tengda listum. Þessi þróun hefur illu heilli
ekki náð hingað nema að hluta, þótt reynsla
mín sem kennara við MHÍ segi mér að Ís-
lendingar séu hér engir eftirbátar nema síð-
ur sé. Hér hefur lengi verið falinn, ef ekki
fótum troðin mikill auður, eins og glöggt má
greina á framgangi ungs hönnunarfólks
undanfarin ár. Hefði trauðla komið til ef
ekki hefðu skapast skilyrði og svigrúm fyrir
vinnu þess, almenningur farið að veita skap-
andi hönnun meiri athygli en áður. Og nú er
mikilvægt að þessi þróun haldi áfram á opn-
um grunni, það er í og með hlutverk lista-
safna og menningarhúsa. Hins vegar verður
að forða því að menningarhús verði dauðar
ríkisstofnanir og stjórnmálamenn hafi bein
afskipti af starfseminni. Það skeði einmitt
varðandi Kjarvalsstaði, var meginástæða
sennunar miklu í upphafi og ekki laust við
að báðar fylkingarnar væru sekar. Og vel að
merkja fara menn ekki í sundlaugar af póli-
tískum ástæðum og fólk stímir ei heldur á
söfn ytra fyrir stjórnmálalegt hugarfar, í
báðum tilvikum er um þörf að ræða.
S
agt hefur verið að galdurinn við
heilbrigða velferð sé að fólk komi
til vinnunnar, ekki vinnan til
fólksins, og á sama hátt má halda
því fram að fólkið eigi að koma til
listarinnar en listin ekki til fólksins. Við get-
um einfaldað þennan orðaleik í þá veru að
forðast skuli miðstýringu og forræðishyggju
til hags fyrir opna samræðu sem veki for-
vitni og vilja til athafna. Listin á hvorki að
drottna, né þjóna grunnfærðari kenndum al-
mennings, farsælla að fólk líti upp til lista
og finni til samkenndar með þeim, hér hefur
hugtakið miðlun mesta vægið. Flestir munu
geta skilið og meðtekið þau sannindi að
blóm vaxa ekki fyrir pólitíska dagskipan, og
vaxandi virðing og aðdáun á náttúrunni er ei
heldur af miðstýrðum toga, því síður aðsókn
á listasöfn eða menningarstofnanir. Þá er
það háskalegur misskilningur að setja sama-
semmerki við skapandi kenndir og pólitísk-
ar skoðanir. Það sem hæst rís í listum fyrir
iðnvæðinguna kom fyrir tilstuðlan háaðals-
ins og svo borgaranna, aftur á móti á listin
sig sjálf og samkennd listamanna með al-
þýðunni og baráttu hennar eðlilegasta mál.
Fyrir eldmóð viturra auðjöfra og framsýnna
ættjarðarvina risu til skamms tíma mörg
merkustu söfn veraldar og menn skulu ekki
gleyma því að róttækar listir eiga nokkrum
eiginkonum helstu auðjöfra vestan hafs
ómælt upp að unna, sem lögðu grunn að
MoMA, fyrsta nútímalistasafni í heiminum.
Afdrifarík öfugþróun hefur orðið í þessum
efnum þá hægri öflin skilja ekki sinn vitj-
unartíma og draga hvarvetna þar sem þau
komast til valda úr aðstoð við listir og há-
menningu, gefa helst allt frumkvæði frá sér.
Skal því endurtekið varðandi væntanlega
byggingu menningarhúsa, að listin á sig
sjálf, hún er fólksins hvað sem öllum skoð-
unum líður, náttúra og eðli hennar til end-
urnýjunar er hið sama og vatnsins, stöðug
framrás.
Um menningarhús
Menningarhúsið í Helsingjaborg, hannað af Kim Utzon og vígt í fyrra. Reis fyrir hugsjónir
iðnjöfursins Henrys Dunkers (1870–1962) og hagnaðinn af sölu gúmmískóhlífa um víða veröld.
SJÓNSPEGILL
Bragi
Ásgeirsson
bragia@itn.is
ALLRAYNDI píanóbókmennt-
anna voru á boðstólum á tónleikum
Þorsteins Gauta Sigurðssonar í Ými
á sunnudag. Breitt úrval vinsælla
smáverka frá áratugunum í nánd
við 1900, þegar forystu Þjóðverja í
fagurtónlist var nýlokið, enda engin
þýzk verk á skrá. Arabeskurnar
tvær frá um 1890 eftir Debussy
klingdu fyrst um sal. Nr. 1 rann
með dreymandi flæði, nr. 2 geystist
með spræku stakkatói sem kannski
hefði þurft að leika þurrar í fremur
hljómmikla kór-
húsinu. Clair de
lune (Tunglskin)
úr Bergamasq-
ue-svítu hans
frá sama tíma
(endursk. 1905),
án efa eitt
þekktasta píanó-
númer úr ótelj-
andi sæg skap-
gerðarstykkja
síðrómantíkur, hljómaði ekki illa en
vantaði aðeins markvissari heildar-
svip. Sama virtist upp á teningi í 3.
ástardraumi Liszts og fyrstu Chop-
in-verkunum þremur, Valsi í a Op.
posth., Prelúdíu Op. 28,4 og
kannski einkum í Etýðunni Op.
25,1. Vert hefði verið að byggja upp
lengri og áhrifameiri spennuboga
en gert var, enda þótt lítið væri út
á smærri einingana að setja. M.ö.o.
hefði mátt leggja meiri áherzlu á
„strategíu“ og minni á „taktík“ –
einkum í dýnamískri mótun, sem
átti til að verða fullsnögg upp á lag-
ið, jafnvel eirðarlaus. Pólónesa
Chopins í As-dúr Op. 53 hélt hins
vegar stigmagnandi dampi allt til
enda í eftirminnilegri túlkun, og má
merkilegt heita um jafnofspilað
stykki þótt glæsilegt sé.
Yfirbragð seinni hálfleiks var
töluvert heilstæðara, og þeir hlust-
endur sem færðu sig um set niður
af svölum komust þess utan að því
að hljómurinn neðra virtist mark-
verkt þéttari og skýrari en uppi
undir súð. Karabísku suðupottarnir
tveir sem mynda rúmbuumgjörð
um líðandi hægan blúsinn í miðju í
3 Prelúdíum Georges Gershwins frá
1926 voru gæddir þróttmikilli
snerpu, og gott ef ekki m.a.s. vott-
aði fyrir djasssveiflutilfinningu
þeirri sem sjaldséð er hjá klassískt
menntuðu hljómlistarfólki. Al-
þekkta perlan hans Eriks Saties og
sannkölluð upphafning ofureinfald-
leikans, Gymnópedía nr. 1, var svo-
lítið köld á svip, en moll-prelúdíur
Rachmanínoffs í cís Op. 3,2 og g
Op. 23,5 komu aftur á móti stæltar
og skapmiklar undan krafthnykl-
uðum slætti Þorsteins sem virtist
þar á algerum heimavelli hvað stór-
mótun varðar. Það var því eftirtekt-
arvert hvað hann gat næst á eftir
dregið fram mikinn kyrrlátan göfga
úr Pavana Ravels fyrir látna prins-
essu.
Síðasta atriði á dagskrá var 3.
píanósónata Prókofjevs Op. 28 í
a-moll frá 1917 þegar rússneska
tónskáldið dvaldi á Vesturlöndum.
Frekar stutt verk en engu að síður
dável fallið til að sýna sópandi pían-
íska tækni, sem Þorsteinn Gauti
leysti af hendi með kraftmiklum en
samt furðunákvæmum leik, miðað
við áhættuna sem til þurfti að taka.
TÓNLIST
Ýmir
Verk eftir Debussy, Liszt, Chopin,
Gershwin, Satie, Rachmaninoff, Ravel
og Prókofjev. Þorsteinn Gauti Sigurðsson
píanó. Sunnudaginn 2. marz kl. 16.
PÍANÓTÓNLEIKAR Slaghörpukrásir
Ríkarður Ö. Pálsson
Þorsteinn Gauti
Sigurðsson