Morgunblaðið - 27.07.2003, Blaðsíða 30
30 SUNNUDAGUR 27. JÚLÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ
M
YNDIN sem
kom af stað ævi-
löngum þönkum
um illsku mann-
skepnunnar er
fastgrópuð í
hugann. Hún er
af hópi vannærðra, tötralegra barna
sem stara í linsu myndavélarinnar.
Það átakanlegasta er vonleysið sem
skín úr myrkum augum sem sitja
djúpt í dökkum tóftunum. Þetta eru
lifandi lík sem búið er að ræna allri
von og lífslöngun þar sem sovéskir
hermenn hafa nýheimt þau úr klóm
nasistaböðlanna í útrýmingarbúðum
í Póllandi. Ég fæ ekki skilið þessa
hræðilegu mynd þar sem hún gapir
við mér af síðum gamals Fálka. Enda
saklaus óviti á svipuðum aldri og
þessi börn sem mér skilst að hafi
unnið það eitt til saka að vera gyð-
ingar. Jafnvel orðið gyðingur er mér
ráðgáta. Í mínum augum eru þau
einsog önnur börn, aðeins horaðri,
skítugri og líflausari, enda búin að
sjá og reyna meira en flestir þola.
Frá þessu augnabliki hef ég fundið
hjá mér þörf að líta eigin augum þá
ægilegu staði þar sem illvirkið var
framið. Hún þróast á þann veg að
mér fannst óhjákvæmilegt að fara í
e.k. pílagrímsferð á vettvang glæp-
anna í þeirri veiku trú að þar gæti ég
virt fyrir mér botninn á rysjóttum
ferli mannkynsins.
Árin liðu og alltaf blundaði með
mér ferðin á heimsenda. Fyrir þrem
áratugum kynntist ég vini mínum,
Eyjólfi Karlssyni, sem einnig sat
uppi með svipaðar áætlanir. Satt að
segja höfum við verið á leiðinni síðan.
Að lokum kom að því að við töldum
rétta tímann upp runninn og lögðum
upp á vordögum.Skipulögðum ferða-
lagið sem var fyrir margt löngu full-
mótað í huga okkar beggja. Nutum
tik þess góðra ábendinga frá Friðriki
Gunnarssyni, ræðismanni Póllands á
Íslandi, og gagnabankar Alnetsins
komu í góðar þarfir. Frá upphafi var
stefnan tekin á Auschwitz-Birkenau
búðirnar, sem eru þær illræmdustu
og þekktustu. Um fjöldamorðin sem
þar voru framin hefur mikið verið
mikið rætt, ritað og tekið til umfjöll-
unar í kvikmyndum á borð við
Schindleŕs List og Playing For Time;
sjónvarpsþáttunum Helförin, heim-
ildarmyndaþáttunum Shoah, svo
eitthvað sé nefnt. Treblinka er annað
nafn sem jafnan kemur upp í hugann,
líkt og Majdanek utan við Lublin í
Norðvestur-Póllandi. Að lokum var
ætlunin að eyða nokkrum dögum í
Varsjá og skoða leifar gettósins
fræga.
Lagt í langferð
Við lendum í Varsjá og tökum
næstu lest til Kraká í Suður-Póllandi.
Grænasta land Evrópu þýtur
framhjá gluggum hraðlestarinnar,
baðað glampandi sólskini. Akrar og
engi blasa við svo langt sem augað
eygir, af og til rennum við í gegnum
vinaleg sveitaþorp. Skjöldóttar kýr á
beit, stæðilegir áburðarjálkar
spenntir fyrir vagni. Satt að segja er
stríðið og hryllingurinn í slíkri óra-
fjarlægð, að hann er óraunverulegur
líkt og gömul martröð.
Ekki er síður notalegt að vakna í
Kraká morguninn eftir, undurfag-
urri Mið-Evrópuborg, þar sem upp-
byggingin blasir hvarvetna við í
bland við vel við haldnar, sögufrægar
hallir og torg.
Framhjá því verður hinsvegar
ekki litið að Auschwitz, fyrsti ákvörð-
unarstaðurinn, færist nær og nær og
ekki til baka snúið. Við höldum rak-
leitt á ferðaskrifstofu þar sem boðið
er uppá margháttaðar ferðir til út-
rýmingarbúðanna, sem hafa bersýni-
lega mikið aðdráttarafl. Við ákveðum
að nýta tímann sem best og ráðum
einkabílstjóra og leiðsögumann, það
er dýrari máti en borgar sig margfalt
þegar upp er staðið.
Aftur er haldið út í guðsgræna
náttúruna og veðrið leikur við hvern
sinn fingur. Búðirnar eru í u.þ.b. 60
km fjarlægð frá Kraká, enn erum við
umvafðir búsældarlegum sveitum og
friðsæld.
Inn í sortann
Snögglega skellur maran á líkt og
gjörningaveður. Við ökum uppá hæð,
og við blasa í fjarska skorsteinar I.G.
Farbenidustrie í Buna-Monowitz,
eða Auschwitz III., kunnuglegir
flestum Vesturlandabúum úr tugum
kvikmynda og af ljósmyndum. Í huga
margra eru þeir tákn geðsýki nas-
ismans og lægsta stigs vestrænnar
siðmenningar þar sem þeir teygja sig
eins og fjandaforkur hátt til himins
uppúr skógi girtu, iðjagrænu akur-
lendi. Engu líkara en þeir séu að
storka Drottni allsherjar.
Reykháfarnir, sem í dag þjóna
hlutverki sínu í tengslum við áburð-
arverksmiðju, voru upphaflega hluti
risavaxinnar gervigúmmíverksmiðju
(Buna), og eldsneytisframleiðslu á
vegum I.G. Farben. Það var eitt af
stórfyrirtækjum Þjóðverja og síðar
Þriðja ríkisins. Iðnaðarrisi í eigu
Bayer, Hoechst, BASF, ofl. risafyr-
irtækja sem enn lifa góðu lífi og allir
þekkja. Auschwitz III. var opnað
1942, byggt af gyðingum, stríðsföng-
um og pólitískum föngum. Tugþús-
undir þeirra urðu síðan þrælar hjá
I.G. Farben og fjölda annarra, fjöl-
breyttra iðnfyrirtækja á þessu þriðja
svæði Auschwitz, sem taldi um 40
þrælabúðir til viðbótar.
Hið illræmda I.G. Farben var leyst
upp 1955 og dæmt til að greiða fórn-
arlömbum nasista 27 milljónir vest-
urþýskra marka.
Bílstjórinn bendir okkur á rústir
tígulsteinaverksmiðju við vegkant-
inn. Hingað sóttu fangar vinnu frá
Auschwitz I., voru á þriðja tíma að
arka hvora leið, í öllum veðrum, illa
búnir, undir gapandi byssukjöftum.
Ef höfðatalan stemmdi ekki að kvöldi
í einhverjum vinnuhópi, urðu allir að
bíða uns sá týndi var fundinn.
Auschwitz-Birkenau
Það var í maí 1940 að Heinrich
Himmler, æðsti maður SS og ríkis-
lögreglunnar, ákvað byggingu
stærstu þrælabúða Þriðja ríkisins.
Þörfin var brýn fyrir margvíslega
framleiðslu, ekki síst hergögn. Gnótt
af ódýru vinnuafli, menn gátu leyft
sér að hugsa stórt. Staðurinn sem
varð fyrir valinu var í útjaðri pólska
bæjarins Oswiecim í nágrenni
Kraká. Landshlutinn hafði verið
innlimaður í Þriðja ríkið eftir uppgjöf
Pólverja í september 1939. Síðla árs
1940 fóru fangar að flykkjast í ný-
reistar búðirnar, flestir pólitískir og
Pólverjar. Í mars 1941 var tala þeirra
tæp 11 þúsund, búðirnar, sem Þjóð-
verjar kölluðu Auschwitz I., orðnar
illræmdar sakir harðneskju og pynt-
inga sem þar áttu sér stað. Í einni
byggingunni, Blokk 11, var útbúinn
kjallari með fullkomnustu pyntingar-
tólum, fínpússaðar af færustu vís-
indamönnum fremstu menningar-
þjóðar veraldar. Utanhúss reis
„Svarti veggurinn“ frægi, aftöku-
staður þar sem ógæfusamir fangar
Blokkar 11 voru að endingu skotnir
til bana – ef ekki var búið að kvelja úr
þeim líftóruna innandyra.
Þeir sem töldust vinnufærir voru
hýstir í Auschwitz I., uns þeir urðu
gagnslausir af veikindum og/eða
ómennskri meðferð.
Í mars 1941 fyrirskipaði Himmler
byggingu mun stærra hverfis á búða-
svæðinu, Auschwitz II., og Birkenau
reis í þriggja kílómetra fjarlægð frá
búðum I. Til að byrja með var hverfið
fyllt af kvenföngum. Það saman-
stendur mestmegnis af timburhjöll-
um; hesthúsum sem ætluð voru gæð-
ingum riddaraliða keisarans ára-
tugum áður.
Í næsta nágrenni, sveitaþorpinu
Monowitz, risu skömmu síðar þriðju
búðirnar, Auschwitz III., verksmiðj-
ur og þrælabúðir sem greint var frá
hér á undan.
Auschwitz II., eða Birkenau, urðu
fljótlega mannflestu búðirnar og
hvergi voru aðstæðurnar djöfullegri;
skálarnir nánast án upphitunar, enda
upphaflega ætlaðir hrossum. Í Birk-
enau var fljótlega sett á laggirnar af-
kastamesta útrýmingarverksmiðja
Þriðja ríkisins. Verkfræðingar For-
ingjans gættu þess að allar dauða-
búðirnar væru vel í sveit settar hvað
samgöngur snerti og Auschwitz-
Birkenau var einstakt verkfræðiaf-
rek hvað fangaflutningum viðvék.
Fyrr en varði var aðgerðin „Loka-
lausnin“ komin í fullan gang. Fyrst
og fremst gyðingar auk slangurs af
sígaunum og öðrum „lægri kynþátt-
um“; fjölfötluðum, hommum, vanvit-
um og pólitískum föngum, streymdu
nú um þaulhugsað járnbrautarnet
sem breiddi úr sér til flestra landa
Evrópu, sem nú var nánast öll á valdi
Möndulríkjanna.
Dauðadæmt fólkið kom í tugþús-
undatali dag hvern til Póllands. Hver
vagnfyllin af annarri af gyðingum
var losuð í Auschwitz-Birkenau,
Treblinka, Sobibor og öðrum dauða-
búðum, árið út og inn.
Verkfræðingablómi og hátækni-
fræðingar Þjóðverja höfðu lengi
brotið heilann um fljótlegustu og
hentugustu aðferðirnar í fram-
kvæmd þjóðarmorðsins. Byssuskot
voru hávær, hleyptu óróa og hræðslu
í fangana, og aðferðin lýjandi fyrir
böðlana.
Með tilkomu eiturgassins Zyklon
B, léttist brúnin á morðvargnum; það
var fljótvirkt, ódýrt og hávaðalítið í
framkvæmd. Á meðaldegi voru hátt í
20 þúsund fangar drepnir, brenndir
og grafnir á heljarslóð nasista í Pól-
landi. Hæst komst talan í u.þ.b. 25
þúsund, eða líkt og á tíu 11. sept-
emberdögum.
Í víti
Þegar fangalestirnar, drekkhlaðn-
ar gyðingum, renndu inn í Birkenau
(slíkur atburður er nákvæmlega end-
urskapaður í Schindler’s List og tek-
inn á vettvangi), var fólkið umsvifa-
laust rekið út á brautarpallana og
aðskilið í raðir karla og kvenna. Hóp-
arnir urðu síðan að hraða sér fyrir
auglit SS-foringja, sem skipuðu þeim
í tvær fylkingar. Önnur var jafnan
stærri, þar lentu börn, gamalmenni,
sjúkt eða veiklulegt fólk og þess biðu
fljótlega endalokin í gasklefunum.
Þeir hraustustu voru valdir í flokk
sem fékk að halda lífi á meðan hægt
var að slíta þeim út. Örlög þeirra
voru í flestum tilfellum nokkrar vik-
ur lífdaga til viðbótar, í þrælkunar-
vinnu í Auschwitz III., eða öðrum
slíkum þrælabúðum.
Hraustmennin og þeir útsmogn-
ustu skrimtu; af skrásettum frásögn-
um þeirra er vitneskja okkar um
þessa hroðalegu atburðarás til komin
Eigur fanganna voru gerðar upp-
tækar og allt hirt sem talið var ein-
hvers virði. Áður en fangarnir end-
uðu þrautagöngu sína í gasklefunum
eða fjöldagröfunum var þeim vísað í
„sóttkví“, þar sem hausar voru snoð-
klipptir en hárið síðan notað til vefn-
aðar. Fyrir kom að fangar hímdu í
einhverja daga, jafnvel vikur, í hinum
óhugnanlegu „sóttkvíum“, það fór
einkum eftir afköstum flutningakerf-
isins.
Þá er ógetið krufningarinnar,
lokameðhöndlunar Þriðja ríkisins á
fórnarlömbum sínum: Áður en lík fór
í ofninn var það grandskoðað hátt og
lágt, innvortis sem útvortis, í leit að
verðmætum. Hirt voru gleraugu,
skór, fatnaður, hvað eina sem nýt-
anlegt talst. Hluti þeirra milljóna
gyðinga sem enduðu líf sitt í Helför-
inni, var efnafólk sem reyndi eftir
mætti að koma eigum sínum í eitt-
hvað fémætt þegar ljóst var hvert
stefndi. Eins hafa gyðingar löngum
fjárfest í eðalsteinum og skartgrip-
um sem þeir földu nú á sér eða
gleyptu. Þeir bjartsýnustu í von um
að geta hafið nýtt líf í nýju landi, hin-
ir raunsærri til að kaupa sér líf eða
frelsi.
Slíkir fjársjóðir fóru ekki framhjá
vökulum augum krufningarmanna,
frekar en gullfyllingar í tönnum.
Nöfn læknanna Josefs Mengele og
Carls Clauberg tengjast Auschwitz
um aldur og ævi. Þeir voru for-
sprakkar í vísindalegum „tilraunum“
sem fram fóru á föngunum. Þær eru
ólýsanleg viðurstyggð og enn einn
þáttur í glæpasögu búðanna og
Þriðja ríkisins. Læknarnir völdu
gríska gyðinga öðrum fremur. Tví-
burar (einkum á barnsaldri) og
dvergar, voru einnig eftirsótt „rann-
sóknarefni“.
Mengele og hans nótar voru jafnan
á brautarpallinum og völdu fórnar-
lömb þegar ferskir fangafarmar
stigu út úr vögnunum.
Í júlímánuði 1942 voru að meðal-
tali rösklega 92 þúsund gyðingar í
haldi í Auschwitz; hálfum öðrum
mánuði síðar losaði fjöldinn 105 þús-
und. Til viðbótar var 50 þúsund föng-
um haldið í hinum rösklega 40, smáu
og sérhæfðu þrælabúðum á svæðinu.
Tölurnar áttu eftir að hækka úr þess-
um 155 þúsundum, þrátt fyrir mikil
afföll sökum hungurs, erfiðisvinnu,
lífshættulegra smitsjúkdóma og ör-
mögnunar.
Gasklefarnir og líkbrennslurnar
Fyrsti tilraunagasklefinn og lík-
brennsluofnarnir í Auschwitz I.,
Forsagan og forgarðurinn
Á síðasta ári lét Sæbjörn Valdimarsson áratuga gamlan ásetning verða að veruleika. Hélt ásamt félaga
sínum á vettvang voðaverka Þriðja ríkisins, útrýmingarbúðanna Auschwitz-Birkenau og Majdanek. Gettóanna í Varsjá, Kraká og
Lublin og fleiri staða í Póllandi sem tengjast Helför nasista gegn gyðingum. Skoðun hans er sú að þrátt fyrir að umræðan um
þjóðarmorðið skjóti af og til upp kollinum viti samtíðin undarlega lítið um þennan svarta kapítula í mannkynssögunni.
Hliðið að Auschwitz.
Ljósmynd/Eyjólfur Karlsson
Brot af ferðatöskusafninu í Auschwitz. Allar merktar æruverðugum endastöð-
um. Enn einn mikilvægur þáttur blekkingarinnar miklu.
AP
Svarti veggurinn, einn af mörgum smánarblettum mannsandans í Auschwitz.
Áslóð Helfararinnar 1