Morgunblaðið - 13.03.2004, Síða 45
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 13. MARS 2004 45
✝ Kári Ólfjörð Ný-varðsson fæddist
í Garði í Ólafsfirði 6.
október 1940. Hann
lést á heimili sínu
Hlíðarvegi 59 í Ólafs-
firði 6. mars síðastlið-
inn. Foreldrar hans
voru Nývarð Ólfjörð
Jónsson bóndi, f. 30.
september 1910, d. 8.
október 1994, og eig-
inkona hans, Kristín
Sigurjónsdóttir, f. 5.
september 1906, d.
12. ágúst 1990. Systk-
ini Kára eru: Hreinn
Bernharðsson (sammæðra), f. 5.
júní 1930 og Guðfinna Þórhildur
Ólfjörð Nývarðsdóttir, f. 5. októ-
ber 1950.
Kári kvæntist 14. september
1963 Sigrúnu Ingólfsdóttur, f. 14.
september 1946. Foreldrar hennar
voru hjónin Ingólfur Baldvinsson,
f. 20. maí 1920, d. 29. september
1996, og Hildigunnur Ásgeirsdótt-
ir, f. 23. apríl 1927, d. 20. septem-
ber 1989. Börn Kára og Sigrúnar
eru: 1) Sigmar Ólfjörð, f. 1. júlí
1996, d. 29. júní 1972. 2) Kristín Ól-
fjörð, f. 22. janúar 1969, gift Ás-
grími Pálmasyni, f. 20. september
1963. Synir þeirra eru Kári Ól-
fjörð, f. 17. maí 1989 og Sæmundur
Ólfjörð, f. 26. ágúst
1994. 3) Sigmar Ól-
fjörð, f. 10. júlí 1972.
Sambýliskona hans
er Heiðrún Sjöfn, f.
17. desember 1981.
4) Inga Hilda Ólfjörð,
f. 1. desember 1980.
Sambýlismaður
hennar er Daníel
Páll Víkingsson, f.
15. febrúar 1980 og
eiga þau dótturina
Sigrúnu Ólfjörð, f.
13. apríl 2003.
Kári lauk prófi frá
Íþróttakennaraskóla
Íslands á Laugarvatni árið 1960 og
kennaraprófi frá handavinnu-
kennaradeild Kennarskóla Íslands
árið 1965. Kennsla var hans
aðalævistarf. Hann var kennari við
skólana í Ólafsfirði í nær fjóra ára-
tugi til haustsins 2002, þegar hann
hætti sem fastráðinn kennari. Frá
þeim tíma sinnti hann stunda-
kennslu við grunnskólann í Ólafs-
firði. Á sumrin vann hann við ým-
islegt, fyrst og fremst vélsmíði, en
einnig vann hann í síldarverk-
smiðju, við byggingarvinnu og var
á sjó.
Útför Kára fer fram frá Ólafs-
fjarðarkirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 10.30.
Elsku pabbi, tengdapabbi og afi,
ekki grunaði okkur þegar við sátum
í sumarbústaðnum fyrir nokkrum
dögum að skipuleggja allt það sem
við ætluðum að gera í sumar, að leið-
ir okkar væru að skilja. Þar varst þú
í essinu þínu, ákveðinn í að stækka
girðinguna svo koma mætti fyrir
fleiri trjám og runnum, mæla fyrir
áfellum á þakinu og fleira sem átti
að laga. Það var virkilega létt yfir
þér þar sem þú sást fram á mikla
vinnu og nóg að gera, enda snill-
ingur að finna verkefni til að vinna.
Við sáum þig fyrir okkur með mál-
band og hallamálið við gróðursetn-
ingu trjáa og runna, því ekki máttu
þau halla eða vera misjafnlega langt
á milli, það varð að vera pottþétt þar
sem millimetrinn skipti máli. Það
var eins og annað sem þú tókst þér
fyrir hendur, unnið af alúð og ná-
kvæmni.
Mikill dýravinur varstu alla tíð og
voru hundar í sérstöku dálæti. Hafð-
ir þú oft gaman af að kenna þeim
ýmsar kúnstir og þú varst mjög
ánægður með sjálfan þig þegar þú
kenndir Kát að betla mat með sér-
stöku ýlfri, snjótittlingar og aðrir
fuglar munu sakna þín á hörðum
vetri enda gafstu þeim sex sinnum á
dag, bílskúrinn er líka orðinn eins og
fóðurgeymsla hjá bændum, því
vegna mildra vetra undanfarið hafa
hlaðist upp brigðir, alltaf keyptir þú
sama magn á hverju hausti.
Það sýndi sig að þínar sterkustu
hliðar voru ætíð umhyggjusemi,
gjafmildi og endalaus þolinmæði –
og þess nutum við líka ríkulega,
aldrei gastu bón neitað og ef þú
fórst, þó ekki væri nema til Akur-
eyrar, komstu alltaf færandi hendi
til baka, alltaf gafstu þér tíma til að
hjálpa nafna þínum í heimanáminu
og talaði hann oft um hvað gott væri
að læra hjá afa sínum. Það er því
stórt skarð höggvið í fjölskyldu okk-
ar þar sem ekki er hægt að leita til
þín lengur þegar eitthvað bjátar á,
og nú er enginn afi til að segja sögur
eða klára að smíða kofann úr öllu
efninu sem þú komst með í sumar.
Þín er sárt saknað en minningin
um allar góðu stundirnar sem við
áttum saman munu aldrei gleymast
eða deyja.
Kristín Ólfjörð, Ásgrímur,
Kári og Sæmundur.
Elsku pabbi.
Ég get ekki enn trúað því að þeg-
ar við sáumst síðast á Akureyri á
föstudaginn, þá hafi það verið í síð-
asta skiptið sem ég myndi hitta þig.
Þú varst svo glaður og hress en svo
ertu bara tekinn frá mér eins og
hendi sé veifað.
Þú varst svo mikill fjölskyldufaðir
og hugsaðir fyrir öllu, hvort sem það
var að laga húsið ykkar mömmu eða
kaupa bætur á reiðhjóladekk til að
afastrákarnir þínir gætu notað þeg-
ar þá vantaði. Og svo var það litla
afastelpan þín sem fékk ekki að
njóta umhyggju þinnar nema í stutt-
an tíma, en alltaf var gaman að sjá
ykkur saman, því hún hermdi eftir
öllu sem þú gerðir enda varð fyrsta
orðið hennar „afa“.
En elsku pabbi, það er svo margt
sem mig langar að segja þér, en því
miður kem ég orðunum ekki frá
mér. En ég vil láta fylgja nokkur orð
sem ég gaf þér í jólagjöf fyrir stuttu,
og þó að þau séu ekki eftir mig þá
eru þau beint frá hjarta mínu.
Ég elska þig, pabbi, fyrir alla þá hluti sem
þú gerir.
Þú kemur mér til að hlæja þegar ég er
hnuggin.
Þú getur losað erfiðustu hnúta sem til eru,
þó svo litla að þeir ekki sjáist.
Þú veist ástæðuna fyrir hér um bil öllu.
Eins og af hverju það rignir og af hverju
býflugur stinga.
Eins og af hverju þotur valda hljóð-
drunum.
Þú ert nánasti vinur sem ég hef átt.
Þú deilir með mér tímaunum tvennum,
bæði góðu og slæmu.
Ég elska þig, pabbi, fyrir alla þá hluti sem
þú gerir.
Mest af öllu, ég elska þig, pabbi, fyrir að
vera þú.
(Höfundur ókunnur.)
Elsku pabbi minn, nú verð ég að
kveðja þig þó að ég óski aftur og aft-
ur að þú værir kominn til mín til að
leggja höndina á öxl mína og segja
að þetta verði allt í lagi.
Þín,
Inga Hilda.
Vorið er í nánd. Langþráðir geisl-
ar sólarinnar eru farnir að teygja sig
yfir fjallahringinn í kringum fjörð-
inn okkar. Birtan vex með degi
hverjum og boðar komu vorsins með
vaknandi jarðargróður, angan úr
grasi og ilm í lofti.
Senn verður vetrardrunganum,
kuldanum og myrkrinu svipt í burt.
Vorið heldur innreið sína með vakn-
andi fugla- og dýralíf til sjávar og
sveita, bjartar nætur og blíða daga.
Hjá mér hefur nú skyndilega
dregið dökkt ský fyrir vorkomuna.
Eini bróðir minn, hann Kári, er
dáinn.
Þótt dauðinn sé hið eina sem öll-
um er sameiginlegt og enginn fær
umflúið, er hann oft á ferð þegar
enginn á hans von, magnþrunginn
og miskunnarlaus. Svo var í þetta
sinn.
Við bræðurnir ólumst upp í sveit
og þótt aldursmunurinn væri of mik-
ill til þess að við ættum saman
barnaleiki tengdu störfin í sveitinni
okkur nánum bræðraböndum, sem
aldrei slöknuðu né rofnuðu.
Áhrifin frá uppvextinum í sveit-
inni einkenndu Kára alla tíð. Hann
var mikill náttúruunnandi og ein-
stakur dýravinur.
Það var frábært að fylgjast með
honum, þegar hann var að gæla við
hundana, sem dætur hans eiga, og
sjá hvernig þeir fögnuðu honum,
þegar þeir urðu á vegi hans. Atlot
þeirra og augu tjáðu meiri vænt-
umþykju en sögð verða með orðum.
Ég held, að einungis miklir mann-
kostamenn nái slíku sambandi við
mállaus dýrin.
Góð umgengni um landið og nátt-
úruna skiptu hann miklu máli og
stundum var hann ósáttur, þegar
hann sá jarðrask eftir verktaka og
bændur við ána, þar sem hann og
fjölskylda hans áttu sumarbústað.
Kári var mikill nákvæmnis- og
smekkmaður og lagði mikla áherslu
á vandvirkni og öguð vinnubrögð. Í
starfi sínu sem kennari var hann
farsæll.
Margir nemenda hans urðu góðir
vinir hans og félagar.
Þar sem hann var laghentur og
bóngóður leituðu margir til hans
með verkefni, sem þeir treystu sér
ekki til að vinna sjálfir. Þau verkefni
leysti hann með glöðu geði.
Kári var safnari í eðli sínu, þótt
hann hafi ekki stundað reglulega
söfnun á neinu sérstöku. Þegar hann
var smápolli í sveitinni fann hann oft
og hirti ýmsa hluti, sem öllum öðr-
um fannst vera einskis nýtir, en
voru dýrgripir í hans augum. Þetta
voru gjarnan gömul verkfæri eða
hlutar úr þeim, sem hafði verið
fleygt.
Alla tíð var sú hugsun rík hjá hon-
um að nýta hlutina sem best og ekki
ætti að fleygja nokkrum hlut, sem
gæti hugsanlega orðið að gagni síð-
ar.
Kári var mikill fjölskyldumaður.
Hann var óþreytandi við að búa í
haginn fyrir fjölskyldu sína og létta
henni lífið. Hann var ætíð til staðar,
þegar hans var þörf, úrræðagóður,
fórnfús og traustur.
Þessara eiginlega hans nutu fleiri
en hans nánustu. Um árabil var
hann virkur í starfi björgunarsveit-
arinnar Tinds og mörg dagsverk
vann hann sem sjálfboðaliði við
byggingu á félagshúsi sveitarinnar.
Í einkalífinu var Kári hamingju-
samur. Í upphafi kennsluferils síns
kynntist hann Sigrúnu Ingólfsdótt-
ur, sem var í fyrsta nemendahópn-
um hans.
Þau felldu hugi saman og giftu sig
á sautján ára afmælisdeginum henn-
ar.
Hjónaband þeirra var mjög far-
sælt og mér finnst að þá fjóra ára-
tugi, sem þau áttu saman sem hjón
hafi þau orðið æ samrýndari. Þótt
flesta daga væri birta yfir lífi þeirra
var það ekki alltaf dans á rósum.
Frumburður þeirra, Sigmar Ólfjörð,
lést af slysförum á 6. aldursári. Það
sár, sem þá myndaðist í brjósti
bróður míns, greri aldrei. En hann
bar harm sinn í hljóði, því að honum
var ekki tamt að bera tilfinningar
sínar á torg.
Í sorginni vegna sonarmissisins
styrktu þau Sigrún hvort annað og
efldu samband sitt.
Ég bið þess og trúi því að það
nána samband nái út yfir gröf og
dauða og megi verða til þess að
styrkja Sigrúnu og aðra ástvini
bróður míns gegn þeim mikla harmi
sem þau eru nú slegin.
Bróðir minn góður. Vertu guði
falinn og hafðu þökk fyrir allt og allt
frá fyrstu tíð til lokadags.
Hreinn Bernharðsson.
Mamma gengur til stúlkunnar
sinnar, tekur höndum um höfuð
hennar. Stúlkan hennar lítur upp og
áður en henni eru færð sorgartíð-
indin, horfir hún upp á andlit móður
sinnar og segir ,,mamma, hver er
dáinn?“
Hann Kári bróðir minn og frændi
þinn er dáinn.
Enn einu sinni erum við minnt á
að lífið er fallvalt og enginn ræður
sínum næturstað. Við erum líka
minnt á hve börnin geta verið næm
á umhverfi sitt.
Mágur minn Kári ólst upp í Garði
í Ólafsfirði, sveitabarn, stolt foreldra
sinna.
Hann var vel af Guði gerður,
glæsilegur á velli, greindur vel, hug-
prúður og hugrakkur, sumir sögðu
jafnvel að hann kynni ekki að hræð-
ast. Hann ólst upp við almenn
sveitastörf tók fljótt til höndunum
við að aðstoða pabba og mömmu við
hin ýmsu störf búreksturins. Og það
fór fljótt að muna um drenginn sem
var að vaxa úr grasi. Hann var
hraustur og þolinn, allt lék í höndum
hans, gamanyrði á vör.
En hann átti til að ganga fram af
pabba sem kallaði þó ekki allt ömmu
sína. Eitt sinn var verið að smala
kindunum niður Garðsdalinn heim
að bæ. Kári fer á undan fljótur upp á
fótinn. Hann er norðan við ána þeg-
ar hann sér skjáturnar taka á rás í
óvænta stefnu. Yfir ána í talsverðri
hæð hafði verið lagt rör nokkra
metra langt. Kári gerir sér lítið fyrir
og hleypur yfir ána eftir rörinu sem
sveiflast undir fótum hans, fyrir
skjáturnar og bóndinn faðir hans
horfði stjarfur á aðfarirnar.
Við gerð Múlavegar sýndi Kári
aftur að ekki fóru allir í spor hans.
Vegagerðinni var nánast að ljúka
beggja megin frá en haft eitt sem
nefnt er Ófærugjá var Hadda og
fleirum sem að vegagerðinni unnu
erfitt og seinunnið. Ólafsfirðingar
biðu óþreyjufullir eftir að nota sinn
veg og eitt sinn er aðdrætti þurfti til
heimilisins í Garði fór Kári með föð-
ur sínum út í Múla. Bíll kom innan
með varninginn. Kári hljóp eftir
skriðu Ófærugjár og sótti aðföngin
og kom brosandi með þau til baka.
Þeir sem horfðu á ferðir hans leist
ekki meira en svo á þetta ferðalag.
Ólafsfjörður er þetta góða sam-
bland af landbúnaði og sjósókn líkt
og gerist víða um land og minnir
undirritaðan að því leyti til á hina
fögru Kirkjubæi í sinni heimabyggð
sem nú hvíla undir hrauni.
Kári kynntist sjósókn og stóð sig
vel þar eins og við öll önnur störf
sem hann tók sér fyrir hendur.
Kári gat því hvort sem er orðið
góður bóndi eða sjómaður. En eins
og eldri bróðir valdi hann sér kenn-
arastarfið. Aflaði sér menntunar í
Íþróttakennaraskólanum á Laugar-
vatni og einnig í Kennaraskólanum í
Reykjavík. Hóf síðan störf við
Grunnskóla Ólafsfjarðar. Þetta nám
hentaði Kára vel. Hann var ljómi
ungra manna, hreystin uppmáluð,
knár í íþróttum og allt lék í höndum
hans hvort sem var á tré eða járn.
Aðalnámsgreinar sem hann kenndi
voru líkamsrækt og handavinna, auk
fleiri greina.
Kári stofnar til fjölskyldu í Ólafs-
firði. Eins og Bergþóra sagði forð-
um getur eftirlifandi eiginkona hans
Sigrún Ingólfsdóttir sagt ,,ung var
ég gefin“. Á fimmtánda ári hennar
stofna þau til tryggðarbanda sem
staðið hafa síðan. Þau hafa alla tíð
verið einstaklega samhent hjón og
staðið þétt saman í sorg og gleði.
Fyrir stuttu þurfti ég að bregða
mér í Ólafsfjörð, varð litið út um
glugga og leit þá Kára í síðasta sinni
á göngutúr með Sigrúnu sína sér við
hlið og þau eins og nýtrúlofuð.
Kára og Sigrúnu varð fjögurra
barna auðið. Þrjú þeirra eru vaxin
úr grasi. Barnabörnin orðin þrjú og
hafa verið ömmu og afa til ómældrar
gleði.
Mikill harmur var kveðinn að
heimili þeirra árið 1972 þegar þau
missa ungan dreng, Sigmar, aðeins
rétt tæplega sex ára gamlan, auga-
stein foreldra sinna. Ungi drengur-
inn fer út að hjóla og dettur. Inn-
vortis blæðing veldur því að dagar
hans eru taldir.
Það tók Kára langan tíma að jafna
sig eftir hið sviplega fráfall sonar
síns. Hann bar ekki sorg sína á torg.
Var að eðlisfari dulur, gat jafnvel
verið feiminn. En öllum leið vel í ná-
vist hans. Stutt var í glettni og
skemmtilegar sögur og stutt í
glampann í augum hans á góðum
stundum.
Á uppvaxtarárum Kára í Garði las
faðir hans oft á síðkvöldum upphátt
úr bókum. Þetta hefur sjálfsagt átt
sinn þátt í því að Kári hneigðist
fljótt til lesturs bóka, var mikill
bókaormur í þess orðs bestu merk-
ingu.
Góðs vinar er saknað.
Það verða mikil viðbrigði að koma
í Ólafsfjörð og vita hann ekki lengur
til staðar. Horfinn á braut til sonar
sem sárt var saknað, yndislegra for-
eldra og þeirra sem á undan eru
gengnir.
Við Didda mín sendum þér, elsku
Sigrún, Kristínu, Sigmari og Ingu
Hildu, tengdadóttur, tengdasonum
og barnabörnum okkar innilegustu
samúðarkveðjur.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
(V. Briem.)
Óli Þór Ástvaldar.
Með Kára Ólfjörð er genginn einn
litríkasti og tryggasti kennari við
Barnaskóla Ólafsfjarðar. Í rúm 40
ár var Kári einn af aðalkennurum
skólans og vann hér mikið og óeig-
ingjarnt starf. Kári tók fljótlega þá
stefnu í lífinu að gerast kennari og
því starfi gegndi hann nánast óslitið
hér í Ólafsfirði frá tvítugsaldri og
þar til hann lést. Þeir eru því ófáir
Ólafsfirðingarnir sem Kári hefur
kennt, ýmist íþróttir, smíðar eða
bóklegar greinar. Kári var íþrótta-
og handavinnukennari að mennt.
Sundið var hans hjartans mál og
lagði hann metnað sinn í að koma
sem flestum og helst öllum á flot og
var mjög góður sundmaður sjálfur.
Kári var ekki fyrir það að trana
sér fram og var nánast hlédrægur á
stundum, en gat þó verið gráglett-
inn þegar hann vildi það við hafa.
Hann var alla tíð samviskusamur og
áreiðanlegur jafnt í námi sem starfi
og hafði metnað fyrir því að skila
verkum sínum vel unnum og var
margt til lista lagt. Liðagigtin lagð-
ist þungt á Kára og varð til þess að
hann varð að hætta að kenna íþrótt-
ir fyrr en ella og síðan smíðarnar
einnig. Hann virtist ætíð sakna
þeirra tíma eftir að hann kom ein-
göngu í bóklegu greinarnar. Kári
var ótrúlega harður af sér að mæta í
vinnu fljótt eftir þær aðgerðir sem
hann þurfti að fara í út af liðagigt-
inni og var aldrei að barma sér þó
svo að honum hafi oft á tíðum liðið
illa. Alltaf var hann mættur fyrstur
manna á morgnana og búinn að
kveikja á „gömlu gufunni“ og glugga
í fræðin.
Áhrifa hans á yngri kynslóð þessa
bæjarfélags mun gæta um mörg
ókomin ár. Það er að mörgu leyti
erfitt að meta jafn huglægt starf og
kennslu, ekki til neinn algildur
mælikvarði, heldur verður hver og
einn að meta fyrir sjálfan sig.
Grunnþættir kennslunnar, að miðla
þekkingu og hvetja nemendur til
dáða voru Kára auðvelt viðfangs-
efni. Nemendur hans virtu hann og
fóru að fyrirmælum hans. „Hann
kann að láta okkur hlýða“, sögðu
þeir þegar við hin undruðumst hvers
vegna þeir væru miklu stilltari í
hans tímum en okkar. Honum var
gefinn þessi hæfileiki að gera sig
skiljanlegan í örstuttu máli með
raddblæ sem var ótvíræður.
Við minnumst sérstaklega dag-
anna fyrir jólin þegar Kári var með
Grýlu og Leppalúða og þrettán
rauðklædda jólasveina í halarófu á
ferð um ganga skólans að fara í
heimsókn í yngri bekkina. Hópinn
var hann búinn að þrautþjálfa í að
flytja jólakvæði Jóhannesar úr Kötl-
um og stjórnaði þeim af miklum
skörugleik. „Hver æfir okkur nú
fyrir næstu jól?“ spurðu nemendur
eftir lát Kára.
Kára verður sárt saknað í skól-
anum og minnumst við hans sem
góðs vinar og félaga.
Við sendum Sigrúnu, Kristínu,
Simma, Ingu Hildu og öllum að-
standendum Kára Ólfjörð innilegar
samúðarkveðjur.
Samstarfsfólk í
skólunum í Ólafsfirði.
KÁRI ÓLFJÖRÐ
NÝVARÐSSON
Fleiri minningargreinar
um Kára Ólfjörð Nývarðsson bíða
birtingar og munu birtast í blaðinu
næstu daga.