Morgunblaðið - 18.03.2004, Síða 28

Morgunblaðið - 18.03.2004, Síða 28
LISTIR 28 FIMMTUDAGUR 18. MARS 2004 MORGUNBLAÐIÐ ORKUVEITA Reykjavíkur hef- ur haslað sér nýjan völl, nú í menningargeiranum. Ekki færri en fimm listamenn hafa unnið listaverk sem verða til frambúðar í og við bygginguna á Bæjarhálsi. Eftir opna hugmyndasamkeppni var valinn lítill hópur til að gera tillögur að listaverkum og á end- anum fimm þeirra til fram- kvæmda. Listamennirnir sem um er að ræða eru þau Finnbogi Pét- ursson, Svava Björnsdóttir, Krist- ján Guðmundsson, Þór Vigfússon og Hreinn Friðfinnsson. Þrjú lista- verkanna hafa þegar verið sett upp en verk þeirra Finnboga og Kristjáns eru ekki tilbúin. Það eru þau Þór, Svava og Hreinn sem gefa byggingunni nú þegar tölu- vert líf og ekki verður síðra að koma þar þegar verk þeirra Krist- jáns og Finnboga bætast við en væntanlega verður það í lok þessa árs eða upphafi næsta. En Orkuveitan ætlar ekki að láta hér við sitja og hefur einnig komið upp sýningarsal í húsinu. Salurinn tengist ráðstefnusal og býður þessi tenging upp á marga möguleika, sem þegar er farið að nýta. Sýningar eru áætlaðar í saln- um á tveggja mánaða fresti. Farin hefur verið sú skynsamlega leið að láta fagmenn um val á verkum og skipulagningu sýningarpró- gramms, en það eru myndlistar- mennirnir Gabríela Friðriksdóttir, Magnús Sigurðarson og Þorvaldur Þorsteinsson, Ögmundur Skarp- héðinsson arkitekt, kúratorinn Mariangela Capuzzo, Kjartan Pierre Emilsson doktor í eðlis- fræði og fyrir hönd Orkuveitunnar Kolbeinn Bjarnason. Augljóslega er hér um áhugavert samstarf margra aðila að ræða um leið og myndlistin er höfð í fyrirrúmi. Stefnan hefur verið tekin á sam- vinnu milli greina og verður þann- ig sýnd myndlist, ljósmyndir, arki- tektúr, kvikmyndir og fleira en prógrammið fram á næsta ár er mjög spennandi og inniheldur bæði unga og efnilega listamenn og ráðstefnuhald, til dæmis sýnist mér ráðstefna og sýning eðlisfræð- ingsins Kjartans Pierre Emilsson- ar „Taktar og munstur í nátt- úrunni“ vera áhugaverð og listamönnum án efa innblástur. Orkuveitan hefur verið í samstarfi við Nýlistasafnið um nokkurt skeið, hún hýsti ráðstefnu þess um rými sl. haust og mun samstarf þarna á milli halda áfram en árleg Grasrótarsýning Nýlistasafnins verður haldin í sal Orkuveitunnar í september og október og í nóv- ember og fram í janúar verður sýning á verkum Dieters Roth. Kosmískir kraftar Það er engu líkara en að lista- mennirnir fimm hafi verið inn- blásnir af kosmískum kröftum við sköpun þeirra verka sem nú hafa verið sett upp og áætluð eru til frambúðar. Öll hafa þau hugsað stórt og glæsilega og verk þeirra tengjast kröftum náttúrunnar, beint eða óbeint í samræmi við starfsemi Orkuveitunnar. Það er þó án efa uppsetning Hreins Frið- finnssonar á þekktu fyrirbæri, Fo- ucaults-pendúl sem vekur hvað mesta athygli nú. Hreinn nýtir hér gífurlega lofthæð innanhúss upp á um það bil 25 metra til að setja upp þennan pendúl sem með sveiflu sinni sýnir fram á snúning jarðar. Það var Jean Bernard Léon Foucault (1819) sem um miðja nítjándu öld fór að rannsaka hreyfingu pendúla. Með rannsókn- um sínum komst hann að þeirri niðurstöðu að hreyfing pendúls sem hangir í nægilega langri fest- ingu og er það þungur að loftmót- staða og tregðulögmál hafa ekki áhrif á hann, er alltaf stöðug, pendúllinn sveiflast alltaf í sömu átt. Hann fylgir ekki snúningi jarðar en snúningurinn gerir það aftur að verkum að hreyfing pend- úlsins myndar hring. Oftast er sýnt fram á þetta með því að láta pendúlinn fella litla tréstauta sem komið er fyrir í hring á gólfinu og svo er líka hér. Það sem er svo skrýtið við pendúl Foucaults er það að hann er auðvitað festur við þak byggingarinnar sem fylgir jú hreyfingu jarðar en samt hagar hann sér eins og festing hans sé fastur punktur í alheiminum. Vís- indin kunna sjálfsagt skýringu á þessu en óháð henni býr hreyfing pendúlsins yfir fegurð sem kemur manni í beint samband við alheim- inn, tímans þunga nið sem enginn fær stöðvað og eins og skáldið Sjón orðar það fallega í sýning- arskrá „þögull slátturinn/kveðja frá vetrarbrautinni“. Svava Björnsdóttir hugsar einn- ig stórt í verki sínu sem tengir saman sex hæðir byggingarinnar, en slípuð grágrýtissúla í mörgum einingum nær frá neðstu hæð upp á þá efstu og hafa verið boruð göt í gegnum hæðirnar svo hún nær óslitin í gegn. Vatn flæðir upp úr súlunni og rennur viðloðandi við hana niður eftir henni. Einnig hér vaknar tilfinning um eilífa framrás sem er stærri en okkar litla líf. Þór Vigfússon vinnur með lit- aðar einingar sem tengjast arki- tektúr byggingarinnar að meira marki en verk hinna. Hann vinnur á mörkum málverks og hönnunar og velur liti sína vandlega, verk hans vinnur vel með byggingunni. Það eru síðan þessir fimm „lista- menn hússins“ sem sýna verk sín í sýningarsal/fundarsal sem hlotið hefur nafnið 100 gráður. Hreinn sýnir greinilega hversu mjög verk eins og pendúllinn tengist list hans en hógværir kraftar náttúrunnar eru honum oftar en ekki innblást- ur. Þannig sýnir ljósmynd hann fanga regnbogaljósbrot í lófa og víravirki notast við krafta seguls til að skapa fíngerðar teikningar á hvítan vegg. Svava Björns sýnir hér eitt af pappaverkum sínum, holótt og minnir þannig á götin sem hún lét gera á allar hæðir byggingarinnar, Kristján Guð- munds sýnir verk í anda naum- hyggju og Þór vinnur með samspil lita á mörkum málverks. Ekki má gleyma glasaspili Finnboga Pét- urssonar sem er skondið og ef til vill má lesa í því ákveðna húm- oríska afstöðu til þess samhengis sem verkið er sýnt í. Sýningin gef- ur þeim sem ekki þekkja til dálitla innsýn í verk listamannanna fimm. List er nauðsyn Stuðningur aðila úr einkageir- anum við menningarviðburði hefur verið nokkuð í sviðsljósinu að und- anförnu og það er frábært að nú bætist Orkuveita Reykjavíkur við. Það er mjög jákvætt að stórfyr- irtæki skuli átta sig á möguleikum sínum í menningarlífi landsins og á því hversu jákvæður stuðningur við menningu getur verið fyrir ímynd fyrirtækisins. Landsvirkjun hefur einnig lagt sitt af mörkum með framtakssömu sýningarhaldi í virkjunum sínum. Þetta eru skref í átt að því að efla sjálfsímynd okk- ar sem þeirrar menningarþjóðar sem við viljum vera - og erum og stuðlar að því að gera listina að hluta af umhverfi okkar. Því listin er nauðsynjavara. Það er sann- reynd klisja að Laxness skapaði þjóð og Kjarval skapaði land, en ekki síður satt að samtímalista- menn okkar gera slíkt hið sama dag hvern. Þetta skref Orkuveitunnar er í samræmi við stefnu stórfyrirtækja víða erlendis sem styðja við listir á ýmsan hátt, bæði með sjóðum og listaverkakaupum. Hér þarf svo að ríkja jafnvægi eins og í öðru, æski- legasta listumhverfið hlýtur að vera sambland af heilbrigðum list- markaði í bland við stuðning frá ríki, borg og sveitarfélögum sem og frá aðilum úr einkageiranum. Það er full ástæða til að myndlist- armenn sem aðrir listunnendur taki þessu framtaki Orkuveitunnar fagnandi. Í sambandi við alheiminn MYNDLIST Orkuveita Reykjavíkur Bæjarhálsi 1, Reykjavík Staðbundin verk til frambúðar, tímabund- in sýning til 6. maí. Hús Orkuveitunnar er opið alla virka daga frá kl. 8.30-16. FIMM, BLÖNDUÐ TÆKNI, FINNBOGI PÉT- URSSON, SVAVA BJÖRNSDÓTTIR, KRIST- JÁN GUÐMUNDSSON, ÞÓR VIGFÚSSON, HREINN FRIÐFINNSSON Ragna Sigurðardóttir „Upp niður – upp niður– upp niður – upp niður – upp niður – vatnsbrún vatnsniður,“ segir Sjón um þetta verk Svövu. „Þögull slátturinn – kveðja frá vetrarbrautinni“ yrkir Sjón í sýningarskrá. Á EFNISSKRÁ tónleika Sinfón- íuhljómsveitar Íslands í kvöld kl. 19.30 eru fjögur verk eftir þrjú tónskáld. Verkin eru Divertimento í D-dúr KV 136/125a og Sinfónía nr. 29 í A-dúr KV 201 eftir Wolf- gang Amadeus Mozart, Chaconne í g-moll eftir Henry Purcell í út- setningu Benjamins Brittens, auk þess sem flutt verður Serenaða fyrir tenór, horn og strengi eftir Britten, en það verk hefur ekki heyrst á tónleikum hérlendis í rúm tuttugu ár. Einsöngvari tón- leikanna er skoski tenórinn Paul Agnew og einleikari kvöldins er Joseph Ognibene, fyrsti hornleik- ari Sinfóníuhljómsveitarinnar, en hljómsveitarstjórn er í höndum að- alstjórnanda hljómsveitarinnar, Rumon Gamba. „Þessi Serenaða Brittens er það einleiksverk sem ég hef hvað oft- ast leikið, eða alls fjórum sinnum. Ég lék það fyrst úti í Ameríku áð- ur en ég flutti til Íslands, síðan með Sinfóníuhljómsveitinni 1983 og í upptökum fyrir rúmum ára- tug,“ segir Joseph Ognibene spurður um aðkomu sína að verki Brittens. Inntur eftir því hvort mikill munur felist í því að nálgast verkið núna í fjórða sinn svarar Joseph því játandi. „Sumt liggur betur og annað ekki, þannig er sumt sem mér fannst erfitt síðast mun auðveldara núna og öfugt. Ég reyni samt alltaf að nálgast verkið upp á nýtt í hvert sinn sem ég spila það,“ segir Joseph og lætur vel af samvinnunni við Rumon Gamba. Að sögn Josephs leikur hann í verkinu á svokallað náttúruhorn og eru það fyrirmæli frá tónskáldinu sjálfu. „Náttúruhorn er öðruvísi en venjulegt horn að því leyti að á náttúruhorni eru engir ventlar þannig að hljóðfærið er mun gróf- gerðara, en mér finnst hljómur þess einstaklega töfrandi,“ segir Joseph og bendir á að náttúrulegir yfirtónar hljóðfærisins geti á köfl- um virkað falskir, „en þetta var það sem Britten vildi,“ segir Joseph og brosir. Spurður hvaða þýðingu það hafi að fá tækifæri til að leika einleik með Sinfóníuhljómsveitinni segir Joseph það í raun ómetanlegt. „Því það er afskaplega hollt fyrir okkur meðlimi hljómsveitarinnar að fá slík tækifæri og í raun mætti gera mun meira af því. Því það er mikill munur á því að sitja innan um fé- laga sína og leika eina og eina sólólínu eða standa fyrir framan kollega sína og flytja með þeim heilt verk.“ Forréttindi að syngja Britten „Þó þetta sé serenaða, sem merkir að þetta er kvöldverk, þá er þetta samt ekki vögguljóð sem ætlað er að svæfa áheyrendur,“ segir Paul Agnew kíminn þegar hann er spurður um verk Brittens. „Serenaðan byggir á sex breskum ljóðum sem Britten valdi saman, en ljóðin eiga það sameiginlegt að í þeim er dregin upp mynd af hinum ýmsu litbrigðum næturinnar. Þau eru að mörgu leyti furðuleg, jafn- vel drungaleg á köflum enda lýsa þau ógnvænlegri hliðum myrkurs- ins, en á sama tíma má skynja mikla kyrrð og fegurð í ljóðunum.“ Að sögn Agnews var tilfinning Brittens fyrir þeim textum sem hann vann með alveg einstök. „Þannig eru allir litir tónlistarinn- ar alltaf innblásnir af meðfylgjandi texta. Þetta nána samband orða og tóna gerir það að verkum að mun auðveldara er að túlka tónlistina á sannfærandi hátt. Britten er ekki bara að reyna að skapa framandi hljóð, heldur er hann að reyna að fanga kjarnann í merkingu orðanna.“ Aðspurður segir Agnew það í raun viss forréttindi að syngja verk eftir Britten. „Hann samdi ótrúlega mikið af verkum fyrir tenórröddina, bæði sönglög og óp- eruhlutverk, sem helgast af sam- bandi hans við tenórsöngvarann Peter Pears, en mörg verkanna samdi hann sérstaklega með Pears í huga. Af verkunum er auðheyrt að Britten þekkti bæði möguleika og takmarkanir tenórraddarinnar mjög vel. Að sumu leyti held ég að verkin hljómi erfiðari en þau í raun eru, því Britten var sér mjög meðvitandi um að krefjast ekki ómögulegra hluta af röddinni,“ segir Agnew að lokum. Hin ýmsu litbrigði næturinnar Morgunblaðið/Árni Sæberg Paul Agnew tenór og Joseph Ognibene hornleikari ásamt hljómsveit- arstjóranum Rumon Gamba.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.