Morgunblaðið - 29.04.2004, Síða 36
MINNINGAR
36 FIMMTUDAGUR 29. APRÍL 2004 MORGUNBLAÐIÐ
Á árunum 1966 til
1971 starfaði ég sem
skrifstofustjóri borgar-
verkfræðings í Reykja-
vík. Á skrifstofunni í
Skúlatúni átti ég því láni að fagna að
hitta þar fyrir samvalið og samstarfs-
fúst fólk. Meðal þeirra var Óskar
Gunnar Óskarsson. Fljótlega varð
mér ljóst að hann var gull af manni.
Traustur, ábyggilegur, samvisku-
samur en um leið glettinn og orð-
heppinn, heilsteyptur félagi og
drengur góður.
Á þessum árum var Reykjavík í
gríðarlegum vexti. Gömul hús og
heilu göturnar urðu jarðýtunum að
bráð, ný hverfi risu upp og borgin
þandist út. Lóðum var úthlutað í gríð
og erg og var þó hvergi nóg. Bygg-
ingar- og mælingadeildin hafði ekki
undan að mæla og meta og gjaldker-
inn í afgreiðslunni innheimti gatna-
gerðargjöld eins og hann ætti lífið að
leysa.
Óskar Gunnar var bókari og burð-
arás í öllum þessum bægslagangi,
öruggur í fasi, skilvirkur og nákvæm-
ur. Þess á milli var stundum stund á
milli stríða og starfsfólkið gerði sér
glaðan dag og var þar margt baukað
og brallað. Allt er það mér í fersku
minni, ekki síst á þeirri stundu þegar
Óskar Gunnar er skyndilega horfinn
á braut.
Gömul vinátta hverfur aldrei, þótt
örlög ráði för, og þegar ég gekk á vit
annarra ævintýra hélt Óskar Gunnar
sínu striki, með samviskuna og bók-
haldið í farteskinu. Á borgarskrif-
stofunum starfaði hann óslitið í fjöru-
tíu ár og naut allan tímann óskipts
trúnaðar og trausts yfirboðara sinna
og samborgara.
Það er fengur að slíkum mönnum,
þótt þeir séu ekki að trana sér fram,
enda var það hvorki stíll Óskars né
löngun, að troða öðrum um tær.
Enda þótt leiðir okkar hafi legið í
mismunandi farvegi, eins og gengur
meðal ungra manna, slitnaði aldrei
strengurinn og ekki var verra að
Óskar var kvæntur Kolbrúnu Valdi-
marsdóttur, frænku minni. Við erum
ÓSKAR GUNNAR
ÓSKARSSON
✝ Óskar GunnarÓskarsson fædd-
ist í Garðastræti 43 í
Reykjavík 14. maí
1940. Hann varð
bráðkvaddur föstu-
daginn langa, hinn 9.
apríl síðastliðinn, og
var útför hans gerð
frá Fríkirkjunni í
Reykjavík 20. apríl.
systrabörn. Saman
gengu þau sinn örugga
og farsæla veg, eignuð-
ust þrjú mannvænleg
börn og vöktu allan
þann tíma aðdáun mína,
sem samrýnd og elsku-
leg fjölskylda. Síðast sá
ég þau saman á golfvell-
inum, enda var Óskar
staðráðinn í að njóta
efri áranna í leik og fé-
lagsskap með sér og
sínum. Þá, sem áður,
var Óskar glaðbeittur
og kankvís. Þannig kom
hann mér fyrir sjónir
alla tíð. Með Óskar Gunnari Óskars-
syni er látinn atgervismaður í sjón og
raun. Ekki vegna líkamsburða, ekki
vegna framapots eða fleðuláta, held-
ur vegna þeirra mannkosta að fara
vel með sitt. Og annarra. Hann var
drengur góður. Betri meðmæli kann
ég ekki.
Ellert B. Schram.
Mætur maður er genginn eftir
innihaldsríkt líf. Leiðir okkar Óskars
munu fyrst hafa legið saman fyrir um
það bil 55 árum. Við vorum báðir í
Miðbæjarskólanum, hann ári á und-
an, en einn bezti vinur hans á þeim
tíma var bekkjarbróðir minn. Þeir
áttu báðir heima í Garðastræti sunn-
an Túngötu en ég á Bárugötu.
Verbúðarbryggjurnar og Slippur-
inn voru að vísu yfirlýst bannsvæði
ungum drengjum í nágrenninu, en
fæstir þeirra gátu þó til lengdar stað-
ist aðdráttarafl þessa ævintýralega
leikvangs. Við áttum þar margar góð-
ar stundir á bernskuárunum og lét-
um okkur ekki bregða svo mjög við
yfirheyrslur, þegar heim var komið
með vasana úttroðna af lúnum þjöl-
um og öðrum fyrrverandi nytjahlut-
um.
Árin liðu og hver hélt sína leið, en
aftur lágu leiðir okkar Óskars saman,
þegar ég réðist til borgarinnar árið
1972. Það var eins og sambandið
hefði aldrei rofnað. Við þekktumst og
áttum eftir að starfa náið saman um
nærfellt 30 ára skeið.
Það væri synd að segja, að við
hefðum ætíð verið sammála. Óskar
var afar nákvæmur og vandvirkur í
allri sinni embættisfærslu og fannst
oft með réttu, að sumir okkar starfs-
félaga hans hefðum takmarkaðan
skilning á þeirri ögun, sem starf hans
krafðist. Engu að síður tókst okkur
oftast að komast að sameiginlegri
niðurstöðu, sem báðir gátu unað við.
Óskar flíkaði ekki verðleikum sín-
um eins og mörgum er svo tamt nú á
tímum, en engum, sem með honum
störfuðu duldist, að hann var hæfi-
leikaríkur og mikill kunnáttumaður á
sínu sviði, enda naut hann óskoraðs
trausts til starfsloka. Honum voru
falin margvísleg trúnaðarstörf og
leysti þau vel af hendi, en auk þess
var hann ætíð boðinn og búinn til
þess að leiðbeina þeim, sem til hans
leituðu með úrlausnarefni á sviði bók-
halds og reikningsskila.
Í einkalífi var Óskar gæfumaður
með góða konu sér við hlið. Hann
verður á guðs vegum, hvert sem ferð-
inni er heitið og skilur hér eftir sig
mikið verk og góðar minningar.
Eggert Jónsson.
Það var mikið áfall þegar fréttin
barst á föstudaginn langa af andláti
Óskars Gunnars Óskarssonar. Hann
var einn af nánustu vinum okkar og
svo hefur verið sl. 43 ár. Það er því að
vonum að hið skyndilega og ótíma-
bæra fráfall hans snerti okkur djúpt.
Óskari kynntumst við haustið 1961
þegar við hófum allir nám í viðskipta-
deild Háskóla Íslands og fylgdumst
við að í náminu og lukum kandídats-
prófum á sama tíma. Óskar hafði hlý-
legt og vinsamlegt viðmót og ríka
kímnigáfu sem hann beitti ávallt
rætnislaust. Það leið ekki á löngu þar
til sterk vináttubönd höfðu myndast
á milli okkar og þau héldust í öll þessi
ár án þess að nokkurn skugga bæri
þar á. Ástæðan fyrir þessu er ekki
síst það jákvæða viðmót sem Óskar
hafði til að bera og sú mikla um-
hyggja sem hann bar jafnan fyrir vel-
ferð ættingja og vina.
Vináttan náði að sjálfsögðu til fjöl-
skyldna okkar og eigum við margar
og ánægjulegar minningar frá sam-
verustundum liðinna ára. Óskars er
sárt saknað en við minnumst hans
með miklu þakklæti enda erum við
ríkir af góðum endurminningum um
frábæran vin.
Við sendum Kolbrúnu eiginkonu
Óskars og börnum þeirra, Gísla,
Margréti og Óskari Bjarna og öðrum
aðstandendum innilegustu samúðar-
kveðjur vegna hins skyndilega frá-
falls Óskars Gunnars sem hlýtur að
reyna mjög á þau. Megi góður guð
veita þeim styrk á þessari erfiðu
stund.
Örn Marinósson,
Sverrir Ingólfsson.
Tilvera okkar er undarlegt ferðalag.
Við erum gestir og hótel okkar er jörðin.
Einir fara og aðrir koma í dag…
Þessi orð Reykjavíkurskáldsins
Tómasar Guðmundssonar segja svo
mikið um lífið okkar og komu sterkt
upp í huga minn þegar ég heyrði, að
Óskar Gunnar Óskarsson væri farinn
í ferðina miklu. Það var fyrir nærri
sextíu árum að við Óskar Gunnar
hittumst fyrst, þá bæði að stíga okk-
ar fyrstu spor á skólagöngunni. Öll
barnaskólaárin lágu leiðir okkar
saman í Miðbæjarskólanum. Þar var
Óskar Gunnar alltaf sami ljúfi dreng-
urinn sem gott var að umgangast.
Tíminn leið. Nú fékk ég að kynnast
Óskari Gunnari á nýjum vettvangi,
nefnilega sem bróður kærs vinar
míns, Jóhanns, og sem mági bestu
vinkonu minnar, hennar Dídíar. Og
ekki nóg með það, faðir Óskars
Gunnars var vinnufélagi minn hjá
Sjúkrasamlagi Reykjavíkur. Óskar
Gunnar var þá búinn að festa ráð sitt
og stofna heimili með sinni ljúfu og
elskulegu eiginkonu, Kolbrúnu
Valdemarsdóttur. Enn kom lífið með
skemmtilegt innskot, því pabbi minn
og tengdafaðir Óskars Gunnars voru
spilafélagar til margra ára og áttu
marga unaðsstundina við spilaborðið.
Það er örstutt síðan, tæplega átta
mánuðir, er við Óskar Gunnar hitt-
umst vegna skyndilegs fráfalls Jó-
hanns, bróður hans. Það var sami
góði drengurinn og í Miðbæjarskól-
anum forðum, sem studdi mágkonu
sína af alhug þegar sporin voru þung
og dagarnir dimmir. Ég veit að Ósk-
ar Gunnar saknaði stóra bróður sárt.
Hjörtu fjölskyldna bræðranna eru
sorgmædd í dag. Hugur minn, fullur
samúðar, er hjá Kolbrúnu hans góðu
konu, hjá börnunum hans og ástvin-
unum öllum. Ég trúi því að þeir
bræður gangi hlið við hlið í landinu
þar sem eilífðarsólin skín. Guð blessi
minningu Óskars Gunnars Óskars-
sonar.
Guðríður J. Pétursdóttir
(Gurrý).
Hvers vegna er leiknum lokið?
Ég leita en finn ekki svar.
Ég finn hjá mér þörf að þakka
þetta sem eitt sinn var.
(Starri í Garði.)
Í dag kveðjum við hinsta sinni Ósk-
ar G. Óskarsson, fyrrverandi borg-
arbókara, sem lést á heimili sínu
langt fyrir aldur fram. Stórt skarð er
nú komið í hóp samhentra starfs-
manna hjá borgarbókhaldi, því þrátt
fyrir að Óskar hafi látið af störfum
fyrir nokkrum árum hélt hann alltaf
góðu sambandi við fyrrverandi sam-
starfsmenn sína. Við eigum eftir að
sakna þess að sjá hann birtast með
bros á vör og spyrja hvernig gangi í
bókhaldinu.
Margar kærar minningar hafa leit-
að á hugann síðustu daga. Óskar
henti oft gaman að því að hann hefði
vaxið í starfi borgarbókara. Hann var
stór og mikill maður, enda þurfti
stóran mann til þess að rúma hans
stóra hjarta. Við höfum unnið mis-
lengi með Óskari, en með hlýju og
brosi snerti hann alla samferðamenn
sína. Öll nutum við leiðsagnar hans í
starfi og alla aðstoð veitti hann fús-
lega væri eftir því leitað. Hann var
góður yfirmaður og hélst vel á starfs-
fólki. Á samskipti hans við okkur bar
aldrei skugga.
Að leiðarlokum kveðjum við góðan
vin og sendum eiginkonu og fjöl-
skyldu Óskars innilegar samúðar-
kveðjur. Megi minningin um góðan
og traustan mann veita ykkur styrk á
erfiðum stundum.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(V. Briem.)
Starfsfólk borgarbókhalds.
Föstudaginn langa bárust mér
þær leiðinlegu fréttir að Óskar, fyrr-
um yfirmaður minn, væri dáinn. Þar
sem ég er stödd í Ameríku, langar
mig að koma eftirfarandi kveðju
áleiðis.
Eftir að hafa verið ein af átta
manna vinnufjölskyldu þinni í rúm 12
ár, á ég svo margar minningar sem
ég mun með stolti halda í.
Elsku Óskar, takk fyrir margar og
ómetanlegar kennslustundir. Ótrú-
legur yfirmaður með svo marga kosti
sem þú vannst þér inn ómælda virð-
ingu okkar sem nutum.
Kæra Kolla, Madda, Gísli, Óskar
og fjölskyldur, ég votta ykkur samúð
mína.
Anna Karen Kristinsdóttir.
Ljúfur, hlýr og notalegur eru þau
lýsingarorð sem fyrst koma í hugann
þegar Óskars G. Óskarssonar, fyrr-
verandi borgarbókara, er minnst.
Mér fannst gott að njóta þessara eig-
inleika hans þegar ég tók við starfi
borgarritara í Ráðhúsi Reykjavíkur
árið 1995. En Óskar var líka ótrúlega
minnugur á það sem laut að þróun og
rekstri borgarinnar og hann var
ákaflega vandaður og góður embætt-
ismaður. Reykjavíkurborg naut
starfskrafta hans allt frá því hann
lauk prófi í viðskiptafræði árið 1966.
Fyrst var hann aðalbókari hjá borg-
arverkfræðingi en tók við vandasömu
og ábyrgðarmiklu starfi borgarbók-
ara árið 1970.
Óskars er ekki síst minnst fyrir
það, hversu vel hann hugsaði um
samstarfsfólk sitt. Hann fylgdist með
högum þess, hvatti það og studdi og
stóð vörð um hagsmuni þess í hví-
vetna. Kringum hann ríkti andrúms-
loft góðvildar og kímni, hann var eins
við alla og gaf sér tíma til spjalls og
ráðgjafar. Óskari virtust í blóð bornir
þeir eiginleikar sem yfirmönnum eru
taldir mikilvægastir til að framkalla
hið besta hjá samverkamönnum sín-
um. Hann var líka ákaflega trúr
borginni sinni, bæði sem starfsmaður
hennar og íbúi.
Óskar tók við starfi borgarbókara
þrítugur að aldri og má segja að frá
þeim tíma hafi orðið bylting á því
sviði sem hann sinnti. Upplýsinga-
tæknin hóf innreið sína og þar var
Óskar í fararbroddi af hálfu borgar-
innar, þegar hann vann með Skýrr að
nýjum upplýsingakerfum fyrir ríki
og borg. Hann var líka í verkefnis-
stjórninni sem undirbjó það fjárhags-
upplýsingakerfi borgarinnar, sem nú
er í notkun. Honum fannst ákaflega
spennandi að kynna sér alla mögu-
leika nýju tækninnar til að kalla fram
upplýsingar og setja þær fram með
skýrum hætti. Stundum kallaði hann
mig að tölvuskjánum í snyrtilegu
skrifstofunni sinni bara til að leyfa
mér að sjá það sem birst gat á skján-
um þegar hann studdi á einn takka
eða tvo.
Óskar var líka maður sem vildi
njóta lífsins. Vegna langs starfsald-
urs hjá borginni gat hann farið á eft-
irlaun rösklega sextugur og það kaus
hann að gera. Hann vildi fá tíma til
meiri samvista við konuna sína og
fjölskyldu og til að sinna hugðarefn-
um eins og ferðalögum og golfi. Það
breytti ekki því að Óskar var
reiðubúinn til að vinna verkefni í
þágu borgarinnar þegar eftir var
kallað. Eftir að hann lét af föstu starfi
hafði hann umsjón með störfum hóps
sem vann að breyttu fyrirkomulagi
endurskoðunar og eftirlits hjá borg-
inni og síðan að útboði á endurskoð-
unarþjónustu fyrir Reykjavíkurborg.
Hann var líka tiltækur á háannatím-
um, þegar uppgjör og ársreikningur
kölluðu á liðsinni.
Ég minnist Óskars sem einstaks
vinnufélaga og það er mikill söknuð-
ur í huga samstarfsmanna hans í
Ráðhúsi Reykjavíkur og víðar hjá
borginni. Ég votta Kolbrúnu, börn-
unum og fjölskyldum þeirra hlut-
tekningu mína.
Helga Jónsdóttir.
Okkar kæri vinur og fyrrverandi
nágranni, Óskar Gunnar, lést á föstu-
daginn langa. Þessi óvæntu sorgar-
tíðindi bárust okkur hjónunum á
meðan við dveljum hér á Kanaríeyj-
um. Stutt er síðan þau Óskar og Kol-
brún dvöldu á sömu slóðum og höfðu
þau lýst mikilli ánægju sinni við okk-
ur varðandi þá ferð.
Við kynntumst þessum yndislegu
hjónum fyrst fyrir um það bil 25 ár-
um er við gerðumst frumbyggjar
ásamt öðrum góðum grönnum í
Stallaseli í Seljahverfi. Börnin í botn-
langanum okkar gerðust fljótt góðir
leikfélagar en foreldrarnir spjölluðu
saman um húsbyggingarnar sínar.
Fljótlega kom í ljós að við nágrann-
arnir í nr. 7 og 9 áttum svipaðan bak-
grunn menntunar- og starfslega séð
sem ýtti undir frekari kynni og vin-
áttu. Nokkru síðar gengu eiginkon-
urnar í sama klúbb innan Soroptim-
istahreyfingarinnar á Íslandi og
styrktust þá góð kynni þeirra enn
frekar. Vinátta okkar hjónanna og
fjölskyldu okkar jókst þannig með
hverju ári.
Óskar var afar hjartahlýr, skiln-
ingsríkur og umhyggjusamur vinur.
Bjartsýni og jákvæðni voru einnig
ríkir þættir í fari hans. Hann var
jafnframt mjög opinn og ræddi jafnt
stór mál sem smá af sömu innlifun.
Oft hlýddum við á frásagnir hans af
fjölskyldunni, vinum og samstarfs-
mönnum samhliða rabbi okkar um
garðslátt, trjárækt o.fl.
Óskar var góður gestgjafi og mikill
matmaður og hrósaði hann oft í okk-
ar eyru matseld Kollu sinnar en eld-
un á grilli var aftur á móti hans sér-
deild. Okkur er afar minnisstætt að á
góðviðrisdögum kom Óskar oft yfir
til okkar og spurði hvort við ættum
að grilla saman. Eftir góðan máls-
verð var setið lengi frameftir í kvöld-
sólinni á stéttinni þeirra og mikið
spjallað og hlegið.
Brúðkaupsdagar okkar voru 8. og
9. október. Þegar Óskar og Kolbrún
höfðu verið gift í 40 ár og við ná-
grannarnir í 30, þ.e. á árinu 2000, þá
fórum við saman í afar eftirminnilega
brúðkaupsafmælisferð til Parísar-
borgar. Héldum við upp á stór-
áfanganna í lífi okkar með kvöldverði
á siglingu um Signu. Oft nutum við
samvista við Óskar og Kolbrúnu ef
annað hvort okkar hafði leigt sér or-
lofshús. Vorferðir með mökum á veg-
um Soroptimistaklúbbs Bakka og
Selja var árlegur viðburður.
Óskar naut þess mjög að ferðast og
fræðast um framandi staði og hélt
dagbók um ferðir þeirra hjóna. Hann
átti það til að kalla í okkur í kaffi og
kryddaði þá samverustundina með
upplestri úr dagbókinni. Það var
hrein unun að hlýða á þessar ferða-
lýsingar sem voru í senn mjög fróð-
legar, skemmtilegar og fullar af
kímni sem honum einum var lagið.
Þótt hér hafi verið nefnd ýms ferða-
lög þá var Óskar mjög heimakær og
leið sýnilega best heima í Stallaseli í
faðmi nánustu fjölskyldumeðlima.
Fyrir fáum árum fluttu vinir okkar
vestur í bæ á Ásvallagötuna, þar sem
þau komu sér vel fyrir í fallegri og
notalegri íbúð, og var góðra granna
sárt saknað. Ekki rofnuðu þó vináttu-
tengslin við þessa flutninga og höfum
við oft notið gestrisni þeirra í Vest-
urbænum.
Kæri vinur, því miður gátum við
ekki fylgt þér síðasta spölinn en í stað
þess skynjuðum við mjög sterkt nær-
veru þína er við gengum meðfram
hafinu á þeim slóðum þar sem þú og
Kolla þín röltuð saman í ykkar Kan-
aríferð.
Elsku Kolbrún, Gísli, Madda, Ósk-
ar Bjarni, tengdadætur og barna-
börn. Við hjónin ásamt sonum okkar,
Jóhanni og Sigga, og fjölskyldum
þeirra samhryggjumst ykkur inni-
lega.
Friðleifur og Snjólaug,
Gran Canaria.
Samúðarblóm
Helluhrauni 10, 220 Hfj.
Sími 565 2566
Englasteinar
Einstakir legsteinar
Minningarkort
570 4000
Pantanir á netinu: www.redcross.is
Rauði kross Íslands bregst við neyð jafnt innanlands
sem utan og veitir aðstoð er gerir fólk hæfara til að
takast á við erfiðleika og bregðast við áföllum.
Þegar á reynir
Rauði kross Íslands