Morgunblaðið - 16.12.2004, Blaðsíða 4
4 FIMMTUDAGUR 16. DESEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
SAMKVÆMT upplýsingum frá
Landsvirkjun, Orkuveitu Reykja-
víkur og Hitaveitu Suðurnesja ætti
næg orka til stækkunar álvers Alcan
í Straumsvík að vera möguleg eftir 3
til 5 ár, eða að Kárahnjúkavirkjun
lokinni og stóriðjuframkvæmdum á
suðvesturhorninu vegna stækkunar
Norðuráls á Grundartanga.
Eins og fram kom í Morgun-
blaðinu í gær áttu yfirmenn Alcan
fundi í vikunni með stjórnvöldum og
orkufyrirtækjunum vegna áforma
fyrirtækisins um stækkun í
Straumsvík. Um upplýsingafundi
var að ræða og engar formlegar
ákvarðanir voru teknar um fram-
haldið.
Heimild er fyrir allt að 460 þús-
und tonna álveri, sem yrði stækkun
um 280 þúsund tonn miðað við fram-
leiðsluna í dag, ef stækkað yrði í ein-
um áfanga. Raforka til slíkrar
stækkunar þyrfti að vera ríflega 400
MW að afli. Í dag er Alcan að nota
yfir 300 MW til að framleiða tæp 180
þúsund tonn af áli.
Að sögn Þorsteins Hilmarssonar,
upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar,
er tæknilega séð hægt að verða við
óskum Alcan um orku, miðað við
heimildir Landsvirkjunar fyrir
vatnsaflsvirkjunum á Suðurlandi,
þ.e. virkjunum í neðri hluta Þjórsár
og Búðarhálsvirkjun, sem hafa farið
í gegnum mat á umhverfisáhrifum.
Þær eiga að duga fyrir framleiðslu á
200 þúsund tonnum af áli en Þor-
steinn segir þær ekki eyrnamerktar
Alcan frekar en öðrum orkukaup-
anda. Verði ákveðið að ráðast í gerð
þessara virkjana geti þær verið til-
búnar innan þriggja eða fjögurra
ára. Möguleikar fyrir frekari raf-
orku séu því til staðar. Einnig bend-
ir hann á áform um Norðlingaöldu-
veitu og Skaftárveitu, þar sem veita
á vesturkvísl Skaftár til Tungnaár
um Langasjó.
Guðmundur Þóroddsson, forstjóri
Orkuveitu Reykjavíkur, segir fyrir-
tækið hafa heitið raforku til stækk-
unar Norðuráls og það séu einhver
ár í að hægt verði að bæta við, vænt-
anlega ekki fyrr en eftir árið 2010.
„Þetta eru þau svör sem við gefum,
ekki bara Alcan, heldur þeim mörgu
aðilum sem vilja kaupa af okkur raf-
orku,“ segir Guðmundur og minnir á
að forráðamenn Járnblendiverk-
smiðjunnar á Grundartanga hafi
einnig sýnt áhuga á stækkun hjá
sér, auk áforma um álver á Norður-
landi.
Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu
Suðurnesja, segir að í fyrsta lagi eft-
ir tvö ár verði hægt að taka ákvarð-
anir um frekari virkjunarkosti á
Reykjanesi, hvort sem það yrði fyrir
Alcan eða aðra stóra orkukaupend-
ur. Fyrr verði veitan ekki aflögufær
um meiri raforku.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Alcan í Straumsvík framleiðir nú tæp 180 þúsund tonn af áli en hefur heimild til allt að 460 þús. tonna framleiðslu.
Talsmenn orkufyrirtækjanna um stækkun Alcan í Straumsvík
Næg raforka möguleg eftir 3–5 ár
MIKILL vöxtur hefur verið í
flundrustofninum og frá því flundrur
veiddust fyrst við ósa Ölfusár fyrir
fimm árum hafa þær dreift sér út
með öllum ströndum landsins.
Flundra er flatfiskur sem er algeng-
ur frá Miðjarðarhafi og norður í
Hvítahaf en algengastur í Eystra-
salti og Norðursjó. Fiskifræðing-
arnir Magnús Jóhannsson Veiði-
málastofnun og Gunnar Jónsson á
Hafrannsóknastofnun veiddu fyrstu
flundrunar í gildru við Ölfusá árið
1999.
„Síðan þá hefur flundran fundist
æ víðar og í stuttu máli sagt er hún
komin allt í kringum landið,“ segir
Sigurður Guðjónsson, fram-
kvæmdastjóri Veiðimálastofnunar.
„Hún unir hag sínum greinilega vel.“
Flundran heldur sig helst á ósa-
svæðum og úti fyrir ströndum. Hún
kemur helst sem meðafli í net en
a.m.k. tvö dæmi eru um að hún hafi
veiðst á stöng. Sigurður segir of
snemmt að spá í hvort eða hvenær
hægt verði að gera út á flundru. Þar
sem skilyrði eru hagstæð, s.s. við
Suðurströndina kæmi honum þó
ekki á óvart að einhverjar nytjar
mætti hafa af henni. Flundrustofn-
inn hér við land hefur lítið sem ekk-
ert verið rannsakaður og upplýs-
ingar um hann helst fengist þegar
aðrar tegundir hafa verið rannsak-
aðar. Þó er vitað að mikið er um ný-
liðun í stofninum. „Það er orðin full
ástæða til að skoða þetta dýr betur
en það kostar. Hver veit nema við
sækjum á um það,“ segir Sigurður.
Morgunblaðið/Ásdís
Fiskifræðingarnir Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson hjá Hafrann-
sóknastofnun með tvær stærstu flundrurnar, 35 og 40 cm langar, sem vitað
var að veiðst hefðu við Ísland árið 2000.
„Full ástæða til að
skoða þetta dýr betur“
HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur hef-
ur dæmt rúmlega þrítugan mann í
þriggja mánaða skilorðsbundið
fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn
systurdóttur sinni á árunum 1998–
2002.
Ákærði játaði að hafa snert bak
stúlkunnar eitt sinn með getn-
aðarlim sínum og að hafa sýnt
henni klámmyndbönd en bar því við
að hún hafi beðið sig um að fá að sjá
þau. Stúlkan var 9–13 ára er brotin
áttu sér stað. Þrátt fyrir nokkra
þroskahömlun og félagslega stöðu
mannsins taldi dómurinn að hann
hefði notið í skjóli aldurs síns og
frændsemi ákveðinnar virðingar og
trausts hjá stúlkunni sem hann hafi
misnotað með háttsemi sinni. Þegar
litið væri til þess hversu langt væri
um liðið frá því að brotin voru
framin og að rannsókn málsins hafi
dregist vegna atvika sem mann-
inum yrði ekki kennt um væri rétt
að fresta fullnustu refsivistar.
Stúlkunni voru úrskurðaðar 200
þúsund kr. í bætur úr hendi manns-
ins, en í dómi segir að líta bæri í því
sambandi til þess að hann væri
móðurbróðir hennar og hafi mis-
notað freklega fjölskyldu- og trún-
aðartengsl sín við hana.
Málið dæmdi Ingveldur Ein-
arsdóttir héraðsdómari. Verjandi
ákærða var Örn Clausen hrl. og
sækjandi Ragnheiður Harðardóttir.
Þriggja mánaða
fangelsi fyrir
kynferðisbrot
LITLU mátti muna að stórslys yrði
á Ennishálsi í Strandasýslu í gær
þegar flutningabíll rann stjórnlaust
í fljúgandi hálku en stöðvaðist á
miðjum veginum áður en hann
steyptist niður 100 metra kletta-
belti við veginn.
Að sögn lögreglunnar á Hólma-
vík var bílstjórinn ekki með keðjur
á hjólunum eins og hefði þurft að
vera, en á þessum slóðum eru bratt-
ar brekkur sem verða stórhættu-
legar í hálku. Ennishálsinn er engin
undantekning hvað það varðar. Bíl-
stjórinn ók bílnum upp í mót en
komst að lokum ekki lengra fyrir
hálkunni og rann þá stjórnlaust til
baka. Sem betur fer snerist bíllinn á
veginum og skorðaðist þar. Fékk
lögreglan aðstoð Vegagerðarinnar
til að losa hann.
Lá við stórslysi
SPRENGJUDEILD Landhelgis-
gæslunnar fékk það verkefni á
þriðjudag að eyða 500 handsprengj-
um fyrir varnarliðið. Handsprengj-
urnar höfðu skemmst í geymslum
varnarliðsins og þurfti að eyða þeim.
Það var gert með tveimur spreng-
ingum en alls var rúmlega 150 kíló-
um af sprengiefni eytt.
Eins og kunnugt er gerðu Land-
helgisgæslan og varnarliðið samning
um að sprengjudeild Landhelgis-
gæslunnar tæki alfarið að sér
sprengjueyðingu fyrir varnarliðið
fyrir rúmlega fjórum árum. Skv.
upplýsingum Landhelgisgæslunnar
er það, að því best er vitað, einsdæmi
að bandaríski herinn sæki slíka þjón-
ustu til borgaralegrar stofnunar,
segir í frétt frá Landhelgisgæslunni.
Handsprengjum eytt
fyrir varnarliðið