Morgunblaðið - 16.12.2004, Blaðsíða 39
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 16. DESEMBER 2004 39
MINNINGAR
milli þeirra félaga, óskrifaðar hegð-
unar- og umgengnisreglur. Guð-
mundur vann verk sín í hljóði og
hugsaði alltaf um hag sveitarfé-
lagsins.
Um árabil var Guðmundur gjald-
keri og húsvörður í Félagsheimili
Hrunamanna á Flúðum, einnig var
hann starfsmaður Hitaveitu Flúða,
sá um útskrift reikninga o.m.fl. sem
snertir starfsemi veitunnar. Þau
störf rækti hann af mikilli alúð eins
og allt sem hann gerði. Í seinni tíð
kom hann daglega á skrifstofuna,
tók upp póstinn og flokkaði, benti
með alveg sérstökum hætti á hluti
sem betur máttu fara – það var gert
af mikilli einlægni, varfærni og kurt-
eisi. Hann hjálpaði til við frágang
ýmissa mála. Þessi störf á skrifstof-
unni vann Guðmundur í sjálfboða-
vinnu og vildi ekki taka laun fyrir.
Guðmundur hafði einstaklega
notalega nærveru og kímnigáfu.
Þegar hann hló geislaði andlitið af
gleði og augun urðu fjarræn og kími-
leit. Guðmundur lagði sig fram við öll
þau störf sem honum voru falin.
Hann var mjög virkur í félagsmálum
aldraðra hér í hreppnum, góður
briddsspilari og naut þess að vera til.
Á þessu ári fór heilsu Guðmundar
hrakandi. Hann dvaldi um tíma á
sjúkrahúsi og oft hélt ég að ég væri
að kveðja hann í síðasta sinn er ég
heimsótti hann á sjúkrahúsið. En
rétt fyrir jólin kom Guðmundur aft-
ur hingað á sínar heimaslóðir. Hann
virtist vera að hressast og heimsótti
okkur á kontórinn og hafði alltaf eitt-
hvað gott fram að færa. Það má í
raun segja að það hafi verið tákn-
rænt og fallegt að Guðmundur gæti
komið á heimaslóðirnar og tekið þátt
í jólaundirbúningi, aðventukvöldi,
kaffisamsæti aldraðra á Hótel Flúð-
um o.m.fl., alls staðar var hann au-
fúsugestur, komu hans fagnað.
Pálmi Eyjólfsson yrkir með eftir-
farandi hætti um vegferð okkar
mannanna:
Gangan er vörðuð gleði og sorgum
gjöf er vort æviskeið.
Einn dag í dag, annar á morgun
allir á sömu leið.
Ganga Guðmundar Sigurdórsson-
ar er á enda á þessari jörð. Nú taka
við nýjar vistarverur þar sem vænt-
anlega þarf ekki að ganga frá hita-
veitureikningum eða fasteignagjöld-
um en spurning er hvort menn spili
þar bridds þegar stund gefst? Far í
friði, góði drengur, og hafðu þökk
fyrir óeigingjörn störf í þágu sveitar-
félagsins okkar.
Sonum Guðmundar, þeim
Tryggva og Ármanni og fjölskyldum
þeirra og öðrum aðstandendum,
vottum við starfsmenn Hruna-
mannahrepps og Hitaveitu Flúða
samúð okkar.
Ísólfur Gylfi Pálmason.
Mig langar í fáum orðum að minn-
ast nágranna míns og vinar til fjölda
ára, Guðmundar í Akurgerði. Það
var í október 1963 þegar við Geiri
fluttum að Grund en fyrir voru í
næsta húsi, Akurgerði, þau Hrefna
og Guðmundur með syni sína tvo,
Tryggva og Ármann, og einnig
bjuggu þar Katrín og Sigurdór, for-
eldrar Guðmundar. Tókst fljótt með
þessum fjölskyldum traust vinátta
sem varað hefur æ síðan. Ótal stund-
ir áttum við saman hvort sem var í
leik eða starfi. Í hugann kemur
minningin um öll aðfangadagskvöld-
in sem fjölskyldurnar áttu saman í
árafjöld, nánast daglegar heimsókn-
ir í búðina og fleiri samverustundir
heima og heiman.
Guðmundur í Akurgerði var
greiðagóður með eindæmum. Hann
annaðist vöruflutninga í hreppinn í
áratugi og voru vinnudagarnir oft
langir. Að því farsæla starfi loknu
tók hann við húsvörslu í félagsheim-
ilinu og sinnti því af stakri prýði.
Hvað sem hann tók sér fyrir hendur
sinnti hann af natni og nærgætni.
Mummi var einn af frumbyggjun-
um á Flúðum og þar var hans heimili
í hálfan sjötta áratug. Þau Hrefna
byggðu þar hús sitt árið 1948. Þar
var alla jafna mjög gestkvæmt og
gaman að koma. Hrefna lést fyrir
aldur fram þann 9. mars 1994 eftir
erfið veikindi. Mummi bjó áfram í
þeirra fallega húsi með grónum og
blómum prýddum garði. Hann var
virkur í félagsstarfi, söng með okkur
í kirkjukórnum í áratugi, var góður
briddspilari og traustur gjaldkeri
hitaveitunnar svo eitthvað sé nefnt.
Það er því svo sannarlega sjónar-
sviptir af þessum vingjarnlega ná-
granna sem setti mark sitt á um-
hverfið og samfélagið allt. Eftir
gæfuríkt æviskeið bíður handan eilíf
dvöl í faðmi ástvina. Þar verður Guð-
mundi vel tekið af Hrefnu og öðrum
sem á undan eru gengnir. Við sem
eftir erum minnumst horfins vinar
með söknuði og þökkum honum sam-
fylgdina.
Ég fel í forsjá þína,
Guð faðir, sálu mína,
því nú er komin nótt.
Um ljósið lát mig dreyma
og ljúfa engla geyma
öll börnin þín, svo blundi rótt.
(Matthías Jochumsson.)
Við vottum Tryggva og Ármanni
og öllum aðstandendum samúð okk-
ar á kveðjustund.
Sólveig Ólafsdóttir og fjölskylda.
Orðið landnemi vísar í hugum
flestra til þeirra sem fluttu vestur
um haf á öndverðri nítjándu öld.
Fólks sem vildi brjótast út úr alda-
löngu basli og vonleysi íslensks
bændasamfélags. Í þeim skilningi
voru Hrunamenn litlir landnemar
þar sem aðeins ein fjölskylda flutti til
Ameríku.
Einhverjir fleiri fluttu vestur um
haf úr öðrum hreppum á Suðurlandi,
mest af Bakkanum, þó hvergi nánd-
ar nærri eins margir og fluttu af
norðausturhorni landsins. Ástæður
þessa eru verulega áhugaverðar og
bíða athugana fræðimanna.
En við Sunnlendingar eigum þrátt
fyrir það landnema þótt ekki færu
þeir yfir höf til að nema lönd. Þeir
þraukuðu fram á tuttugustu öldina í
búskaparbaslinu með verferðum til
búdrýginda. Loksins fór landið að
rísa og margra alda stöðnun lauk. Og
hjólið fór að snúast. Þetta makalausa
hjól sem var óþekkt um aldir var
fyrst sett undir börur sem breyttust
þá í hjólbörur. Síðan komu hestvagn-
arnir en tíminn flaug svo hratt að
þeir voru vart brúkaðir lengur en 30
ár eða þar til bílaöldin gekk í garð.
Bílaöldin kallaði á þjónustu og þá var
rétti tíminn kominn fyrir nýtt land-
nám í héraði. Landneminn Guð-
mundur Sigurdórsson fæddist og
ólst upp í Götu í Miðfellshverfi við
hefðbundin sveitastörf. Eltist við
sauðþráar rollur sem alltaf voru á
röngum stöðum og heyskap í sunn-
lenskri rosatíð. Fór oft til fjalls og
komst það hátt upp virðingarstigann
að hann varð eftirsafnskóngur í
nokkur ár. En búskaparstreðið höfð-
aði ekki sterkast til hans enda fór
hann fljótt að vinna hjá verktakafyr-
irtækinu Félagsáhöldum sem fjórir
Hrunamenn stofnuðu, þeir Árni í
Galtafelli, Kristófer á Grafarbakka
og bræðurnir frá Fossi, Bjarni og
Haraldur. Annars gekk fyrirtækið
undir nafninu Milljón í daglegu tali
manna á millum enda milljón stór
tala þá. Keyptu þeir nokkra trukka
frá hernum og jarðýtu og unnu mest
við vegagerð og efniskeyrslu í upp-
byggingu sveitarinnar. Fljótlega
keypti Guðmundur hlut Haraldar
Matthíassonar þegar hann lagði á
hilluna veraldleg umsvif og gerðist
kennari á Laugarvatni. Milljón var
stórmerkilegt fyrirtæki, sem stuðl-
aði að mikilli uppbyggingu í Hruna-
mannahreppi og jafnvel víðar. Hug-
vitsmaðurinn Bjarni á Fossi smíðaði
járnsliskju þeirrar gerðar að moka
mátti á vörubíla með ýtu. Varð það
til þess að Milljón gat unnið verk
hagkvæmara en aðrir og nú sáu alla-
vega sumir Hrunamenn að hyggi-
legra var vit en strit.
Árið 1950 hætti Sigurjón Guðjóns-
son frá Syðra-Seli áætlunarferðum
til Reykjavíkur og tók þá Guðmund-
ur við þeim ferðum og hélt þeim úti,
allt til 1980. Lengst af þeim tíma var
vegurinn til Reykjavíkur malarveg-
ur með óteljandi holum, hálku og
ófærð á vetrum, jafnvel aurbleytu á
vorin og rykmekki á sumrum. Þó að
allnokkuð sé upptalið eru þetta ef-
laust smámunir miðað við innkaupin
syðra. Endalausir snúningar við að
kaupa ýmsa smáhluti sem heimilin
vanhagaði um og ekki fengust í
Kaupfélaginu. Fólk fór ekki að
gamni sínu til Reykjavíkur á þeim
árum. Þessu starfi sinnti Guðmund-
ur með miklum sóma og eðlislægri
lipurð sem seint verður við jafnað.
Húsvörslu við Félagsheimilið á
Flúðum gegndi Guðmundur síðustu
starfsár sín með ljúfmennsku og
snyrtimennsku í hvívetna. Guð-
mundur Sigurdórsson var einstak-
lega skipulagður maður í öllum sín-
um verkum og var því frábær
reikningshaldari. Var hann lengi
gjaldkeri Félagsheimilisins og Hita-
veitunnar og fórst þau störf vel úr
hendi. Var með lítið skrifstofuhorn
fremst í stofunni sinni og sinnti þar
bókhaldi, en á skrifborðinu sem ekki
var stórt, sást aldrei bréfsnifsi, allir
reikningar sorteraðir í möppur.
Guðmundur Sigurdórsson var
gæfumaður í sínu einkalífi, átti vel
gerða og fallega konu, Hrefnu Ólafs-
dóttur frá Geldingaholti, kennara til
margra ára við Flúðaskóla. Þau áttu
tvo syni sem komist hafa vel fram líf-
ið.
Í upphafi var minnst á landnema
og ekki að ástæðulausu því þau Guð-
mundur og Hrefna voru með fyrstu
landnemunum á Flúðum og bjuggu
þar lengst allra. Árið 1948 reistu þau
á Flúðum myndarlegt íbúðarhús á
grámosabakka Litlulaxár og skírðu
Akurgerði. Tveimur árum fyrr var
Grund byggð. Lengi vel stóðu þau
þar ein húsa en hafa nú fallið inn í
nokkuð samfellda byggð. Guðmund-
ur og Hrefna voru samhent hjón og
þeim leið vel í Akurgerði, vinsæl og
áttu gott nágrenni. Kunnu vel að líta
upp úr erli dagsins og gleðjast með
glöðum. En árin liðu og ýmislegt
breyttist, það komu skörð í vinahóp-
inn og svo kom höggið stóra þegar
Hrefna lést úr krabbameini árið
1994. Eftir það var Guðmundur aldr-
ei samur, alltaf hálfvængbrotinn. En
hann sinnti sínu hvort sem var hús-
varslan eða sjálfboðavinnan, en eftir
langan starfsdag var sú vinna fólgin í
því að hjálpa til á hreppsskrifstof-
unni og sjá um fána við opinberar
byggingar. Þar voru ekki fánalög
brotin, samviskusemin alltaf söm.
Eins var það með heimsóknir til vin-
ar hans Sigurðar Tómassonar alltaf
á sama tíma í viku hverri og hún að
sjálfsögðu endurgoldin daginn eftir.
Án efa hefur þetta viðhaldið lífslöng-
uninni enda þekktu margir þá lífs-
nautn að sitja undi pálmatrénu og
vera samvista við þann mann. Ekki
er loku fyrir það skotið að örlítil
kaupstaðarlykt fyndist þar sem þeir
félagarnir sátu og ræddu saman.
Fáum fór betur að lyfta glasi en þeim
vinunum. Svo lést Siggi á Hvera-
bakka 2002 og þá varð tilgangslaust
þetta stríð. Síðasta árið var Guð-
mundi erfitt, langtímum saman veik-
ur á sjúkrahúsi en heim komst hann
nú fyrir jólin og náði því að setja
ljósakrossinn á leiðið hennar
Hrefnu, uppi í Hrunakirkjugarði.
En nú er landneminn Guðmundur
Sigurdórsson í Akurgerði allur.
„Hafðu þökk fyrir allt og allt.“
Jón Hermannsson.
Elskuleg frænka okkar,
GUÐRÚN LAUFEY JÓNSDÓTTIR,
Blaka,
Hagamel 15,
Reykjavík,
verður jarðsungin frá Dómkirkjunni föstudag-
inn 17. desember kl. 15.00.
Garðar Halldórsson, Birna Geirsdóttir,
Jón Halldórsson, Ingigerður Jónsdóttir,
Halldór Þór Halldórsson, Margrét Pálsdóttir,
Margrét Birna, Helga María, Margrét,
Áslaug Þóra, Halldór Haukur og Jón Gunnar.
Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengda-
faðir, afi og bróðir,
DAVÍÐ HELGASON,
Laufási 3,
Egilsstöðum,
áður til heimilis í Fellsási 5,
Mosfellsbæ,
verður jarðsunginn frá Grafarvogskirkju föstu-
daginn 17. desember kl. 13.00.
Þeim, sem vilja minnast Davíðs, er bent á að stofnaður hefur verið
reikningur til styrktar barna- og unglingastarfi Golfklúbbs Fljótsdals-
héraðs. Það var hans hjartans mál að koma því vel af stað.
Reikningur nr. 0175-05-073042, kt. 500387-3199.
Auður Ragnarsdóttir,
Dagný Davíðsdóttir,
Edda Davíðsdóttir, Kristján Magnússon,
Kristín Hrund Davíðsdóttir, Thron Alm,
Davíð Kári Kárason,
Jónas Thronson Alm,
Nora Iris Alm,
Ingimundur Helgason,
Þórður Helgason.
Elskulegur eiginmaður minn og besti vinur,
faðir, tengdafaðir, afi og langafi okkar,
ÞÓRÐUR GUÐMUNDSSON
vélfræðingur,
f. 13. apríl 1926,
Reykjaborg,
Mosfellsbæ,
sem lést á heimili sínu sunnudaginn 12. des-
ember, verður jarðsunginn frá Dómkirkjunni í
Reykjavík föstudaginn 17. desember kl. 13.
Freyja Norðdahl,
Guðbjörg Þórðardóttir, Guðni Már Henningsson,
Kjartan Þórðarson, Sigrún Sveinsdóttir,
barnabörn og barnabarnabörn.
Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma
og langamma,
ÞÓRDÍS VIGFÚSDÓTTIR,
lést á Droplaugarstöðum miðvikudaginn
15. desember.
Vigfús Guðmundsson, Helga Kristjánsdóttir,
Margrét Guðmundsdóttir, Brynjólfur Kjartansson,
Sjöfn Guðmundsdóttir, Steinn Sigurðsson,
barnabörn og barnabarnabörn.
Elskuleg systir mín, mágkona og frænka,
MARÍA ÞURÍÐUR ÓLAFSDÓTTIR
frá Reyðarfirði,
Hlíðarhúsum 3,
Reykjavík,
andaðist á heimili sínu þriðjudaginn
14. desember.
Útförin auglýst síðar.
Vigfús Ólafsson, Sigrún Guðnadóttir,
Ólafur Vigfússon, María Anna Clausen,
Vigfús Már Vigfússon, Ingunn J. Sigurðardóttir,
Þórhallur Vigfússon, Þuríður Guðjónsdóttir,
Valgerður Vigfúsardóttir.
Erfidrykkjur
Salur og veitingar
Félagsheimili KFUM & KFUK
Holtavegi 28, 104 Reykjavík.
Upplýsingar í síma 588 8899.
www.kfum.is