Morgunblaðið - 01.04.2005, Qupperneq 20
20 FÖSTUDAGUR 1. APRÍL 2005 MORGUNBLAÐIÐ
ERLENT
L
íkur bentu til þess í gær
að forsætisráðherra
Líbanons, Omar Kar-
ami, myndi segja á ný
af sér. Hann sagðist þó
fyrst myndu ræða við bandamenn
sína úr röðum þeirra sem styðja
veru Sýrlendinga í landinu. Stjórn-
arandstæðingar krefjast þess að
mynduð verði ný stjórn sem tryggi
að allt gangi vel fyrir sig í þingkosn-
ingunum sem halda á í maí. Sýrlend-
ingar hafa heitið að draga allan her
sinn frá landinu fyrir kosningarnar
og verða þannig við kröfum örygg-
isráðs Sameinuðu þjóðanna. En
stjórnarandstæðingar eru tor-
tryggnir og gruna stjórnvöld í
Damaskus um að ætla samt að hafa
áhrif á kosningarnar með undirróðri
og jafnvel tilræðum.
Borgarastyrjöldin blóðuga í Líb-
anon 1975–1990 er enn fersk í minni
flestra Líbana og nokkur sprengju-
tilræði síðustu vikurnar hafa valdið
ótta um að allt fari á ný í bál og
brand. Þess vegna leita menn með
logandi ljósi að leiðtoga sem geti
sætt sjónarmiðin. Tómarúm sem
gæti myndast við afsögn stjórnar
Karamis gæti grafið undan þeim
ótrygga friði sem ríkt hefur.
Nokkrar fjölskyldur ráða
Ef til vill er rétti frambjóðandinn
nú fundinn. Vaxandi líkur eru taldar
á því að Bahia Hariri, systir Rafiks
Hariris, fyrrverandi forsætisráð-
herra, sem myrtur var 14. febrúar,
muni verða næsti forsætisráðherra.
Yrði hún þá fyrst kvenna til að taka
við slíku embætti í arabaríki og því
stórtíðindi ef hún næði svo langt.
Fáeinar fjölskyldur hafa að mestu
ráðið ferðinni í líbönskum stjórn-
málum síðustu áratugina, sumar
vellauðugar. Hariri-fjölskyldan var
árið 2001 talin eiga alls um 27 millj-
arða Bandaríkjadollara eða yfir
1.600 milljarða króna og notaði Rafik
Hariri auðinn með miklum klók-
indum til að auka veg sinn meðal
kjósenda.
Bahia Hariri er nú þingmaður fyr-
ir borgina Sidon, hún er fædd 1952,
gift og fjögurra barna móðir. Hún
hefur setið á þingi síðan 1992 og
mjög beitt sér fyrir réttindum
kvenna í arabaheiminum. Hariri hef-
ur styrkt stöðu sína eftir morðið á
bróðurnum og reynt að sætta hinar
mörgu fylkingar í landinu. Mörg
þúsund manns hafa undanfarnar
vikur sent smáskeyti með farsímum
og mælt með því að hún verði for-
sætisráðherraefni stjórnarandstæð-
inga. Hún þykir hafa fyrir löngu
sannað hugrekki sitt með því að
leggja til atlögu gegn karlaveldinu í
arabalöndunum og mörgum finnst
aðdáunarefni hvernig hún hefur tek-
ist á við áfallið sem fjölskyldan varð
fyrir í febrúar. Þótt margir kenni
Sýrlendingum um morðið leggur
hún áherslu á að Hariri hafi ekki vilj-
að slíta öll tengsl við Sýrland en vilj-
að efla sjálfstæði Líbana.
Hariri-fjölskyldan er úr röðum
súnní-múslíma en einnig eru sjía-
múslímar, drúsar og kristnir, er
nefnast maronítar, fjölmennir í land-
inu. Drúsar hylla trú sem er skyld
íslam. Bahia Hariri hefur tekið skýrt
fram að hún krefjist þess ekki að
Hizbollah-hreyfingin afvopni skæru-
liðahreyfingu sína en þetta mál er
eldfimara en flest annað í Líbanon.
Hreyfingin barðist áratugum saman
gegn Ísraelum er hersátu suður-
hluta landsins og verður hún í reynd
öflugasti herinn í landinu þegar og ef
Sýrlendingar draga leifarnar af her-
liði sínu á brott.
Flókið samfélag trúflokka
Hizbollah-liðar, sem njóta stuðn-
ings Sýrlendinga og Írana, hafa
fagnað þessari útréttu hönd Hariris,
jafnvel þótt eigandi hennar sé kona
sem fyrir nokkrum vikum hvatti til
þess að stjórn Karamis færi frá og
hefur barist fyrir alþjóðlegri rann-
sókn á dauða bróðurins Rafiks.
Amal-sjítar, sem lúta forystu þing-
forsetans Nabibs Berris, hafa eins
og Hizbollah fagnað þeim und-
irtónum hófsemdar og áherslu á ein-
ingu sem einkenna yfirlýsingar
Bahia Hariris.
Erfitt er að ráða í viðbrögð drúsa-
leiðtogans Walids Jumblatts sem
lengi var dyggur stuðningsmaður
Sýrlendinga en reynir nú ákaft að
vinna traust Bandaríkjamanna.
Jumblatt er gamall refur í líbanskri
pólitík og að sögn tímaritsins The
Economist gruna margir kristnir
leiðtogar hann um að notfæra sér að-
stæður til að skara eld að eigin köku.
Mestu skiptir að áliti Hariris að
varðveita þjóðareiningu og tryggja
efnahagsumbætur. Vill hún að 13.
apríl næstkomandi, þegar liðin verða
rétt 30 ár frá upphafi borgarastríðs-
ins, verði „fagnaðarhátíð friðar og
einingar“. Hún hefur einnig hvatt
önnur arabaríki, ekki síst við Persa-
flóa, til að gefa ekki Líbanon upp á
bátinn heldur halda áfram að fjár-
festa í landinu. Bróðir hennar auðg-
aðist á sínum tíma mjög er hann rak
fyrirtæki í Sádi-Arabíu og ræktaði
þau sambönd með góðum árangri
þegar hann var forsætisráðherra til
að laða að erlenda fjárfestingu. Hef-
ur systirin fylgt sömu stefnu. Hún
átti nýlega fund með ráðamönnum í
líbönsku atvinnulífi og bað þá að
tryggja eftir mætti að ferðaþjón-
ustan, sem á sumrin er helsta tekju-
lind landsmanna, biði ekki hnekki af
völdum pólitískra átaka.
Eitt af því sem hefur valdið ugg er
að ný stjórn gæti talið heppilegt að
þrengja hag nokkur hundruð þúsund
Sýrlendinga sem vinna í Líbanon og
oft á mun lægri launum en inn-
fæddir. Atvinnulausir Líbanar
þrýsta á um að Sýrlendingum verði
a.m.k. gert skylt að sækja um at-
vinnuleyfi. En einnig hafa Sýrlend-
ingar fjárfest verulega í landinu og
ljóst að það fé gæti horfið úr landi ef
mikill krytur kæmi upp í samskipt-
unum.
Reynir að sefa ótta
Kristnir Líbanar eiga samkvæmt
hefð að leggja til mann í forsetaemb-
ættið, súnnítar „eiga“ síðan stól for-
sætisráðherra. En núverandi forseti,
Emile Lahoud, sem er kristinn, hef-
ur hins vegar verið sakaður um að
vera ekkert annað en handbendi
Sýrlendinga.
Bahia Hariri hefur reynt að sefa
ótta þjóðarbrots kristinna Líbana
sem eru eins og eyja í hafi íslamskra
þjóða á svæðinu, víðast hvar eru
kristnir aðeins örlítið brot af íbúum
arabalanda. Nokkrum stundum eftir
að 11 manns særðust í sprengju-
tilræði í hverfi kristinna í Beirut fyr-
ir skömmu var Hariri komin á stað-
inn, að sögn The Sunday Times. Hún
sagði fólkinu að vera ekki hrætt.
„Þeim [sem komu sprengjunni fyrir]
mun ekki takast að sigra okkur með
hryðjuverkum,“ sagði Bahia Hariri.
Fréttaskýring | Margir óttast að átök hefjist á ný í Líbanon ef núverandi stjórn hrökklast frá. Kristján Jónsson segir frá
Bahia Hariri sem margir telja að geti orðið forsætisráðherra, fyrst kvenna í arabalandi.
Konan sem
gæti sætt
sjónarmiðin
Reuters
Ungur Líbani, með klippingu sem tákna á sedrusviðartréð í fánanum, heiðr-
ar minningu Rafiks Hariris með því að rita nafn sitt á stóra mynd af hinum
látna við gröf hans á Torgi píslarvottanna í Beirut.
Bahia Hariri
’Amal-sjítar, sem lútaforystu þingforsetans
Nabibs Berris, hafa eins
og Hizbollah fagnað
þeim undirtónum hóf-
semdar og áherslu á ein-
ingu sem einkenna yf-
irlýsingar Bahia
Hariris.‘
kjon@mbl.is
Washington. AP, AFP. | Fram kemur í
skýrslu, sem birt var í gær, að upp-
lýsingar bandarískra leyniþjónustu-
stofnana um gereyðingarvopna-
áætlanir Saddams Husseins,
fyrrverandi Íraksforseta, hafi verið
„kolrangar“ og valdið Bandaríkj-
unum álitshnekki, sem muni taka
mörg ár að bæta fyrir. George W.
Bush Bandaríkjaforseti fagnaði
skýrslunni og sagði, að tekið yrði
tillit til tillagna hennar.
Nefndin, sem skýrsluna vann að
beiðni George W. Bush Bandaríkja-
forseta, leggur til ýmsar „grund-
vallarbreytingar“ á því hvernig
upplýsinga er aflað og þær túlk-
aðar. Hvetur hún einnig Bush til að
auka völd Johns Negropontes, nýs
yfirmanns allrar leyniþjónustu-
starfseminnar, til að hann standi
betur að vígi gagnvart CIA, banda-
rísku leyniþjónustunni, varnar-
málaráðuneytinu og öðrum hinna
15 leyniþjónustustofnana í landinu.
Í skýrslunni er Bush með óbein-
um hætti sýknaður af ásökunum
um að hafa farið rangt með og
sagt, að hann hafi fengið rangar
upplýsingar í hendur. „Upplýsing-
arnar um gereyðingarvopnin voru
kolrangar og það er ljóst með tilliti
til mikilvægis þeirra, að við höfum
ekki efni á mistökum af þessari
stærðargráðu,“ segja skýrsluhöf-
undar.
Vita „grátlega lítið“
Fram kemur, að Bandaríkja-
menn viti „grátlega lítið“ um
vopnaáætlanir eða fyrirætlanir
helstu óvina sinna og er talið, að þá
sé einkum átt við Norður-Kóreu-
menn og Írani þótt þeir séu ekki
nefndir á nafn.
Bush kvaðst í gær fagna skýrsl-
unni og sagði augljóst, að gera
þyrfti verulegar breytingar á
bandarískri leyniþjónustustarfsemi.
Innan bandarískra leyniþjón-
ustustofnana hefur verið mikill titr-
ingur að undanförnu og kvíði vegna
skýrslunnar og sagt er, að Porter
Gross, nýr yfirmaður CIA, hafi í
síðustu viku sent starfsfólki sínu
tölvupóst þar sem hann bjó það
undir harða gagnrýni og reyndi um
leið að stappa í það stálinu.
„Kolrangar“
upplýsingar um
gereyðingarvopn
Bandarískar leyniþjónustustofnanir
harðlega gagnrýndar í nýrri skýrslu
KARL Bretaprins reyndist heldur
betur í slæmu skapi er hann hitti
fréttamenn í Klosters í Sviss í gær,
þar sem hann er nú í skíðaferð
ásamt sonum sínum, Vilhjálmi og
Harry. „Ég þoli ekki að þurfa að
gera þetta,“ heyrðist Karl muldra,
þegar verið var að taka af þeim ljós-
myndir, og síðan formælti hann sér-
staklega fréttamanni BBC sem spurt
hafði prinsinn spurninga um vænt-
anlegt brúðkaup hans og heitkonu
hans, Camillu Parker Bowles.
Karl gengur að eiga Parker
Bowles í næstu viku. Hún er ekki
með í för í Klosters, kann að sögn
BBC ekki á skíði. Áhugi fjölmiðla
beindist þó engu að síður að
fyrirhuguðu brúðkaupi, auk þess
sem margir vildu heyra Vilhjálm
tala um unnustu sína, Kate
Middleton, sem er með honum í
Klosters.
Samkomulag er um það milli kon-
ungsfjölskyldunnar og fjölmiðla í
Bretlandi að gefið sé færi á mynda-
tökum af Karli og sonum hans á
tilteknum stað og stund í þessu vetr-
arleyfi en að þeir fái síðan frið til að
renna sér á skíðum og njóta sam-
vista það sem eftir lifir dvalarinnar.
Karl var hins vegar illa fyrirkall-
aður á fundinum með fréttamönn-
unum. Synir hans sátu sinn hvorum
megin við hann en sterkir hljóð-
nemar breskra sjónvarpsstöðva
greindu vel orð Karls er hann lét
falla ummæli eins og „fjárans pakk“
í eyru sona sinna.
Fréttamaður BBC, Nicholas
Winchell, spurði prinsana þrjá
hvernig þeir væru stemmdir vegna
yfirvofandi brúðkaups. Vilhjálmur
sagðist hlakka til þess. „Það verður
góður dagur,“ sagði hann. En þegar
Winchell spurði Karl hvernig hann
væri stemmdur svaraði hann í kald-
hæðnum tóni, „ég er glaður yfir því
að þú skulir hafa heyrt um brúð-
kaupið“.
Mátti greina af líkamstjáningu
Karls að hann hefur ekki mikið álit á
spyrjandanum.
Muldraði Karl síðan til sona sinna
að hann þyldi ekki þessar uppá-
komur. „Ég þoli heldur ekki þennan
mann. Hann er agalegur, hann er
það virkilega,“ sagði hann og var að
tala um Winchell. „Ég þoli ekki þetta
fólk,“ bætti hann svo við.
Talið er líklegt að reiði Karls stafi
af því að fjögur bresk götublöð
höfðu í gærmorgun birt á forsíðu
myndir af Vilhjálmi og Kate Middle-
ton, þar sem Karl sést í baksýn. Tals-
maður konungsfjölskyldunnar gerði
þó lítið úr ummælum Karls. „Hann
fyrirlítur alls ekkert fjölmiðlafólk.
Nokkrir ágengir ljósmyndarar [pap-
arazzi] ollu því að vetrarleyfið fór
illa af stað. Ég held að prinsinn hafi
verið pínulítið reiður yfir því.“
„Ég þoli
ekki þetta
fólk“
Reuters
Karl Bretaprins ásamt Harry (t.v.) og Vilhjálmi (t.h.) í Klosters í gær.
Karl Bretaprins illa
fyrirkallaður á fundi
með fréttamönnum