Morgunblaðið - 06.04.2005, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 06.04.2005, Blaðsíða 22
SKIPAÐUR verður ráðgjafahópur til að fjalla um umsóknir þeirra tuttugu einstaklinga sem sóttu um stöðu safnstjóra Listasafns Reykja- víkur í mars síðastliðnum. Hóp- urinn mun taka hæfa umsækjendur sem ráðningarskrifstofan Mannafl- Liðsauki hefur mælt með í viðtöl og skoða umsóknir þeirra. Einn þeirra þriggja einstaklinga sem sitja í ráðgjafahópnum er sviðs- stjóri menningar- og ferða- málasviðs, Svanhildur Konráðs- dóttir. Hún mun síðan sem sviðsstjóri gera tillögu um ráðningu eins umsækjenda við menningar- og ferðamálaráð, sem Stefán Jón Hafstein veitir formennsku, sem taka mun lokaákvörðun um ráðn- inguna. Nýjar reglur Ráðningarferli þetta er í sam- ræmi við verklagsreglur sem menningar- og ferðamálaráð sam- þykkti nýlega í sambandi við ráðn- ingar forstöðumanna menning- arstofnana borgarinnar. Þær eru sex talsins; auk Listasafns Reykja- víkur eru það Borgarbókasafn Reykjavíkur, Minjasafn Reykjavík- ur eða Árbæjarsafn, Ljós- myndasafn Reykjavíkur, Borgarskjalasafn og Gerðuberg. Skipaður verður ráðgjafahópur af þessu tagi fyrir hverja umsókn, sem skipaður er þremur ein- staklingum: Sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs, full- trúa stjórnsýslu- og starfs- mannasviðs Reykjavíkurborgar, sem hefur sérþekkingu á starfs- mannamálum og vinnurétti, og full- trúa frá menningar- og ferða- málaráði. Sá síðasttaldi skal samkvæmt reglunum „valinn frá stofnun eða fyrirtæki utan stjórnsýslu Reykjavíkurborgar með hliðsjón af fagþekkingu á sviðinu eða rekstri stofnana eftir því sem við á hverju sinni“. Með öðrum orðum má síð- asttaldi aðilinn ekki starfa við stofnun eða fyrirtæki sem heyrir undir Reykjavíkurborg. Þá er mögulegt að bæta við fjórða aðilanum í ráðið ef þurfa þykir. Þarf einungis annar þeirra sem menningar- og ferðamálaráð skipar að uppfylla þá kröfu um að starfa ekki fyrir fyrirtæki eða stofnun á vegum borgarinnar. Ekki hefur verið skipað í ráðgjafahópinn fyrir umsóknina um stöðu forstöðu- manns Listasafns Reykjavíkur enn, en liggja mun fyrir í næstu viku hverjir sitja í honum og segist Svanhildur telja líklegt að fjórir einstaklingar muni skipa hann. Alvanalegt er við sambærilegar ráðningar erlendis að slíkur ráð- gjafahópur sé skipaður. Er þá gjarnan leitast við að hann skipi fagfólk eingöngu, og þá helst sem starfar ekki innan sama umhverfis og staðan sem um ræðir. Niðurstaða innan mánaðar Að sögn Svanhildar Konráðs- dóttur eru umsóknir um stöðuna nú í höndum ráðningarskrifstof- unnar Mannafl-Liðsauki. Mun skrifstofan kalla í stöðluð viðtöl þá umsækjendur sem uppfylla hæfn- iskröfur þær sem tilgreindar voru í starfsauglýsingunni, sem fólu með- al annars í sér framhaldsmenntun á háskólastigi sem tengist viðfangs- efnum safnsins, þekkingu á mynd- list og reynslu af lista- og menning- arstarfi og reynslu og hæfileika á sviði stjórnunar, starfsmannahalds og rekstrar, auk reynslu af al- þjóðlegri samvinnu á vettvangi myndlistar. Mannafl-Liðsauki mun á næstu dögum skila lista yfir hæfustu um- sækjendurna til ráðgjafahópsins, sem mun skoða umsóknir þeirra nánar og boða þá í viðtöl. Ekki liggur fyrir hversu margir af um- sækjendunum tuttugu töldust hæf- ir, né hversu margir eru á listanum sem Mannafl-Liðsauki mun skila til ráðgjafahópsins. Að sögn Svanhildar vonast hún til að skila tillögu sinni fyrir næstu mánaðamót, en samkvæmt auglýs- ingunni skal nýr forstöðumaður hefja störf hinn 1. júlí næstkom- andi. Hún segist því telja að liggja muni fyrir innan mánaðar hver taki við sem forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur. Umsækjendur um starfið eru: Aldo Castillo, Chus Martinez, Dieter Buchhart, Hafþór Yngvason, Halldór Björn Runólfsson, Hannes Sigurðsson, Hilde Teerlinck, Kinga Araya, Kristinn E. Hrafnsson, Leonhard Emmerling, Margrét Sigfúsdóttir, María Rut Reyn- isdóttir, Njáll Sigurðsson, Ólöf K. Sigurðardóttir, Rakel Halldórs- dóttir, Rakel Pétursdóttir, Rebekka Rán Samper, Sólveig Þórisdóttir, Yean Fee Quay og Æsa Sigurjóns- dóttir. Svanhildur Konráðsdóttir Eftir Ingu Maríu Leifsdóttur ingamaria@mbl.is Ráðgjafahópur um umsóknir safnstjóra Morgunblaðið/Þorkell 22 MIÐVIKUDAGUR 6. APRÍL 2005 MORGUNBLAÐIÐ MENNING SELLÓSVÍTURNAR sex, er Bach samdi 1717–23, þykja standa jafnfætis sónötum hans og partítum fyrir fiðlu sem óumdeil- anlega stórbrotnustu einleikstónverk allra tíma fyrir þessi hljóðfæri. Þær urðu til í miðri sex ára starfsdvöl Bachs hjá smá- fursta nokkrum, Leopold af Köthen. Hans er nú aðeins minnzt sem tónelsks vinar og velgjörðarmanns snillingsins frá Eisenach, enda samdi Bach sum fremstu veraldlegu tónverk sín (hirðin var Calvinstrúar og kirkjutónlist því í lágmarki) á þessu senni- lega affarasælasta æviskeiði sínu. Aðeins brá skugga á þegar Maria Barb- ara, fyrri kona Bachs, lézt skyndilega 1720. Mætti af því ímynda sér að persónulegur harmur hafi ljáð sellóverkunum aukna dýpt (einkum verður manni hugsað til Saraböndu 5. svítu), þó ekkert verði um það fullyrt. Eftir er aðeins að nefna á snöggu stikli að Svíturnar náðu furðuseint athygli heimsins, eða ekki fyrr en upp úr næstsíðustu alda- mótum – einkum fyrir atbeina spænska galdramannsins Pablos Casals. Veröld selló- leikara hefur síðan ekki verið söm. Líklega hafa Svíturnar aðeins verið fluttar í heild einu sinni áður hér á landi af sama manni, þ.e. Sigurði Halldórssyni í Skálholti á 250. dánarári Bachs 2000, þar sem að vísu liðu tvær vikur á milli fyrri og seinni tón- leika. Síðasti heildarflutningur var í sept- ember sama ár þegar Gunnar Kvaran og fjórir nemendur hans, þ.á m. Sigurður, skiptu með sér bálkinum í Langholtskirkju. Það var því verulegur viðburður þegar Gunnar flutti allar svíturnar á tvennum tón- leikum í Salnum sl. laugar- og sunnudags- kvöld við fjölmenna aðsókn. Það er óneit- anlega þrekvirki að höndla jafnmikil og vandmeðfarin snilldarverk á jafnstuttu bili, þar sem hvert á sín sérstöku skapgerð- areinkenni innan ramma frönsku dansasvít- unnar. Á móti má fallast á fullyrðingu tón- leikaskrár að leiknar í heild myndi svíturnar „ótrúlegt listrænt samræmi“. Þó væntanlega í víðasta skilningi, enda voru svíturnar ekki fluttar hér í númeraröð. Sjálfsagt réðst röð Gunnars af samhengi fyrirsagna hans við hverja svítu: „Bæn“, „Gæska og góðvild“, „Sigur andans“, „Fegurð og fullkomleiki“, „Krossfesting“ og „Upprisa“. Svíta nr. 2 d-moll var vissulega túlkuð sem innhverf hugleiðsla í tónum, einkum Prelúdían og ekki síður Sarabandan, er var strokin af sterkri tilfinningu. Hún var mótuð af afar persónulegri dýnamík, er einnig ein- kenndi marga hæga þætti seinni svítnanna og jók þeim dulúð og spennu, einkarlega með veikasta enda styrkskalans. Hins vegar var sjaldnast beitt hefðbundnum bergmáls- styrkbrigðum (f - p), jafnvel ekki þar sem maður bjóst mest við þeim eins og í fag- urlega dansandi Menúettum I &II. Svítan tókst í heild mjög vel, en hröðu 16.- parta- runur lokagikksins hefðu þó mátt vera ná- kvæmari. 4. Svítan í Es-dúr átti framan af erfitt uppdráttar sakir áberandi óhreinnar inntón- unar. Courantan var furðuhæg en þó fótnett, og Sarabandan, eins og allar saraböndur hjá Gunnari, syngjandi íhugul. Bourréin tvö héldu sínum heillandi franska hálendisþokka þar sem kinkað var kolli til upphafshyggju seinni ára með stakkatóum á 4.-pörtum þótt drægi svolítið úr andstæðum þáttahluta að mála ekki II breiðari strokum. Gikkurinn var að mínu viti nærri löturhægur, en sveifl- aðist samt furðuvel. Þriðja sagnadansasvíta Bachs án orða – í C-dúr – var aftur á móti tandurhrein (nema helzt Allemandan) og skartaði í Prelúdíunni fyrrnefndri dulúðardýnamík Gunnars í rík- um mæli, þó bassanóturnar væru léttstígari en algengast er. Þótt Courantan sæti bráð- vel, bar eðalborin kyrrð Saraböndunnar af sem gull af eiri. Bourréin vinsælu lýstu ódrepandi bjartsýni með vel mótuðum berg- málsandstæðum og smekklega liprum skrautnótum í endurtekningum. Einnig þessi Gikkur var heldur hægur, en skilaði samt smitandi dansgleði sveitamanna með seiðandi sekkjapípudrunum á pedalköflum. Seinni tónleikarnir Seinna svítukvöld Gunnars Kvaran hófst með nr. 1 í G-dúr, þar sem Prelúdían endar á „innbyggðu“ crescendói eftir stuttan bar- iolage-sprett á A-streng. Allir þættir voru glæsilega leiknir, einkum tindilfættu Men- úettarnir og Gikkurinn, og Sarabandan var hrífandi fögur í tignum höfga sínum. Var þá komið að síðustu og tæknilega erf- iðustu svítum settsins. Nr. 5 í c-moll er fyrir stillinguna C-G-d-g (heiltónslækkaðan efsta streng) til að ná betur hljómgripum. Boga- tækni sellistans virtist hér stundum láta á sjá, ef marka mátti aukahljóð frá opnum grannstrengjum aftarlega í Prelúdíunni. Um innlifunina þurfti þó hvergi að efast, eins og heyra mátti í Allemöndunni. Hafi Courantan verkað frekar tætingsleg, var Sarabandan hins vegar ótrúlega djúp. Hún sker sig bæði að rithætti og áhrifamætti úr öllum hinum saraböndum bálksins með aðeins örfáum nótum, og fór innsýn Gunnars þar á nánast gegnlýsandi kostum í sérlega hugfengri túlkun. Boginn stríddi enn svolítið í spiccato-tiplandi Gavottunum, en Gikkurinn var aftur á móti blessunarlega laus við þá tilgerðarlegu ofpunktun sem hann þarf oft að sæta. Hin háttlæga Svíta nr. 6 í D-dúr má óhætt kalla að kóróni svítubálk Bachs. Er það ekki sízt hvað kröfur til spiltækni varð- ar, enda á mörkum hins mögulega að skila tvígripum hennar lýtalausum í háum þum- allegum á miklum hraða. Þumalpósísjóna var síður þörf á fimm strengja smásellóið (með viðbótar e’-streng) sem svítan var upp- haflega hugsuð fyrir; líklega svonefnt „viol- oncello piccolo“, þótt enn sé á huldu hvernig hljóðfæri frumflytjandans í Köthen leit út – hvort sem sá hafi verið gömbuvirtúósinn C.F. Abel, eins og Árni Heimir Ingólfsson taldi í skemmtilegri tónskrárgrein, eða hirð- sellistinn B. C. Lini[g]ke. Gaman hefði verið að geta sagt að einleik- ari umrædds sunnudagskvölds hefði sýnt fullt og óskorað vald á öllum tækniþrautum þessa óvenjukröfuharða meistaraverks, enda hefði það jafnazt á við framlag mestu virtúósa í heimi. En fleira er til í tónlist en tæknisýningar, og í ómsjá Bachs kemur æv- inlega fram hvort menn eigi verðugt erindi með tjáningu sinni. Það ræðst vissulega af tónnæmi túlkandans – en engu síður af inn- lifun hans, auðmýkt og einlægni. Enda gerð- ist hið merkilega, að eyrað fór smátt og smátt að hafna hismi fyrir kjarna. Gunnar Kvaran afrekaði hér það krafta- verk að beina athygli hlustenda að sjálfri sál tónlistarinnar. Slíkt er fáum gefið, og engum að erindislausu. Innlifun, auðmýkt og einlægni Morgunblaðið/Sverrir „Gunnar Kvaran afrekaði hér það kraftaverk að beina athygli hlustenda að sjálfri sál tónlistar- innar. Slíkt er fáum gefið, og engum að erindislausu,“ segir Ríkarður Ö. Pálsson m.a. TÓNLIST Salurinn J.S. Bach: Sellósvítur nr. 2, 4 og 3 í d, Es og C, BWV 1008, 1010 og 1009. Gunnar Kvaran selló. Laug- ardaginn 2. apríl kl. 20. Einleikstónleikar Ríkarður Ö. Pálsson J.S. Bach: Sellósvítur nr. 1, 5 og 6 í G, c og D, BWV 1007, 1011 og 1012. Gunnar Kvaran selló. Sunnu- daginn 3. apríl kl. 20.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.