Morgunblaðið - 08.04.2005, Síða 33

Morgunblaðið - 08.04.2005, Síða 33
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 8. APRÍL 2005 33 MINNINGAR menntaskóla, Hjörtur Kristmunds- son og Jónas B. Jónsson. Ég átti þá heima á Laugarnesspítala, en þeir Jón Sigurðsson og Eiríkur Magnús- son voru nánir heimilisvinir. Ég hóf um þetta leyti nám í menntaskólan- um, en varð fljótlega heimagangur í hinum nýju húsakynnum Laugarnes- skóla, þar sem bæði Jón Sigurðsson og Jónas bjuggu. Við nafni minn urð- um miklir mátar, enda þótt aldurs- munur okkar væri nokkur og ég enn á unglingsaldri. Umgengnin við þessa menn alla voru mér mikils virði á viðkvæmum þroskaárum, og þá ekki síst kynnin við nafna minn, en auk léttrar lundar hafði hann til að bera meiri hófsemi og jafnvægi í skoðunum en þá var í tísku á um- brotatímum. Það glæddi vináttu okk- ar að ég hafði sumarið áður dvalist í heimasveit hans og af eigin raun fengið nokkur kynni af Húnaþingi og þeim brag höfðingsskapar sem þar var ríkjandi. Þangað norður fór ég raunar sumarið 1937 með nafna mín- um sem eins konar aðstoðarmaður hans í bekkjarferð nemenda í Laug- arnesskóla. Ári síðar fór ég til náms í Svíþjóð og átti ekki afturkvæmt fyrr en að styrjöldinni lokinni. Sambandið við nafna minn slitnaði þó ekki að fullu því að hann hélt náinni vináttu við móður mína og var spilafélagi hennar og systur minnar til margra ára. Síðar á lífsleiðinni urðu fundir okkar færri en skyldi. Þó er mér minnisstætt að hann sótti mig heim vestanhafs er ég dvaldi þar, og að ég endurgalt þá heimsókn austur í Ölfus er ég var í leyfi hér heima næsta sum- ar. Þrátt fyrir fjarlægðina gat ég fylgst með því hvernig einstakir hæfi- leikar hans sem kennari og uppalandi komu að farsælum notum. Við leið- arlok minnist ég hans af hlýhug og þakklæti og sendi konu hans og börn- um innilegar samúðarkveðjur. Jónas H. Haralz. Jónas B. Jónsson, bóndasonur úr Húnaþingi, sem hér er kvaddur, vann gagnmerkt brautryðjandaverk á sviði skólastarfs, félags- og menning- armála sem fyrsti fræðslustjóri Reykjavíkurborgar á mestu um- brotatímum sem gengið hafa yfir ís- lenska þjóð. Á árum síðari heims- styrjaldar og síðan næstu áratugina var ný samfélagsgerð í mótun á Ís- landi – ekki aðeins í þéttbýlinu við Faxaflóa heldur um landið allt – en Reykjavík var í brennidepli þeirra breytinga og nýskipunar sem þá ruddist fram. Í umróti þessara ára hlaut flest að ganga úr skorðum á sviði uppeldis- og félagsmála og margt því að fara miður en skyldi og átti það ekki síst við um Reykjavík- urborg. En á hitt ber að líta, og verð- ur ljósara eftir því sem lengra frá líð- ur, hve margt var gert af mynd- arskap og framsýni, þrátt fyrir lítil efni, á þessum fyrstu áratugum lýð- veldisins og af einlægum vilja til að skila framtíðinni undirstöðustofnun- um sem væru færar um að sinna nýj- um verkefnum og mæta breyttum kröfum í samtíð og framtíð. Einkum var þessi framfarahugur áberandi á sviði almenningsfræðslu og viðleitni til umbóta í skólamálum. Þessi áhugi á menntun þjóðarinnar var reyndar snar þáttur í sjálfstæðisbaráttunni alveg frá upphafi hennar á 19. öld en sérstaklega er athyglivert að skóla- málin verða eitt meginviðfangsefni heimastjórnar í byrjun 20. aldar und- ir forystu manna eins og Guðmundar Finnbogasonar og Jóns Þórarinsson- ar; sbr. setningu fyrstu fræðslulag- anna 1907 og stofnun Kennaraskól- ans ári síðar, hvort tveggja atburðir sem marka tímamót í skólasögu landsins. Í þessari áherslu á almenn- ingsfræðslu og menntamál er án efa að finna helstu ástæðu þess hve hin- um fámenna hópi fátækra bænda og sjómanna sem bjuggu í dreifðu sam- félagi sjálfsþurftar tókst á skömmum tíma að brjótast til bjargálna og síðar á furðu skömmum tíma leggja grunn að nútímalegu þjóðfélagi þar sem fólk býr við dágóð kjör – flest. Styrjaldarárin seinni og fyrstu áratugir lýðveldisins marka annað úrslitaskeið í mótunarsögu hins unga þjóðríkis. Einnig á þessu tímabili verður mikil gróska í fræðslu og skólastarfi um allt land en alveg sér- staklega varð þessi uppbygging hröð í Reykjavík þar sem íbúum fjölgaði geysihratt á þessum tíma, mest ungt fjölskyldufólk með mörg börn. Skóla- byggingar voru því brýn nauðsyn enda risu þær margar á þessu tíma- bili. En það er til vitnis um bjartsýni og stórhug þeirra sem voru í forystu fræðslumála í borginni hve skólahús þessara ára voru og eru enn fallegar og vandaðar byggingar. Fræðslu- stjórinn í borginni átti þar ábyggilega stóran hlut að hve þessi skólahús eru yfirleitt glæsileg og vel úr garði gerð. Í mínum huga hafa þessar byggingar á sinn hátt orðið eins konar sýnilegt ytra tákn um reisn og metnað Jón- asar B. Jónssonar bæði í starfi og persónulegri framgöngu. En auðvitað er arfleifð Jónasar B. Jónssonar fyrst og síðast samofin kennslu og skólastarfi í víðustu og bestu merkingu bæði sem kennari á yngri árum og síðar sem skipuleggj- andi fræðslustarfs og forystumaður í skólamálum sveitarfélags sem var að breytast úr smáþorpi frumbýlinga í bæ og höfuðborg hins nýstofnaða fullvalda ríkis sem þar á ofan bjó við hersetu. Þetta starf var hið fyrsta sinnar tegundar hérlendis en fé- lagslegar og efnahagslegar aðstæður erfiðar eins og við var að búast á tím- um umbyltinga og styrjalda. Þetta verkefni heppnaðist Jónasi B. Jóns- syni að leysa af hendi með miklum ágætum; um það ljúka allir þeir upp einum munni sem best þekktu til. Framlag hans til skólamála er nú hluti af skólasögunni en í því sam- hengi langar mig að benda á greinar sem birtust í þessu blaði í tilefni af 75 ára afmæli nafna míns fyrir réttum 22 árum, einkum upprifjun skóla- stjóranna Magnúsar Jónssonar og Kristjáns J. Gunnarssonar á við- fangsefnum fræðslustjórans forðum daga og hvernig hann greiddi úr vandasömum málum með lagni og sanngirni en jafnframt af festu og ör- yggi. Einkum hafa margir eldri kenn- arar látið þess getið við mig hve hon- um lét einkar vel að stjórna fundum bæði fjölmennum og fámennum þar sem erfið mál voru til umræðu og mönnum heitt í hamsi. Hér kom hon- um að góðu haldi ágæt dómgreind og hve hann gat hlustað af mikilli alúð og athygli á málflutning manna og þá ekki síst þeirra sem leituðu álits hans á sínum hugðarefnum eða báðu um góð ráð og úrlausn sinna sérstöku vandamála í starfi. Um þetta get ég sannarlega vitnað af eigin reynslu þar sem ég var forstöðumaður Sál- fræðideildar skóla sem tók til starfa innan Fræðsluskrifstofu Reykjavík- ur haustið 1960 en nafni minn átti ábyggilega mestan þátt í að sú starf- semi komst á laggirnar. Hann studdi dyggilega við uppbyggingu deildar- innar og réð þannig úrslitum um að hún efldist fljótlega og varð með tím- anum sjálfsagður stuðningsþáttur í skólastarfi borgarinnar. Ég á nafna mínum stóra þakkarskuld að gjalda fyrir persónulegan stuðning og tiltrú í starfi mínu á þessum byrjunarárum. Að leiðarlokum þakka ég Jónasi B. Jónssyni vináttu, góðvild og gestrisni á liðnum árum og þá ekki síður konu hans Guðrúnu Ö. Stephensen en það er ekki hægt að minnast Jónasar án þess að geta hennar líka svo samrýnd og náin voru þau hjónin í lífi og starfi. Mér eru dýrmætar minningar frá samverustundum okkar síðustu árin þegar ég kom í heimsókn til þeirra Guðrúnar og Jónasar á Fálkagötuna sem þó var alltof sjaldan. Ég sendi Guðrúnu og börnum þeirra hjóna og fjölskyldum þeirra innilegar samúð- arkveðjur. Jónas Pálsson. Kveðja frá Gilwellskólanum Fyrir þolgæði, framsýni og áræði þeirra Jónasar B. Jónssonar skáta- höfðingja og Franch Michelsen tókst að fá því áorkað að tilraun yrði gerð til að koma á Gilwellskóla á Íslandi árið 1959. Erfið voru fyrstu sporin en svo vel tókst til að þessi alþjóðlegi foringja- skóli sem í byrjun var stýrt frá Gil- well Park í Englandi átti auðvelt með að aðlagast nýjum tímum þegar for- ystan var flutt heim til aðildarlanda skátahreyfingarinnar. Fræðslufröm- uðurinn Jónas B. Jónsson hafði mik- inn áhuga á starfseminni og skildi til hlítar að á Gilwellnámskeiðum hittast skátaforingjar á Íslandi á öðrum vett- vangi en þeir gera yfirleitt í dagsins önn og þar tengjast þeir nýjum vin- áttuböndum sem jafnan eru ný lyfti- stöng í skátastarfinu í landinu. Jónas B. fylgdist með námskeiðum þessum meðan hann mátti og kenndi af lífi og sál. Hann er því afar minnisstæður Gilwellskátum og muna margir vand- aðar hugvekjur hans og þá íhugun sem hann lagði til hlutanna sem oft á svipstundu dýpkuðu skilning á upp- eldi því, sem skátahreyfingin hefur fram að færa með sínum hljóðláta hætti. Með starfi sínu að uppbyggingu Gilwellskólans hefur Jónas B. lagt traustan grundvöll til framtíðar skátahreyfingarinnar og jafnframt haft góð áhrif á líf fjölda skáta um ókomin ár. Skáta sem njóta ávaxta starfa hans. Jónas B. orti lítinn nú löngu þjóð- kunnan texta við alþekkt lag sem hefst svo: „Upp, upp upp á fjall.“ Það lýsir honum vel hann leit aðeins upp og hélt svo ótrauður á fjallið. Dona nobis pacem. Gilwellskátar. Ég átti því láni að fagna að kynnast Jónasi B. Jónssyni skömmu eftir að hann varð skátahöfðingi, en það var fyrir tilviljun. Skátaflokkurinn minn var í heimsókn í Hafnarfirði til að vera við vígslu skátaheimilis Hraun- búa. Einhver benti skátahöfðingjan- um á að þessi strákur hefði lokið 1. flokksprófi nokkuð ungur og spurði Jónas, hvort ég kynni að morsa? Ég man ekki til þess að hafa státað af mikilli kunnáttu á því sviði. Skömmu fyrir jól, er við sátum á flokksfundi í gamla Skátaheimilinu við Snorra- braut, komu boð frá skátahöfðingjan- um. Skátar áttu að hefja afmælisárið 1962 með því að senda kveðju með morsi til forseta Íslands á Bessastöð- um. Fórum við félagar heim til skáta- höfðingja að kvöldi gamlársdags og tókum við orðsendingunni. Eftir þessi viðskipti þekkti skátahöfðing- inn mig og heilsaði alls staðar sem leiðir lágu saman. Þetta voru nokkur tíðindi þar sem Jónas B. Jónsson var á þessum árum helsta yfirvald í fræðslumálum þjóðarinnar en ég í landsprófi. Menntagyðjan í umsjá Jónasar B. hafði sannarlega stólparót eins og komist var að orði í skóla- leikriti og vonlaust að rífa hana upp með rótum. Fyrir þau gagnmerku störf var hann sæmdur doktorsnafn- bót frá Kennaraháskóla Íslands og er sá háskóli fullsæmdur af. Jónas B. fékk mig til að vinna að mörgu, m.a. ritstýra Skátablaðinu, taka að mér forystu í fræðslumálum Skátahreyfingarinnar og réð mig til kennslu, reynslulausan nýstúdent. Líklega yrði án tafar skipt um fræðslustjóra, sem léti sér detta slíkt í hug nú á dögum, starfið var auðvitað ekki auglýst. Ég nefni þetta hér vegna þess að þessi atvik eru dæmi um að ekki var unnt að neita Jónasi ekki heldur þegar hann gerði úr mér skátahöfðingja. Jónas B. Jónsson var mikill hamingjuhrólfur, hann átti hugsjónir sem hann sá rætast. Það er mikið lán að hafa kynnst slíkum manni og mæli ég fyrir munn fjöl- skyldu minnar sem átti þess einnig kost að kynnast honum. Nú fylgjum við Jónasi B. inn í vor- sólina og flytjum ástvinum hans ein- lægar samúðarkveðjur. Ólafur Ásgeirsson. Kynni okkar Jónasar B. Jónssonar hófust við spilaborðið fyrir meira en þrjátíu árum. Þótt aldursmunur væri verulegur tókst strax með okkur traust vinátta sem hélst alla tíð. Þeg- ar við höfðum kvatt spilafélagana um miðnættið hverju sinni sátum við oft saman og ræddum um heima og geima. Þær stundir eru mér ákaflega kærar í minningunni. Afstaða hans til manna og málefna mótaðist af víð- sýni, hófsemi og ríkri réttlætiskennd. Hann var í hópi þeirra sem hafa sterk mannbætandi áhrif á samferðamenn- ina. Ég fór alltaf af fundi hans bjart- sýnni og betri maður. Við spilaborðið var Jónas mjög skemmtilegur félagi. Alltaf sami áhuginn og sama góða skapið hvort sem spilin voru honum hagstæð eða ekki. Hann var nákvæmur í sögnum og sérstaklega útsjónarsamur sagn- hafi. Mér er minnisstætt síðasta spilakvöld okkar seint á árinu 2001. Jónas var þá 93 ára en engan bilbug var á honum að finna þrátt fyrir háan aldur. Þetta kvöld sýndi hann hvað eftir annað slíka snilldartakta í að spila úr erfiðum stöðum að mótherj- arnir gátu engum vörnum við komið. Í farsælu starfi að skólamálum og ýmsum félagsmálum skilaði Jónas miklu dagsverki. Á þeim sviðum nýtt- ust mannkostir hans einkar vel. Að lokinni erilsamri starfsævi sem kenn- ari og fræðslustjóri vann hann áfram af krafti að framgangi ýmissa mik- ilvægra félagsmála. Ég kveð vin minn með söknuði og þakka fyrir samfylgdina. Við Inga sendum Guðrúnu og fjöl- skyldunni allri einlægar samúðar- kveðjur. Sveinn Jónsson.  Fleiri minningargreinar um Jónas B. Jónsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. Höfundar eru: Úlfljótsvatnsráð; Tómas Helgason; Gísli Halldórsson; Eiríkur G. Guðmundsson; Ingólfur Ármannsson; Guðmundur Pálsson; Sigurður J. Grétarsson; Tryggvi Felixson; Loftur Melberg Sig- urjónsson, Gunnar Grettisson og Gunnþór Ingason. REYNSLA • UMHYGGJA • TRAUST Þegar andlát ber að höndum Önnumst alla þætti útfararinnar ÚTFARARSTOFA KIRKJUGARÐANNA Vesturhlíð 2 • Fossvogi • Sími 551 1266 • www.utfor.is SOFFÍA SIGURBJÖRG JÓHANNSDÓTTIR, Norðurgötu 60, Akureyri, fyrrum húsfreyja á Syðra-Vatni, Skagafirði, andaðist á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri föstudaginn 25. mars. Jarðarförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu. Sveinn, Þórunn, Inga og Jóhann Kári Hjálmarsbörn, tengdabörn, barnabörn og langömmubarn. Okkar ástkæra, ÁSLAUG EDDA BERGSDÓTTIR, er látin. Útförin verður auglýst síðar. Þorgeir Bergsson, Heiða Jónsdóttir, Halla Bergsdóttir, Magnús Magnússon. Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma, langamma og langalangamma, INDÍANA DÝRLEIF INGÓLFSDÓTTIR, sem lést á öldrunardeild sjúkrahússins á Húsa- vík laugardaginn 2. apríl, verður jarðsett á Ein- arsstöðum, Reykjadal, þriðjudaginn 12. apríl kl. 14:00. Ásmundur Kjartansson, Vilborg Friðriksdóttir, Stefán Kjartansson og aðrir vandamenn. Elskulegur eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir og afi, KJARTAN PÁLSSON læknir, lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ fimmtu- dagsmorguninn 7. apríl. Ingibjörg Ívarsdóttir, Hjördís Kjartansdóttir, Ómar Hjaltason, Páll Kjartansson, Elín Jónsdóttir, Ívar Kjartansson og barnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.