Morgunblaðið - 21.08.2005, Side 12
12 SUNNUDAGUR 21. ÁGÚST 2005 MORGUNBLAÐIÐ
L
ög um erfðaefnisskrá lögreglu
voru sett vorið 2001, en
gagnagrunnurinn hefur enn
ekki litið dagsins ljós. Reglu-
gerð, sem byggist á lögunum,
mun þó vera í burðarliðnum
og unnið er að því að fá hug-
búnað til að vinna gagna-
grunninn. Hugbúnaðurinn er fenginn frá
bandarísku alríkislögreglunni, FBI, og nefnist
CODIS. FBI nýtir hugbúnaðinn m.a. til að
tengja saman gagnagrunna lögreglu víða um
Bandaríkin. Íslenski grunnurinn verður hins
vegar vistaður í einni tölvu hjá embætti rík-
islögreglustjóra. Sú tölva verður ekki tengd
neinni annarri tölvu, til að tryggja öryggi upp-
lýsinganna sem best.
Í lögum 88/2001 um erfðaefnisskrá lög-
reglu, sem Alþingi samþykkti 20. maí 2001, er
kveðið á um að ríkislögreglustjóri skuli halda
rafræna skrá með upplýsingum um erfðaefni
einstaklinga. Tilgangur skrárinnar er að lög-
regla geti nýtt hana við rannsókn sakamála og
til að bera kennsl á ákveðna menn. Skráin
skiptist í kennslaskrá og sporaskrá. Í kennsla-
skrá er að finna upplýsingar um erfðaefni sem
kennsl hafa verið borin á og vitað er frá hverj-
um stafa. Sporaskrá inniheldur upplýsingar
um þau líffræðilegu spor sem skilin hafa verið
eftir á brotavettvangi án þess að vitað sé
hverjum þau tilheyra.
Í athugasemdum með frumvarpi til laga um
erfðaefnisskrá lögreglu, sem þáverandi dóms-
málaráðherra, Sólveig Pétursdóttir, mælti
fyrir 5. apríl 2001 sagði að tilgangur erfðaefn-
isskrárinnar væri að auðvelda lögreglu rann-
sókn alvarlegra sakamála, svo sem mann-
dráps, nauðgunar, líkamsárásar og mis-
notkunar gegn börnum, en í slíkum málum
skilja brotamenn oft eftir sig líffræðileg spor
sem innihalda erfðaefni, tæk til rannsókna. Þá
sagði: „Kostir slíkrar skrár eru margvíslegir.
Ber þar fyrst að nefna að með aðgengilegum
upplýsingum aukast möguleikar rannsóknar-
aðila til samanburðarrannsókna. Bera má sýni
sem finnst á brotavettvangi saman við skrá-
settar upplýsingar og getur það leitt til þess
að maður sem sakfelldur hefur verið fyrir til-
tekið brot verður fyrr tengdur nýju broti, eða
fyrr hreinsaður af grun um brotið. Mikilvægi
slíkra samanburðarrannsókna er ekki síst
fólgið í því að hreinsa saklausa menn af grun
um afbrot. Þá ber að nefna að með saman-
burðarrannsóknum sem þessum kann að kom-
ast upp um eldra brot, áður óupplýst, við sam-
anburð sýnis af þeim brotavettvangi og sýnis
frá manni sem tekið er í þágu rannsóknar nýs
brots. Sömuleiðis hefur verið nefnt að aðgang-
ur að skrá um erfðaefni geri lögreglu kleift að
bera saman sýni af fleiri en einum brotavett-
vangi og fá þannig upplýsingar um að brotin
séu framin af einum og sama manni, þótt
kennsl hafi enn ekki verið borin á hann. Þrátt
fyrir að brotamaðurinn sé ókunnur geta slíkar
upplýsingar haft mikilvæga þýðingu fyrir
áframhaldandi rannsókn málsins. Að lokum
ber að nefna að skráning upplýsinga um
erfðaefni getur haft sérstök varnaðaráhrif.
Brotamaður sem veit að upplýsingar um
erfðaefni hans eru skráðar kann að halda sig
frá afbrotum sem hann hefði annars framið, af
ótta við að upp um hann komist.“
Aðeins þeir sem dæmdir eru
Samkvæmt lögunum er eingöngu heimilt að
skrá upplýsingar um erfðaefni manna sem
hafa verið fundnir sekir um brot með dómi
eða dæmdir ósakhæfir. Ganga íslensku lögin
þar skemur en t.d. dönsku lögin frá árinu
2000, sem þó var byggt á við samningu frum-
varpsins. Dönsku lögin heimila lögreglu að
halda upplýsingum um erfðaefni manna, sem
sýknaðir hafa verið af ákæru, í tíu ár frá
sýknudóminum. Munu Danir færa þau rök
fyrir þeirri reglu, að jafnvel þótt menn hafi
verið sýknaðir af einu broti sé algengt að þeir
komi við sögu lögreglu síðar.
Í breskum rétti er heimilt að færa í erfða-
efnisskrá upplýsingar um þá sem eru grun-
aðir, en ef máli lýkur með sýknudómi eða nið-
urfellingu máls er óheimilt að vitna til þeirra
upplýsinga í máli sem síðar kann að verða
höfðað á hendur viðkomandi. Í Bandaríkj-
unum mun víða heimilt að skrá grunaða
menn.
Gagnagrunnar lögreglu, sem hafa að geyma
upplýsingar um erfðaefni brotamanna, hafa
verið mjög umdeildir víða um lönd. Íslenskir
þingmenn settu þó fáa fyrirvara og umræður
voru nánast engar. Tveir þingmenn stigu í
pontu eftir að ráðherra hafði mælt fyrir frum-
varpinu, en engar umræður urðu um málið
eftir það. Breytingartillögur allsherjarnefndar
voru samþykktar með yfirgnæfandi meiri-
hluta og frumvarpið varð að lögum fyrir at-
beina 45 þingmanna, en 18 voru fjarverandi.
Athugasemdir við frumvarpið komu þó
fram í umsögnum, sem leitað var eftir. Þannig
benti t.d. Lögmannafélag Íslands á að ekki
væru skýr fyrirmæli í frumvarpinu um hvern-
ig ætti að nálgast lífsýni úr dæmdum mönn-
um, en þingið virtist ekki telja þetta ann-
marka og skýrði viðkomandi ákvæði ekki að
þessu leyti. Þarf líklega að bíða fyrirmæla
reglugerðar þar um.
Eftirlit með skránni
Persónuvernd er falið að hafa eftirlit með
því að skráning og meðferð skráðra upplýs-
inga í erfðaefnisskránni séu í samræmi við
gildandi lög og einnig að hafa eftirlit með því
að óviðkomandi fái ekki aðgang að skránni
eða geti haft áhrif á skráningu í hana. Sam-
kvæmt lögunum má veita lögreglustjórum,
ríkissaksóknara og dómsmálaráðuneytinu að-
gang að upplýsingum úr skránni, sem og er-
lendum dómstólum og dómsmálayfirvöldum
við ákveðnar aðstæður og rannsóknarstofu
sem annast greiningu erfðaefnisins í skrána.
Í umsögn Persónuverndar um frumvarpið
kom fram, að stofnunin var ósátt við ákvæði
um að hún gæti komið tillögum á framfæri við
ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðuneytið,
hefði hún athugasemdir við starfrækslu skrár-
innar. Taldi Persónuvernd þetta ákvæði
ganga of skammt og vísaði til þess að sam-
kvæmt lögum um persónuvernd og meðferð
persónuupplýsinga hafi stofnunin heimildir til
að knýja fram úrbætur, en ekki eingöngu
koma tillögum á framfæri. Þrátt fyrir þessa
athugasemd Persónuverndar stendur ákvæðið
óbreytt í lögunum.
Annar þáttur í eftirliti með starfrækslu
skrárinnar er að þegar upplýsingar um ein-
stakling hafa verið skráðar ber ríkislög-
reglustjóra að tilkynna honum skriflega um
skráninguna og tilgang hennar. Lögum sam-
kvæmt getur hinn skráði kært ákvörðun rík-
islögreglustjóra til dómsmálaráðherra, leitað
álits umboðsmanns Alþingis og leitað atbeina
dómstóla, bjóði honum svo við að horfa.
Afskráð 2 árum eftir andlát
Sá sem skráður verður í erfðaefnisskrá lög-
reglu hverfur ekki af þeirri skrá fyrr en
tveimur árum eftir andlát sitt, eða ef hann er
sýknaður við endurupptöku máls. Persónu-
vernd vildi að sett yrðu ákvæði í lögin um
hvernig afmá skuli upplýsingar, t.d. að slíkt
skyldi gerast sjálfvirkt með tæknilegri lausn,
enda taldi stofnunin ella hætt við því að mis-
brestir yrðu á lögboðinni eyðingu upplýsinga.
Alþingi fór ekki að þessari ábendingu, en bú-
ast má við að einhverjar reglur um þetta verði
að finna í væntanlegri reglugerð.
Reglur annarra þjóða um afskráningu upp-
lýsinga eru mismunandi. Sums staðar er upp-
lýsingum eytt eftir tiltekinn árafjölda frá af-
plánun, ef hinn brotlegi hefur ekki komið við
sögu á ný. Dönsku lögin miða við 70 ára aldur.
Rökin fyrir slíkri reglu eru óljósari en rökin
fyrir að skráning falli niður hafi menn gengið
braut dyggðarinnar um ákveðinn tíma.
Samið við FBI
Þótt lögin um erfðaefnisskrá lögreglunnar
séu rúmlega fjögurra ára gömul hefur ekkert
bólað á gagnagrunninum til þessa. Nú hillir
hins vegar undir að hann verði að veruleika.
Töfina má rekja til samningaviðræðna við
bandarísku alríkislögregluna, FBI, um afnot
af hugbúnaði stofnunarinnar. Árni Albertsson,
aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá embætti rík-
islögreglustjóra, segir að samningaviðræður
við FBI hafi nýlega komist á skrið aftur, eftir
töf sem varð vegna nýrra samninga FBI við
lögregluyfirvöld annarra þjóða. „Við höfum
fengið í hendurnar viljayfirlýsingu frá stofn-
uninni og erum að vinna í því að afla vélbún-
aðar sem getur nýtt hugbúnaðinn þaðan.“
Árni segir að uppsetning kerfisins hér sé
ekki einföld, einmitt vegna þess að embættið
sé lítið í samanburði við þau lögregluembætti
sem FBI hefur samið við hingað til. „Hugbún-
aðurinn miðast við tugi, hundruð og jafnvel
þúsundir útstöðva, en íslenski grunnurinn
verður aðeins vistaður í einni tölvu hjá emb-
ætti ríkislögreglustjóra. Sú tölva verður
ótengd öllum öðrum tölvum og til að komast í
hana verða menn að komast inn um nokkrar
læstar dyr hjá embættinu og kunna lykilorð í
þokkabót. Við teljum upplýsingarnar vel varð-
ar með þessu móti.“
Þótt nú styttist í að erfðaefnissafn lögreglu
verði að veruleika segir Árni að ekki borgi sig
að nefna neina dagsetningu í því sambandi.
„Lögin eru klár og reglugerðin að mestu leyti
líka. Hins vegar eiga samningar eftir að
ganga fram og til baka milli okkar og FBI áð-
ur en málinu verður lokið, auk þess sem tölu-
verðan tíma tekur að ljúka öllum tækni-
málum. Góðir hlutir gerast hægt.“
Hugbúnaðurinn, sem FBI hefur þróað, kall-
ast CODIS, Combined DNA Index System.
Hann var fyrst tekinn í notkun af lögreglu-
yfirvöldum og rannsóknarstofum í 14 ríkjum
Bandaríkjanna árið 1990, en fjórum árum síð-
ar var FBI veitt lagaheimild til að setja á fót
erfðaefnisgrunn sem næði til Bandaríkjanna
allra. Lögregluyfirvöld geta því skipst á upp-
lýsingum og hægt er að samkeyra grunnana
innan ríkja eða á landsvísu. Samkvæmt upp-
lýsingum á heimasíðu FBI, www.fbi.gov, hafa
öll 50 ríki Bandaríkjanna sett lög sem heimila
að tekin séu lífsýni úr dæmdum mönnum og
erfðaefnisupplýsingar um þá færðar í gagna-
grunn.
Lífsýninu sjálfu eytt
Erfðaefnisskrá lögreglu verður eingöngu
notuð til að bera kennsl á menn, en ekki verð-
ur hægt að lesa aðrar upplýsingar út úr henni,
til dæmis heilsufarsupplýsingar. Skýringin er
sú, að við rannsókn sakamála er leitað eftir
svokölluðu „junk DNA“, sem er á því svæði
litninga þar sem fjölbreytni er mest, en DNA
á því svæði hefur ekki skilgreint hlutverk. Ís-
lensku lögin gera ráð fyrir að lífsýninu sjálfu
sé eytt, eftir að erfðaefnið í því hefur verið
greint. Þannig er komið í veg fyrir þá hættu
að lífsýnin séu notuð síðar í öðrum tilgangi en
þeirra var aflað. Í frumvarpi dómsmálaráð-
herra var gert ráð fyrir að fela mætti líf-
sýnasafni vörslu sýnis, en breytingartillaga
allsherjarnefndar setti undir þann leka.
Erfðaefnisskráin verður að þessu leyti sam-
bærileg við fingrafaraskrár.
Í apríl 2004 fjallaði fréttarit UNESCO,
Menntunar-, vísinda- og menningarstofnunar
Sameinuðu þjóðanna, um mismunandi
áherslur ríkja að þessu leyti. Þar kom fram,
að í Þýskalandi, Austurríki, Finnlandi, Sví-
þjóð, Danmörku og Hollandi er sýnum eytt
eftir að erfðaefnið er skráð, til að koma í veg
fyrir hættuna á að þau verði síðar notuð í öðr-
um tilgangi. Í Bretlandi er hins vegar heimilt
að geyma sýnin um aldur og ævi, Frakkar
geyma þau í 40 ár eftir greiningu og mörg ríki
Bandaríkjanna leyfa vörslu sýnanna, í mis-
langan tíma þó. Rökin fyrir vörslu eru yf-
irleitt, að hugsanlega þurfi að skoða sýnin aft-
ur síðar. Fréttarit UNESCO vísar hins vegar
til ummæla talsmanna bandarískra samtaka
um borgaraleg réttindi, þess efnis að 6%
bandarískra fyrirtækja og stofnana leiti eftir
erfðafræðilegum upplýsingum við ráðningu
starfsmanna, að þeim forspurðum. Þá búi
bandaríska varnarmálaráðuneytið yfir stórum
erfðafræðilegum grunni, sem settur hafi verið
á laggirnar til að bera kennsl á látna her-
menn. Grunnurinn geymi upplýsingar um
þrjár milljónir manna og þegar séu allmörg
dæmi um að FBI hafi sóst eftir upplýsingum
úr grunninum í tengslum við rannsókn saka-
mála.
Með því ákvæði laganna að lífsýninu beri að
eyða, sneiddi íslenski löggjafinn framhjá
miklu deilumáli. Frumvarpið sigldi lygnan sjó
gegnum þingið og ef til vill rísa engar deilur
um málið héðan af. Víst er að lögreglan hefur
beðið erfðaefnisskrárinnar með óþreyju og lít-
ur svo á að ótti við slíka banka sé með öllu
ástæðulaus.
Glæpamennirnir og genin þeirra
Lög um erfðaefnisskrá lögreglu
voru samþykkt fyrir rúmum
fjórum árum. Ragnhildur
Sverrisdóttir segir að ekkert hafi
bólað á gagnagrunninum fram til
þessa, en nú stefni í að honum verði
komið á laggirnar, með fulltingi
hugbúnaðar frá FBI.
Morgunblaðið/Júlíus
Erfðaefnisskrá lögreglu, sem er í burðarliðnum, getur nýst bæði til að sanna sekt og sýknu manna.
rsv@mbl.is