Morgunblaðið - 23.11.2005, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 23.11.2005, Blaðsíða 10
10 MIÐVIKUDAGUR 23. NÓVEMBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ FRÉTTIR ÞINGMENN úr öllum flokkum fögnuðu á Alþingi í gær frumvarpi ríkisstjórnarinnar um aukinn rétt samkynhneigðra. „Þetta er mikill sigurdagur,“ sagði til dæmis Guðrún Ögmundsdóttir, þingmað- ur Samfylkingarinnar, og Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, taldi ástæðu til að flagga regnbogafánanum, fána samkynhneigðra, í þingsalnum, í tilefni dagsins. „Hipp, hipp húrra,“ sagði hún svo í lok máls síns. Sú fyrrnefnda boðaði þó að hún myndi leggja fram breytingartillögur við frumvarpið, þess efnis að vígslumönnum og fulltrúum safnaða verði heimilt að gefa saman samkynhneigða. Þingmenn úr öllum flokkum tóku vel í þær breytingartillög- ur. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, sem mælti fyrir frumvarpinu, sagði hins vegar að var- hugavert væri að setja í lög heimildarákvæði um kirkjulegar vígslur sambands samkynhneigðra án þess að vilji stæði til þess í þjóðkirkjunni. Með því væri í raun verið að stilla kirkjunni upp við vegg. Slíkt teldi hann ekki við hæfi í samskiptum ríkis og kirkju. „Ég geri hins vegar fastlega ráð fyrir því að við þinglega meðferð frumvarpsins verði þetta atriði skoðað nánar og kallað eftir afstöðu allra hlutaðeigandi. Þá skýrist málið.“ Fyrstu umræðu um frumvarpið lauk í gær, og verður því vísað til allsherjarnefndar þingsins. Halldór kvaðst vita að þverpólitísk samstaða ríkti um frumvarpið og sagði að með samþykki þess myndu Íslendingar skipa sér í fremstu röð þjóða við að útrýma fordómum og misrétti sem samkyn- hneigðir hefðu löngum orðið að þola. Menn andi rólega Guðrún Ögmundsdóttir gerði í framsöguræðu sinni m.a. grein fyrir fyrrgreindum breytingartil- lögum. „Í lögum um staðfesta samvist kemur fram að það séu einungis sýslumenn sem geti gefið [samkynhneigða] saman,“ sagði hún. „Því þarf að koma inn viðbót um að þeir fulltrúar safnaða, sem slíkt samþykkja, geti framkvæmt staðfesta sam- vist.“ Guðrún kvaðst hafa rætt við marga, innan sem utan þjóðkirkjunnar. Í samræðunum hefði komið fram að eðlilegt væri að söfnuðir fengju, sem fyrsta skref, umrædda heimild. „Ég treysti þjóð- kirkjunni fyllilega til að vinna áfram og vinna vel í þessum málum.“ Hún bætti því við, í þessu sam- bandi, að snúa þyrfti stóru skipi með mörgum inn- anborðs. Menn ættu því að anda rólega og þrýsta ekki um of á kirkjuna. Innan fárra ára myndu lög um staðfesta samvist falla sjálfkrafa úr gildi, og hjúskaparlög ná yfir samkynhneigða. Kolbrún Halldórsdóttir fagnaði eins og aðrir þingmenn frumvarpinu og sagði m.a. að viðhorf til samkynhneigðra hefðu breyst mikið til batnaðar á skömmum tíma: Lögin um staðfesta samvist, frá árinu 1996, hefðu átt mikinn þátt í því. Kolbrún sagði hins vegar að þjóðkirkjan og trú- félög þyrftu að taka sig rækilega á í umræðunni um þessi mál. Hún sagði að það hlyti að vera hægt að halda því fram, með fullum rökum, að kirkjuleg vígsla ætti að standa öllum til boða, samkyn- hneigðum sem og öðrum. Gangi alla leið Ásta Möller, þingmaður Sjálfstæðisflokks, gerði vígslu samkynhneigðra einnig að umtalsefni, og sagði mikilvægt að kirkjan næði niðurstöðu í málinu, sem samræmdist kenningum hennar. „Slík afstaða verður ekki þvinguð fram.“ Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknar- flokksins, sagði á hinn bóginn að löggjafinn ætti að ganga alla leið í þessum efnum; hann ætti m.ö.o. að veita söfnuðum heimild til að gefa saman sam- kynhneigða. Siv sagði að kirkjan væri mikilvæg stofnun og að hún yrði að þróast í takt við tímann. „Ég tel ekki að óeðlilegur þrýstingur skapist á kirkjuna, þótt löggjafinn aflétti þessu banni sem nú gildir á því að söfnuðir gefi saman samkyn- hneigt fólk til hjúskapar,“ sagði hún og kvaðst vera skoðanasystir Guðrúnar Ögmundsdóttur að þessi leyti. Bryndís Haraldsdóttir, varaþingmaður Sjálf- stæðisflokks, tók undir með Siv og sagði eðlilegt að kirkjan skoðaði þessar athugasemdir. „Sjálf myndi ég vilja sjá breytingar á frumvarpinu í [þessa] átt,“ sagði hún. Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sagði að frumvarpið væri afar gott, enda ætti fólk að hafa sömu réttindi, samkynhneigðir sem gagnkynhneigðir. Hann tók síðan undir með þeim sem vildu að söfnuðir fengju heimild til að gefa saman samkynhneigð pör. „Það verður svo að vera mál þjóðkirkjunnar hvenær menn og konur þar telja sig þess umkomna að veita slíka þjón- ustu.“ Hann ítrekaði að kirkjan yrði að fara í gegnum þessa umræðu en það breytti því ekki að heimildin ætti að vera til staðar í löggjöfinni. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, tók í sama streng og það sama gerði Öss- ur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinn- ar. „Mér finnst að þessi leið sem hér hefur verið reifuð af háttvirtum þingmönnum uppfylli það að allir geti nokkuð vel við unað,“ sagði Össur og tók fram að þetta snerist á endanum um frjálst val. Halldór Ásgrímsson mælir fyrir frumvarpi um aukinn rétt samkynhneigðra Varhugavert að ganga gegn vilja þjóðkirkjunnar Þingmenn úr öllum flokk- um fagna frumvarpinu Morgunblaðið/Kristinn Stjórnarþingmennirnir Magnús Stefánsson og Guðmundur Hallvarðsson stinga saman nefjum. Bak við þá situr Valdimar L. Friðriksson sem tók sæti á Alþingi fyrir Samfylkinguna fyrr á þessu ári. ÞINGFUNDUR hefst kl. 12 í dag. Á dagskrá eru átján fyrirspurnir til ráðherra. Meðal annars verður spurt um íslenska friðargæsluliða í Afganistan og skattamál í tengslum við Kárahnjúka. GEIR H. Haarde utanríkisráðherra sat í fyrradag fund ráðherraráðs Evrópska efnahagssvæðisins (EES) í Brussel. Þar lagði hann sérstaka áherslu á að ESB tæki tillit til hags- muna allra aðildarríkja EES við gerð loftferðasamninga við önnur ríki, að því er fram kemur í frétta- tilkynningu frá utanríkisráðuneyt- inu. Fundinn sátu ráðherrar frá Nor- egi, Liechtenstein, Íslandi, Austur- ríki og Bretlandi auk fulltrúa ann- arra ESB-ríkja. Ráðherrarnir ræddu um framkvæmd EES-samn- ingsins og var samdóma álit þeirra að rekstur samningsins gangi mjög vel. Utanríkisráðherra Liechtenstein, Rita Kieber-Beck talsmaður EFTA- ríkjanna, gerði grein fyrir afstöðu ríkjanna til hinna ýmsu verkefna og áætlana ESB. Lagði ráðherrann fyr- ir hönd EFTA m.a. áherslu á mik- ilvægi þátttöku EFTA-ríkjanna í undirbúningi löggjafar á vettvangi ESB. Einnig var af EFTA hálfu m.a. lögð áhersla á nauðsyn þess að af- létta banni við notkun á fiskimjöli í fóður fyrir jórturdýr og gerð grein fyrir undirbúningi að úthlutun styrkja úr þróunarsjóði EFTA. Fulltrúar EFTA-ríkjanna og að- ildarríkja ESB ræddu einnig um samráð í baráttunni gegn hryðju- verkum, málefni ÖSE og uppbygg- ingarstarf í Afríku. Ræddi um Doha-viðræðurnar við utanríkisráðherra Noregs Geir H. Haarde sótti einnig ráð- herrafund þeirra ríkja sem standa að áætlun um málefni norðurslóða, „Norðlægu víddinni“. Ráðherrarnir, undir forystu Jack Straw utanríkis- ráðherra Bretlands, samþykktu nýja framkvæmdaáætlun um þessi mál- efni sem taka mun gildi 2007. Fund- inn sátu ráðherrar og fulltrúar frá aðildarríkjum ESB, Rússlandi, Bandaríkjunum, Kanada, Noregi og Íslandi auk alþjóðlegra fjármála- stofnana og samtaka. Þá átti utanríkisráðherra Íslands tvíhliða fund með utanríkisráðherra Noregs, Jonas Gahr Störe, þar sem meginumræðuefnið var afstaða ríkjanna til Doha-viðræðnanna um aukið frelsi í heimsviðskiptum á vett- vangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinn- ar, WTO. Auk þess ræddu ráðherr- arnir ýmis málefni EES og EFTA. Geir H. Haarde utanríkisráðherra á fundi EES-ráðsins ESB taki tillit til hagsmuna EES- ríkja við gerð loftferðasamninga Geir H. Haarde utanríkisráðherra átti tvíhliða fund með Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs (t.h.). Á fjórða tug laga- breytinga Í FRUMVARPINU um bætta stöðu samkynhneigðra eru lagðar til á fjórða tug lagabreytingar sem hafa það að markmiði að af- nema þá mismunun sem er í lög- um varðandi réttarstöðu samkyn- hneigðra.  Í frumvarpinu er m.a. lagt til að rýmkuð verði skilyrði fyrir stofnun staðfestrar samvistar þannig að ekki verði lengur kraf- ist fastrar búsetu á Íslandi þegar íslenskir ríkisborgarar eiga í hlut.  Í frumvarpinu er lagt til að samkynhneigð pör geti eins gagnkynhneigð pör fengið sam- búð skráða í þjóðskrá.  Í frumvarpinu er lagt til að heimild samkynhneigðra para til að ættleiða börn verði sú sama og gagnkynhneigðra para.  Í frumvarpinu er lagt til að kona í óvígðri sambúð eða stað- festri samvist með annarri konu öðlist heimild til að gangast und- ir tæknifrjóvgun líkt og á við um gagnkynhneigð pör.  Í frumvarpinu er lagt til að tekin verði af öll tvímæli um að það falli undir markmið laga um töku fæðingar- og foreldraorlofs að auðvelda báðum samkyn- hneigðum foreldrum að vera samvistum við barn sitt. Fráveituframkvæmdir sveitarfélaga Geta sótt um styrk til ársloka 2008 SVEITARFÉLÖG geta sótt um styrk úr ríkissjóði til fráveitufram- kvæmda til loka ársins 2008, sam- kvæmt frumvarpi umhverfisráð- herra, Sigríðar Önnu Þórðardóttur, sem lagt hefur verið fram á Alþingi. Samkvæmt núgildandi lögum um stuðning við framkvæmdir sveitarfé- laga í fráveitumálum geta sveitar- félögin sótt um slíkan styrk til árs- loka 2005. Umrætt frumvarp er lagt fram í samræmi við tillögur tekjustofna- nefndar ríkis og sveitarfélaga og í ljósi þess að fráveituframkvæmdir hafi farið hægar af stað en gert var ráð fyrir í upphafi. Í lögunum er kveðið á um að fjár- hagslegur stuðningur ríkisins vegna framkvæmda sveitarfélaga við frá- veitur geti numið allt að 200 millj- ónum króna á ári. Miðað er við sömu upphæð í frumvarpinu.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.