Morgunblaðið - 23.11.2005, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 23.11.2005, Blaðsíða 31
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 23. NÓVEMBER 2005 31 MINNINGAR ✝ Magnús VilbergStefánsson fæddist í Miðhúsum í Sandgerði 31. jan- úar 1933. Hann lést á Heilbrigðisstofn- un Suðurnesja 12. nóvember síðastlið- inn. Foreldrar hans voru hjónin Jónína Sigurveig Eggerts- dóttir húsmóðir, f. 12.9. 1909, d. 13.6. 1965, og Stefán Friðbjörnsson, bóndi og verslunar- maður, f. 12.7. 1907, d. 25.5. 1988. Þau bjuggu fyrst í Sandgerði og síðan í Nesjum í Miðneshreppi. Bræður Magnúsar eru: Sigur- björn Stefánsson bóndi, f. 12.3. 1932, og Guðjón Stefánsson kaup- félagsstjóri, f. 26.8. 1943, eigin- kona hans er Ásta Ragnheiður Margeirsdóttir húsmóðir, f. 31.7. 1945. Börn þeirra eru: Jónína, maki Kjartan Már Kjartansson og eiga þau þrjú börn, Helga Valdís, maki Kristinn Jónasson og eiga þau tvö börn, Stefán Ragnar, maki Ásdís Ragna Einarsdóttir og eiga þau tvö börn. Eiginkona Magnúsar er Jónína Bergmann sjúkraliði, f. 22.11. 1926, frá Fuglavík í Miðnes- hreppi. Foreldrar hennar voru Vigdís Sigurðardóttir húsmóðir, f. 4.8. 1891, d. 6.10. 1960, og Sigurður Bergmann bóndi, f. 24.7. 1880, d. 11.8. 1965. Dóttir Jónínu er Vigdís Péturs- dóttir, f. 31.7. 1951, maki Davíð Jónat- ansson, f. 19.1. 1961. Vigdís á þrjú börn og fimm barnabörn. Magnús ólst upp í Sandgerði og í Nesj- um. Hann fór ungur að vinna ýmis störf við fiskvinnslu og stundaði sjó- mennsku og beitningar um langt árabil. Þá starfaði Magnús í nokk- ur ár við netaviðgerðir, bæði hjá Netaverkstæði Suðurnesja, Út- gerðarstöð Guðmundar Jónsson- ar í Sandgerði og á Seyðisfirði. Hann vann um tíma hjá Vega- gerðinni við malarnám og við snjómokstur á Hellisheiði. Magnús hafði próf frá Mat- reiðsluskólanum og starfaði um langt árabil við matseld hjá Varn- arliðinu á Keflavíkurflugvelli. Síðustu árin starfaði Magnús ásamt Jónínu konu sinni við æð- arrækt í Fuglavík í Miðneshreppi. Útför Magnúsar verður gerð frá Keflavíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14. Jarð- sett verður í Hvalsneskirkjugarði. Elskulegur bróðir og kær vinur hefur kvatt. Magnús fæddist í Miðhúsum í Sandgerði í janúar 1933. Hann ólst upp í Sandgerði og síðar í Nesjum í Hvalsneshverfi. Maggi fór í gegnum hefðbundna skólagöngu í Sandgerði eins og þar bauðst og fór ungur að vinna og urðu sjómennska og störf tengd sjónum hans aðalvettvangur fyrri hluta starfsævinnar. Á vetrarver- tíðum var hann ýmist á sjónum eða starfaði við beitningar í landi. Maggi þótti dugmikill og ósérhlíf- inn sjómaður og var eftirsóttur sem slíkur. Hann var yfirleitt í góðum skipsrúmum, á þekktum aflaskipum eins og Munin, Víði II, Jóni Garðari, Jóni Oddssyni og Rafnkeli. Nokkurn tíma starfaði Maggi við netaviðgerðir bæði hjá Netaverkstæði Suðurnesja, Út- gerðarstöð Guðmundar Jónssonar og einnig á Seyðisfirði. Í nokkur ár var hann hjá Vegagerðinni m.a. við snjómokstur á Hellisheiði. Síðasti kaflinn í starfsævinni var svo við matseld hjá Varnarliðinu á Kefla- víkurflugvelli, en Maggi hafði próf frá Matsveinaskólanum. Árið 1979 kvæntist Magnús Jón- ínu Bergmann frá Fuglavík og bjuggu þau allan sinn búskap á Blikabraut 11 í Keflavík. Eftir að eftirlaunaaldri var náð fékkst hann ásamt Jónínu konu sinni við æð- arrækt í Fuglavík. Það var einkennandi fyrir hann að honum féll aldrei verk úr hendi og gat í rauninni ekki verið að- gerðarlaus. Þetta mun einnig hafa einkennt hann sem strák í skóla, jafnvel svo að kennurum þótti meira en nóg um, því uppátækin voru stundum ekki að þeirra skapi. Hann sagði mér að þeir hefðu stundum leitt sig út á eyrunum og sagt sér að koma aftur þegar ró- legra væri orðið yfir honum. Maggi var góður húmoristi, hafði gaman af góðum sögum og ég held ég verði að segja að hann hafi verið töluvert stríðinn. Þessi ein- kenni hans komu einkum fram í samskiptum hans við börn. Maggi var í rauninni mikil barnagæla og gaf sér oft mikinn tíma í samskipti við þau, kenndi þeim að spila og lék við þau. Seinni árin var það greinilega eitt af hans aðaláhuga- málum að fylgjast með námi og störfum barna okkar og barna- barna og naut mjög samvista við þau, sem var líka algjörlega gagn- kvæmt því þau hafa alla tíð litið á þá bræður Magga og Didda sem afa. Í rauninni hefur samband þeirra og barnanna verið þannig að ég hef stundum velt því fyrir mér hvort þau hafi upplifað það að eiga fjóra afa eða kannski þrjá pabba. Þetta hafa ekki verið lítil forréttindi fyrir börnin að búa við þessar aðstæður. Þannig hafa sam- skiptin innan fjölskyldunnar verið og fréttamiðlun innan fjölskyld- unnar verið alveg örugg með tilliti til þess að allir væru upplýstir um hverja hreyfingu fjölskyldumeð- lima. Svona sterk fjölskyldutengsl og þessi augljósu vináttubönd sem tengja börnin og frændur þeirra eru ómetanleg og verða aldrei full- þökkuð. Maggi var ákaflega heilsteyptur maður, trúr og tryggur. Hann hafði góða skapgerð sem samt var hlaðin mikilli kappsemi og stund- um óþolinmæði ef ekki gekk sem skyldi. Öllum hlutum þurfti að ljúka á tilsettum tíma. Þeir bræður Maggi og Diddi eyddu löngum stundum saman suður í Nesjum við ýmiss konar smíðar síðustu ár- in. Kappið og athafnaþráin var þá enn með þeim hætti að langir kaffitímar eða utanaðkomandi truflun mátti ekki hafa áhrif á af- köstin. Maggi vildi einfaldlega að hlutirnir gengju jafnvel þó að um tómstundastarf væri að ræða. Hann lagði mikið upp úr því að öllu væri vel við haldið í Nesjum og fór nýlega yfir það með okkur bræðrum og „afabörnunum“ sem að hans mati þyrfti að framkvæma þar á næstunni og hvernig yrði staðið þar að málum á næstu árum. Maggi gat verið ákveðinn í skoð- unum og hélt þá sínu ákveðið fram. Ég man þó ekki eftir því að hann hafi nokkurn tíma skammað mig sem litla bróður. Hins vegar gerði hann mér stundum, með sínu lagi, skiljanlegt að ég væri á rangri leið og þá var full ástæða til að taka það alvarlega. Hann hafði ríka ábyrgðartilfinningu og naut ég oft öruggrar leiðsagnar hans á yngri árum. Mér er minnisstætt þegar ég sagði honum frá því, þá 17 ára, að ég væri að velta fyrir mér að fjár- festa í Chevrolet árg. ’56 með V-8- mótor. Þetta þótti Magga ekki skynsamleg áform og taldi að ég yrði fljótt öreigi á rekstri þessa bíls. Honum tókst að hafa mig ofan af þessum fyrirætlunum en sagðist skilja að ég væri illa settur bíllaus og bauðst til að lána mér bílinn sinn í tvo mánuði á meðan hann væri á síldveiðum. Þessir tveir mánuðir dugðu til að lægja mesta ákafann í mér og var ég honum ákaflega þakklátur eftir á fyrir að bjarga mér úr þessum háska. Erfið veikindi settu nokkrum sinnum strik í reikninginn á hans lífsleið. Berklar herjuðu á hann á unglingsaldri svo að hann var að mestu rúmfastur í heilt ár, þá að- eins 15 ára. Erfið veikindi herjuðu svo ítrekað á hann síðar á lífsleið- inni. Hann glímdi m.a. við skæða lungnabólgu sem gekk mjög nærri honum. Líklega kom lungnabólgan sem afleiðing af því að Maggi féll fyrir borð í slæmu veðri á vetr- arvertíð. Talið var að lungun hefðu aldrei jafnað sig af því. Bakið gaf sig svo áreiðanlega af erfiðri vinnu og eðlislægri ósérhlífni. Í fram- haldinu gekkst hann undir tvo uppskurði og átti lengi í þeim veik- indum. Síðar bilaði hjartað og upp- skurður var óumflýjanlegur vegna þess. Er þá ótalið það alvarlega mein sem hann greindist með sl. sumar og náði að lokum að beygja þennan kraftmikla mann. Ég kveð nú með miklum söknuði kæran bróður og traustan vin, ljúf- an og hlýjan mann, mann sem allt- af lagði sig fram að hverju sem hann gekk og var alltaf reiðubúinn þegar á þurfti að halda. Það hefur verið höggvið stórt skarð í fjöl- skylduna. Fjölskyldan sendir Jón- ínu eiginkonu Magnúsar og fjöl- skyldu hennar innilegar samúðar- kveðjur. Guðjón Stefánsson. Í dag kveðjum við Magnús, elskulegan frænda minn. Við systkinin kölluðum hann reyndar alltaf Gagga sem kom til vegna þess að þegar Jóna systir var lítil þá gat hún ekki sagt Maggi og gæluyrðið Gaggi festist við hann í okkar fjölskyldu. Gaggi var okkur systkinunum reyndar miklu meira en frændi, við vorum börnin hans og umhyggja hans í okkar garð miklu líkari því að hann væri faðir okkar eða afi. Gaggi var ótrúlega barngóður og æskuminningar mín- ar tengjast honum mjög mikið. Við fórum saman í marga bíltúra og skemmtilegast var að fara með honum austur fyrir fjall í sumarbú- staðinn hans í Þrastaskógi. Þá bauð hann mér í kaffi í Litlu kaffi- stofunni þar sem „gamla konan“ bauð okkur upp á stærstu kleinur sem ég hef á ævinni séð og Gaggi hafði gaman af að stríða mér á því að ég gæti ekki einu sinni klárað eina kleinu. Í sumarbústaðnum átti Gaggi síðan leyndardómsfulla tunnu sem geymdi appelsín og malt í glerflöskum og jafnvel eitt- hvað fleira óvænt sem gladdi litla stúlku. Spilastokkurinn fylgdi Gagga alla tíð, hann lagði mikið kapal og var mjög viljugur að spila við börn, við spiluðum oftast Marí- as og skemmtum okkur vel. Gaggi átti svo gott með að um- gangast börn, hann var skemmti- legur og stríðinn og börnum leið vel hjá honum. Hann hafði líka gaman af því að gauka að manni glaðningi, peningum í jólabaukinn eða amerísku sælgæti ofan af Velli. Hann hafði mikinn metnað fyrir hönd okkar systkinanna, fylgdist vel með skólagöngunni og beið spenntur eftir einkunnaspjöldun- um jól og vor bæði hjá okkur og síðan börnunum okkar og ekki stóð á hrósinu, hann var svo stoltur af sínum börnum. Gaggi var mikill bakari og hafði gaman af að ráðleggja mér við bakstur, við áttum oft löng samtöl um krem og kökur. Afmæli barnanna í fjölskyldunni verða með öðru sniði héðan í frá þar sem á veisluborðinu hefur oftast verið stór og fallega skreytt kaka frá Gagga. Mig langar að þakka Gagga samfylgdina og alla umhyggjuna í minn garð og fjölskyldu minnar. Ég er óendanlega þakklát fyrir alla hans gæsku og allar fallegu minningarnar sem ég á í mínu hjarta um elskulegan frænda. Ég sendi Nínu og fjölskyldunni inni- legar samúðarkveðjur. Helga Valdís Guðjónsdóttir. Nú hefur þú kvatt, elsku frændi minn. Þú varst enginn venjulegur frændi því sambandið við okkur systkinin var svo sterkt og má segja að þið Diddi hafið í raun átt alla tíð átt mjög mikið í okkur og börnum okkar. Það er skrýtin til- hugsun að hitta þig ekki oftar í Nesjum, Fuglavíkinni né Blika- brautinni. Það var alltaf gaman að heimsækja ykkur Nínu í Fuglavík- ina og ósjaldan lagðir þú fyrir mig þrautir í stofunni þar. Alla tíð hafðir þú gaman af því að fylgjast með því sem við fjölskyldan höfð- um fyrir stafni og hafðir alltaf fyr- ir því að spyrja okkur spjörunum úr. Nú síðustu árin fylgdist þú með börnum okkar systkinanna og svo vel að oft sagðir þú mér fréttir af börnum systra minna. Enginn sagði sögur eins og þú og fylgdu öll smáatriðin frásögnunum, oft sagðir þú mér sögur af sjó- mennsku þinni, sögur af Stefáni afa og fleiri skyldmennum. Þetta voru ómetanlegar sögur sem ég mun geyma og segja Guðjóni Pétri og Kamillu Birtu seinna. Aldrei man ég eftir því að þú hafir setið auðum höndum og ávallt varst þú snöggur til ef að- stoð vantaði eða verkfæri. Elsku Gaggi minn, þakka þér allar góðu stundirnar og alla hjálp- ina sem þú veittir okkur fjölskyld- unni. Ljúfi Jesús, láttu mig lífs míns alla daga lifa þér og lofa þig ljúft í kærleiks aga. (Þorkell G. Sigurbj.) Stefán Ragnar Guðjónsson. Þegar ég var lítil og nýbyrjuð að tala átti ég erfitt með að segja Maggi. Það hljómaði eins og Gaggi og festist það nafn svo rækilega við Magnús frænda minn að öll fjölskyldan kallaði hann Gagga upp frá því. Nú þegar við kveðjum Gagga er margs að minnast og notalegt að rifja upp allar góðu minningarnar. Fyrstu minningarn- ar tengjast því að hann bauð mér oft í bíltúr. Hann átti rauða Volkswagenbjöllu og að fara bíltúr í þeim fína bíl var mjög spennandi. Þessu fylgdu heilmikil sælgætis- og ískaup og þegar vinkonur mínar bættust í hópinn nutu þær góðs af því. Hann var einstaklega barn- góður og þegar við Kjarri eign- uðumst okkar börn nutu þau þess að eiga hann að sem nokkurs kon- ar auka afa. Hann fylgdist vel með og velferð barnanna okkar var honum mjög hugleikin. Hann spurði um þau allt fram á síðasta dag og fundum við fyrir endalausri væntumþykju alla tíð. Það voru forréttindi að eiga frænda eins og Gagga. Þeir bræð- ur, hann og Diddi, vöktu athygli vina og kunningja okkar og vorum við systkinin oft spurð að því hvort þeir væru afar okkar. Þá svöruðum við: ,,Já, eiginlega, en samt eru þeir bræður pabba.“ Sumarbústaðurinn í Grímsnes- inu lýsir handbragði hans vel. Það var ekkert smáræði að komast úr tjaldferðalögunum og í bústaðinn. Þar eyddum við mörgum góðum stundum. Hann byggði ekki bara bústaðinn sjálfan frá grunni heldur einnig öll húsgögn og innréttingar. Gaggi var handlaginn og hafði gaman af því að gera upp gamla hluti. Hann hafði alltaf nóg fyrir stafni. Ef hann var ekki að gera upp húsgögn þá setti hann saman skipslíkön, gerði upp gömul reið- hjól eða bjó til lampa. Hann var duglegur að koma í heimsókn en okkur fannst hann þó stoppa held- ur stutt í hvert sinn. Hann hafði alltaf í svo mörgu að snúast. Þetta breyttist lítið þegar hann hætti að vinna og þegar við spurðum hann hvort hann gæti ekki farið að slaka aðeins á svaraði hann því til að nú ætti hann ekki lengur nein vaktafrí og þyrfti því að vera að stússast alla daga vikunnar. Þetta fannst okkur fyndið og gerðum oft góðlát- legt grín að þessum skemmtilegu tilsvörum hans. Hann var menntaður bakari og góður matreiðslumaður. Ég gat því oft ráðfært mig við hann um hinar ýmsu uppskriftir. Kökurnar hans settu svip sinn á barnaafmælin og mömmukökurnar voru ómissandi hluti af aðventustemningunni hjá okkur. Það var gaman að hlusta á Gagga segja sögur. Hann mundi allt svo vel frá sinni æsku og hafði gaman af því að segja frá og nut- um við þess fram á síðasta dag. Þar gerði hann oft grín að sjálfum sér. Við eigum eftir að sakna Gagga mikið. Minning hans lifir í hjörtum okkar. Við þökkum fyrir allt sem hann gerði fyrir okkur og fyrir all- ar yndislegu stundirnar. Við biðj- um góðan Guð að blessa minningu hans og styrkja Nínu og okkur hin í sorginni. Jóna. Magnús frændi, eða Gaggi eins og við systkinin kölluðum hann, var okkur mjög náinn. Hann var okkur sem viðbótarafi, ef svo má að orði komast. Alla okkar barn- æsku minnumst við Gagga sem slíks en ekki aðeins sem bróður afa okkar. Þær lifa sterkt í minning- unni bílferðirnar út á Nes og til Fuglavíkur, um Sandgerði og ná- grannasveitir sem oft voru farnar þegar Gaggi var í vaktafríi. Gaggi setti einnig sterkan svip á afmæl- isveislur okkar systkinanna því hann bakaði alltaf afmælistertuna og útbjó kremið, sem frægt var orðið meðal vina og vandamanna. Var það fastur liður í undirbúningi veislnanna að fara til Gagga, velja lit á kremið, skreyta og semja texta á kökuna. Þannig var Gaggi stór hluti af þeirri spennu og gleði sem fylgdi afmælisdögum okkar. Einnig lifa sterkt í minningunni þau fjölmörgu skipti sem Gaggi gaukaði að okkur 500 krónum til kaupa á Lottómiðum. Alltaf þótti okkur jafn skemmtilegt og til- hlökkunin mikil þegar nær dró helgi. Heimili Gagga og Nínu var mjög spennandi. Þar var alltaf eitthvað nýtt að finna, uppstoppaðir fuglar, hlutir úr skeljum, eftirgerð vita sem virkaði og margt fleira gerði heimsóknir okkar og gistinætur mjög eftirminnilegar. Gaggi var okkur góður frændi og eru minn- ingarnar mun fleiri en hér er ritað. Aldrei sáum við Gagga reiðan eða í slæmu skapi. Það olli okkur því miklu hugarangri þegar hann upp- ljóstraði því að hann hefði stund- um verið óttalegur villingur í grunnskóla. Þannig gátum við ein- faldlega ekki séð Gagga fyrir okk- ur. Gaggi okkar var alltaf góður og ljúfur og þannig munum við geyma hann í minningunni um ókomna tíð. Kæra Nína, megi Guð vera með þér. Guðjón, Sonja og Lovísa. MAGNÚS VILBERG STEFÁNSSON

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.