Réttur - 01.07.1973, Page 50
upp þessu fundarskýli á Þingvöllum, enda var
einhver sjóður fyrir hendi, sem áður hafði
verið safnað í með sama tilgangi. Með öllum
tjaldveggnum að innan voru hlaðnir bekkir
af grjóti, og fyrir framan þá voru löng borð
handa fundarmönnum, en í miðju tjaldinu
var minna borð fyrir skrifara fundarins, og
gagnvart tjalddyrum var dregin mynd af
fálka á hvítan dúk. — Sigfús Eymundsson
og kona hans höfðu veitingatjald í nánd
við fundarstaðinn, auk þess gátu menn fengið
sér hressingar á einum eða tveim öðrum stöð-
um. Veður var kalsalegt, og þurftu margir
að hressa sig og taka úr sér hrollinn; þegar
á daginn leið voru margir fulltrúar og aðrir
fundarmenn orðnir vel hreifir, og ágerðist
hressinga-þörfin á næstu fundardögum."
Fundarboðandi, Halldór Kr. Friðriksson
setti fundinn með stuttu ávarpi. Þar mælti
hann m.a. eftirfarandi: „Þessi fundur á nú
að skera úr því, hvort meirihluti alþingis
hefur haldið þeirri stefnu fram í stjórnar-
málum vorum, sem er samkvæmt ósktim
þjóðarinnar, eður hvort þjóð vor er fráhverf
þeirri stefnu, og vill aðhyllast aðra nýja."
Minntist hann þess, að nú væri aldarfjórð-
ungsafmæli Þingvallafunda. An efa með til-
liti til þeirrar staðreyndar hefur mönnum
þótt vel við hæfi að auðsýna hinum gamla
forystumanni fundanna, Jóni Guðmundssyni
ritstjóra, verðskuldað þakklæti með því að
kjósa hann til fundarstjóra. Hlaut hann sam-
hljóða 34 atkvæði fulltrúa til að skipa þenn-
an heiðurssess. Til varafundarstjóra var kos-
inn sr. Benedikt Kristjánsson, en skrifarar sr.
Stefán Thorarensen og sr. Gunnlaugur Þ.
Stefánsson.
í upphafi varð nokkur umræða um rétt
annarra fundarmanna en kjörinna fulltrúa,
einkum um það, hvort alþingismenn ættu að
hafa atkvæðisrétt og var Benedikt alþm.
Sveinsson helzti talsmaður þess. Mikill meiri-
hluti var þó á þeirri skoðun, að slíkt bryti
í bága við eðli fundarins, en samþykkt var
að veita öllum málfrelsi.
Fyrir fundinn komu 19 bænarskrár í stjórn-
skipunarmálinu frá héraðafundum. Birtist
þar mikil óánægja út af setningu stöðulaga
og landshöfðingjadæminu, og er skorað á
Þingvallafund að semja nýtt frumvarp til
stjórnarskrár. I sumum þeirra er lagt til, að
því verði lýst yfir, að hin einu tengsl Islend-
inga og Dana séu fólgin í konungssambandi.
Flestar bænarskrárnar óska eftir þjóðfundi,
kosnum eftir kosningalögum 1849 fyrir
þjóðfundinn, og verði þar lagt fyrir fullkomið
stjórnarskrárfrumvarp.
A fyrsta degi var kjörin 9 manna nefr.d
í stjórnskipunarmálinu, er tók þessar bænar-
skrár til meðferðar. I nefndinni sátu þessir
menn: Sr. Benedikt Kristjánsson formaður,
sr. Páll Pálsson skrifari, Daníel Thorlacius,
Eggert Gunnarsso.n, Indriði Gíslason, Jón
Pálmason, Olafur Sigurðsson, Sighvamr
Árnaso.n og Skafti Jósepsson. Þessi nefnd
birti álit sitt „um miðaptan" daginn eftir,
27. júní. Kom þar fram nýtt frumvarp til
stjórnarskrár í 10 greinum, en framar öðru
var það 1. greinin, sem kom furðulegu róti
á hugi manna: „Island er frjálst þjóðfélag
út af fyrir sig, og stendur í því einu sambandi
við Dani, að það lýtur hinnm sama konungi
og þeir.” Auk þess var gert ráð fyrir skilorðs-
bundnu neitunarvaldi konungs, jarli, sem
ábyrgur sé fyrir konungi einum, en ráðgjafi
hans beri ábyrgð fyrir Alþingi. Varatillaga
nefndarinnar var um kvaðningu þjóðfundar
eins og fram hefði komið í bænarskrám hér-
aðafunda. Þá var lagt til, að þriggja manna
sendinefnd yrði kjörin á fundinum til að bera
álit hans fram fyrir konung.
Hófust nú talsverðar deilur um ætlunar-
verk fundarins og einkum um fyrsta atriðið í
frumvarpinu, sem gekk miklu lengra í orða-
194