Morgunblaðið - 05.01.2006, Qupperneq 27
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 5. JANÚAR 2006 27
MENNING
ELDSVOÐAR hafa margir orðið á
Íslandi í aldanna rás. Oft hafa þeir
valdið miklu tjóni og sumir kostað
mannslíf. Enginn eldur mun þó hafa
orðið Íslendingum jafntilfinnanlegur
og minnisstæður og bruni Kaup-
mannahafnar um veturnæturnar
1728 og má með miklum rétti nefna
hann mesta eldsvoða í íslenskri sögu
þótt hann yrði í öðru landi. Í þessum
eldi fórst mikill hluti bókasafns Árna
Magnússonar og hluti handritasafns
hans og var það tjón óbætanlegt.
Bruni Kaupmannahafnar árið
1728 telst vera annar mesti eldsvoði,
sem orðið hefur í evrópskri stórborg,
aðeins bruninn mikli í Lundúnum ár-
ið 1666 var stærri. Kaupmannahafn-
arbruninn er að vonum þekktur at-
burður í danskri sögu og sitthvað
hefur verið um hann ritað. Elstu frá-
sagnir danskar af þessum atburðum
voru þó samdar nokkru eftir brun-
ann, en elst þeirra er lýsing sagn-
fræðingsins Andreas Hojer, sem
samin var á árunum 1731–1734, þ.e.
nokkrum árum eftir brunann. Önnur
lýsing samtímamanns er eftir Carl
Friederich Reiser, en hún var samin
löngu síðar og kom fyrst út árið
1784.
Elst þeirra frásagna sem varð-
veist hafa af eldsvoðanum og hin
eina, sem með sanni getur kallast
samtímafrásögn, er Relatio Jóns
Ólafssonar úr Grunnavík, sem er
kjarni þessarar bókar. Jón bjó í
Kaupmannahöfn á þessum tíma, var
skrifari Árna Magnússonar, og
horfði á þann hluta borgarinnar sem
hann þekkti best verða eldinum að
bráð. Veturinn eftir tók hann sér
penna í hönd og samdi frásögn sína
af brunanum. Hún er skiljanlega ná-
kvæmust þar sem segir frá bruna
háskólasvæðisins sem Jón þekkti
best og af því hvernig bókasöfn pró-
fessora eyðilögðust, en bækur voru
Jóni hugleiknari en flest annað. Að
öllu samanlögðu er rit Jóns mikil-
vægasta frumheimild sem varðveist
hefur um þessa atburði.
Jón Ólafsson úr Grunnavík var í
hópi merkustu fræðimanna íslenskra
á 18. öld. Á þessu ári eru liðin þrjú
hundruð ár frá fæðingu hans og af
því tilefni þótti Góðvinum hans fara
vel á því að gefa út brunafrásögnina
ásamt fleiri ritsmíðum henni tengd-
um.
Bókin hefst á greinargóðum inn-
gangi Sigurgeirs Steingrímssonar,
þar sem hann gerir glögga grein fyr-
ir þeim ritsmíðum sem hér eru birtar
og lýsir jafnframt nokkuð baksvið-
inu, Kaupmannahöfn fyrir brunann.
Síðan taka 18. aldar skrifin við eitt af
öðru. Þar er dagbók Jón Ólafssonar
frá árunum 1725–1731 fremst, síðan
Relatio hans af brunanum og því
næst önnur skrif hans um eldinn og
atburði er honum tengdust. Í bók-
arauka I eru birt brot úr öðrum sam-
tímaheimildum um brunann, m.a. úr
bréfum Árna Magnússonar eftir eld-
inn og úr Hítardalsannál Jóns pró-
fasts Halldórssonar. Í bókarauka II
er dönsk þýðing á Relatio Jóns og
brunafrásögn Andreas Hojer. Loks
eru allar nauðsynlegar skrár.
Góður fengur er að þessari útgáfu,
og þá ekki síst að Relation Jóns. Hún
hefur hingað til verið fáum kunn öðr-
um en fræðimönnum og dönsku út-
gáfu hennar frá 19. öld munu enn
færri þekkja. Margir munu á hinn
bóginn vafalítið hafa gagn og gaman
af því að lesa hana í þessari útgáfu,
sem er einkar handhæg. Vaknar þá
sú spurning hvort ekki sé ástæða til
að gefa fleiri slík heimildarit frá fyrri
öldum út í svipuðu formi.
Mesti eldsvoði
í íslenskri sögu
BÆKUR
Saga
Jón Ólafsson úr Grunnavík: Dagbók
1725–1731 og fleiri skrif. Sigurgeir
Steingrímsson gaf út. 198 bls., myndir.
Góðvinir Grunnavíkur-Jóns, Reykjavík
2005.
Relatio af Kaupinhafnarbrunanum sem
skeði í október 1728
Jón Þ. Þór
Hann Mozart okkar allra,Wolfgang Amadeus, verð-ur 250 ára hinn 27. janúar.
Víst er að afmæli hans verður fagn-
að í ríkara mæli en margra núlif-
andi manna, enda um eitt þekktasta
tónskáld allra tíma að ræða. Flestir
Íslendingar kannast við einhvern
lagstúf sem maðurinn samdi, hvort
sem þeir átta sig á því að hann er
eftir Mozart eða ekki (jólasálmur-
inn Í dag er glatt í döprum hjörtum
og Hann Tumi fer á fætur eru til
dæmis Mozart-lög, úr Töfraflaut-
unni bæði tvö), enda er tónlist hans
með eindæmum grípandi og
skemmtileg. Auk þess þekkja
margir söguna af Wolfgang Ama-
deus Mozart; undrabarninu sem
byrjaði kornungur að semja stór-
brotna tónlist og dó langt fyrir ald-
ur fram.
Mozart á rætur að rekja tilAusturríkis, nánar tiltekið til
Salzburg, og hefur með tímanum
orðið að nokkurs konar vörumerki
þar í borg. Fjórar milljónir ferða-
manna sækja borg-
ina heim árlega til
að feta slóðir tón-
skáldsins, og má bú-
ast við að þeir verði
enn fleiri í ár – enda
hafa borgaryfirvöld
eytt sjö árum og sjö
milljónum evra í
undirbúning
afmælisársins. Þetta
er þó ekkert nýtt,
því heimildir úr
austurrískum dag-
blöðum allt aftur til
1842 vitna um ítar-
lega markaðs-
setningu á tónskáld-
inu og vörum
tengdum nafni hans.
Dæmi um Mozart-
vöru sem komin er
löng hefð fyrir er
konfektið vinsæla –
Mozart-kúlurnar.
Þessar núggatkúlur
með marsipani utan
um, sem síðan er
dýft í dökkt súkku-
laði, eru svo vinsæl-
ar að 90 milljónir slíkra seljast ár-
lega, og má auðvitað búast við að
þær sölutölur rjúki enn upp á þessu
afmælisári. Kúlurnar hafa fengið
ýmsa yfirhalningu gegn um tíðina,
til dæmis yfir í líkjör, og nú hefur
mjólkurfyrirtæki nokkuð sett á
markaðinn Mozart-jógúrt með svip-
uðu bragði, og einnig Mozart-
mjólkurdrykk, til að fagna 250 ára
afmælinu.
En þó að staðir og hlutir tengdirMozart verði vinsælir í ár, er
víst að tónlist hans verður það enn
fremur, og það líka hér uppi á Ís-
landi. Kammersveit Reykjavíkur er
dæmi um íslenskan tónlistarhóp
sem ætlar að helga tónskáldinu
krafta sína á þessu vori. Raunar
byrjaði það allt á jólatónleikunum,
þegar leikin voru verk eftir Leo-
pold Mozart, föður Wolfgangs, sem
samin voru um það leyti sem Moz-
art fæddist og má því leiða líkur að
hafi verið fyrsta tónlistin sem tón-
skáldið heyrði, með tilheyrandi
áhrifum. En í vor ætlar Kammer-
sveitin sem sagt að halda þrenna
tónleika í marsmánuði, í Duus-
húsum í Keflavík, Salnum í Kópa-
vogi og í Þorlákshafnarkirkju og
leika þar nokkur verk eftir Mozart,
verk eftir son J.S. Bach og sam-
tímamann Mozarts, Carl Philipp
Emanuel Bach, þar
sem leikið er á gler-
hörpu sem var al-
gengt hljóðfæri á
þeim tíma, verk eftir
Jan Erik Michaelsen
fyrir hljóðfærið, og
Mozart-Adagio eftir
Arvo Pärt. Þá ætlar
Kammersveitin, í
samvinnu við Lista-
hátíð í Reykjavík, að
efna til tónleika þar
sem þrír hljóðfæra-
leikarar stjórna
verkum Mozarts
með hljóðfæri sínu;
þau Una Sveinbjarn-
ardóttir á fiðlu, Ein-
ar Jóhannesson á
klarinettu og Vík-
ingur Heiðar Ólafs-
son á píanó. Það
verður spennandi að
sjá hvernig það
tekst til, en hug-
myndin vaknaði eft-
ir ferð Kammer-
sveitarinnar með
Vladimir Ashkenazy
til Belgíu og Rússlands árið 2003,
þar sem hann stjórnaði frá píanó-
inu.
Sinfóníuhljómsveit Íslands gerir
Mozart líka þó nokkur skil á vor-
misseri; flytur óperuna La clem-
enza di Tito með einsöngvurum og
kórnum Hljómeyki undir stjórn Ru-
mons Gamba daginn fyrir afmælið,
hinn 26. janúar, og Requiem hans
ásamt Hamrahlíðarkórunum og
einsöngvurum undir stjórn Petri
Sakari í apríl. Auk þess verða
tvennir tónleikar í maí, þar sem
fiðluleikarinn Ernst Kovacic leikur
einleik og stjórnar fiðlukonsert
Mozarts í D-dúr og fleiri verkum
með hljómsveitinni.
Daði Kolbeinsson mun leika ein-
leik í óbókonsert Mozarts með Sin-
fóníuhljómsveit Norðurlands 29.
janúar næstkomandi, og Íslenska
óperan setur upp Brottnámið úr
kvennabúrinu í haust. Þá verða
þrennir tónleikar fjögurra erlendra
píanóleikara í Salnum í Kópavogi á
næstu vikum helgaðir að mestu
verkum eftir Mozart, þeirra Allans
Schiller og Johns Humphreys, sem
leika fjórhent, Nelitu True og Jó-
hannesar Andreasen, og er allt
þetta þó eingöngu dæmi um tón-
listarstarfsemi sem helguð er tón-
skáldinu hér á landi á næstunni, því
eflaust munu ýmsir aðrir tónlistar-
menn fara í gegnum Mozart-nótur
með vorinu.
En er þetta of mikið? Þeirrarspurningar hafa margir spurt
sig víða um heim, ekki síst í Austur-
ríki þar sem nánast hver einasti
stórviðburður á árinu verður
tengdur Mozart með einum eða
öðrum hætti. Menn greinir á um
svarið; sumir segja tónlist hans vel
þola að vera flutt í svo ríkum mæli
sem víst er að verður, meðan aðrir
tónlistarhópar kjósa meðvitað að
sniðganga hann alveg. Og í Mozart-
markaðssetningunni allri hefur
jafnvel verið gengið svo langt að
setja á svið óperu sem ber heitið
„Ég þoli ekki Mozart“ í Salzburg,
auk þess sem allar óperur hans –
alls 22 talsins – verða fluttar í Salz-
burger Festspiele. Hvað er rétta
jafnvægið að finna?
Í það minnsta gleðst undirrituð
yfir mestallri Mozart-tónlist, svo
fremi að hún berist mér ekki til
eyrna í bíómynd þar sem gefa á til
kynna snobbað andrúmsloft. Ég er
sammála þeim hlustendum Classic
FM-útvarpsstöðvarinnar í Bret-
landi sem þykir klarinettukonsert
Mozarts vera hans besta verk sam-
kvæmt nýrri könnun meðal 103.000
hlustenda. Raunar er það eitt mesta
snilldarverk sem hefur verið gert,
að mínu mati. Requiem kom næst í
könnuninni, og það fær maður að
heyra í Háskólabíói. Og síðan
stendur svo margt annað til boða
fyrir íslenska áheyrendur líka.
Fáum við hvort sem er nokkurn
tíma nóg af Mozart? Og hvenær á
að flytja fullt af Mozart-tónlist, ef
ekki í kring um 250 ára afmæli
hans?
Snillingsins Mozarts minnst
í tónum … og jógúrt?
’Í Mozart-markaðs-setningunni allri hefur
jafnvel verið gengið svo
langt að setja á svið
óperu sem ber heitið
„Ég þoli ekki Mozart“
í Salzburg.‘
AF LISTUM
Inga María Leifsdóttir
Mozart-mjólkurdrykkurinn,
sem hefur verið settur á
markað í Austurríki.
ingamaria@mbl.is
AP
250 ár verða liðin frá fæðingu Wolf-
gangs Amadeusar Mozarts hinn 27.
janúar næstkomandi.
VÉLRITUÐ handrit fyrstu
tveggja kafla verðlaunaskáld-
sagna eftir V.S. Naipaul og Stan-
ley Middleton voru endursend af
20 útgefendum sem The Sunday
Times sendi kaflana til á síðasta
ári.
Handritin voru send undir því
yfirskini að þau væru verk
óþekktra og upprennandi skáld-
sagnahöfunda og enginn útgef-
endanna 20 sá ástæðu til að óska
eftir framhaldi eða gefa „höfund-
inum“ ádrátt um útgáfu.
Bækurnar sem kaflarnir voru
úr eru Holiday eftir Stanley
Middleton en hann hlaut bresku
Booker-verðlaunin fyrir hana á 8.
áratug síðustu aldar og In á Free
State eftir Naipaul sem hlaut
einnig Booker-verðlaunin á 8. ára-
tugnum. Naipaul hlaut Nóbels-
verðlaunin árið 2001.
Middleton kvaðst ekki hissa á
þessum viðbrögðum útgefend-
anna. „Fólk virðist ekki vita hvað
góð skáldsaga er núorðið.“
Naipaul tók dýpra í árinni og
sagði: „Það krefst mikilla hæfi-
leika að koma auga á hvort eitt-
hvað er vel og aðlaðandi skrifað
og það er lítið um slíka hæfileika í
umferð. Framboðið af afþreyingu
í dag er svo fjölbreytt, að mjög fá-
ir eru í stakk búnir til að skilja
hvað góð málsgrein er.“
Höfnuðu verðlaunabókum